Furðulegar paradísir – 2. hluti

Höfundur: Mona Chollet, Kristín Jónsdóttir þýddi úr frönsku. Greinin birtist upphaflega á peripheries.net þann 1. maí 2012. Þetta er annar hluti, 1. hluti birtist í gær.

Höfundurinn, Mona Chollet, er knúzaðdáendum ekki ókunn, því hér hefur áður birst grein eftir hana í þremur hlutum: Kvenlíkaminn: Tilbeiðsla eða hatur? III og III. Mona Chollet er blaðamaður á Monde Diplomatique og bloggar um femínisma á peripheries.net.

 

 

Irène Jonas:

„Lærdómur breytir byggingu og virkni mannsheilans, ekki eingöngu í bernsku heldur einnig á fullorðinsárunum.“

Irène Jonas gefur lítið fyrir þessi rök. Hún minnir á að „mýtan um hrein vísindi“ hafi verið skotin niður af heimspekingnum Pierre Thuillier sem taldi ekki mögulegt að einangra eina vísindagrein sem væri hlutlaus, raunsönn, með skýrt notkunargildi. Það sem helst er hægt að finna að þróunarsálfræðinni, bætir Odile Fillod við, er ekki að hún gefi tækifæri á að endurnýta vafasamar kenningar, heldur fremur að hún dulbýr einfaldar tilgátur sem vísindalegar staðreyndir. Þar að auki minnir Irène Jonas á að ef virkilega þarf að tala um vísindi „hefur segulómunartæknin sýnt fram á fjölbreytta og einstaklingsbundna virkni og byggingu heilans og hve mótanlegur hann er.“ Hegðun okkar er því síður en svo grafin í heilann líkt og mynstur í marmara. Þessar uppgötvanir „úrelda ýmsar hugmyndir um mismunandi virkni milli kynja og styðja það að menningarlegur og félagslegur bakgrunnur sé líklegri til að hafa áhrif á hegðun og hæfni fólks af mismunandi kyni.“ „Tengingar eru í stöðugri endurskipulagningu/endurröðun í tíma og rúmi, hvort sem um er að ræða nýjan lærdóm eða leiðréttingu á göllum,“ skrifar hún. „Lærdómur breytir byggingu og virkni mannsheilans, ekki aðeins í æsku heldur einnig á fullorðinsárunum.“

Þó að við séum ekki alltaf meðvituð um þá staðreynd að hegðun okkar stýrist af þörf til að fjölga okkur, er það, samkvæmt Nancy Huston, af því að „mannlegt stolt“ hindrar það: „Í barnaskap og af óbilandi staðfestu erum við sannfærð um að vita hvað við gerum og gera það sem við viljum.“ Aftur á móti erum við beðin um að trúa orðum vinar hennar sem er listmálari þegar hann segist „algerlega sannfærður“ um að „það sem gerist þegar karl horfir á kvenlíkama“ sé af „erfðafræðilegum uppruna.“ Er ekki einmitt ástæða til að draga í efa þessa tálmynd sem lætur okkur eilíflega vanmeta mátt menningarinnar og ganga út frá því að það sem við sjáum gerast í kringum okkur, hjá okkur sjálfum og öðrum, sé genin, líffræðin eða „erfðafræðilegt“?

Maður hefur það á tilfinningunni að barnaskapurinn felist frekar í því að trúa á líffræðilega nauðhyggju. Manni fallast hendur þegar Huston telur staðreyndir á borð við að „90% fanga séu karlar,“ að „konur sjáist sjaldan fikta í bílvél,“ að „stúlkur og drengir haldi áfram að leika sér á mismunandi hátt í frímínútum,“ eða þá harmræn örlög Camille Claudel sanna óhagganlegan kynjamun. „Ef kvenleikinn er á engan hátt ólíkur karlmennskunni,“ spyr hún, „hvernig má þá skýra að karlar eiga peningana, stjórna vélum og fyrirtækjum og svo framvegis?“

 

Klisjur í hrúgum

Með viðlíka frumsendu í upphafi er ómögulegt annað en að festast í verstu klisjum. Karlmenn leitast við að dreifa sæði sínu sem víðast meðan konur vilja tryggan lífsförunaut sem getur stutt þær á meðgöngunni og í uppeldi unganna, sem skýrir hvers vegna fyrrnefndi hópurinn hefur aðallega áhuga á því „að ríða“ en seinni hópurinn frekar á „ástinni“. Þeir þefa uppi „eins unga og fallega rekkjunauta og mögulegt er“ meðan þær þrá víst „eins ríka, sterka og trúlynda lífsförunauta og mögulegt er“. Þeir eru með mikla „kynlífsóra og fróa sér oft“, „leita annað“, meðan þær „þola kynlífsleysi frekar vel“ og, ef marka má skoðanakönnun, meta þær meira en nokkuð annað „stundina þegar við sofnum saman þétt upp við hvort annað“.

Mér detta strax í hug mótrök: Hvað með undantekningarnar? Hvað með karla sem eru trúir af því að þeir vilja það? Konur sem eru það ekki? En þær sem hafa áhuga á kynlífi en ekki bara ást og nánd, sem eiga sína kynlífsóra og sem fróa sér oft? Þær sem verða ástfangnar af fátækum eða jafnvel slæmum strák sem er ekki líklegur til að vera traustur lífsförunautur? Þá sem falla fyrir konum sem eru ekki ungar eða ekkert sérstaklega fallegar? Þær sem er sama um það hvernig þær eru klæddar og þá sem eru pjattaðir? Hvar lenda samkynhneigðir, sem vart er hægt að gruna um að stunda kynlíf til fjölgunar mannkyninu? Ef við aðhyllumst kenningu um líffræðilega nauðhyggju neyðumst við til að velja annað tveggja: annað hvort er hegðunin sem hún lýsir ófrávíkjanleg og þau dæmi sem nefnd eru hér að ofan eru þá einstaklingar sem eru mistök í náttúrunni, sjúkir, frávik í sterkustu merkingu þess orðs, og þá þarf því að meðhöndla í samræmi við það; eða þá að hægt er að stjórna þessari hegðun, við höfum þá val um að geyma það sem við teljum viðeigandi og sleppa því sem ekki hentar.

En ef mögulegt er að að láta fyrirmæli sem eiga að koma úr innsta kjarna fruma okkar sem vind um eyrun þjóta, ef þau eru ekki ráðandi, af hverju þarf þá að leggja svona mikla áherslu á þau? Hvert er hún að fara? spyr maður sig. Hvaða ályktanir þarf að draga, samkvæmt henni, af þessari undirgefni gagnvart líffræðilegum kröfum/þörfum sem kenningar hennar fjalla um? Hún virðist ekki vita það alveg sjálf. Þegar þetta er haft í huga, verður Reflets dans un œil d’homme hálfruglingsleg. Með því að taka upp þessar fullyrðingar verður Huston hált á brautinni þótt hún sé sjálf á svo margan hátt allt annað en afturhaldssöm.

 

Tvíbent afstaða milli afturhaldssemi og lágmarksfemínisma

Ýmislegt í máli hennar fær mann til að hrökkva í kút. Til dæmis þegar hún minnist á mál Véronique Courjault, sem var dæmd árið 2009 fyrir að hafa drepið þrjú nýfædd börn sín. „Vandamál þessarar konu“, segir hún, „er að hún var aldrei búin undir móðurhlutverkið“. Svo ber hún örlög hennar saman við jafnréttismiðaðar uppeldisaðferðir sem beitt er í sænskum skólum og sem hún virðist hafa vanþóknun á. Hún kemst að eftirfarandi niðurstöðu: „Ef við höldum áfram á þessum nótum er hætta á því, jafnt í Frakklandi sem og í Svíþjóð, að frosnum ungbörnum fjölgi. Við getum ekki bæði hneykslast á því að stúlkur séu búnar undir framtíðina með barneignir í huga og furðað okkur á því að þær sem verða mæður án þess að hafa fengið undirbúning troði fóstrinu í ísskápinn.“

Með öðrum orðum, ef við ölum stúlkur þannig upp að þeim sé ljóst að margir möguleikar séu í boði í framtíðinni, dæmum við þær þá til að verða „afbrigðilegar“ mæður og mögulega barnamorðingjar?! Það er kaldhæðni örlaganna að á sama tíma og ég las þessar línur voru réttarhöldin yfir Anders Behring Breivik að hefjast í Noregi. Hann hneykslaðist á því í vitnastúku að „allt í einu væru norskir skólar farnir að kenna drengjum að prjóna og elda mat og stúlkum tré- og málmsmíðar“. Málflutningur Huston er ekki langt frá þeim sem Eric Zemmour hefur haldið á lofti og skrifaði til dæmis í Le Premier sexe: „Meðan konur búa aðeins til eitt barn á ári munu þær leita að karlinum sem er best til þess fallinn að vernda barnið þeirra.“

Það sem truflar mest er þó að í bókinni finnst einnig beitt og sannfærandi greining á því hvernig konur eru háðar útliti sínu sem og hvernig kúgun er réttlætt með því sem kallað er náttúrulegt eðli – meðal annars nokkrar mjög sterkar blaðsíður um vændi og klám. Þótt Huston kalli eftir því að „neita ekki því sem er,“ tekur hún fram að „með því að benda á þessar staðreyndir sé hún ekki að samþykkja þær“ og að „þó að hegðun sé eðlislæg er ekki þar með sagt að hún sé heilög, aðdáunarverð eða ósnertanleg“. „Að segja að hegðun sem lýsir kvenfyrirlitningu sé af líffræðilegum uppruna þýðir ekki að það eigi ekki að berjast gegn kvenfyrirlitningu“ er niðurstaða hennar. „Hlutverkin sem við leikum í kynverundarleikhúsinu hafa verið mýkt, þökk sé kvennabaráttunni,“ bendir hún á og gleðst yfir því, þar sem hún telur að „því meira svigrúm sem maður hafi í þessum málum, því betra“. En hvernig eigum við að berjast gegn líffræðinni?

Þessi tvíbenta afstaða, milli afturhaldssemi og lágmarksfemínisma, minnir mig á þær Delphine og Muriel Coulin, kvikmyndagerðarkonur og höfunda 17 filles. Líkt og þær er Nancy Huston sek um brot á reglum þegar hún tekur að sér hlutverk hugsuðar og skapara, hlutverk sem hingað til hafa verið eignuð körlum. Líkt og þær virðist hún finna hjá sér ákafa þörf fyrir að sýna fram á að þrátt fyrir þetta brot sé hún kvenleg á hefðbundinn hátt. Það er táknrænt að hún talar um að þegar hún enduruppgötvar hinn gamla góða sannleik að konur „snyrti sig“ af því þannig er það, punktur, sé sú uppgötvun sigur yfir „hugsuðinum“ í sér: „Ég vissi það, auðvitað. Rithöfundurinn í mér vissi það; konan, unglingsstúlkan og litla telpan vissu það; aðeins „hugsuðurinn“ í mér neitaði því áfram, stundum, að vita það, vegna kreddunnar sem er allsráðandi á okkar tímum, jafn fáránleg og hún er óhagganleg, kreddu sem gengur út á að mismunur kynjanna sé félagslega áunninn.“ Þróunarsálfræðin byggir jafnt á virðingu fyrir vísindum og „heilbrigðri skynsemi“; Huston virðist fremur velja að byggja á „heilbrigðri skynsemi“, langt frá spilltum forréttindum og karllægni sem heimur hinna hugsandi manna stendur fyrir. Þetta minnir mig á ávítur gagnrýnandans Jasques Siclier í umfjöllun sinni um fyrstu kvikmynd Agnès Varda, árið 1954: „Svo miklir vitsmunir hjá ungri konu eru á vissan hátt truflandi.“

Framhald á morgun …

2 athugasemdir við “Furðulegar paradísir – 2. hluti

  1. Bakvísun: Furðulegar paradísir – 3. hluti | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.