Frá Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur forsetaframbjóðanda: Stelpur eru stríðnispúkar

Höfundur: Elísabet Kristín Jökulsdóttir

Þegar ég fór á AA-fund í hádeginu til að búa mig undir kappræðurnar um kvöldið, og ræða það hvort ég ætti að gera Free The Nipple en ég hafði gert Free The Nipple í Sundhöllinni daginn sem það var boðað, tók niður hlýrana á bolnum fyrir sundlaugarverðina og það var satt að segja mjög hressandi og ég fann lífskraftinn streyma um mig, en það þarf oft mikið hugrekki að hleypa lífskraftinum að, en hinsvegar ef maður bælir hann niður getur maður orðið veikur eða leiðinlegur, en hvað um það, hugmyndin hafði kviknað kvöldinu áður þegar ég horfði á þátt í sjónvarpinu og viðtal við unga konu sem sagði eitthvað á þá leið að þær hefðu þurft að safna hugrekki til að gera Free The Nipple. Auðvitað. Ég held alltaf að þetta unga fólk geri allt eins og að drekka vatn og hópurinn hjálpi til. En maður tekur ekki skref án hugrekkis. Svo ég hugsaði mér að gera þetta fyrir unga fólkið, að ein gömul kona í kappræðum gæti tekið niður hlýrana í beinni útsendingu.

Og sérstaklega ef hún er í forsetaframboði.

Því ég hef heyrt talað um sóma.

Tvær konur og einn maður hafa efast um að ég sæmi embættinu.

Ókei, þeirra skoðun en hvað er sómi? Er það að geta haldið andlitinu í réttum skorðum og pípað út um ofurlítið gat í andlitinu. Er það að vera tilgerðarlegur, upphafinn, taka allt svo hátíðlega?

Það er mikill sómi að því að geta gert grín að sjálfum sér, það sýnir að maður er frjáls.

Það er sómi að hlusta á sjálfan sig og aðra. Enda reyndi ég að hlusta á þetta fólk og tókst það svo vel að ég fór að velta fyrir mér hvað væri sómi.

En áfram með Free The Nipple.

Ég viðraði þetta sem sagt á fundinum og komst að því að með því að gera Free The Nipple þá myndi allur dagurinn fara í stress út af því. Í staðinn þurfti ég að lesa stjórnarskrána, fara í hugleiðslu.

Elísabet Kristín klædd fánalitunum.

Elísabet Kristín klædd fánalitunum.

Með því að lesa stjórnarskrána svona gaumgæfilega komst ég að einu mjög merkilegu, að grein nr. 7 kveður á um meðfæddan rétt manneskjunnar til lífs, og grein nr. 8 kveður á um mannlega reisn og síðan kom grein nr. 33 þar sem réttur náttúrunnar var tryggður og loks grein nr. 36 þar sem réttur dýra var tryggður og hugað skyldi að dýrum í útrýmingarhættu, en það eru aðeins tvær aðrar stjórnarskrár í heiminum sem passa uppá dýrin. En þarna voru komnar fjórar greinar sem nánast boðuðu shamanisma eða heiðni, hringrásin var tryggð, allir voru með, maðurinn, náttúran og dýrin.

Annað en í Biblíunni þar sem maðurinn skal drottna yfir öllu saman.

Þessi nýja stjórnarskrá er ekki bara stjórnarskrá, hún er lykill sem opnar margar skrár í heiminum.

Þessi stjórnarskrá er ein af stóru breytingunum í heiminum.

En áfram með Free The Nipple.

Eftir fundinn var ég að slæpast inn á kaffistofu og þar voru tvær stelpur á aldri við mig sem flissuðu og voru svo kátar yfir Free The Nipple umræðunni í máli mínu. Já ha ha, hvernig væri það bara, hvað ætlarðu að gera, væri það ekki sniðugt, sögðu þær og voru samstíga í þessu. Og þarna var karlmaður að mata uppþvottavélina sem sagði: Nei, þú skalt ekki gera það, það er búið, hún Vigdís sagði á sínum tíma að hún ætlaði ekki að hafa þjóðina á brjósti. Ég hummaði, það var nú aðeins öðru vísi, og núna þegar ég skrifa þessa grein uppgötva ég að kannski þarf að koma að einu brjósti á þrjátíu ára fresti sem er veifað framan í oss.

En það tekur Júpíter þrjátíu ár að fara í kringum sólina.

Svo kom annar maður og sagði: Jæja gangi þér vel í kvöld og ekkert rugl!!

Það var næs af þeim öllum að hafa áhuga á þessu grafalvarlega máli en ég uppgötvaði eitt og það var að stelpur eru stríðnispúkar, flissandi og vilja fara yfir strikið, færa valdmörkin. En strákarnir eru verðir og passa uppá þau.

Enda hefur oft hvarflað að mér þegar ömmustelpurnar mínar eru allar samankomnar, þá slá þær út strákana mína, flissið og stríðnispúkahláturinn, fjörið og dansinn og skansinn svo óskaplegur að maður fær sinn skerf af lífskrafti.

En aðeins með því að gefa sig honum á vald.

Þannig eru stelpur, alltaf hlæjandi, flissandi, organdi af hlátri.

Og þannig sáldrast veggirnir niður.

Sem reistir hafa verið utan um ekkert.

Það finnst okkur svo fyndið.

Enda er þetta ekkert kallað allt.

En þegar veggirnir hafa verið rifnir niður með því þegar maður er að rifna af hlátri eins og þegar kona rifnar af barnsburði, en veggirnir hafa verið rifnir niður þá tekur kona hest sinn og ríður til Skagafjarðar þarsem hesturinn veður í mýrinni og miðnætursólinni.

En það er eins og strákar séu verðir fyrir stelpur, þeir passa uppá viðeigandi hegðun, skamma, byrsta sig, ekkert rugl segja þeir sem getur verið vel meint en hvað meina þeir. Vörðurinn er ekki þeirra uppfinning, þeir eru á verði fyrir samfélagið.

En við skulum grípa niður í skáldsöguna Júdit Selfoss, Júdit bjó hjá ömmu sinni á Bergþórugötunni og þangað var stanslaus straumur af konum sem sögðu sögur af sjálfum sér og hlógu viðstöðulaust að hörmungum og óförunum.

„Amma segir að kellingarnar inni hjá henni hefðu allar komist í Drekkingarhyl, svo hlæja þær svoleiðis einsog þakið ætli að rifna af húsinu, hvernig var þetta Mæja þegar þú hittir kanann…. ha ha hahahahahahhahahahahhahahahhahahahahha…. fékkstu ekki lekanda hahahahahahaha… hann var nú sætur hahahahaha. Ég dýrka að hlusta á hana tala um þær, einsog Báru. Amma heldur verndarhendi yfir Báru, hún passar þær allar, hahahahahhahahahhahahahahah….. já. Mamma hennar Báru hét Nanna. Nanna var aldrei með neinum og ætlaði aldrei að vera það og var orðin 39 ára alltaf hrein mey, alveg vaxið fyrir, hahahahahhahahahha….. svo leigði hún einhverjum 18 ára unglingi forstofuherbergið og hann barnaði hana hahahahhahahahahhahah… alveg heilagur andi, og þær voru svo samrýmdar Bára og mamma hennar, Bára var geðveik skvísa, þekkti allt liðið og kunni að klæða sig, alltaf uppstríluð og dressa sig upp allan daginn, ógeðslega mjó hahahahhshahahahhaha… hahahahaha, svo fór hún að vinna í sendiráðinu í Osló og var aldrei með neinum svo flutti mamma hennar út, þær voru saman í svefnherbergi, geðveikt dúllulegt hjá þeim, bleikar blúndur og satín hahahahahaha, og nú er Bára á Kanaríeyjum, hún er að verða áttræð og það var rosamál þegar hún fór til Kanaríeyja, hún fer á hverju ári og þurfti að vakna klukkan fimm tilað ná vélinni, hahahahahhahaha…. og hún er með dömu sem tekur til hjá henni og sefur til hádegis, marga klukkutíma að vakna, fær sér sjérrí klukkan fimm, hún er alkóhólisti hahahahahahahahahhaha… heyrðu jú, hún giftist Haraldi, hann gekk í frakka með loðkraga, rosalega hávaxinn og svo fékk hann krabbamein í vélindað hahahahahahahahahha… þetta var svakaleg tragidía hahahahahahahaha, hann fór á nokkrum mánuðum.

Svo er það Lísa sem er alltaf að drepast úr ást, hún grætur svo yfir öllum sem hún verður skotin í og amma segir Lísa þú ert sorgmædd en ekki ástfangin er það segir Lísa er það er ég sorgmædd ha hahahahahahahaha en veistu ég hitti flugstjóra sem er nýskilinn við konuna sína og búinn að vera edrú í tvo mánuði, hann heyrir aldrei orð af því sem ég segi nema ef ég tala um hann hahahahahah, ég bara á ekkert að vera hitta hann hann er nýskilinn við konuna og ég er ekki að sjá að hann hitti börnin sín ha hahahahahaha, og ég þori ekki að gera hann ástfanginn af mér af því hann er nýbúinn að reyna þrisvar að drepa sig og ef hann verður in love with me þá gæti hann reynt að drepa sig hahahahahahahahhahaha og þá sagði amma, nú reyndu við hann manneskja, ef hann drepur sig þá mætum við allavega í jarðarförina hahahahhahahhahhahahahhahaha.

Svo er ein sem heitir Hildur og hún var alltaf hjá konunni á Túngötu og lá undir þeim alveg stjörf hahahahahahah… og beið eftir að þetta yrði búið og þeir tóku ekki eftir neinu, voru bara í hjakkinu, loveyouloveyou hahahaha. Svo stakk hún einhvern vörubílstjóra í punginn og fékk ekki vinnu eftir það en þeir voru allir á eftir henni hahahahahhahahah… hún flutti út á land, svo kom hún til ömmu og amma lánaði henni bílinn. Gættu þín, sagði amma. Ég þarf bara að skreppa í Hagkaup, sagði Hildur þá. Svo gleymdi hún sér og hringdi í ömmu frá Dalvík og hafði óvart keyrt þangað með allt sem hún keypti úr Hagkaup. Hún hafði verið gefin. Mamma hennar bara gaf hana. Hún gat ekki hætt að selja sig hahahahahahahhahahahaha…“

Svona hlæjum við konur og mennirnir eru á verði, að við hlæjum ekki of mikið og hlæjum helst ekki neitt, hlátur er leið inní líkamann, ofan í líkamann og hið líkamlega er tabú, við eigum að hugsa sem mest og hafa hugmyndafræði en ekki tilfinningafræði, það var reyndar eiginmaður kanadíska landsstjórans sem stakk uppá því að við hefðum tilfinningafræði, að Vesturlönd og Norður-Ameríka væru að hugsa allt í hel.

Ég man ekki hvort hann sagði hel.

En Hel er gyðja sem étur hugsanir þegar þær verða of margar og þegar þær verða veggur sem umlykur okkur.

Og þá verðum við stelpurnar að dúkleggja klárinn okkar, skáldfákinn og þeysa burt berbrjósta með lykillinn að skránni.

*

Það heimsótti mig kona meðan framboð mitt stóð sem hæst, hún var fræðingur á sviði kvenna, hún sagði að það væri ekki lengur hægt að sameina konur, Kvennalistinn heyrði sögunni til, konur hefðu svo mörg og margvísleg hagsmunamál. En þá dettur mér eitt í hug sem gæti sameinað konur; hláturinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.