Enginn stendur vörð um börnin…

Álfhildur Leifsdóttir skrifar:

Ég hef alltof oft lesið sögur af feðrum sem beittir eru tálmunum og fá ekki að umgangast börnin sín. Það er dapurlegt svo ekki sé meira sagt. Það á enginn rétt á að svipta börnin sín því að elska og umgangast báða foreldra sína.

En það eru fleiri hliðar á sama teningi. Og mig langar að vekja athygli á annarri hlið. Á því hvernig kerfið virkar í aðra átt en yfirleitt er talað um. Eða virkar ekki.

Börn hafa lagalegan rétt til að umgangast báða foreldra sína. Og þar sem ég gæti barnanna minna á ég að gæta réttar þeirra í hvívetna. Þau eiga föður sem þau elska og þrá að hitta. Föður sem er góður maður og þau vilja skapa dýrmætar minningar með.
Eftir mjög stopula umgengni af hans hálfu síðustu ár ákvað ég að höfða umgengnismál gegn honum. Ég ákvað að gæta lagalegs réttar barnanna minna hvað umgengni við báða foreldra varðar, sáluheilla þeirra vegna. Að upplifa höfnun er svo óskiljanlegt og sárt fyrir börn.
Ég setti fram kröfur um umgengni sem taka tillit til þess að barnsfaðir minn býr erlendis. Honum var boðið að setja fram sínar kröfur sem hann gerði ekki.
7 mánuðum seinna úrskurðaði sýslumaður um umgengni. Á mínar kröfur var fallist að mestu leyti og þóttu þær sanngjarnar, þó svo að ég gæti ekki hugsað mér að sjá börnin mín svo sjaldan eins og úrskurðurinn hljóðar upp á.

Þrátt fyrir úrskurð sýslumanns er staðan þannig að barnsfaðir minn þarf ekki að fara eftir þessum úrskurði frekar en hann kærir sig um. Hann hefur hitt börnin tvær helgar síðustu 9 mánuði að undanskildu sitt hvoru skiptinu sem ég sá um að koma eldri börnunum erlendis til hans. Þegar börnin mín eiga að fá 2ja vikna páskafrí með honum samkvæmt úrskurði þá þóknast honum að koma í 3 daga.
Og afleiðingarnar? Engar.

Það hefur engar afleiðingar í för með sér að hlaupast undan ábyrgð á 3 börnum.
Hann þarf ekki að borga aukið meðlag vegna aukins kostnaðar sem lendir á mínu heimili, þar sem hann tekur börnin nánast aldrei. Hann þarf ekki að borga helming á móti mér til tómstunda eða íþrótta. Eitt „nei“ kom þeirri kröfu út af borðinu.
Hann þarf ekki að borga neinar sektir þegar hann svíkur úrskurðinn – en hann hins vegar getur beitt mig dagsektum fái hann börnin ekki á þeim tíma sem úrskurðurinn kveður á um. Gríðarlegt réttlæti í því.
Hann missir ekki forsjárrétt sinn og er ég því bundin af honum hvað ýmislegt varðar, þó svo að hann axli enga ábyrgð og sinni sínum skyldum afar takmarkað.

Lagalegur réttur barnanna að umgangast báða foreldra sína eru orð á blaði. Engar afleiðingar í þessa áttina. Og á því vil ég vekja athygli. Kerfið virkar ekki.

Mér hefur oft verið klappað hughreystandi á öxlina og sagt að tapið sé hans. Og það er rétt. Því hann á 3 stórkostleg börn. En raunverulega er tapið barnanna.

Barnanna sem elska pabba sinn og þrá athygli hans og tíma.

En það stendur enginn vörð um þau. Enginn. Kerfið virkar ekki.

Ein athugasemd við “Enginn stendur vörð um börnin…

  1. Frábær grein, látum þetta samt ekki trufla baráttu feðra um þessar mundir til að fá jafnt foræði yfir börnum þeirra.

    Engin horfir framhjá reglu 1. hvað best sé fyrir börnin, skuli ráða.

    Kerfið er ekki að virka og þarf að endurskoða.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.