Munurinn er samþykki

Höfundur: Brynhildur Björnsdóttir

Kynlíf! Spennandi, æðislegt, framandi, eftirsóknarvert. Allskonar möguleikar, stellingar, samsetningar, athafnir. Og samþykki. Alltaf samþykki.

fáðujá2Á föstudaginn var voru fimm ungir menn sýknaðir af ákæru um nauðgun. Einn þeirra komst svo að orði að atburðurinn hefði verið algerlega venjulegt kynlíf. Sem er skrýtið því það er auðvitað út í hött að ætla sér að skilgreina venjulegt kynlíf. Það sem telst til viðurkenndra kynlífsathafna hefur víkkað og breyst á undanförnum árum og engin ástæða til að fordæma það. Það sem hefur hinsvegar ekki breyst og mun aldrei breytast er að allir þurfa að vera samþykkir því sem fram fer. Annars er það ekki lengur kynlíf heldur nauðgun og nauðgun er ekki kynlíf. Hvorki venjulegt né óvenjulegt. Munurinn á nauðgun og kynlífi er samþykki. Kynlíf getur breyst í nauðgun þegar samþykkið er ekki lengur fyrir hendi.

Hlutaðeigendur í málinu sem um ræðir voru flestir undir lögaldri þegar brotið var framið. Það er möguleiki að þeir hafi ekki vitað hvað þeir gerðu. Þeir búa við mikið framboð af efni sem bæði hlutgerir konur og upphefur gróft ofbeldi og rangnefnir það kynlíf. Kannski gerði brotaþolinn sér ekki einu sinni grein fyrir því þegar atburðarásin hófst að hún vildi ekki það sem átti eftir að gerast. Hún fær sömu skilaboð frá umhverfinu þeir og gæti hafa talið sig ráða við að framkvæma eitthvað sem hafði verið kynnt fyrir henni sem venjulegt kynlíf. Kannski var heldur enginn búinn að segja henni að hún mætti neita, hætta við og fara og að það mætti ekki gera hvað sem er við hana ef hún lenti í þeim aðstæðum að vera ein á móti fimm. En hafi hún ekki gefið samþykki sitt fyrir öllum kynferðisathöfnunum með öllum þeim fimm sem málið varðaði á öllum stigum þá var um nauðgun að ræða. Það er svona einfalt.

Mig langar að benda á tvær stuttmyndir sem við Þórdís Elva Þorvaldsdóttir gerðum með fleira góðu fólki. Þær heita Fáðu já og Stattu með þér. Tilgangurinn með gerð þeirra var að kenna börnum og unglingum að setja mörk, bera kennsl á ofbeldi og fyrst og fremst: að gera samþykki að órjúfanlegum hluta af kynlífi. Til þess þurfa foreldrar, kennarar, starfsfólk í félagsmiðstöðvum og aðrir sem láta sig börn og unglinga varða að vinna með okkur.  Okkur langar að hvetja fólk til að horfa á þessar myndir með börnunum í lífi sínu og nota tækifærið til að ræða við þau hvað samþykki þýðir og hvernig það virkar. Við vonum að myndirnar og ekki síst umræðan geti hjálpað börnum og unglingum að bera kennsl á kynferðisofbeldi, hjálpað þeim sem hafa orðið fyrir því, fengið þá sem eru líklegir til að beita því til að hugsa og opnað umræðuna um kynlíf. Eins og stendur virðist blasa við að sumir þekkja ekki muninn á kynlífi, í öllum sínum margbreytilegu myndum, og ofbeldi. Munurinn er samþykki.

Myndirnar eru aðgengilegar hér Fáðu já og Stattu með þér.

 

Ein athugasemd við “Munurinn er samþykki

  1. Af hverju er ekki hægt að skilgreina venjulegt kynlíf? Ég hélt að það sem væri venjulegt væri það sama og væri algengt, það sem flestir stunduðu eða eitthvað slíkt. Það er nokkuð ljóst að það að ein kona þjóni fimm körlum í einu er ekki venjulegt kynlíf. Raunar er kynlíf með fleiri en tveimur aðilum viðstöddum óvenjulegt yfirleitt, þori ég að fullyrða. En má í alvörunni ekki líka tala við unglinga um að sumar samsetningar eða uppstillingar af kynlífi hreinlega bjóði upp á virðingarleysi og misnotkun og séu hreinlega slæmar? Þarf endilega að láta eins og allar útfærslur af kynlífi séu mögulega góðar hugmyndir? Ein kona með fimm körlum felur í sér gríðarlegt valdamisræmi, er fáránlegt álag á konuna auk þess sem af lýsingum að dæma í þessu tilfelli snerist allt um ánægju strákanna en ekkert var skeytt um ánægju stelpunnar. Má ekki bara segja við unglinga hreint út að slíkt sé hræðileg hugmynd og engin ástæða sé til að prófa slíkt, jafnvel þótt einhverju detti í hug að segja já? Má ekki líka alveg segja unglingum frá því að flest fólk stundi ekki hópkynlíf? Ekki að hópkynlíf á öllum formum sé endilega alltaf slæmt fyrir alla, en ég held að það hljóti að þurfa ákveðna reynslu og þroska til að geta stundað það á ábyrgan hátt og mig grunar að unglingar sem eru að byrja að prófa sig áfram í kynlífi eigi alveg nóg með einn partner. Má ekki bara segja unglingum þetta berum orðum?

    Annars er kannski rétt að minna á að þótt það sé mikilvægt að fá já þá er það ekki alltaf nóg til að um gott kynlíf sé að ræða: http://nymag.com/thecut/2015/10/why-consensual-sex-can-still-be-bad.html

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.