#Metoo #Daddytoo

Anna Arnardóttir skrifar:

*TW*

Fyrirvari: Þar sem ég er sjálf tiltölulega nýfráskilin finnst mér mikilvægt að það komi skýrt fram að barnsfaðir minn og fyrrum eiginmaður til 20 ára er ekki einn af þessum feðrum. Við höfum alltaf verið góð í að vera foreldrar og það breyttist ekkert eftir skilnað. 
Þessi saga er byggð á raunverulegum atburðum sem hafa komið fyrir konur í kringum mig. Sagan í heild á ekki við eina konu eða einn mann. Margir menn eru þarna á bakvið og eins eru þarna margar konur og mörg börn.

Þær sem sögðu mér mest og eiga mestan part af þessari sögu gáfu allar samþykki sitt fyrir birtingu.

Hún er konan sem flúði ofbeldisfullan maka sinn með börnin sín í öruggt skjól. Konan sem hafði of lengi horft upp á hann beita börnin harðræði, of lengi leyft honum að kúga sig til hlýðni eða þagga niður í henni.

Hann er makinn sem stóð eftir. Hann er ofbeldismaðurinn sem allt í einu hafði ekki lengur það vald sem hann hafði tekið sér. Hann gat ekki leyft henni að sleppa. Hann skyldi áfram halda í það litla vald sem hann enn hafði.

Hún er mamman sem þarf að láta barnið sitt í hendurnar á ofbeldismanni sínum, því að sýslumaður skipaði það. Því að lögin segja að barnið eigi rétt á að umgangast báða foreldra. Því sama hvað hún sagði, það var ekki á hana hlustað. Hún var bara móðursjúk. Hún var bara hefnigjörn og grimm að banna honum að hitta börnin. Hún er bara kona.

Hann er maðurinn sem áfram beitir börnin ofbeldi því hann er ekki búinn að vinna í sínum málum á einn eða annan hátt. Hann á þessi börn og hann skal fá að hafa þau, sama hvað það kostar. Sama hvort að þeim líður vel með honum eða ekki. Sama hvort að hann hefur gaman af því að vera með þeim eða ekki. Hann á þau. Hans réttur er að hafa þau hjá sér. Hann er með völdin. Hann vann. Hún þurfti að gera eins og hann sagði… aftur.

Hún er mamman sem þarf með tárin í augunum að rífa barnið út úr húsi þegar það hangir á dyrakarminum því það vill ekki fara. Hún þarf að segja barninu að það verði allt í lagi hjá pabba í þetta sinn. Hann verði örugglega góður þessa helgi. Þrátt fyrir að hún viti að barnið hennar er ekki öruggt þar og því líður ekki vel þar. Hún tekur barnið með valdi og setur það í bílinn til að keyra það á staðinn sem hún flúði frá. Því hún verður að gera það.

Hann er pabbinn sem sigri hrósandi tekur á móti barninu og leitar svo nýrra leiða til að halda áfram að beita móður þess ofbeldi. Hann jafnvel vanrækir barnið því hann er of upptekinn við að finna fleiri leiðir til að hrella hana og gera henni erfitt fyrir. Henni var nær að fara frá honum!

Hún er mamman sem gat ekki farið í nám til útlanda því hann neitaði að leyfa henni að fara úr landi með barnið. Hún er mamman sem gat ekki klárað námið sitt vegna hans. Hún er mamman sem kvíðir hverri stundu sem hún og börnin hennar þurfa að hitta hann. Hún er mamman sem þorir ekki í nýtt samband af ótta við að lenda í öðrum ofbeldismanni. Hún er ein. Hún grætur og bíður við símann hverja einustu pabbahelgi.

Hann er pabbinn sem heldur áfram að beita barnið ofbeldi. Stundum andlegt, stundum líkamlegt og stundum kynferðislegt ofbeldi. Hann er alfa á sínu heimili. Allir aðrir skulu lúta honum.

Hún er mamman sem gat ekki lengur horft upp á þetta og neitaði að fara með barnið. Hún er mamman sem fékk stimpilinn: Tálmunarmóðir. Hún er mamman sem borgaði milljónir í dagsektir til að vernda barnið sitt. Hún er mamman sem missti húsnæði sitt vegna þess að allur hennar peningur fór í að borga dagsektir og lögfræðikostnað.

Hann er pabbinn sem notar allt sem hann finnur gegn barnsmóður sinni og ef hann finnur ekki neitt þá býr hann það til. Hann dreifir um hana kjaftasögum, hann kallar hana öllum illum nöfnum og heldur því fram að það sé hún sem sé að beita ofbeldi.

Hún er mamman sem gefst aftur upp og leyfir pabbahelgi. Hún er buguð.

Hann sigraði þessa lotu.

Hún er mamman sem eftir síðustu pabbahelgi endaði með barnið sitt á bráðamóttökunni. Hún snýr þaðan með áverkavottorð og sannanir fyrir að hún hafði rétt fyrir sér. En skaðinn er skeður. Barnið er brotið. Barnið verður líklega aldrei heilt aftur. Hún er núna þess eina von.

Hann er pabbinn sem segir fjölskyldu sinni að þetta sé allt lygi og uppspuni hjá konunni. Hún sé búin að heilaþvo börnin. Hún sé geðveik, móðursjúk, hafi bilast af fæðingarþunglyndi og sé börnunum hættuleg. Þau töldu sig svo sem vita það því hann var oft búinn að segja þeim það áður. Hann snýr allri stórfjölskyldu sinni gegn konunni og það bitnar verst á börnunum.

Hún er mamman sem þarf að útskýra fyrir börnunum af hverju amma og afi koma ekki í afmælið þeirra. Af hverju enginn úr föðurfjölskyldunni sendir þeim gjafir lengur eða býður þeim í heimsókn. Léttirinn yfir að þurfa ekki að senda börnin áfram til hans hverfur hratt þegar hún þarf að horfa í augu þeirra og útskýra að amma vilji ekki koma í heimsókn um jólin. Eða þegar hún lýgur og segir að afi komist ekki og ekki heldur frænkur þeirra og frændur. Hún er mamman sem kaupir stórar gjafir til að börnin fatti ekki að þær eru færri en þegar föðurfjölskyldan var til staðar.
Þegar barnið er orðið nógu stórt og farið að átta sig á afhverju amma og afi koma ekki lengur er hún mamman sem þarf að hugga það þegar það grætur og skilur ekki afhverju amma og afi stóðu með manninum sem beitti þau ofbeldi. Manninum sem braut litla hjartað þeirra.

Hann er maðurinn sem getur ekki hætt. Hann er með dóma á bakinu. Barnavernd hefur mælt gegn því að hann komi nálægt börnunum. Dómstólar hafa dæmt af honum allt forræði og alla umgengni. Allar lagalegar dyr eru lokaðar.

Hún er mamman sem heldur að loksins sé þessu lokið. Loksins er hún laus við ofbeldismanninn úr lífi sínu og barnanna og getur farið að vinna að bata í litlu fjölskyldunni. Andlegum, líkamlegum og fjárhagslegum bata. Lífið er bjart.

Hann er ekki tilbúinn að gefast upp. Þó að lagalegar dyr séu lokaðar þá er fullt eftir. Hann stendur fyrir utan húsið hennar og fylgist með henni. Hann sendir henni skilaboð. Hann hringir í hana. Hann sendir upplýsingar um hana á stefnumótavefi og segir hana til í tuskið. Hann lætur hana aldrei í friði.

Hún er konan sem hringir í lögregluna og biður um að hann sé fjarlægður, að hann sé áminntur. Hún er með nálgunarbann á hann. Hún er konan sem lögreglumaðurinn telur að sé bara móðursjúk og þetta sé nú ekkert alvarlegt. Hann er bara þarna fyrir utan, hann er ekki að gera neitt. Hún á bara að hrósa happi yfir að einhver vilji horfa á hana. Er hún ekki bara að draga hann á tálar áfram? Hún vildi nú allavega einu sinni vera með honum, börnin eru sönnun þess.

Hann er maðurinn sem ákveður að fara í fjölmiðla og netmiðla og lýsa því fyrir almenningi hvað barnsmóðir hans er skelfileg kona. Hann sé bara pabbi sem elski barnið sitt og langi að hitta það en mamman leyfi það ekki. Hún sé að beita hann og barnið ofbeldi af verstu sort. Hún sé að tálma umgengni. Hann sendir með pistlum sínum gamlar myndir af sér og barninu, jafnvel nýlegar myndir af mömmunni og barninu sem eru teknar af netinu. Nafngreinir hana og nafngreinir barnið. Notar uppgjöf hennar þegar hún leyfði umgengni aftur eftir margra ára dagsektir sem sönnun fyrir að hún að hún sé bara að búa til hluti. Hún hafi leyft þetta einu sinni, af hverju ekki aftur? Segist eiga skjöl sem sanni mál sitt. Sýnir þau skjöl aldrei. Því þau eru ekki til.

Hún er mamman sem aftur liggur í rústunum eftir sprengjuárásir hans. Hún þorir varla út úr húsi. Börnin sáu greininni deilt á netmiðlum. Þau eru orðin stálpaðir krakkar sem fylgjast með fjölmiðlum, netmiðlum og samfélagsmiðlum. Þau vilja ekki fara í skólann. Þau geta ekki hugsað sér að svara spurningum hinna krakkanna og kennaranna og allra sem þau hitta. Þau lesa öll kommentin sem hrúgast inn í kommentakerfin. Hvert einasta komment sem fordæmir móður þeirra, hvert einasta komment sem segir þau heilaþvegin, hvert einasta komment sem sem segir föður þeirra að hann sé fórnarlamb. Hvert einasta nafn er greipt í huga þeirra áfram. Hver einasti þekkti einstaklingur sem þarna setur inn eitthvað sem styður við málstað ofbeldismanns þeirra er að eilífu óvinur þeirra. Hún getur ekkert gert.

Hann er hetjan. Hann fær samúð þjóðarinnar. Þessi dásamlegi maður sem vill bara hitta barnið sitt en ömurlega mamman er skíthæll og ætti að skammast sín fyrir að banna börnunum að hitta föðurfjölskylduna. Bara ef fleiri feður væru jafn dásamlegir og hann.

Hún fær boð frá fjölmiðlakonu sem þekkir hana og sögu hennar og býðst til að skrifa heilsíðu grein frá hennar sjónarhorni. Hún segir nei. Þetta er saga barnanna. Þau hafa gengið í gegnum nóg. Þeirra saga er ekki hennar að deila. Hún vill frekar taka á móti höggunum sem á henni dynja en að kasta þeim fyrir úlfana. Hún verndar börnin sín sama hvað gengur á.

Hann er kominn í alla fjölmiðla ásamt fleirum sem hafa svipaða sögu. Þeir eru hetjurnar sem þjóðin flykkist á bak við.

Hún er að sækja um betri vinnu. Vinnu sem hún hefur menntun og hæfni til að sinna. Væntanlegir yfirmenn slá henni upp í leitarvélum á netinu og það fyrsta sem kemur upp er „tálmunarmóðir“. Þeir hugsa sig tvisvar um. Hún fær ekki starfið.

Hann heldur áfram og passar að hún fái aldrei að gleyma. Hún fái aldrei frið.

Hún fær góða stöðu sem hæfir hennar menntun og reynslu.

Hann kemst að því og byrjar að herja á yfirmenn hennar. „Er þetta konan sem þið viljið ráða, kona sem tálmar umgengni og beitir börnin og föður þeirra ofbeldi á þann hátt?“ Hann hótar að fara með það í blöðin að þetta sé starfsfólkið sem þetta tiltekna fyrirtæki vill státa af. Þessu fyrirtæki sé alveg sama um velferð barna.

Hún getur ekki látið draga nöfn barnanna sinna í gegnum svaðið einu sinni enn og hættir við að taka stöðunni. Hún veit að það léttir á yfirmönnunum sem voru búnir að skrifa undir samning við hana en vilja ekki fá þessa fjölmiðla athygli. Hann vinnur aftur. Hún veit að hún þarf að fara huldu höfði þar til börnin eru orðin fullorðin og geta ákveðið sjálf hvort þau vilji deila sinni sögu eða ekki. Hugsanlega þarf hún að fela sig út ævina.

Hann heldur áfram að hrósa sér og fá samúð.

#metoo fer af stað. Loksins eru konur alls staðar í heiminum að standa upp og segja frá kynbundnu ofbeldi. Þær eru að rísa upp gegn ofbeldismönnum sínum og skila skömminni heim. Hún er ekki lengur ein. Hún tekur af skarið og segir part af sinni sögu. Þann part sem snýr að henni en ekki börnunum. Nafnlaust. Enginn nema hann getur þekkt söguna.

Hann þekkir söguna og verður æfur. Hún er að kippa undan honum síðustu leiðinni sem hann hefur til að stjórna henni og kúga hana áfram. Hann finnur meðbyr með sinni baráttu dvína. Hann sameinast öðrum í sömu stöðu og undir nafni femínisma og jafnréttis kemur hann fram í fjölmiðlum og heldur ofbeldinu áfram með því að færa karlmennina aftur í sæti fórnarlambs og koma fram undir merkinu #daddytoo.

Ofbeldið heldur áfram og þjóðin stendur með honum.

#daddytoo – Já, pabbar eru líka gerendur í #metoo sögunum. Pabbi þarf líka að líta í eigin barm og athuga hvort að hann eigi einhverja sök. #daddytoo er björgunarbátur fyrir ofbeldismenn sem sjá að skip feðraveldisins er að sökkva. Þá sem sjá þar sína einu von til að halda í einhver völd og halda kynbundnu ofbeldi áfram.
#daddytoo = Pabbi getur líka verið gerandi!

 

 

12 athugasemdir við “#Metoo #Daddytoo

 1. Sagt er að pabbar geti líka verið gerendur, sem er vissulega rétt, en virðist loku skotið fyrir að þarna séu einhverjar mæður gerendur. Mæður geta líka verið gerendur! Konur í #MeeToo byltingunni geta líka verið gerendur. Konur eru alveg jafn oft gerendur í heimilisofbeldi og karlar. Konur eru engu betri upp til hópa en karlmenn. Karlmenn eru almennt góðir, rétt eins og konur. En þegar tveir deila, er það ekki þannig að konur segi alltaf satt, karlmenn ljúgi bara. Það er barnsleg einfeldni þess sem slíku heldur fram. Þær konur sem beita foreldraútilokun eða tálmun munu reyna að réttlæta það. Þær munu ekki segja að faðirinn sé frábær heldur bera upp á hann eitthvað misjafnt, t.d. rangar sakir. En öll umræðan er afburðarskökk og dregur upp einsleita mynd, sem stimplar karlkynið sem gerendur og kvenkynið sem þolendur, sem er röng. Svo einfalt er það. Þessi pistill er ljót aðför hjá þér að verðugri réttindabaráttu, en #DaddyToo gengur út á að tryggja börnum rétt til beggja foreldra sinna, gefið að þeir séu færir í því hlutverki. En vissulega eru margar konur (og karlar) sem eru ofbeldismanneskjur og þurfa aðstoð, og í slíkum málum þarf bara að skoða hvað sé barninu fyrir bestu. Í lang flestum tilfellum er barn ekki tekið frá ofbeldisfullri móður þess (t.d. ef hún hefur gengið í skrokk á föður) en einhvernveginn er samt sú krafa í hina áttina. Það er nefnilega ekki sama hvort það sé Sr. Jón eða Frú Jón(a) sem fremur verkið. Veruleikinn er nefnilega sá, að samfélagið er meðvirkt með ofbeldi kvenna. Skv. rannsóknum beita konur oftar börn ofbeldi, en það endurspeglast ekki í hlutfalli þeirra sem tálma. Þú ættir hreint út að skammast þín fyrir þessa óréttlátu aðför að réttindabaráttu #DaddyToo sem á að tryggja börnum lögvarðann rétt þeirra. Að segja að #DaddyToo sé vettvangur fyrir ofbeldismenn gerir þig að nethrotta sem ræðst að saklausum einstaklingum. Þá mætti líka segja að #MeeToo sé vettvangur fyrir ofbeldismanneskjur, enda má alveg eins ætla að þar séu manneskjur sem hafa beitt börn sín andlegu ofbeldi með tálmunum, beitt líkamlegu ofbeldi o.s.frv. En það dettur engum slík aðför í hug, enda á baráttan rétt á sér þó einhverjar ofbeldiskonur leynist í hópi þeirra sem taka þátt í vitundarvakningunni. Bið þig vinsamlegast um að hætta að stimpla heilan hóp sem vettvang ofbeldismanna. #DaddyToo gengur út á að tryggja rétt barna og betrumbæta það kerfi sem er ófært að taka á ofbeldisverkum (kvenna og karla), bæði líkamlegum og andlegum (tálmunum).

  • „Konur eru alveg jafn oft gerendur í heimilisofbeldi og karlar.“ [CITATION NEEDED]

   „Þessi pistill er ljót aðför hjá þér að verðugri réttindabaráttu, en #DaddyToo gengur út á að tryggja börnum rétt til beggja foreldra sinna, gefið að þeir séu færir í því hlutverki.“ Nei ég held að DaddyToo gangi út á tilætlunarsemi nokkurra manna sem hata að geta ekki fengið það sem þeir vilja, þvert á þarfir og velferð barnanna, því þetta snýst eftir allt saman um DADDY too, ekki barnið. Þið eruð augljósir.

   Þú ert svo fyrirsjáanlegur Huginn. Það er eins og þú getur ekki hamið þig að kommenta á nákvæmlega allt sem kemur upp um þetta aumkunarverða átak ykkar í daddytoo, og í hvert skipti er það endalaust wall of text af nákvæmlega engu nema einhverju hneyksli um hvað allir eru að vera ógisslega ósanngjarnir við greyið feðurna sem vilja bara umgangast börnin sín, svo mikið svo að þeir gera í því að rífa upp líf barna sinna með rótum til að fá ykkar framgengt.

   Ykkar barátta snýst um ekkert nema ykkar eigið rassgat.

   • Elísabet Ýr, þú dæmir sjálfa þig úr leik með þessum árásum þínum. „Ég held“ o.s.frv. eru bara ekki rök sem takandi er mark á. Þvílíkur brandari allur þinn málflutningur. Sleggjudómar frá öfgamanneskju eru marklausir. Þú ert fljót að ráðast á persónuna (mig) en ekki málefnið, enda ekki beint rökföst í þínum ummælum og ég neyðist til að sökkva ofan í svaðið með þér og svara í sömu mynd. Þú þrífst á upphrópunum og gelgjustælum í skrifum þínum. En auðvitað eru karlarnir allir ofbeldismenn sem vilja tryggja rétt barna til að njóta beggja foreldra sinna. Þvílík veruleikabrenglun. #DaddyToo – Við látum ekki öfgafemínista þagga umræðuna.

   • Ég, „öfgafemínistinn“, vill fyrst og fremst tryggja öryggi og velferð barna, og einnig þolenda heimilisofbeldis. Ef það þýðir að sumir menn fái ekki að hitta börnin sín, þá bara búfokkinghú.

  • Huginn
   ,,Konur eru alveg jafn oft gerendur í heimilisofbeldi og karlar. Konur eru engu betri upp til hópa en karlmenn” Værirðu til í að vísa mér á opinbera heimild fyrir því að komur séu jaft oft gerendur og karlar?

   Annars er ekki úr vegi að benda öllum körlum, konum, mér og þér og bestu vinum þínum á þessa frábæru miðstöð sem virkilega vinnur gott og þarft verk. Vert er að minnast á að þetta er niðurgreitt þjónusta sem virkilega gagnast þeim sem vilja efla þekkingu sína á ofbeldi og hætta vera asnar.

   http://heimilisfridur.is

  • “Konur eru alveg jafn oft gerendur í heimilisofbeldi og karlar. Konur eru engu betri upp til hópa en karlmenn.“ Viltu ekki í leiðinni halda fram að konur nauðgi jafn mikið og karlar ? Svona víst að staðreyndir skipta engu máli.

   • Ég hef engar tölur séð nákvæmlega um kynferðislegt ofbeldi innan sambanda, en get tekið undir að skv. tölum sem ég hef séð eru karlmenn í meirihluta þegar kemur að nauðgunum almennt. En ofbeldi kemur í mörgum myndum og konur beita ýmsum tegundum þess. Þær geta t.d. notað kynlíf sem refsingu, þær geta þvingað menn til kynlífs án líkamlegs afls (höfum dæmi um slíkt), o.s.frv. en ég var ekkert að fjalla um eina tegund ofbeldis innan heimilis. Var að vísa til ofbeldis almennt innan heimilis og bendi á þá staðreynd að konur eru líka gerendur. Þær beita oft ofbeldi en afleiðingar eru mjög takmarkaðar. Sú mismunun er á grundvelli kyns. Þetta þarf að laga. Rannsóknir sýna okkur líka að karlmenn fá þyngri dóma fyrir sömu brot og konur. Þetta undirstrikar meðvirkni og Gender empathy trap syndrom gagnvart konum. Það er ekki tekið á ofbeldi framið af konum á sama hátt og sé það framið af karlmönnum. Hér eru nokkrar rannsóknir sem sýna að ofbeldi einskorðast ekki við menn, konur eru gerendur. Og þegar kemur að börnum eru konur jafnvel oftar gerendur:

    https://www.dropbox.com/s/dkp5b0xrq0kbr5b/assaults_bib343_201307.pdf?dl=0
    https://www.dr.dk/nyheder/indland/moedre-goer-mere-vold-paa-boern-end-faedre

    Því miður er umfjöllun öll á einn veg og þessar staðreyndir þaggaðar. Verðum að horfast í augu við veruleikann. Konur eru líka gerendur og á því ofbeldi þarf að taka. Sumar konur nýta sér þessa þöggun og staðalímynd af karlmönnum sem ofbeldismenn, og bera upp á þá rangar sakir til að ná fram sínu í forsjármálum. Mjög alvarleg brot sem blasa við okkur en enginn vill fjalla um (þöggun). Ættu konur sem hafa barist í #MeeToo að þekkja þetta vel og hætta að berjast gegn því að þessar staðreyndir komist upp á yfirborðið. Mun meiri þöggunartilburðir gagnvart #DaddyToo en nokkru sinni umræðunni um nauðganir o.s.frv.

   • Konur beita því ofbeldi sem þær geta, t.d andlegu og líkamlegu. En það er miklu meira falið vegna þess hversu mikil skömm fylgir því að vera karlmaður og vera þolandi í heimilisofbeldismálum. Kynin eru mjög ólík af eðlisfari og hafa konur náð öllum sínum yfirburðum útaf vorkunsemi, því allir sem ekki hafa upplifað eða þekkja kynbundið ofbeldi gera ráð fyrir því að þetta hljóti að vera raunin. Ég þekki dæmi þess að 45 ára kona, vinkona móður mannsins fór inn í herbergi hans (hann var 15 ára) og klæddi hann úr nærbuxum og byrjaði að strjúka typpið á honum. Svo kallar móðir hanns í hana og segir henni að láta strákinn í friði og leyfa honum að sofa. Hann verður alveg hundfúll út í mömmu sína fyrir að hafa eyðilagt það sem var að gerast…. Fyrir mitt leyti þá hef ég aldrei beitt ofbeldi af neinu tagi og er í góðu sambandi við 4 af mínum 5 börnum, en eitt barnið hef ég ekki séð í 8 ár vegna einhvers sem ég hef aldrei fengið útskýringu á, en hún býr erlendis og flutti þegar ég var með umgengnismal í gangi og var kominn með bráðabirgða úrskurð frá sýslumanni um aukna umgengni. Þegar ég kem að sækja stelpuna þá kemur í ljós að hún sé flutt til Danmerkur

 2. Fyrir áhugasama:
  CITATION:
  – „Gerendur í ofbeldismálum gegn börnum eru oftast konur …“

  “ Þá virðist sem drengir séu frekar þolendur líkamlegs ofbeldis en stúlkur þolendur andlegs ofbeldis.“

  Click to access BA%20ritgerð%2C%20lokaútgáfa%2C%20Eyrún%20Hafþórsdóttir.pdf

  ——-
  Konur eru eins líklegar til að beita maka ofbeldi í nánum samböndum, skv. fjölda rannsókna ( meira en 200 rannsóknir)

  „…it turned out that women were as likely as men to initiate violence—a finding confirmed by more than 200 studies of intimate violence. In a 2010 review essay in the journal Partner Abuse, Straus concludes that women’s motives for domestic violence are often similar to men …“

  http://time.com/2921491/hope-solo-women-violence/

  http://web.csulb.edu/~mfiebert/assault.htm

 3. Bakvísun: #Metoo #Daddytoo – Daddytoo

 4. Bakvísun: #Metoo #Daddytoo – Um tálmun, karlmennsku og feðrun

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.