Ugglýsingar: afhjúpun neysluhyggjunnar

Höfundur: Erna Magnúsdóttir

Ugglýsing eftir Ævar Rafn Kjartansson

Ég var á fundi meðal femínista hér í breska bænum sem ég bý í um daginn. Á dagskrá fundarins var kynning á baráttuaðferðum aðgerðasinnaðra femínista, þar sem meðal annars hugtakið „subvertising“ var kynnt til sögunnar. Orðið er samsett af ensku orðunum „subvert“ eða kollvarpa og „advertising“ eða að auglýsa. Í samráði við aðra Knúzverja hef ég ákveðið að nota hér orðið að „ugglýsa“ yfir verknaðinn*.

Í ugglýsingum felst ákveðin afbygging á menningarfyrirbærum, oftast þannig að táknmyndum auglýsinga og stjórnmála er snúið upp í andstæðu sína til að ná fram ádeilu á núverandi ástand. Flestir þekkja ýmsar skopstælingar á frægum vörumerkjum. Stælingarnar líkja eftir útliti vörumerkja en breyta skilaboðunum og skapa þannig ákveðið vitsmunalegt ósamræmi í huga áhorfandans og nota það til þess að afhjúpa þann raunveruleika sem marar undir glansandi yfirborði auglýsingamennskunnar.

Hér í Bretlandi eru ugglýsingar notaðar í auknum mæli af femínistum sem berjast á móti heljartakinu sem neysluhyggjan hefur á samfélaginu og þá sérstaklega til að vekja fólk til meðvitundar um þær kynjastaðalmyndir sem haldið er á lofti í auglýsingum. Notkun orðsins hefur verið yfirfærð á ákveðna aðgerðastefnu sem felst ekki beint í afbyggingu auglýsinga eða notkun táknmynda heldur er skilaboðum auglýsinganna mótmælt með því að „skreyta“ auglýsingarnar með eigin hugsunum og athugasemdum. Þannig verður auglýsingin oft ekki skoðuð nema með því að taka inn ádeiluna í leiðinni.

Á umræddum fundi var talað um hvernig við gætum sjálf stundað ugglýsingar á þennan hátt. Sumir ganga um með tilbúna „post-it“ miða í vasanum til þess að líma á klámblöð í búðahillum. Ef miðar með skilaboðum eins og: „Sannir karlmenn lesa bækur“ og „Ég er líka dóttir“ eru ávallt við höndina flýtir það fyrir við að koma skilaboðunum á blöð sem blasa við í verslunum.

Mynd af Manchester Subvertising

Svo má stundum sjá ýmis skilaboð límd yfir auglýsingar á almannafæri eins og sjá má á þessu myndasafni frá Manchester, þar sem meðal annars orðin „Ég er fótósjoppuð“ og „ég elska skvapið mitt“ eru skrifuð á límmiða og sett á auglýsingar. Á breskum bloggsíðum má líka sjá uppástungur um ugglýsingar. Til dæmis stingur bloggari á f.word.org upp á því að femínistar kaupi auglýsingar á Facebook til að mótmæla einstaklingsmiðuðum skyndimegrunarauglýsingum sem ýta undir og hagnast á brenglaðri líkamsvitund kvenna.

Ein kvennanna á fundinum var reyndar fyrrum yfirlögreglustjóri héraðsins og hún var fljót að stinga puttunum í eyrun og byrja að syngja þegar ugglýsingar bárust í tal. Ugglýsingar eru nefnilega oft á gráu svæði  löglegra baráttuaðferða og eru í raun klassískt dæmi um borgaralega óhlýðni og því er ekki á allra færi að beita ugglýsingum í feminískri baráttu.  Til dæmis ætti lögreglufólk eflaust á hættu að missa vinnuna yrði það uppvíst að ugglýsingum.

Á hinn bóginn má vitna í bandaríska hugsuðinn Howard Zinn.  Hann hefur sagt að borgaraleg óhlýðni sé ekki vandamál. Hins vegar geti það verið alvarlegt vandamál að fólk efist aldrei um viðteknar venjur og reglur samfélagsins og hlýði þeim í blindni án þess að spyrja sig hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér.

*Magnea Matthíasdóttir á heiðurinn af hinu skemmtilega orði ugglýsing.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.