Ég er femínisti

Höfundur: Ármann Halldórsson

Mynd af http://en.paperblog.com/

Ég er femínisti af því að mér finnst augljóst ójafnvægi í því hvar konur og karlar eru að störfum í samfélaginu. Ég er femínisti af því að femínisminn veitir afl til að öðlast frelsi undan oki staðalmynda fyrir jafnt karla sem konur. Ég er femínisti fyrir börnin mín; börnin okkar.

Ég er femínisti vegna þess að það er augljóst að það eru of margar konur að störfum í umönnunarstörfum og of fáir karlar. Það kenna of fáir karlar með mér í skólum landsins og það eru allt of margir karlar í stjórnum og ráðum hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Það koma of fáir karlar á fundi um uppeldismál í skólum og karlar sinna heimilisstörfum allt of lítið. Þetta ástand er bæði hættulegt (eins og dæmin sanna) en nægileg ástæða til að berjast gegn þessu er hversu ótrúlega leiðinleg svona einsleitni er.

Ég er femínisti af því að barátta femínista getur verið andlega frelsandi. Karlar og konur búa undir oki staðalmynda og þjást vegna þess að þau geta ekki staðið undir kröfu samfélagsins um útlit og viðhorf. Ég fór á tvær sýningar hjá dansskólum í liðinni viku og af þeim hundruðum glæsilegra nemenda sem þar komu fram voru bara tveir strákar. Ég kenndi áfanga í heimspeki í vor og af 26 flottum nemendum var bara ein stelpa. Strákar dansa ekki og stelpur hugsa ekki, hvað er í gangi? Persónulega glímdi ég við það í uppvexti (og enn að vissu leyti) að vera ekki handhafi ákveðinna karlmannlegra eiginleika og áhugamála; einkum stend ég höllum fæti varðandi íþróttamennsku og handlagni en hef aftur á móti alltaf haft mikinn og djúpstæðan áhuga á samskiptum og tilfinningum. Ég hugsa reyndar að mögulega gæti verið enn óþægilegra fyrir svona strák að vaxa úr grasi núna en það var þarna í fyrndinni en þetta byggir á óljósri tilfinningu, hugsanlega litaðri af heimsósómatendens öldrunarinnar – ég er í það minnsta með það alveg á hreinu að á þessu sviði er mikið verk óunnið til að frelsa fólk til að geta verið það sjálft.

Mynd af http://thecircleda.com/

Illskeyttasta og erfiðasta vígi feðraveldisins, karlrembunnar, rasismans og annarra sjarmerandi eiginleika er húmorinn. Húmor er með innbyggt varnarkerfi, þar sem auðvelt er að væna þann sem gerir athugsemdir um að vera húmorslaus. Húmor á líka að dansa á mörkunum og hann hlýtur að endurspegla undirliggjandi viðhorf – staðreynd er að stór hluti þeirra brandara sem þykja fyndnir byggja á megnri kvenfyrirlitningu og rasisma. Eina ráðið við þessu er að breyta viðhorfunum og taka ekki þátt í að viðhalda þeim. Hættum að hlæja að bröndurum sem byggja á ógeðslegri kvenfyrirlitningu, rasisma og hómófóbíu og finnum okkur verðugri skotmörk fyrir húmorinn; af nógu er að taka.

Ég er femínisti fyrir dætur mínar, því  ég vil að þær verði fullorðnar í heimi þar sem tækifæri þeirra byggja ekki á kyni, þar sem öryggi þeirra og líðan er ekki ógnað af lágkúrulegum viðhorfum,  þar sem þær njóta þess að vera þær sjálfar og gera það sem þær vilja án þess að rekast stöðugt á ósýnilega veggi og þök. Í heimi þar sem fólk er ekki metið út frá kyni, kynhneigð eða útliti heldur hvaða karakter það hefur að geyma og þess dásamlega leyndardóms sem hver mannssál geymir, en fær svo ótrúlega og sorglega sjaldan að njóta sín.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.