18 efni sem vinna örugglega á appelsínuhúð

Höfundur: Brynhildur Björnsdóttir

Appelsínuhúð er, samkvæmt Vísindavefnum, hluti af líkama 90%  kvenna. Einu sinni þóttu þessar litlu misfellur á mýkstu hlutum kvenlíkamans til mikillar prýði og var talað um „þúsund litla spékoppa sem alla mátti kyssa“ í ljóðum stórskálda. Nú er öldin önnur og appelsínuhúð þykir slík óprýði að það telst nánast til kvenlegra skyldustarfa að reyna allt til að losna við hana. Og það þótt vísindamenn séu almennt sammála um að það sé ekki hægt. „Þær sem ætla að vera fastagestir í sundlaugum landsins í sumar ættu að prófa nýja Celluli Eraser kremið frá Biotherm,“ sagði í grein sem birtist á Smartlandi þann tólfta apríl síðastliðinn. Þar var sko ekkert verið að fara í kringum hlutina: enginn sem  er ávarpaður í kvenkyni lætur sjá sig með appelsínuhúð í sundi. Eða nokkurs staðar yfirleitt, ef út í það er farið. Eins gott að það er til krem. Því mig langar í sund án þess að móðga alla hina í sundinu með appelsínuhúð. En þetta krem er alls ekki það eina sem er í boði í baráttunni við appelsínuhúðina, ráð við appelsínuhúð eru hvorki fá né smá. Ó nei.

Byrjum á áðurnefndu kremi:

„Um er að ræða fáránlega gott krem sem stinnir húðina en það inniheldur til dæmis corallina þörunga, hreint koffín, salisýlssýru, gingko biloba og escline. Corallina þörungar koma í veg fyrir myndun nýrra fitufruma. Hreint koffín hraðar fitubrennslu. Salisýlssýra slípar húðina og stuðlar að minni appelsínuhúð. Gingko biloba og escline hefur vatnslosandi áhrif og eykur blóðflæði.“

Ókei, þetta hljómar alltsaman mjög vel og ekki síður það að „Framleiðendur Biotherm segja að kremið minnki appelsínuhúð um 26% og að það taki aðeins tvær vikur að sjá árangur. Kremið jafnar og sléttir yfirborð húðarinnar og fyrirbyggir myndun nýrra fruma sem safna fitu.“

Frábært! Og ég veit fyrir víst, eftir víðtækar rannsóknir á mér sjálfri, að það eru til mörg hundruð tegundir af kremum sem eiga að hafa svipaða virkni, svo ef þetta virkar ekki er bara að fjárfesta í einhverjum hinna. Eða bara öllum!

En fleiri lausnir eru í boði en klístruð krem. Á Vísi.is gat að lesa þann 15. febrúar 2013:

„Snyrtivörufatnaður frá Lytess er búinn grenningarformúlu sem er ofin inn í fatnaðinn og verður formúlan virk við snertingu og núning við húð. Lytess-fatnaðurinn kemur í staðinn fyrir krem og aðrar grenningarlausnir sem lofa viðskiptavinum ummálsminnkun. Kremið…“ Ha? Ég hélt að það þyrfti ekki krem? „…þarf að bera á kvölds og morgna og þarf oft nokkrar túbur til að árangur sjáist. Lytess-fatnaðinum þarf að klæðast í minnst átta klukkutíma á dag en ekki þarf að leiða hugann að því neitt frekar.“

Þetta gæti nú aldeilis hentað mér. Að klæðast fötum sem ég þarf ekki að hugsa um allan daginn OG grenna mig í leiðinni!  „Mælt er með því að meðferð standi í sex mánuði. Lytess-fatnaðurinn er saumlaus, án parabena og þolir þvott. Hann inniheldur meðal annars koffín…“ Frábært! Koffín er gott, ég þekki koffín. „…forskolín, sishuan, piparkjarna og bókhveiti en þessi efni auka brennslu og losa um fitufrumur. Þá er í honum ruscus, rauðir þörungar, japanskt pagoda og ginkgo biloba sem allt er þekkt fyrir að vera vatnslosandi. Að endingu er í þeim mangósmjör, shea butter og sætar möndlur sem eru nærandi og rakagefandi.“ Það er sem sagt líka hægt að borða þessi föt ef maður verður svangur. En… hér er ekkert minnst á appelsínuhúð. Ég ætla ekki að vera í einhverju í sex mánuði, alveg umhugsunarlaust, án þess að það vinni á appelsínuhúð. Þá verður löngu kominn vetur áður ég kemst í sund. Sem betur fer er einhver að hugsa um appelsínuhúðina á mér. Sennilega reyndar allir. Ég meina, af hverju ætti ég annars að leggja þessi ósköp á mig til að losna við hana?

Í október 2011 birti Smartland þessa frétt: „Framleiddar hafa verið gammósíur sem eiga að minnka appelsínuhúð og þrútna ökkla og kálfa og það eina sem þarf að gera er að klæðast þeim.“ Reyndar þarf næstum örugglega líka að kaupa þær. „Þrýstingurinn og efni buxnanna kemur í veg fyrir að fitufrumur festist við vefi í lærum og rassi, sem orsakar appelsínuhúð, og þær hægja á vökvasöfnun í kringum kálfa og ökkla.“ Þetta er nú ekki algalið. Ætli sé hægt að fá svona heilgalla til að vera í í sundinu? „ Koffín, e-vítamín, aloe vera og önnur efni eru ofin í efnið sem mýkir og gefur húðinni aukinn stinnleika og minnkar áhrif appelsínuhúðar.“  Það hefur svo róandi áhrif á mig þegar efnin sem eru notuð eru einhver svona efni sem ég kannast við. Skiptir þá litlu hvort ég skil hvernig E-vítamín og koffín er ofið saman við nælon – ef þetta virkar þá virkar það! „Stjörnurnar láta slíkar töfralausnir ekki framhjá sér fara og hefur Danni Minouge sagt Twitter fylgjendum sínum frá Proskins buxunum og að þær væru fullkomnar til þess að klæðast þegar maður kæmist ekki í ræktina, eins og til dæmis um borð í flugvél. Ein afleiðing þess að klæðast buxunum eru auknar klósettferðir fyrstu vikuna en þar sem þrýstiefnið beinir vökva frá kálfunum liggur leið vökvans í auknu magni í þvagblöðruna.“ Hmm, er sniðugt að vera alltaf pissandi í flugvél? Eða í sundi?

En fyrir þær okkar sem kjósa að vera í gallabuxum en ekki einhverjum „kellings“ gæti málið vandast. Sem betur fer eru gallabuxnavísindamennirnir hjá Wrangler að hugsa um okkur. 16. janúar 2013 fann ég þessa frétt á Smartlandi: „Lizzie Jagger situr fyrir í nýjum auglýsingum Wrangler gallabuxnaframleiðandans. Í auglýsingunum klæðist hún gallabuxum sem einnig eiga að vera þeim kostum búnar að draga úr líkum á appelsínuhúð. Fyrrnefndar buxur, sem fást í þremur útgáfum, sækja eiginleika sína til efnaformúlu sem úðað hefur verið inn í þær við framleiðsluna og gefur húðinni raka. Efnaformúlan dregur virkni sína frá náttúrulegum olíum, s.s. sem úr apríkósukjörnum, ástríðualdinum og rósablöðum.“ Hér skortir greinilega koffín, hvernig á að losna við appelsínuhúð ef ekkert koffín er ofið saman við efnið? Hvað eruð þið að hugsa, Wrangler? „Áhrif efnaformúlunnar virka í allt að 15 daga að sögn framleiðandans.“ Mig grunar að Lizzie blessunin eigi aldrei eftir að fara úr þessum buxum því hún á sko ættir til að fá appelsínuhúð! Já, mamma hennar, hin heimsþekkta fyrirsæta Jerry Hall, varð einmitt uppvís að appelsínuhúð á fimmtugasta og þriðja aldursári þegar hún baðaði sig í sólskini og frægð á frönsku Rívíerunni. Fyrst reyndi hún að kenna slæmri lýsingu um en appelsínuhúðin sannaðist óhrekjanlega á hana með ljósmyndum og var skömmu síðar af henni skafin í lýtaaðgerð. Það er sumsé líka hægt. Sumir segja meira að segja að lýtaaðgerð sé það eina sem virkar.

En nú kunna kannski karlkyns lesendur (sem eru örugglega fjölmargir, karlmenn eru svo hrifnir af vísindum) að spyrja: hvað er appelsínuhúð?

Heimasíða snyrti- og heilsustofunnar Systrasels getur upplýst um það:„Appelsínuhúð er skilgreind sem staðbundnar breytingar og ójafnvægi í starfsemi undirhúðar, sem breytir lögun á kvenlíkama. Um 85% kynþroska kvenna eru með appelsínuhúð, þetta er ekki sjúkdómur  heldur visst ástand í húðinni. Algengast er að appelsínuhúð myndist á rassi, mjöðmum og lærum, einnig á kviði og upphandleggjum. Offita og appelsínuhúð eru ekki það sama.“

Detta mér nú allar dauðar appelsínuhúðaðar lýs úr höfði: getur mjótt fólk fengið appelsínuhúð? Er ekkert réttlæti til í heimi hér?

„Hægt er að flokka appelsínuhúð í stig eftir ástandi húðarinnar:

Stig 1: Engin sjáanleg einkenni, en einkenni sjást við smásjárskoðun á vef.“

Ókei, hvar kemst ég í smásjá? Ég gæti verið með fullt af appelsínuhúð án þess að vita af því. Eða verið gersamlega laus við hana fyrst hún er ekki það sama og offita. Ætli það sé til nógu stór smásjá fyrir mig í Húsdýragarðinum?

„Stig 2: Appelsínuhúðin sést, þegar klipið er í húðina eða vöðvar eru spenntir.“

Miklu betra, ég get fengið einhvern til að klípa mig í rassinn… eða ég vona það. Kannski finnst öllum of ógeðslegt að koma við appelsínuhúðina til að geta hugsað sér að klípa í hana. Ef hún er þá þarna. Ég þarf að skoða á mér rassinn. Með smásjá.  Já…

„Stig 3: Bólstrað útlit húðar er sjáanlegt í hvíld. Húðin er aum viðkomu og kaldari.“

Kaldari en hvað?  En hin húðin? Smásjáin? Vatnið í sundlauginni?

„Stig 4: Sömu einkenni og á stigi þrjú, bara sýnilegri hnúðar og aumari. Húðin köld líflaus og mött. Einnig er húðin flokkuð í harða, slappa eða bjúgkenda [sic] húð.“

Nú, þá er ég komin með aðferðir til að finna appelsínuhúðina. En af hverju ætli ég sé með hana? Ef ég er með hana?

„Helstu orsakir appelsínuhúðar eru taldar eftirfarandi:

Östrógen (kven) hormón hefur áhrif á appelsínuhúðina. Ástand húðarinnar versnar við meðgöngu, á blæðingum og við östrógen meðferð. Erfðir og kynferði (kven) eru einng áhrifavaldar. Hvítar konur hafa meiri tilhneigingu til að mynda appelsínuhúð en asískar eða svartar. Suðrænar konur mynda frekar appelsínuhúð á mjöðmum, en norrænar á maganum.“

Kona, tjekk, hvít, tjekk, norræn, tjekk, magi, TJEKK! En ekkert svo krumpaður samt.

Lífsstíll og mataræði hafa líka eitthvað að gera með myndun appelsínuhúðar, samkvæmt þeim hjá Systraseli, en svo kemur rúsínan í pylsuendanum:

„Meðferðarúrræði.

Eina meðferðin, sem hlotið hefur náð hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu (FDA) heitir Endermologie, en það er meðferð með sérstakri vél, sem myndar neikvæðan þrýsting í húðinni og eykur þannig blóðflæði til fituvefsins og teygir á bandvefsþráðum. Lyfja og snyrtivöruframleiðendur hafa enn ekki náð að sýna fram á með vísindalegum niðurstöðum virkni á sínum vörum til að minnka appelsínuhúð.“

HA???? En hvað með …kremið ? Og fötin? Það er ekkert minnst á fataframleiðendur, sjúkk.

„Eins og fram kemur hér að framan er hreyfing nauðsynleg til að koma í veg fyrir að appelsínuhúðin versni, en því miður er líkamsrækt ekki meðferð við appelsínuhúð. Keppniskonur í íþróttum eru með appelsínuhúð, þrátt fyrir vel þjálfaðan líkama.“

Ö… keppniskonur í íþróttum? Sundkonur kannski? Sem fá að fara í sund með appelsínuhúðina út um allt?

Það er ótrúlega gaman í svona lasermeðferð

Á heimasíðu læknastofunnar Útlitslækning er líka boðið upp á lýtalæknisfræðilega aðferð til að losna við appelsínuhúð: „…tvískauta útvarpsbylgjum (bipolar radiofrequency) og ljósorku (optical energy). Útvarpsbylgjurnar mynda hátíðnirafsegulorku (high-frequency electromagnetic energy) þegar þær mæta mótstöðu í húðinni. Orkan leiðir til myndunnar hita í leðurhúðinni. Hitinn er álitinn auka súrefnisflæði fruma. Ljósorkan sem við beitum er með innrauðum laser. Hiti ljósorkunnar er álitinn auka teygjanleika (elasticity) húðarinnar og hita fituvefinn. Hitinn sem myndast við meðferðina bæði af útvarpsbylgjunum og lasernum er álitinn fá kollagen leðurhúðarinnar til að skreppa saman og þykkjast. Hitinn og sogið eru álitin leiða til nýmyndunnar kollagens í trefjakímfrumum (fibroblasts) með beinum hætti og óbeint með auknu blóðflæði. Samverkandi áhrif þessa er húðstinning sem vinnur gegn losaralegri húð.“ Rétt upp hönd sem finnst þetta ekki miklu meira traustvekjandi en rósaböð og rauður pipar.

Vísindavefurinn er ekki jafnsvartsýnn og systurnar í Systraseli á möguleika þess að hafa einhver áhrif á appelsínuhúðina, önnur en með lýtaaðgerð eða raflostum. Þar er fjallað um mataræði, varað við ofneyslu á áfengi, sælgæti og fituríkri fæðu og… kaffi? En hvað með allt koffínið sem kremin eru öll troðfull af? Og er meira að segja saumað inn í gallabuxurnar? Að auki er þar mælt með líkamsrækt og slökun en gegn því að kaupa krem, því „ekki vænta kraftaverks. Eins og áður sagði er ekki vitað nákvæmlega hvað veldur appelsínuhúð en það er til einskis að eyða peningum í dýrar snyrtivörur“.

Ágústa Johnson tekur í sama streng á  Smartlandi 26.október 2011: „Mjög margir falla fyrir skyndilausnum til að losna við kotasælukekkina. Kaupa frekar dýra áburði í stað þess að stunda samviskusamlega hnébeygjur og framstig. Það er þó samdóma álit sérfræðinga að enn fáist ekki það krem eða sá áburður sem minnki appelsínuhúð sem einhverju nemur. Niðurstaðan er sú að regluleg styrktarþjálfun ásamt því að bæta matarvenjur og losna við aukakíló er besta leiðin til að losa sig við appelsínuhúð að því marki sem mögulegt er.  Áður en þú eyðir stórfé í krem sem lofað er að bræði burt cellulite, er skynsamlegra að grípa í lóðin, gera þér gagn og stunda fjölbreyttar æfingar sem styrkja helstu vöðva líkamans. Svo er alltaf spurning hvort hægt er að læra bara að elska þessa kekkjóttu kotasæluhúð?“

Já… er það kannski bara spurningin eftir allt saman?

2 athugasemdir við “18 efni sem vinna örugglega á appelsínuhúð

  1. Appelsínur eru bæði hollar og góðar þannig að það hlýtur að vera hið besta mál að líkjast þeim. Mér sýnist mun einfaldara að ég fái mér bara nokkur dúsín af dökkum gleraugum og afhendi þeim sem finna fyrir óþægindum við að sjá á mér lærin.

  2. Einu sinni hélt ég að ég væri komin með svæsið tilfelli af appelsínuhúð, sem ég kenndi því um að ég væri farin að eldast og hefði fitnað svo mikið. Á þessum tíma var ég nítján ára og hafði, mér óafvitandi, misst 10 kíló á þremur mánuðum. Þetta sannfærði mig um það að magn appelsínuhúðar og líkamsfitu eykst í réttu hlutfalli við hve mikið maður leitar eftir þessum fyrirbærum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.