Höldum endilega ekki kjafti

Þegar ég var barin eins og harðfiskur í gamla daga var ekkert Kvennaathvarf. Einu sinni var kölluð til lögregla þegar barsmíðarnar höfðu gengið svo úr hófi fram að ég var stungin í brjóstið með brotinni flösku og blæddi mikið. Lögreglan stakk mér fyrst í fangaklefa en fór svo með mig á Slysavarðstofuna þegar fangavörður neitaði að taka ábyrgð á því að mér kynni að blæða út í steininum og svo var mér skutlað heim. Hvert annað? Það var ekkert annað hægt að fara. Engum datt í hug að nefna við mig að þetta væru kannski ekki eðlileg samskipti hjóna og líklega saknæm.

Þegar ég var laus úr því sambandi og búin að púsla mér dálítið saman eins og gengur hringdi gömul vinkona mín einu sinni í mig í dauðans ofboði um miðja nótt. Hún þurfti skjól með þrjú börn og svaf í flatsæng í stofunni minni með glóðaraugu á báðum þangað til ofbeldismanninum tókst að sannfæra hana um að hann hefði ekkert meint með þessu og hún fór heim aftur. Hvert annað? Það var ekkert annað að fara.
Skömmu eftir þetta var Kvennaathvarfið stofnað og þangað leitaði hún nokkrum sinnum með börnin sín þrjú en fékk á endanum hjálp og styrk til að púsla sér saman og kveðja ofbeldið. Þá var nefnilega hægt að fara annað.

Það var nú aldeilis ekki vinsælt, þetta Kvennaathvarf, skal ég segja ykkur, og enn þann dag í dag heyrir maður alls konar fólk fárast yfir því.
Þegar við vinkonurnar vorum ungar var okkur báðum nauðgað og við vorum báðar beittar kynferðislegu ofbeldi af ýmsu tagi, ekki bara einu sinni heldur oftar, og við grétum hvor við hinnar öxl á trúnó en héldum að öðru leyti kjafti. Það gerði maður nefnilega þá, enda mikil skömm að „lenda í þessu“ og kom bara fyrir druslur, enda þeim sjálfum að kenna. Þá voru engin Stígamót.
Þegar dóttir hennar vinkonu minnar – eitt af börnunum þremur í flatsænginni – „lenti í því“ að vera nauðgað hrottalega var henni ekki stungið í fangaklefa þótt einhver tautaði að best væri að láta hana „sofa úr sér“. Það var farið með hana upp á bráðavakt og þar tekin fyrstu skrefin í ferli sem margir brotaþolar þekkja: að kæra nauðgun. Kæran hennar fór aldrei fyrir rétt frekar en margar aðrar og hún átti erfitt með að taka því. Mamma hennar sagði mér seinna að Stígamót hefðu bjargað lífi hennar eins og margra annarra, án þess að ég fari að rekja fleiri sögur af því.

En þau hafa nú ekki aldeilis verið vinsæl í gegnum tíðina, þessi Stígamót, og margir sem sjá ekki ástæðu til að ausa peningum í svoleiðis vitleysu. Konur eiga auðvitað bara að halda kjafti, þær kalla þetta yfir sig sjálfar. Er það ekki annars?
Það sem ég er að reyna að fara er þetta: Við – íslenskar konur – höfum komið okkur upp frábærum skjólum og félagasamtökum sem við getum leitað til þegar í harðbakkann slær. Við sem erum eldri munum hvernig þetta var hér á árum áður þegar ekkert var hægt að fara og enga hjálp og huggun að fá nema hver hjá annarri. Tímarnir eru sem betur fer aðrir en þessar ómetanlegu hjálparstofnanir eiga samt í vök að verjast gegn óvildarmönnum og mega ekki gefa höggstað á sér. Þær eru of dýrmætar til þess.

Umræðan um Stígamót upp á síðkastið hefur verið vopn í hendi þessara óvildarmanna en femínistar og almenningur mega ekki falla í þá gildru að samsama starf samtakanna og einstakra starfsmanna þeirra. Enginn er stærri en heildin og í Stígamótum er unnið þrekvirki á hverjum degi í þágu þeirra sem hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi af einhverju tagi. Munum það – og höldum endilega ekki kjafti!

Höfundur óskar nafnleyndar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.