Ofbeldið sem ekki má ræða

Höfundur: Helga Baldvins Bjargar

Mér finnst allt þetta Stígamótamál vægast sagt ömurlegt. Í dag er ég óvinnufær. Ég er greind með mjög alvarlegt þunglyndi og kvíða og komin á kvíðalyf í fyrsta skipti á ævinni. Mig dreymir martraðir, ég forðast að vera úti á meðal fólks og upplifi mig óörugga í femínískum rýmum. Ég óttast sífellt að rekast á Stígamótafólk eða femínista sem hata mig fyrir að sverta þessa vöggu femínískrar baráttu gegn ofbeldi. Ég kíki á facebook á morgnanna með kvíðahnút í maganum um að nú sé komið að því, nú sé einhver búin að rakka mig niður, skamma mig eða niðurlægja. Stundum næ ég ekki einu sinni að fara í sturtu í marga daga í röð. Aðra daga ligg ég undir sæng og spæni í mig heilu þáttaseríurnar. Ég innbyrði ótæpilegt magn af sykri og gosi. Mér finnst ég ógeðsleg. Mér finnst ég ekki eiga neitt gott skilið. Maðurinn minn sér um heimilið og börnin að langmestu leyti. Þá litlu orku sem ég á reyni ég að spara fyrir börnin mín, en ég finn að ég er ekki eins góð mamma og ég var og það svíður. Ég er þjökuð af samviskubiti og fordómum gagnvart sjálfri mér. Fordómum gagnvart mér sem þunglyndri manneskju. Fordómum gagnvart mér sem þolanda eineltis:

„Þetta er bara aumingjaskapur, rífðu þig í gang!“

„Djöfull ætlarðu að mjólka þessar aðstæður“

„Svona eineltismál snúast alltaf um þolendur sem eru bara sjálfir óþolandi og erfiðir í samskiptum“

„Helga það hlýtur bara eitthvað að vera að þér, þetta gengur ekki upp öðruvísi“

Það sem heldur mér gangandi er að ég VEIT að þetta er tímabundið ástand. Ég hef upplifað þetta allt áður sem afleiðingar andlegs og kynferðislegs ofbeldis. Þess vegna er ég að leyfa mér að vera þarna. Sitja í öllum þessum ömurlegu tilfinningum og reyna taka utan um mig og finnast ég eiga skilið að vera til. Ég á líka góða daga. Daga þar sem ég fer með börnin mín á brúðubílinn eða á stundir með fjölskyldu og vinum þar sem ég upplifi gleði og hlátur. Daga þar sem ég svara fjölmiðlafólki og tala um málið mitt eins og þetta fái ekkert á mig. En svo hryn ég inn á milli og það er allt í lagi.

Viðbrögðin

Eitt af því sem fékk mig til að tala upphátt um reynslu mína voru viðbrögðin sem ég fékk þegar ég var að ræða þetta við aðrar konur.  Það var alveg sama hvort ég var að tala við konur úr akademíunni, kvennahreyfingunni eða hinum ýmsu femínista grúppum. Það var engin þeirra hissa. Flestar höfðu persónulega reynslu af því að „lenda í Guðrúnu“ eða þekktu einhvern sem hafði þá reynslu. Ég varð bæði hissa og sár. Af hverju segir engin neitt? Af hverju gerir engin neitt í þessu? Svörin sem ég fékk voru eitthvað á þá leið að það hefði alltaf verið þessi áhersla í kvennabaráttunni að konur eigi ekki að fara upp á móti konum.

Þessari nálgun er ég bara hjartanlega ósammála. Ég er á móti hvers kyns ofbeldi og kúgun, sama hver beitir því. Við erum öll fær um að misfara með forréttindi okkar, stöðu og völd gagnvart öðrum og beita ofbeldi með því að meiða, særa eða niðurlægja. Spurningin er, hvernig tökumst á við það þegar við erum ásökuð um slíkt? Biðjumst við afsökunar og reynum að gera betur? Eða hunsum við reynslu þess sem meiddi sig og segjum manneskjunni að hún sé að misskilja, upplifa þetta rangt?

Á Stígamótum er enginn ráðningasamningur, engar starfslýsingar og ekkert verklag. Stígamót er sjálfseignastofnun ekki félagasamtök og þurfa því ekki að halda reglulega aðalfundi þar sem greiðandi félagar fá að kjósa í stjórn. Guðrún er því einskonar formaður og framkvæmdastjóri stofnunar sem svarar ekki neinum félögum eða stjórn, nema þeirri sem hún stýrir sjálf. Staðan á Stígamótum er þannig ef þú hefur eitthvað út á Guðrúnu að setja sem hún ætlar ekki að taka til sín (því hún tekur nú alveg líka stundum gagnrýni) þá er eina leiðin fyrir starfsmanninn að fara.

Rekin

Ég var látin fara. Ég bað um óháðan vinnusálfræðing til að meta aðstæður eða að öðrum kosti fá að semja um starfslok. Áður en því var svarað var búið að taka af mér ráðstefnuferð á mínu sérsviði og afbóka öll viðtölin mín. Þegar ég reyndi að mæta í vinnuna og ræða málin var öskrað á mig og ég rekin heim þangað til búið væri að taka ákvörðun. Það var stofnaður nýr aðgangur á tölvupóstinn minn og farið þangað inn til að ná í upplýsingar, frekar en að hringja fyrst í mig eða senda mér tölvupóst til að biðja um þær. Allir starfsmenn hættu að kommenta eða setja like á facebook hjá mér. Svo kom uppsagnarbréfið í pósti, án þess að ég fengi svo mikið sem að kveðja samstarfsfólk eða þá sem ég hafði verið með í viðtölum.

Ég tók það ótrúlega nærri mér að missa öll tengsl við fyrrum vinnufélaga á einu bretti. Þögnin varð skerandi og mér leið eins og ég hefði gerst sek um einhvern stórkostlegan glæp. Ég sá myndir úr jólaskemmtun Stígamóta þar sem gömlum starfsfélögum er oft boðið og fékk hnút í magann. Mér var ekki boðið. Þegar allir snúa við þér baki og neita að tala við þig þá er ekki hægt að grípa í aðrar skýringar en sjálfsásakanir og sjálfshatur.

Ég stíg fram vegna þess að ég gerði ekkert rangt, ég hef ekkert til að skammast mín fyrir. Ég er svo heppin að ég á gríðarlega fjölmennt og sterkt bakland sem styður mig í gegnum þetta. Þá er ég ólýsanlega þakklátt öllu því ókunnuga fólki sem hefur gefið sér tíma til að setja sig í samband við mig og hvetja mig áfram. Ég bý við þá gríðarlegu forréttindastöðu að geta borgað fyrir mína eigin áfallameðferð hjá sálfræðingi sem sérhæfir sig á því sviði. Sálfræðingi sem skrifaði fyrir mig þennan miða sem ég reyni að lesa á hverjum degi „Muna að það sem kom fyrir mig segir ekkert um mig, heldur allt um aðstæðurnar sem ég var í og fólkið þar“.

Höfum hátt! Skilum skömminni! Ofbeldi á hvergi að líðast!

 

4 athugasemdir við “Ofbeldið sem ekki má ræða

  1. Ég er stolt af þér Helga fyrir að stíga fram. Ég hef ekki séð þessa þöggun og úthúðun á þér á netinu heldur eingöngu fréttir af málinu. En þannig er það auðvitað oft. Fullt af fólki sér hvorki ofbeldið né þöggunina; verst að sumir þeirra hafa ekki vit á því að þegja. Mér svíður það alltaf jafn mikið þegar manneskja segir einhverjum öðrum að þetta geti nú ekki verið svo slæmt og bla, bla. Ég þekki þig aðeins og sendi þér minn dýpsta kærleik og styrk í áfalladalnum sem þú ert að ganga í gegnum sem þolandi ofbeldis…aftur. Ég hef verið þar. Þetta er ógeðslega erfitt. Ég vona svo sannarlega að þú sleppir því sem mest að skoða fb og netið; þar eru alltaf vitleysingar sem vita minnst um það sem þeir eru að tjá sig um. Vona að þú getir leitað til annarra stofnanna eins og Virk eða göngudeildar Klepps sem ég hef góða reynslu af. Ég brotnaði sjálf niður í starfi fyrir um 2 árum. Sendi þér alla vega engla, styrk og knús í dalnum og óska þér góðrar batagöngu í kjölfarið.

  2. Mér finnst undarlegt að tala um þöggun þegar sagðar hafa verið fréttir af þessu máli dögum saman og varla mörg önnur mál óánægðra fyrrum starfsmanna sem hafa fengið meiri athygli. Bendi líka á að þetta er mjög einhliða frásögn og sjaldan veldur einn þegar tveir deila.

  3. Ég fylgist með þessu máli og vona að það verði unnið almennilega í því. Mér hefur alltaf þótt það hættulegur boðskapur að konur megi ekki gagnrýna konur – það býður upp á meðvirkni/þrælslund og þá komumst við ekkert. Umræða þarf að vera opin og heiðarleg. Gangi þér vel.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.