Minningargrein um Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur (f. 8.nóvember 1955, d. 2. apríl 2019)

PálamyndSPI:  „Komdu sæl, ég heiti Sigrún Pálína Ingvarsdóttir. Þakka þér fyrir.“

Með þessum stuttu upphafsorðum í ágústmánuði árið 2010 hófust kynni okkar Sigrúnar Pálínu. Ég hafði daginn áður skrifað grein í blöðin, þar sem ég lagði til að skipuð yrði óháð rannsóknarnefnd um „biskupsmálið“ svonefnda Ég hafði aldrei talað við hana áður, en auðvitað vissi ég af henni. Fjórtán árum áður hafði hún skrifað mér bréf og lýst upplifun sinni af samskiptum sínum við þáverandi sóknarprest Bústaðarkirkju og seinna biskup. Ég las bréfið og gerði aldrei neitt með það. Aldrei fyrr en biskupsmálið bálaði upp aftur árið 2010. Og nú var hún þarna í símanum á landlínu frá Danmörku til að þakka mér fyrir verk sem ég hefði átt að vinna einum og hálfum áratug fyrr.

Næsta vetur meðan Rannsóknarnefnd kirkjuþings vann sitt verk spjölluðum við oft saman. Við hittum presta og töluðum við þá um meðvirkni og þöggun árið 1996. Ég hitti nokkra vini hennar og vinkonur líka, kynntist Alla og stelpunum hennar Elísabetu Ósk og Sólveigu Hrönn. Einu sinni fórum við að borða saman í Kringlunni. Hún var virk í kirkjustarfi á höfuðborgarsvæðinu þennan vetur, tók þátt í fundum, messum, listgjörningum og bænastundum um kynferðisofbeldi og við sátum oft saman á kirkjubekknum.

Um vorið kom síðan niðurstaða Rannsóknarnefndarinnar. Loks var það viðurkennt að Sigrún Pálína og þrjár aðrar konur hefðu verið beittar órétti af hendi kirkjunnar fólks, þegar þær komu fram með sögur sínar. Niðurstaðan var birt og þolendum borgaðar sanngirnisbætur. Ég minnist stundarinnar þegar við sátum í safnaðarheimili Grensáskirkju blíðan sumardag árið 2011, þegar skrifað var undir sáttargjörð og sanngirnisbæturnar greiddar. Ég man það líka að Sigrún Pálína gaf Stígamótum vænan hluta af bótunum sínum fyrir allan stuðninginn við sig. Peningar bæta ekki tilfinningalegt tjón, eins og Sigrún Pálína sagði svo réttilega í blaðaviðtölum um þetta leyti, en samt held ég að með þessum mótum, bótum og skýrslum hafi mikilvægt fyrsta skref verið stigið í að bæta fornan órétt og að breyta framtíðarhegðun í stofnun sem enn hefur mikil táknræn völd í samfélaginu. Ég þakka henni fyrir það að hafa verið broddur kirkjunnar. Í þeim broddi liggur von og möguleiki um að framtíðin verði betri en fortíðin.

Biskupsmálið markaði Sigrúnu Pálínu og það er tæpast hægt að ræða um lífshlaup hennar án þess að nefna þann órétt sem hún var beitt. Sigrún Pálína var kona sem óréttur braut ekki og náði með mikilli vinnu að nýta erfiða reynslu til þroska og íhugunar. Hún var seig og fylgin sér. Hún var örlát. Hún stóð í hlýjum og góðum samskiptum við fólk sem elskaði hana. Hún var dýravinur mikill. Hún var skemmtileg og lífsglöð, hafði geislandi bros og það var unun að heyra hana hlæja. Hún hafði sterka réttlætiskennd og barðist bæði fyrir sína eigin hönd og annarra.

Sigrún Pálína hraktist úr landi vegna biskupsmálsins. Nú stendur yfir söfnun til þess að hún geti hvílt hinstu hvílu á Íslandi. Ég vil hvetja fólk til að leggja þessari söfnun lið og að ein fremsta baráttukona okkar fyrir bættum heimi fái að hvíla í íslenskri jörð. Framlög má leggja inn á þennan reikning:

kt. 111183-2959 á 0114-05-062999.

Sigrún Pálína kenndi mér og hún breytti mér. Hún stendur mér ljóslifandi fyrir hugsskotssjónum með strágula hárið sitt, ennistoppinn og háu kinnbeinin. Í minningunni stafar sólskini, gleði og von af Pálu. Blessuð sé sú minning.

Þegar ég hugsa til baka til okkar fyrsta samtals fyrir níu árum, þá hefði það átt að byrja svona:

SPI:  „Sæl, ég heiti Sigrún Pálína Ingvarsdóttir.“

SG:  „Ég veit. Þakka þér fyrir.“

Sigríður Guðmarsdóttir

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.