Sorrí með mig (er bannað að segja það sem manni finnst?)

Henry Alexander Henrysson skrifar:

Fyrir um ári síðan var ég staddur í búningsherbergi líkamsræktarstöðvar og hlustaði á samtal tveggja manna. Margt í fari þeirra benti til þess að þeir tilheyrðu þeim hópi Íslendinga sem búa við þá efnahagslegu velsæld og félagslegt öryggi sem segja má að sé einstakt í sögu mannkyns. Þrátt fyrir það gátu þeir ekki stillt sig um afar slæmt orðbragð gegn því sem þeir töldu vera mestu hættu samtímans: kvenkyns leiðtoga í stjórnmálum og innflytjendur. Það mátti heyra á þeim að hér væri allt á heljarþröm vegna þessara „hópa“.

Við vitum að í samtímanum er fólk með slíkar skoðanir til. Og það sem er erfiðast að sætta sig við er að slíkt fólk ætlar ekki að skipta um skoðun. Líkt og sá sem Baggalútur syngur um í þekktu dægurlagi þá eru viðbrögðin yfirleitt að segja bara sorrí við góða fólkið, svokallað, en halda svo bara áfram að breiða út særandi og heimskulegar skoðanir í ljósi heilags réttar til að segja það sem manni finnst. Helsta von okkar er að með samstilltu átaki rannsókna og menntunar í jafnréttismálum takist að lokum að útrýma þessu viðhorfi.

En hér erum við saman komin til að tala um ákveðinn atburð og hvaða afleiðingar hann ætti að hafa. Það er óþarfi að lýsa málavöxtum hér. Þrátt fyrir að almenningur hafi verið ákaflega samtaka í fordæmingu sinni heyrast enn raddir í fréttaflutningi og kommentakerfum um að það geti ekki verið bannað að segja það sem manni finnst og að einkasamtöl séu ekki það sama og opinber ummæli. Auðvitað virðist eitthvað einkennilegt við þessi viðbrögð í þessu samhengi. En hvers vegna? Er mál- og skoðanafrelsi ekki einn mikilvægasti þáttur frjálslynds samfélags? Hvers vegna bregðumst við flest svona illa við þegar kjörnir fulltrúa eiga í hlut?

Þegar fjölmiðlar höfðu samband við mig í síðustu viku eftir að afglöpum sexmenninganna höfðu verið gerð skil í fjölmiðlum fór ég að rifja upp orð sem höfð voru eftir mér í Fréttablaðinu fyrir einhverju síðan. Þar hafði ég sagt að íslensk stjórnmál væru barnaleg. Tvö atriði sátu í mér eftir þessa upprifjun. Í fyrsta lagi að ég mundi ekki hvaða mál hafði verið til umræðu. Á okkur hefur dunið stanslaust umrót í stjórnmálum vegna illa ígrundaðra ákvarðana kjörinna fulltrúa. Tilfellin eru orðin svo mörg að maður man ekki lengur hvað gerðist hvenær. Seinna atriðið var að ég fékk aldrei tækifæri til að útskýra hvað ég ætti við.

Orðalagið var svo sem ekki til fyrirmyndar, en ég var ekki bara að benda á aðra. Ekki bara að benda á önnur lönd, eins og oft þegar við berum íslensk stjórnmál saman við hefðir í nágrannalöndum. Það er ekki nóg að segja bara að svona geri þeir fullorðnu og benda á Norðurlönd þar sem stjórnmálafólk segir af sér við afglöp og dómgreindarleysi.

Líklega er þetta of flókið mál til að því verði gerð skil á þessum mínútum sem mér eru ætlaðar hér í dag. Í náinni framtíð get ég þó vonandi sett þetta erindi saman við önnur sem ég hef haldið um svipuð mál undanfarin misseri. En stutta svarið við því hvað heldur aftur af þroska íslenskra stjórnmála rek ég til skilningsleysis á eðli hlutverks kjörinna fulltrúa.

Sumum störfum – ég kýs yfirleitt að tala um hlutverk – fylgja mikil réttindi og tækifæri. Í mörgum tilvikum getum við talað um forréttindastöðu þar sem tækifæri gefst til að hafa áhrif á líf fjölda fólks. Kjörnir fulltrúar eru í slíkri stöðu. Eðli hlutverks þeirra er að þeir starfa í umboði annarra. Við það umboð taka þeir á sig margvíslegar skyldur sem takmarka að miklu leyti svið einkalífs þeirra. Þetta er langur listi af skyldum sem ekki er hægt að gera tæmandi skil hér. Þar má nefna skynsemisskyldu, varfærnisskyldu, fyrirsvarsskyldu og skyldu um að varðveita traust. Í samhengi þess sem hér er verið að tala um skiptir líklega óhlutdrægniskyldan mestu máli. Jafnréttissjónarmið eru hluti hennar.

Er það þá val og geðþóttaákvörðun (samviskuspurning um eigin sannfæringu – eins og margir vilja kalla það) kjörinna fulltrúa að ákveða sig hvort þeir temji sér ákveðnar skoðanir eða ekki? Nei, jafnréttissjónarmið eru meðal annars hluti þess sem manni ber að tileinka sér. Fólk situr ekki í umboði sjálfs síns. Fólk situr ekki í umboði fjölskyldu sinnar. Fólk situr ekki í umboði skoðana þess fólks sem líklega hefur greitt þeim atkvæði. Kjörnir fulltrúar geta ekki leyft sér að vera óskynsamir og óvarfærnir í ákvarðanatöku. Hvað þá að daðra við kvenhatur, sýna óþol gegn fólki með aðra kynhneigð eða gantast um fatlaða einstaklinga.

Frumskylda hvers kjörins fulltrúa er að gera sér grein fyrir þessu, enda er það lykilatriði í öllum trúverðugleika. Sá kjörni fulltrúi sem skilur þetta ekki og telur sig hafa leyfi til hvaða skoðana sem er á sínum einkavettvangi er að bregðast skyldum sínum. Jafnvel þótt hann segi sorrí með mig.

Því miður er með þetta eins og annað skilningsleysi. Það er ekki hægt að gera annað en að útskýra fyrir viðkomandi hvernig mál eru í raun vaxin. Við berum engan út úr þinginu. Eins og við aðra kennslu skiptir hins vegar sköpum að missa ekki þolinmæðina. Dropinn holar steininn. Í þetta sinn megum við ekki láta umræðuna fjara út og bíða svo næstu afglapa og reiði kjósenda.

Mér finnst mikilvægt að við einbeitum okkur að þessari tilteknu umræðu í dag. Auðvitað er stærra mál undirliggjandi og lýsti ég því með sögunni hér í upphafi. Ég held að það megi ekki rugla því saman við þessa umræðu en það má heldur ekki gleyma því. Það er mikilvægt að vinna að viðhorfsbreytingum á öllum vígstöðvum. Og þær taka tíma.

Henry Alexander Henrysson er aðjunkt við heimspeki- og sagnfræðideild Háskóla Íslands. Erindið var flutt á málþingi um íslenska stjórnmálaorðræðu og er birt með leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.