Karlar – fórnarlömb karlmennskunnar

Höfundur: Björn Þorláksson

Börnin mín hafa fært mér sem föður mikla gæfu og veitt mér nýja sýn á heiminn. Segja má að ég hafi skynjað veröldina upp á nýtt í gegnum orð og athafnir litlu krílanna og hefur sú spurning sótt á mig hvers konar uppeldi sé líklegast til að gera mín börn og börn heilt yfir hamingjusöm og helst þannig að gagnist heilbrigðu samfélagi. Ekki veitir af nú þegar meginverkefni okkar allra er að greina og draga lærdóm af þessu blessaða hruni okkar.

Kannski er ein lykilspurningin með hvort við eigum að ala stúlkurnar okkar eins upp og drengina okkar? Áður en við reynum að svara því er ágætt að leita svara í hjörtum okkar hvort við trúum að kynin séu ólík að eðli til, hvort strákar séu í eðli sínu þannig öðruvísi andlega og óbreytanlega en stúlkur, að það verði alltaf munur á tækifærum barna eftir kyni. Margir helstu talsmenn jafnréttismála eru ekki hrifnir af eðlishyggjuhugmyndinni heldur telja þeir að svokölluð félagsmótun skýri hvers vegna hlutskipti karla og kvenna verða jafnan ólík. Hvers vegna karlar eiga miklu miklu meira en konur, hvers vegna karlar vinna samt minna en konur, hvers vegna karlar njóta forréttinda á mörgum sviðum umfram konur. Um misréttið verður nefnilega ekki deilt, ekki í hnattrænu samhengi, ekki í alvarlegri umræðu, við getum verið með stæla og haft meiningarmun á hvort launamunur kynjanna sé 5%, 10% eða 20%, en það er munur á hlutskipti karla og kvenna. Í öllum ríkjum sýna tölur og gögn það og bendir sumt til að við höfum að vissu leyti sæst á þennan mun eða kjósum að líta framhjá honum. Þannig sýndu skoðanakannanir hér á landi að fyrir níu árum, árið 2003, töldu Íslendingar að fullu jafnrétti hefði verið náð. Feðraorlofið var kirsuberið ofan á jafnréttisrjómatertuna. Hélt fólk. En hvað skýrir að 38% íslenskra drengja telja nú að maðurinn eigi að ráða meiru í sambúð manns og konu? 7,3% stúlkna eru á sömu skoðun skv. nýlegri könnun?

Í fangelsi hugmynda

Viðhorfskannanir seinni ára sýna að unglingarnir okkar eru aftur að verða íhaldssamari í afstöðu til skiptingar heimilisverka og starfsframa. Það er líka sérstakt áhyggjuefni að 20% íslenskra unglingsdrengja skoða klám daglega á netinu. Klám þar sem konan er niðurlægð, ljóst eða leynt. Það hefur eitthvað farið úrskeiðis í jafnréttisheiminum ef okkur finnst allt í lagi að börn liggi daglega yfir klámi. Það hefur eitthvað farið úrskeiðis í skilaboðunum ef tæp 40% ungra drengja á Íslandi telja að karlar eigi að ráða yfir konum. Það hefur líka sýnt sig að þótt karlar eigi heiminn og drottni yfir konum (auðvitað eru milljón góðar undantekningar frá því þó) eru það samt frekar karlar sem bugast og brotna ef á móti blæs. Karlar eru sem sagt fangar eigin hugmynda um eigin karlmennsku, karlmennskan getur kostað karla eins margt og hún færir þeim og jafnvel lífið. Karlmennskan er sem sagt iðulega skaðlegt fyrirbrigði, bæði fyrir karla og konur, en þótt hún sé það gerir samfélagið enn ýmislegt til að halda í hana. Um það vitnar viðhorfskönnun unga fólksins.

Er jafnrétti öfgar?
Umræða um drengi og uppeldi hefur líka iðulega verið svolítið sérstök eins og Ingólfur J. Ásgeirsson hefur meðal annarra skrifað um. Um miðjan áratug síðustu aldar fóru ýmsir á taugum þegar sumir sérfræðingar bentu á að ein ástæða þess að drengjum gekk þá verr en stúlkum í grunnskóla, bæði hegðunarlega og árangurslega, hlyti að vera sú að það væru alltof margar konur í lífi drengjanna innan menntastofnana. Það vantaði fleiri karla. Einn skólastjórnandinn karlkyns benti á að það væri ekki nema von að illa færi í kennslustofum sem væru fullar af kennslukonum, „hrjúf karlrödd kennara hefði meiri hlýðniáhrif en kvenrödd“. Svo var haldið þing um vanda skóladrengja, málþing um meintan vanda drengja og spurt hvernig væri hægt að aðlaga skólakerfið betur að þörfum drengja. Og nýverið blossaði upp keimlík umræða, enn á að skoða vanda drengja. Enn og aftur fá drengirnir kastljósið. Blessunarlega eru þeir líka til sem spyrja: Gott og vel, fínt er að gefa góðan gaum að drengjunum okkar, en hvað með allar stúlkurnar okkar? Hvenær fá þær sitt eigið málþing? Þannig spurði Margrét Pála höfundur Hjallastefnunnar á drengjaráðstefnu árið 1997. Mig langar líka að spyrja: Hvenær hættum við að stökkva á femínistana og tæta þá í okkur, rífa þá í okkur eins og hýenur? Rannsókn Andreu Hjálmsdóttur félagsfræðings á Akureyri sýnir að stærstur hluti bæði drengja og stúlkna í grunnskólum hefur neikvætt viðhorf til femínista. Af hverju segja samt margir: Mér er ekkert illa við femínista, mér er bara illa við öfgafemínista? Benda svo kannski á eina setningu sem einn umdeildur femínisti hefur einhverju sinni sagt. Konur sem hafa ekki drýgt aðra synd en þá að vilja bara opinberlega að réttindi kvenna verði hin sömu og karla mega búast við því að verða grýttar á almannafæri, jafnvel af eigin kynsystrum. Helvítis femínistar, segir fólk, líka konur, það skyldi þó aldrei vera að kona sem deildi hart á kvenfemínista væri ekki bara líklegri til að hljóta frama inni í fyrirtækjaheimi karla en sú sem gerir það ekki, og þess vegna séu nú allir að hamast í femínistum?

Afneitun eða óskhyggja?

Við erum búin að ná fullu jafnrétti, sögðu Íslendingar í könnun árið 2003, en þetta er ekkert komið. Samfélagið okkar er ekki jafnrétthátt konum og körlum. Árþúsunda saga karlyfirráða skilyrðir enn viðhorf okkar og venjur, meir en við gerum okkur grein fyrir. Mörgum finnst best að samfélagið haldi áfram að mótast eins og það var þegar við ólumst upp – það er ekki bara mannlegt heldur líka skiljanlegt þótt það sé ekki endilega gott fyrir konur. Við hræðumst hið óþekkta. Af því spretta fordómar. Og þá komum við aftur að uppeldi barnanna okkar. Ef við pabbarnir ætlum að láta söguna og hugmyndir okkar um skaðlega karlmennsku villa okkur sýn, má spyrja hvort okkur sé þá ekki sú hætta búin, að litlu stelpurnar okkar, dæturnar okkar búi ekki áfram við skarðan hlut? Að sama skapi má líka spyrja hvort drengjunum okkar sé þá ekki áfram sú hætta búin af skaðlegu karlmennskunni, að þeir svipti sig lífi ef þeir bregðist því sem þeir telja skyldu sinni sem karlmanna? Nærtækast er að nefna fyrirvinnuhlutverkið, hvernig líf karla virðist geta brotnað í mask við það eitt að þeir fái uppsagnarbréf, jafnvel þótt allir í fjölskyldunni séu við frábæra heilsu? Og hvað er þetta með karla og kontról? Karlar einir ákveða að fara í stríð. Er hægt að tala um það sem forréttindi karlmennskunnar þegar karlar drepa hvern annan í stríði og nauðga svo konum óvinaríkisins og telja með því að þeir að niðurlægja hina karlana í óvinaríkinu, að þannig brjóti þeir niður styrk óvinaþjóðarinnar? Karlar eru sem sagt fórnarlömb eigin karlmennsku en alls ekki sigurvegarar. Allir feður sem bæði eignast stúlku og dreng ættu að velta því dálítið fyrir sér. Simone de Beauvoir hefur bent á að sumir Gyðingar byrji á því að þakka Guði fyrir það í morgunbænum sínum að þeir séu karlar – vegna þess að karlar voru og eru forræðishópur. En karlar mælast ekki hamingjusamari þótt þeiri eigi 99% allra eigna í heiminum, ráði hvenær farið skuli í stríð eða hvenær skuli nauðga konu eða þá öðrum karli? Karlar eru ekkert endilega glaðari þótt þeir sjái hér á landi um aðeins þriðjung heimilisstarfanna samkvæmt nýlegum rannsóknum. Völdin, ójafnvægið, þetta tvennt færir ekki körlum aukna hamingju umfram það sem gæti orðið í raunverulegum heimi jafnréttis, heimi þar sem hvorki karlar né konur yrðu bundin af kynjuðum skyldum heldur fæddust frjáls, lifðu frjáls og dæju frjáls. Eða hvað?

Hjálpumst að
Auðvitað trúi ég því innst inni að allir feður upplýstir vilji ala upp jafnrétthá börn, burtséð frá kyni, en til að það geti orðið verða sumir að leita sér ráðgjafar. Ég hef sjálfur fengið bestu ráðgjöfina hjá eiginkonunni. Hún sem kona hefur frætt mig um margt sem ég gat ekki vitað án þess að tala við hana sem konu. Reynsluheimur hennar er annar en minn. Ekki eðlið. Það hefur runnið upp fyrir mér að ég sem karl var haugur af misgóðum viðhorfum sem sagan og hefðirnar, fórnir karlmennskunnar, höfðu sorfið til og mótað. Einu sinni fólst mitt uppeldi aðallega um að endurskapa sjálfan mig. Það var ekki leiðin til jafnréttisframtíðar. Það er ekki réttlætanlegt að við endursköpum veröld þar sem dætur standa höllum fæti, ekki ósvipað mæðrum þeirra. Og við karlar þurfum konur til að hjálpa okkur ekki síður en konur þurfa karla til að hjálpa sér til að skilja hinn flókna heim. Jafnréttisbaráttan verður ekki háð með konum einum, það verður að fá karla til að trúa að líf þeirra batni líka með auknu jafnrétti fremur en að karlar séu að afsala sér eftirsóknarverðum forréttindum. Dagurinn í dag er ágætis upphaf í þeirri vegferð að breyta heiminum en láta ekki nægja að hugsa um að gera það.

Klifrum hærra!
Mig langar að lokum að hvetja alla feður til að hvetja dætur sínar til að klifra hærra í trénu sem þær eru að klífa og skapa sér þannig nýtt upphaf. Hver kannast ekki við að hafa heyrt skorað á drenginn að klifra hærra upp tréð á meðan stelpunni var sagt að koma niður, því hún gæti annars dottið og meitt sig. Við þurfum að hugsa og taka síðan veruleikann skrefinu lengra, aðhafast í blóra við sumt af því sem félagsmótunin hefur kennt okkur – með langtímahagsmuni afkomenda okkar í huga. Látum ekki kyn standa í vegi fyrir eða hafa áhrif á hvernig við ölum upp stúlkur og drengi. Börn eru breytileg og eiga skilið meðhöndlun í samræmi við það. En ekki í samræmi við kyn þeirra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.