Femínisti, trúleysingi og einlæg stuðningskona moskubyggingar í Reykjavík

Höfundur: Guðrún Margrét Guðmundsdóttir

MuslimPeaceÉg nenni sjaldnast að skrifa það sem mér liggur á hjarta, enda tekur það mig oftast óratíma, en núna finn ég mig knúna til að setja hugsanir á blað og henda reiður á af hverju oddviti Framsóknarflokksins Sveinbjörg Birna hefur valdið mér ómældu hugarangri undanfarna viku, og nú síðast í gær einnig formaðurinn og forsætisráðherrann, maður sem ég hef margoft hrist hausinn og brosað út í annað yfir, án þess að finna fyrir þeirri óvild sem ég geri nú. Hinir grímulausu múslimafordómar sem birtast í málflutningnum, í bland við þjóðrembu og kristna trúrækni, finnast mér hreinlega ógnvekjandi, þrátt fyrir að ég sé bæði nær trúlaus og róttækur femínisti, með tilheyrandi ofnæmi fyrir feðraveldinu. Þetta kann að hljóma eins og mótsögn í eyrum einhverra og hafa andstæðingar moskubyggingar hér í borg beinlínis kallað eftir afstöðu femínista í málinu, vegna þeirrar kvennakúgunar og -ofbeldis sem einkennir Íslam, að þeirra mati.

Ég ætla hvorki að rekja atburðarásina síðustu viku né fjalla efnislega um málflutning leiðtoganna tveggja, hvað þá gefa yfirklórinu og eftiráskýringunum þeirra gaum. Miklu frekar langar mig að kanna hvers vegna moskubyggingin við Suðurlandsbraut er orðin mér slíkt hjartans mál, án þess þó að ég þykist tala fyrir hönd allra femínista.

Mér leiðist trú ákaflega, trúariðkun og trúartal almennt. Barnatrúin hefur dofnað með árunum og Júníversinn virðist smám saman hafa leyst Guð af hólmi. Það má líklega rekja til vantrausts á skipulögðum trúarbrögðum en um leið þarfar fyrir einhvers konar æðri mátt í lífinu. Eingyðistrú er nefnilega alltaf í slagtogi við feðraveldið, þétt samofið bræðralag sem erfitt er að aðskilja; þess vegna hef ég orðið tortryggin gagnvart henni og loks misst trúna. Bræðralag þetta afhjúpar sig sí og æ og auðvelt er að nefna mýmörg dæmi því til stuðnings. Í fljótu bragði má telja þöggun Þjóðkirkjunnar á kynferðisofbeldi Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups Íslands, og nú nýlega lýsingar á framferði, kynferðislegri áreitni, stjórnsemi og yfirgangi trúarleiðtogans Gunnars í Krossinum gagnvart kvenkyns meðlimum safnaðarins.

Kaþólska kirkjan neitar enn að vígja kvenpresta, hafnar samkynhneigðum og ráðskast með líkama kvenna og auk þess vex trúarofstæki í kvenfjandsamlegum dúr ásmegin vestanhafs. Með vísan í Kóraninn er konum við Persaflóa neitað um ýmis mannréttindi, mismunað með lögum og ferðafrelsi þeirra skert.

Kannski er ekki beinlínis við trúna sjálfa að sakast, þannig lagað, ef ég á að vera alveg sanngjörn. Trúin inniber vissulega margt gottSymbols of the Three Monotheistic Religions og gilt, þar er að finna leiðbeiningar um hvernig eigi að koma fram við náungann, vera mildur og sýna samkennd. Eins veitir hún styrk og huggun á erfiðum tímum. Vandamálin byrja þegar hún snýst gegn öðrum, þegar allir sem eru annarrar trúar eru „hættulegir“, „lenda áreiðanlega í helvíti“, snúa ekki frá „villu síns vegar“ og eru því jafnvel „réttdræpir“. Til samanburðar er ekki hægt að kenna leiknum fótbolta, með bolta, leikmönnum, tveimur mörkum, reglum og hvítum línum á grasi, um allar bullurnar sem hanga utan í honum, spillingunni sem þrífst á meðal stjórnenda, hvað þá valda- og peningasýkina sem fótboltanum fylgir. Vandamálið er að þættir sem kynda undir ósómann eru innbyggðir jafnt í trúarbrögð sem fótbolta. Þeir eru: „Ég er æðri en þú og ég er betri en þú, ég mun sigra eða jafnvel lúskra á þér.“ Nákvæmlega sömu sögu er að segja um þjóðræknina sem Sigmundi Davíð verður tíðrætt um. Það er vissulega ekkert athugavert við að þykja vænt um landið sitt, tungumálið og náttúruna og virða upprunann, svo framarlega sem sú væntumþykja umbreytist ekki í: „ég er æðri en þú“. Um leið og farið er yfir mörk þjóðrækni yfir í íslenska þjóðernishyggju er fjandinn laus og rasisminn og útlendingafóbían blasa við og fljóta upp á yfirborðið. „Hreina vatnið, hreina loftið, hreini kynstofninn“ – úps, þið skiljið?

Ég bjó lengi í Miðausturlöndum, nánar tiltekið í Katar, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Jemen og Kúvæt, allt löndum þar sem Íslam er hluti af daglegu lífi og samofið menningunni. Flestir sem ég þekkti iðkuðu trú sína á lágstemmdan hátt, báðu fimm sinnum á dag, gáfu ölmusur og föstuðu í Ramadan-mánuðinum án þess að gera veður úr af því. Aðrir voru uppáþrengjandi og montuðu sig í sífellu af trúrækninni og eigin dyggðum. Ég staðsetti mig alltaf utan trúarbragða. Meira að segja eftir að ég var flutt heim til Íslands og byrjuð í mannfræði við HÍ hélt ég áfram að sneiða hjá öllu efni sem tengdist Íslam, enda var mér farið að leiðast trú óskaplega.

Það var ekki fyrr en eftir 11. september 2001 að ég varð að taka afstöðu með múslimum, löndum og svæðum sem mér þykir vænt um, vinum mínum og samborgurum á þessari jörð, mér rann einfaldlega blóðið til skyldunnar. Andúð og fordómar gagnvart múslimum og Íslam urðu meiri en nokkru sinni fyrr og þar að auki einsleitari og grimmilegri í eitruðu andrúmslofti vanþekkingar, hefndarþorsta og ótta. Hugrenningatengsl á milli Íslam/múslima annars vegar og hryðjuverka og ofbeldis hins vegar hafa myndast í huga alltof margra. Þetta tel ég vera undirliggjandi ástæðu fyrir málflutningi Framsóknarfólksins ofangreinda, þegar öllu er á botninn hvolft.

Ég verð afskaplega glöð þegar moskan rís loks í Reykjavík og samgleðst íslenskum múslimum af öllu hjarta. Þeir eiga það sannarlega skilið að eignast loksins sitt eigið bænahús eins og aðrir trúarhópar, enda er þörf þeirra, líkt og annarra heimsbúa, til að trúa á og tilbiðja Guð sinn sterk. En til að svara spurningu andstæðinga moskubyggingarinnar um femínista munu þau sannarlega láta til sín taka ef konum sem sækja moskuna verður mismunað á grundvelli kynferðis á einhvern hátt, rétt eins og femínistar hafa gert í tilfellum kvennakúgunar innan kristinnar kirkju. Það er hins vegar allt önnur ella og ber að skoða ef og þegar þar að kemur.

7 athugasemdir við “Femínisti, trúleysingi og einlæg stuðningskona moskubyggingar í Reykjavík

 1. Það eru margar hliðar á öllum málum. Í nýlegri könnun kemur fram að 70% aðspurðra vilja ekki að trúfélög fái ókeypis lóðir. Þegar borgaryfirvöld ákveða í kjölfarið að hunsa 70.000 undirskriftir má við því búast að mönnum ofbjóði. Hefur ekkert með múslima að gera, ekkert með Framsóknarflokkinn – heldur valdníðslu borgaryfirvalda í Reykjavík.

  http://www.ruv.is/mannlif/muslimar-i-ymi

  • Hæ Elín, þetta var einmitt það sem ég tók ekki fyrir í greininni, þ.e. nákvæmlega hver sagði hvað, sneri út úr hvernig, og á hvaða hátt var reynt að afvegaleiða umræðuna. Umræðan fór að snúast um þessar ókeypis lóðir eftir að Sveinbjörn Birna sagðist ósammála lóðagjöf undir mosku og rétttrúnaðarkirkjuna, hún hefði nefnilega búið í Saudí og byggði þetta viðhorf ekki á fordómum heldur reynslu, manstu. Þetta var rökstuðningur hennar þá. Nei ég held við verðum að hlusta á það sem er sagt undirliggjandi, hlera tóninn í málflutningnum en ekki á eftiráskýringar. Þar að auki getur löggjafinn að breyta þessu ekki borgarstjórn og eins yrði aldrei samþykkt að hafa íbúakosningu um slík mál sem varða mannréttindi í lýðræðissamfélagi.

 2. Þó að múslimar séu upp til hópa örugglega hið besta fólk, líkt og flest fólk í öðrum trúarhópum, þá stuðlar Kóraninn sjálfur að kynjamismunun og ofbeldi. Það fer því miður ekkert á milli mála fyrir þá sem hafa gefið sér tíma í að lesa hann. Mér finnst rangt að dæma fólk fyrir trú þeirra, en mér finnst allt í lagi að benda á að þessi trú stuðlar að meiriháttar misrétti, því miður, og þar af leiðandi vert að hugsa um ef maður stendur fyrir kvenréttindum, eða bara mannréttindum yfir höfuð af einhverjum toga.
  http://freethoughtnation.com/what-does-the-koran-say-about-women/

 3. Þakka þér fyrir málefnalega, upplýsandi og góða grein.
  Á meðan trúfrelsi ríkir á Íslandi eiga Múslimar að sjálsögðu sama rétt og aðrir.

  En í sambandi við niðurlag greinarinnar langar mig að velta því upp hvort ekki væri ráðlegt að skoða þetta strax, en ekki þegar og ef að því kemur.

  • Takk fyrir þetta Gunnar, nei við getum það ekki, enda femínstar ekki samstæður hópur, heldur regnhlífarhugtak yfir fólk með svipaðar skoðanir og enga mistýringu. Öll svona umræða eins og okkar hér vona ég að gæti skapað kúgunaróþol hjá konum í öllum söfnuðum og að þær myndu stíga fram og opinbera/kvarta eða kæra ódæðisverk.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.