Ég er öfgafemínisti

Höfundur: Eyvindur Karlsson
Greinin birtist fyrst á Facebook-síðu höfundar.

Hluti af auglýsingu Eimskips um Óskabörn þjóðarinnar.

Ég viðurkenni fyrstur manna að ég hef oft haft rangt fyrir mér. Og ég hef oft skipt um skoðun. Og ég hef bullað ótrúlega mikið í gegnum tíðina. Og skammast mín ekkert fyrir það. Maður lifir og lærir og þroskast og allt það.

Ég hef alltaf verið jafnréttissinni. Mamma ól mig vel upp, og hún hefur alltaf verið hetjan mín. Mamma var Kvennalistakona, er enn femínisti, og hún ól með mér prýðileg gildi, að ég held, þegar kemur að gagnkvæmri virðingu á milli kynjanna. Hún kenndi mér líka að hugsa og gagnrýna, ekki síst sjálfan mig.

Ég hef alltaf verið femínisti. En ég hef ekki alltaf áttað mig á því. Eða kannski ekki skilið hugtakið nógu vel. Ég veit ekki alveg hvað veldur, en fyrir nokkrum árum vildi ég alls ekki kalla mig femínista. Og ég var meira að segja einn af þeim sem gagnrýndu svokallaða „öfgafemínista“. Hvað sem það nú er.

Mynd af http://bitchmagazine.org/
Raising Trouble: The Pink and Blue Project

Já, ég viðurkenni að ég var einn af mönnunum sem blandaði sér í umræður á netinu, til dæmis um lit á barnafötum eða kyn fígúra á gönguljósum, og sagðist alveg vera jafnréttissinni EN… Alltaf þetta stóra EN. Ég þreyttist seint á að rífast yfir því hvers vegna femínistar þyrftu stöðugt að vera að röfla yfir tittlingaskít sem þessum, í stað þess að einbeita sér að stóru málunum, eins og launamun og kynferðisofbeldi. Öfgarnar skemma, sagði ég. Já, ég viðurkenni það hér og nú. Ég var þessi gæi.


Mynd af http://bitchmagazine.org/
Raising Trouble: The Pink and Blue Project

En það var þá. Svo fattaði ég þetta allt í einu. Stóru málin verða alltaf rædd. En er lykillinn ekki einmitt að ræða litlu málin? Málin sem eru kannski ekki spurning um líf og dauða (jafnvel bókstaflega), heldur smáatriðin? Bleikt og blátt. Kyn gönguljósa. Þetta allt saman. Því lögin kveða nokkuð skýrt á um jafnrétti kynjanna. Þar eru kannski einhver vafaatriði (ekki biðja mig um lagaskýringar), en ætli það sé ekki allavega ansi skýr vilji til jafnréttis í lögum. Lagasetningar duga hins vegar skammt þegar hugarfarið fylgir ekki. Og þegar skrif ýmissa karla (og reyndar stundum kvenna) eru skoðuð á hinum villta veraldarvef kemur augljóslega í ljós að hugarfar fólks er oft helvíti brenglað.

Mér finnst alveg lygilegt hvað ég sé oft skrifað, beint eða óbeint, að konur hafi það þó þetta gott – baráttan sé nú orðin óþörf. Þó þetta gott. Þær eru ekki jafnar – en mörgum körlum finnst þær vera orðnar alveg nógu jafnar. Konur í embættum virðast í hugum margra vera nóg til að núlla út launamuninn, ofbeldið, áreitnina og allt hitt sem illa gengur að útmá.

 Lögin eru hliðholl jafnrétti, eins langt og þau ná, en ekki hugarfarið. Og hvernig breytist hugarfar? Hægt. Og það gerist ekki nema stöðug umræða fari fram. Maður þarf að kroppa í það. Eins og sár. Því ef það kemur hrúður yfir, þá gleymist það. Og svo kemur ígerð.

Og þetta fattaði ég allt í einu – að ef maður talar ekki um hlutina, þá breytist ekki neitt. Og ef það þýðir að það þarf að gera einhverja karlpunga pirraða með umræðum um barnaföt og gönguljós, gott og vel. Svei mér þá, ég hafði rangt fyrir mér. Öfgarnar skemma ekki. Öfgarnar eru nauðsynlegar í allri baráttu. Því án öfga breytist ekkert. Við getum engu breytt með því að vera settleg og kurteis í baráttunni. Það er bara ekki hægt.

Mér finnst ekkert að því að endurskoða mína afstöðu. Ég á tvo litla stráka, og þeir hafa breytt afstöðu minni til ótal hluta. Ég var þess til að gera femínisti áður en þeir komu í heiminn, en nú er ég miklu afdráttarlausari femínisti. Því ég er að ala upp tvo karlmenn. Og ég hef séð hvernig sumir karlmenn, jafnvel strákar sem ég þekki og elska, eiga til að hugsa og tala um konur. Oft átta strákar sig ekki á því sem þeir eru að segja, og hvað það getur verið ljótt. Vegna þess að hugarfarið í samfélaginu yfir höfuð er ekki eins og það á að vera. Og svo eru auðvitað til karlmenn sem eru bara fávitar. Margir af þeim sýna stjörnutakta í kommentakerfum víða um net.

Ég hef séð of mikið af þessum öfgum til að taka neina sénsa með strákana mína. Fullt af strákum virðist halda að karlremba sé töff. Ég vil byggja traustan grunn fyrir syni mína, þannig að þeir sjái í gegnum svoleiðis töffaraskap þegar þeir verða stórir. Og ef ég þarf að fara í hinar öfgarnar til þess – gerast öfgafemínisti – þá er það bara í fínu lagi. Ef það þýðir að strákarnir mínir verði femínistar þegar þeir verða stórir, þá ég pant vera öfgafemínisti. Það er töff.

Eyvindur Karlsson
Öfgafemínisti

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.