Kvalarar

Höfundur: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir.

tw

„Það er trú mín að þeim sem mikið er gefið sé um leið fengin sú ábyrgð að verja auði sínum vel. Varðveittu hreinleika hugans, hlustaðu á samvisku þína, þá ertu á réttri braut.“

Afi minn á þessi orð, þau eru tekin úr ræðu sem hann hélt fyrir mig á fermingardaginn minn. Eftir þessu hef ég reynt að lifa og það er í þeim anda sem ég skrifa það sem hér fer á eftir.

Sem barn fann ég stundum fyrir kynferðislegum áhuga fullorðinna karla á mér. Ég veit ekki hvað það var sem gerði mig útsetta fyrir þessu en frá tíu ára aldri upplifði ég alloft kynferðislega áreitni og kynferðislegan áhuga frá fullorðnum körlum. Ég var sjálfstætt barn með sterkar skoðanir og vilja, ég var oft ein í strætó eða sundi eða annarsstaðar á almannafæri. Þegar ég fann að einhver karl var að horfa á mig og mér fannst hann hafa eitthvað misjafnt í huga reiddist ég og starði mjög stíft á móti.

Ég ræddi þetta einhverntímann við ömmu sem ráðlagði mér eindregið að mynda alls ekki augnsamband við þessa karla. Það var ekki fyrr en mörgum mörgum árum seinna sem rann upp fyrir mér af hverju amma hafði sagt þetta. Perrakallarnir skildu ekki hvað ég meinti með augnaráðinu. Ég var að reyna að hrekja þá í burtu. Ég var að segja: „Ég veit hvað þú ert að hugsa, ógeðið þitt. Láttu mig í friði.“ En þeir skildu það öðruvísi. Kannski fannst þeim ég vera að sýna þeim áhuga. Kannski héldu þeir að þetta þýddi að það mætti misnota mig. Kannski fannst þeim ég vera að bjóða þeim byrginn, ögra þeim og segja: „Komdu ef þú þorir.“ Ég veit það ekki. En ég held að amma hafi haft rétt fyrir sér; þegar þeir náðu augnsambandi við mig ákváðu þeir að koma nær.

Mér fannst fæst þessara tilvika sérstaklega alvarleg. Þeir voru aðallega í því að glápa og glotta. Gáfu sig kannski á tal við mig í strætó og spurðu einhverra óviðeigandi spurninga. Og ég kom mér bara í burtu. Einn spurði mig óviðeigandi spurninga í heita pottinum í Sundhöllinni. Ég forðaði mér uppúr en hann beið eftir mér fyrir utan og reyndi að lokka mig heim til sín með gylliboðum. Ég tók til fótanna niður á Hlemm og uppí strætó og var svo hrædd að ég mundi næst eftir mér í Breiðholtinu.

Einhverjir flössuðu á mig. Ég var svo lánsöm að eiga foreldra sem útskýrðu fyrir mér að flassarar væru sjaldnast hættulegir, þeir vildu bara fá að sýna sig, ekkert annað. Best væri að hlæja að þeim ef maður væri í óþægilega miklu návígi. Kannski gera grín að typpinu á þeim. Ég þurfti sem betur fer aldrei að gera það en ráðið var gott að því leyti að það var valdeflandi að hafa það í farteskinu. Ég var meðvituð um að ég hefði þetta góða vopn og sú meðvitund gerði mig sterkari.

En einum þessara karla tókst að hafa alvarleg og djúpstæð áhrif á mig. Hann rak sjoppu rétt hjá húsinu mínu. Ég vandi komur mínar þangað á kvöldin, hann spilaði við mig, gaf mér kók og leyfði mér að fara „á bakvið“ sem er sjúklega spennandi þegar maður er 11 ára. Hann gerði engar athugasemdir við að ég skoðaði gömul dónablöð í kjallaranum „á bakvið.“ Tígulgosann eða álíka. Þetta kerfi rúllaði í langan tíma. Ég skildi það auðvitað ekki fyrr en seinna en hann var að grooma mig. Hann var að ávinna sér traust mitt, veikja varnirnar mínar og bíða færis. Þetta virkaði vel. Einu sinni hringdi ég sérstaklega út í sjoppu að kvöldi til vegna þess að ég vildi tryggja mér að þessi tiltekni maður væri að vinna áður en ég legði af stað þangað. Ég átti ekkert erindi í sjoppuna annað en að hanga hjá honum, spila og drekka kók. Og það var einungis hægt að gera ef hann var á vakt og ef hann var einn á vakt. Svo mikið hafði mér skilist.

Einhvern daginn kom ég inn í sjoppuna með vinkonu minni. Þegar við komum inn spurði maðurinn hvort við vildum vinna okkur inn hundraðkall. Við urðum mjög spenntar fyrir hugmyndinni um sitthvorn alvöru hundraðkallinn en spurðum samt fyrst hvað við þyrftum að gera. Það stóð ekki á svari:

„Klæða ykkur úr buxunum.“

Í sjoppunni ríkti algjör og óbærileg þögn. Við vildum mest hlaupa í burtu. En við vildum líka mest að þetta væri ekki að gerast. Við vildum að hann segði okkur að hann væri að grínast. Og það gerði hann – en ekki fyrr en að margra sekúndna þögn liðinni. Og allar þessar sekúndur, sem voru auðvitað hálfan mánuð að líða, sá ég og heyrði og fann og skynjaði með öllu sem ég átti til að hann var að rannsaka viðbrögðin okkar. Hann var að fylgjast með því hvernig okkur liði með hugmyndina. Hann var að þreifa á því hvort það væri tímabært að byrja.

Ég snarhætti að hanga í sjoppunni eftir þetta. Ég var hrædd við þennan mann og ég var alltaf hrædd ef ég neyddist til að ganga framhjá sjoppunni. Einhverju síðar, kannski ári, kom lögreglan í sjoppuna um hábjartan dag, handtók manninn og skellti í lás. Hann var svo dæmdur í héraðsdómi í desember 1994 fyrir að hafa tælt eitt barn í hverfinu til kynferðismaka og reynt að tæla annað. Hann játaði brotin en krafðist sýknu fyrir dómi enda hefði barnið verið mjög viljugt. Hann hlaut sex mánaða fangelsisdóm.

Þessi maður gerði mér aldrei neitt beinlínis verra en að bjóða mér greiðslu fyrir að klæða mig úr buxunum. Eða eigum við að segja: honum tókst aldrei að gera mér neitt verra. En ég skildi hvernig hann var og ég vissi hversu nálægt honum ég hafði farið. Ég vissi að eitthvað alvarlegra hefði getað gerst. Hæglega. Og ég var svo mikið hrædd. Í svo langan tíma.

Árin liðu og ég fullorðnaðist. Eignaðist barn og flutti að heiman í allt annað póstnúmer og gerði allskonar. Ég var 25 ára og var að þjóna á veitingastað í næsta nágrenni heimilis míns eitthvert kvöldið þegar maðurinn úr sjoppunni stóð allt í einu í miðri þvögu gestanna. Hann horfði beint í augun á mér í langan tíma og ég vissi að hann þekkti mig. Það mótaði einhversstaðar fyrir glotti. Ögrandi glotti. Þetta kvöld er í algjörri móðu. Ég man ekki nema brotabrot. Fótleggirnir urðu að vatnsbleyttu brauði, hjartað barðist um, ég svitnaði og mig svimaði. Mig langaði að grenja og öskra og segja eitthvað en ekkert gerðist. Ég man ekki hvort ég þurfti að afgreiða hann. Ég man ekkert annað en þennan lamandi ótta. Vinnufélagi minn sagði mér að kvalari minn ynni í sjoppu í nágrenninu. Í sama hverfi og ég bjó með barninu mínu. Í sama hverfi og barnið mitt gekk í grunnskóla. Grunnskóla. Ég átti eftir að sjá hann á veitingastaðnum í nokkur skipti í viðbót næstu árin og alltaf leið mér eins. Ég hafði orðið fyrir ýmsum tegundum af ofbeldi í gegnum tíðina, ég hafði upplifað allskonar hluti, en engin manneskja kallaði fram í mér sama lamandi óttann og þessi maður.

Ég var ráðalaus. Ég vissi, rétt eins og ég veit núna, að ég gat ekkert gert. Að minnsta kosti ekkert sem mér fyndist sjálfri siðferðislega réttlætanlegt. Maðurinn var búinn að taka út sína refsingu og hafði ekki orðið uppvís að öðru broti. Ég útvegaði mér dóminn sem hann hafði hlotið á sínum tíma, ég leitaði ráða hjá fagfólki og vinum mínum og fjölskyldu. Alltaf og allsstaðar var niðurstaðan sú sama; ég gat ekkert gert. Enginn gat gert neitt. Ég brýndi fyrir syni mínum að hann mætti aldrei, aldrei stíga fæti inn í þessa sjoppu. Hann vildi vita hvers vegna og ég sagði honum að þar ynni maður sem væri hættulegur. Hann vildi vita hvernig hann væri hættulegur og ég sagði honum að hann vildi meiða börn. Barnið spurði hvers vegna hann væri þá ekki í fangelsi. Það var lítið um svör. Ég var 25 ára og logandi hrædd við hann. Hann hætti á endanum að vinna í sjoppunni, ég hætti á veitingastaðnum og hófst handa við að reyna að gleyma að hann væri til.

Aftur liðu árin. Ég var þrítug á gangi í Lækjargötunni á leiðinni á stefnumót við vini mína á barnum þegar strætisvagn stoppaði við hliðina á mér á rauðu ljósi við Bankastrætið. Ég leit til hliðar og þarna sat hann í vagnstjórasætinu og starði enn á ný beint í augun á mér. Ögrandi eins og í hin skiptin. Og ég vissi, ég fann, að hann þekkti mig. Og fótleggirnir urðu umsvifalaust að blautu brauði, mér sortnaði fyrir augum og hjartað tók á rás. Ég komst einhvernveginn á stefnumótið mitt, sagði vinum mínum frá manninum og spurði enn á ný, í örvæntingu og vitandi svarið mætavel sjálf, hvað ég gæti gert. Ekkert. Ekki nokkurn skapaðan andskotans hlut.

Spólum áfram. Sumarið var 2013 og nafnið mitt orðið einhverskonar almenningseign. Því var (og er) fleygt til og frá í samtölum fólks í misgáfulegu samhengi og það var vitanlega ekkert sem ég gat gert í því heldur. Vinkona mín sendi mér tölvupóst um að einhver fáviti væri að kalla á mig á DV.is í athugasemdum við frétt um mann sem sat í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa ráðist á unga konu á heimili hennar. Fréttin fjallaði um sakaferil mannsins sem spannar allmörg ár og mikið ofbeldi, bæði líkamlegt og kynferðislegt og bæði gagnvart konu og barni. Sjoppumaðurinn úr æsku minni, kvalari minn til svo margra ára, átti efstu athugasemdina. Hann var í einkennisbúning vagnstjóra Strætó á prófílmyndinni. Hann spurði hvað Hildur Lilliendahl hefði um þetta að segja.

Hann virtist drukkinn. Skrifaði fleiri athugasemdir þar sem hann bar í bætifláka fyrir manninn sem fréttin fjallaði um. Sagðist hafa setið inni með honum ef ég man þetta rétt og að þetta væri góður maður sem ætti helst ekki að drekka því þá gerðist eitthvað slæmt.

Ég las athugasemdirnar og fótleggir urðu brauð og svo framvegis en aldrei slíku vant hugsaði ég hratt. Ég fattaði að valdið mitt fólst í að skila skömminni. Svo ég svaraði honum. Ég man ekki hvað ég skrifaði nema að ég minnti hann á að hann hefði áreitt mig kynferðislega þegar ég var barn. Hann eyddi athugasemdinni sinni og svarið mitt hvarf þar með líka inní tómið. Síðar eyddi hann öllum athugasemdunum sínum og í hádeginu daginn eftir var prófíllinn hans á Facebook horfinn.

Og aftur gat ég ekkert gert. Nú er ég 32 ára og ég get ekki skrifað þessa sögu án þess að líða mjög illa á meðan. Ég er með hraðari hjartslátt og hnút í maganum meðan ég skrifa þetta. Það er kvöld núna og ég hef verið að skrifa þetta smátt og smátt síðan í morgun. Í allan dag hefur mig langað til að gráta.

En ég verð að segja þessa sögu. Ég geri það hér og nú vegna þess að hún er ástæðan fyrir því að seinna þetta sama sumar, 2013, stóð ég orðlaus og agndofa af hneykslun og vonbrigðum frammi fyrir því að annar maður, sem hafði orðið uppvís að því áreita stelpu af minni kynslóð kynferðislega mörgum árum áður, hefði verið ráðinn til kennslu við Háskóla Íslands. Og enginn virtist ætla að gera neitt í því eða segja neitt við því.

Ég stundaði nám við þennan skóla. Ef minn ógnvaldur hefði verið ráðinn til kennslu við skólann sem ég valdi mér og treysti og þótti vænt um, þá hefði eitthvað gefið sig inní mér. Ég veit það fyrir víst. Það hefði eitthvað brostið. Ég veit ekki hversu alvarlegar afleiðingarnar hefðu orðið en ég veit að ég hefði ekki getað haldið áfram í náminu. Ég hefði hugsanlega misst trúna á að skólinn eða skólar yfirhöfuð gætu eða vildu gæta hagsmuna minna eins og mér finnst að þeir ættu að gera.

Skólar eru ekki bara skólar. Kennarar eru ekki bara til að dreifa glærum, fara yfir ritgerðir og gefa einkunnir og nemendur eru ekki dósir á færibandi. Stjórnendur skólans míns eiga að hafa velferð nemendanna að leiðarljósi, bera hag þeirra fyrir brjósti. Kennararnir mínir eiga að líta á mig sem skjólstæðing sinn. Góður skólastjórnandi og kennari, rétt eins og yfirmaður á vinnumarkaði, lítur á og kemur fram við hvern nemanda sinn, eins og starfsmann, sem skjólstæðing. Ég vil, og mér finnst sjálfsagt, að velferð mín, frelsi mitt til að líða eins vel og mögulegt er innan veggja skólans, sé keppikefli fyrir starfsfólk hans.

Í þessum anda og af þessum hvötum settist ég niður með Helgu Þóreyju Jónsdóttur vinkonu minni og við skrifuðum bréf. Opið bréf til Háskóla Íslands, skólans okkar, þar sem við spurðum hvort það ætti raunverulega að láta þetta viðgangast. Að hugsanlegir og mögulegir og raunverulegir þolendur þessa manns ættu að þurfa að upplifa það að stærsti og aðgengilegasti háskóli landsins ætlaði að ráða hann til kennslu, í skyldufagi, þrátt fyrir allt sem hann hefur gert. Úr varð að skólinn lét það ekki viðgangast. Jón fékk ekki að kenna þetta námskeið.

Að takast á við íslenskt samfélag dagana og vikurnar eftir að bréfið okkar Helgu birtist er það allra erfiðasta sem ég hef gert sem femínisti – og ég hef komið víða við. Femínistinn Hildur hefur gert og upplifað ýmislegt sem hefur tekið á taugarnar, valdið streitu, sársauka og hugarangri. Oft skipast fólk í fylkingar eftir afstöðu sinni og stundum verða átökin óendanlega þreytandi og leiðinleg. En þetta var ólíkt því öllu. Núorðið má nefnilega segja frá því á Íslandi að maður hafi verið beittur ofbeldi. En það má ekki segja: „Það var hann sem gerði það.“ Það má ekki nafngreina nauðgarann. Þá fer allt á hliðina.

Og þegar svo óheppilega vill til, eins og í tilfelli Guðrúnar Harðardóttur, að gerandinn er rokkstjarna; átrúnaðargoð íslenska vinstrisins, flottasta partíljónið, sjarmatröllið í kokteilboðinu í burberryfrakkanum, pinninn sem heldur flottustu boðin, á hvert bein í hverju herbergi sem hann gengur inní og baðar sig í dýrðarljóma allra allsstaðar, þá getur íslenskt samfélag ekkert.

Dagana og vikurnar eftir að bréfið birtist fann ég fyrir því viðstöðulaust hvernig við höfðum snert einhver kaun. Við höfðum komið við einhvern streng og samstaðan var rofin. Þetta var kannski fyrirsjáanlegt en mér hafði aldrei dottið það í hug. Vinstrinu ofbauð. Elítunni. Fína fólkinu sem skrifar bækurnar sem við lesum, kennir okkur í skólunum, ritstýrir fjölmiðlunum okkar og skrifar pistlana sem allir deila á Facebook. Þau kölluðu okkur fasista og nasista, þau notuðu fín útlensk orð með menningarlegar og sögulegar skírskotanir, þau töluðu um kvalalosta og gægjufýsn og hefndarþorsta, við vorum meinfýsin skítseiði, beiskjufullar og hatandi, við vorum talíbanar, við vorum kúgarar og brennuvargar og ég er rétt að byrja á upptalningunni.

Við höfðum móðgað vini okkar. Kommana, femmana, listamennina, kratana. Alla sem vanalega sýndu okkur í versta falli góðlátlega þögn og á sparidögum skrifuðu innblásna pistla og skáldverk og fyrirlestra til stuðnings málstaðnum okkar. Og við vorum svo skelfilega einar. Andrúmsloftið í kringum okkur varð rafmagnað á kaffistofum í vinnunni og skólanum, í félagslífinu okkar, í útgáfupartíunum og á barnum og í fjölskylduboðunum. Við horfðum á feðraveldið rísa upp á afturlappirnar og nötra. Nærvera JBH-málsins var áþreifanleg allsstaðar í lífi okkar. Páll Hilmarsson skrifaði pistil um þetta til varnar konunni sinni sem var í hálfgerðu taugaáfalli, stóð algjörlega magnvana gagnvart þessu skrímsli sem feðraveldið er. (Það þarf töluvert að ganga á til að maðurinn minn lyfti penna, ykkur að segja.)

Aldrei hefði mig grunað að það gæti verið svona erfitt að vera femínisti. Þetta var svo áberandi. Ungu femínistarnir stóðu með okkur, allir sem einn. En kynslóðin sem ólst upp við að dýrka Jón Baldvin fór í kleinu og brást við með ofbeldi. Fjölmiðlarnir voru óðir í málið, fréttaflutningur var allsstaðar og hann var mikill. En enginn fjölmiðill sóttist eftir því að tala við okkur Helgu. Enginn. Í alvöru. Ingimar Karl Helgason gerði merkilega úttekt á þessu undir yfirskriftinni Fimm prósent femínistar. Það sem gerðist í kringum þetta mál var svo stórt og kraftmikið að ég trúi því varla ennþá.

En nú er málinu að nafninu til lokið. Sennilega líður Jóni Baldvini vel með að hafa fengið hálfu milljónina sína. Honum líður örugglega vel með þann óhefta aðgang sem hann virðist hafa að gjallarhorninu sem endalausar heilsíðugreinar í helstu dagblöðum eru. Hann virðist ekki skammast sín fyrir að dreifa óhróðri um konurnar sem hafa staðið upp og sagt: „Það var hann sem gerði mér þetta.“ Hann virðist almennt alls ekki skammast sín fyrir neitt.

Ég vona að fólk geri sér grein fyrir því að svona hagar sér enginn sem raunverulega iðrast gjörða sinna. Þetta heitir ekki að hafa vilja til að bæta fyrir brot sín. Ef þú kúgar peninga og afsökunarbeiðnir út úr fjársveltri menntastofnun og beitir gjallarhorninu þínu til að tala um dómgreindarbrest og fjölskylduharmleik á latínu og fylla endalausa dálksentimetra af varnarræðum og reiðilestrum, þá ertu ekki þjakaður af samviskubiti.

„Það er trú mín að þeim sem mikið er gefið sé um leið fengin sú ábyrgð að verja auði sínum vel.“

Ég skil þetta svo að það sé í verkahring okkar sem erum nógu sterk, sem höfum nógu breitt bak, að hlusta þegar þolendur segja: „Nú þurfið þið að taka tillit til mín.“ Ég skil þetta svo að ég sé skyldug, af því að ég hef bæði rödd og vald, til að útskýra eins vel og ég get að JBH-málið snýst um stöðu þolenda gagnvart gerendum. Þessi lamandi ótti er ekki bundinn við mig. Fólkið sem líður svona þegar það stendur frammi fyrir gerandanum eða táknmynd gerandans er fleira en nokkurt okkar grunar. Ég skil orð afa míns svo að það sé á mína ábyrgð að verja nemendurna í Háskóla Íslands sem finna stundum hvernig fótleggirnir breytast í vatnsbleytt brauð. Hvatir okkar voru ekki hefndarþorsti.

54 athugasemdir við “Kvalarar

 1. Ó Hildur, þú ert svo mikill snillingur. Þú átt skilið öll hrósin og öll hughreystandi knúsin, því að þú berst ekki fyrir því sem er þægilegt og meinlaust, heldur fyrir því sem er rétt.

  Áfram þú,
  – Tinna

 2. Takk kæra Hildur fyrir góða grein. Vonandi nær réttlætið fram að ganga þó ansi sé orðið lítið eftir af þolinmæði, hjá mér a.m.k.

 3. Það er oft einmanalegt að eiga minningar um ofbeldi. Manni finnst eins og maður tilheyri einhverjum skrítnum ofurminnihluta og að maður eigi ekki að tala um þetta. Þegar aðrir þolendur lýsa sinni reynslu á hispurslausan og einlægan hátt eins og Hildur gerir hér er það mjög valdeflandi.

 4. Ætlaði að skrifa eitthvað frábært, eitthvað í líkingu við að segja takk á frumlegan og töff hátt en er eiginlega bara orða vant. Svo ég læt það bara duga. Takk.

 5. The only thing necessary for the triumph of evil is for good men to do nothing.

  Þessi orð Burke þó þau séu sögð á örðum tímum en í svipuðu samhengi samt, eru það sem mér finnst um baráttu þína Hildur og hefur alltaf fundist. Ég ætti að vera duglegri að segja það ekki endilega við þig heldur alla hina.

  Kveðja
  Hallur

 6. Ég er nú engu nær um þetta JBH. mál.
  Hefur skilist helst að þetta séu staðlausir stafir og ekkert sannast á manninn.
  Þar fyrir utan er tilfinningaruglið mikið í fyrri hlutanum sem skýrir kanski vel seinni hlutann.
  Finnst eins og þú sért fangi eigin tilfinningasemi.

 7. Takk Hildur. Ég man eftir svona köllum, einn keyrði strætó og einn var í sundhöllinni alltaf með tillann úti. Allir vissu af þessum köllum en engin gerði neitt. Takk Hildur fyrir að gera eitthvað. Knús.

 8. „Helvítis feminista-pakk“ eða eitthvað á þá leiðina virðist fylgja þér út um allt. Leiðinlegast finnst mér að til er fólk sem væri líklegt að nýta sér þessa grein til sem „staðfestingu“ á því af hverju þú ert þessi „helvítis feministi“. Það fer alltaf jafn mikið í taugarnar á mér þegar ég sé harðorða Íslendinga niðra þig og virðast bara gleyma því að þú ert manneskja með tilfinningar eins og allir aðrir. Alltaf virðist þú standa aftur upp harðari en fyrr eftir skítköstin sem er virkilega aðdáunarvert. Það hefur tekið mjög mikinn kjark að skrifa þennan pistil og þú ert hetja! Þú ert aðdáunarverð hetja! Ég vona að þú látir engum segja þér neitt annað.

 9. Þetta er frábær og vel skrifuð grein sem fær mig til að langa að skrifa helling, en hverju er við að bæta þegar grannt er skoðað? Engu! Stattu keik stelpa, ,,Varðveittu hreinleika hugans, hlustaðu á samvisku þína, þá ertu á réttri braut“, eins og afi þinn sagði svo vel 🙂

 10. Takk fyrir þessa góðu grein. Kári Emil hitti naglann á höfuðið og sagði það sem ég vildi sagt hafa. Óttinn lamar. En það er gott að finna að maður er ekki einn því svona upplifun gleymist aldrei.

 11. Ég hef ekki lagt það í vana minn að lesa greinar eftir þig Hildur,né heldur svara þeim og ég mun sein flokkast sem feministi,enda er skilgreiningin á því orði farin eitthvað sem ég ekki skil.
  En í þetta sinnið las ég grein þína af því að vinkona mín mælti með henni og ég verð að viðurkenna að ég las greinina 3 til þess ða vera fullviss um að ég væri að lesa rétt í orðin.
  Ég er búinn að vera hjá Strætó í 14 ár og ég veit ekki hver maðurinn er sem þú minnist á,en ef svo væri þá myndi ég slengja þessu framan í hann,misnotkun er að mínu mati ófyrirgefanleg og það skilur eftir sig djúp sár sem aldrei gróa eins og berlega kemur fram í grein þinni,égþekki það hins vega ef eigin reynslu og það tók mig mjög langann tíma að vinna mig út úr þeim málum og klára það sennilega aldrei,en og það er þetta stóra en,hvað fær þig eða aðra til þess ða halda ða konur geri þetta ekki,hjúkka,kennslukona,eða samfarþegi þinn í strætó,,,missi hendurnar svona óvart á óviðkomandi staði,eða matráðskona skríði upp í rúmmið þitt á nóttini,ég get tekið til fl atriði,ég fór ungur út í lífið og kom víða við og lærði það að þegar upp var staðið þá voru konur um flest lítt skárri en við karlarnir,þannig að ég á frekar bágt með að alhæfa eða samþykkja að karlar séu alltaf gerendur og út frá því sjónarmiði hafa skrif þín oftlega stuðað mig og vanhugsaðar athugasemdir varðandi kynhvöt eða kynfæri,en það er kanski þín aðferð til að ná athygli á skrifum þínum.
  Ég hef lesið flest það sem viðkemur þessu máli sem þú nefnir og nú bregður svo við að ég styð af heilum hug baráttu þina í viðkomandi máli.
  En aftur þá mun ég seint vera flokkaður sem feministi,ég er einstaklingssinnaður og trúi á einstaklingin sem slíkann,en ekki hreifingu eða samtök vegna þess að hjarðhegðun og já múgsefjun,hlutir sem þú réttilega bendir á á máli þínu um JBH,er ekki bundin við einstaka skoðun og kemur fram í alskonar birtingarmyndum.
  Ég ræddi þessa hegðun fólks við rithöfundinn Margit Sandemo sem skrifaði Ísfólkið og hún skilgreinir þetta vel í einni af bókunum og talar þá um hina réttlátu og það er sláandi hversu vel henni tekst að gera þessu skil,ég studdi Hildi í forræðisdeilu hennar við Kim,en eftir að Eva Hauksdóttir skrifaði um aðra hlið á Hildi og sagði frá samskiptum hennar við annan barnsföður,þá gerði eg mér grein fyrir að hjarðhegðun er okkur mannfólkinu eðlislæg,þ3ss vegna trúi ég ekki á neinn,,,isma,,, það er of þægilegt og auðvelt að segja bara já og amen við þeim sem leiðir hópinn í það og það sinnið.
  En þakka þér fyrir góða gein og upplýsandi og víst er um það að ég mun lesa oftar greinar eftir þig,en áskil mér allann rétt til að vera ósammála skoðun þinni eða samála.

 12. Hei það er sko alveg pláss fyrir þig.. og mætti rýma fyrir meiru ef þú þarfnast þess. Einstaklega góð grein um tilfinningu sem þolendur þekkja … Áfram !!

 13. Sæl Hildur, ég dáist að þér og óska þess að þú aldir ótrauð áfram. Ég held varla að maður tali við stúlkur sem ekki hafa upplifað svona á eigin skinni. Frá nánum, td kennurum,köllum sem komu í heimsókn á æskuheimilið o.s.frv. Krakkar sluppu misjafnlega vel með skrekkinn.
  Mér þykir leiðinlegt hvað þú hefur orðið fyrir miklu aðkasti vegna skrifa þinna ..Þú ert mjög hugrökk manneskja.
  Óska þér alls hins besta Edda

 14. Svona setningar stuða mig.

  „Við horfðum á feðraveldið rísa upp á afturlappirnar og nötra.“

  „Elítunni. Fína fólkinu sem skrifar bækurnar sem við lesum, kennir okkur í skólunum, ritstýrir fjölmiðlunum okkar og skrifar pistlana sem allir deila á Facebook. “

  “ En kynslóðin sem ólst upp við að dýrka Jón Baldvin fór í kleinu og brást við með ofbeldi.“

  Kannski er eitthvað að mér, ég veit ekki.

  Ég er líklega flokkaður „með“ feðraveldinu þar sem ég er í mjög mörgum málefnum ósammála feministum. Ég er ekkert sérstaklega sáttur við þá flokkun. Mér finnst hún einnig til þess fallin að búa til einhvern „óvin“ til að berjast gegn og setja umræðu á rangt plan.

  Er alveg sammála að á mörgum stöðum þarf að breyta hugsun fólks hvað varðar jafnrétti. Ég bara gúddera ekki að það sé einhver draugur bakvið allt sem ekki er hægt að benda á, sem er einhver „óvinur“ kvennfólks sem þarf að berjast gegn.

  Vitundarvakning væri skemmtilegra orð og mundi byggja meiri samstöðu. Að blanda orðinu faðir í eitthvað slæmt finnst mér subbulegt og ósanngjarnt gagnvart karlmönnum.

  Svona á sirka sama plani og þeir sem hafa margt út á feminisma að setja færu að kalla þetta „Mæðrahistería“ sem þyrfti nú að „berjast“ gegn…

  „Að hugsanlegir og mögulegir og raunverulegir þolendur þessa manns ættu að þurfa að upplifa það að stærsti og aðgengilegasti háskóli landsins ætlaði að ráða hann til kennslu“

  Þetta er stóra málið í þessu öllu saman. „Hugsanlegir og mögulegir og raunverulegir“

  Maðurinn hefur ekki verið dæmdur og þá þarf samfélagið að spyrja sig, í slíkum aðstæðum, með hvaða hætti er í lagi að ráðast gagnvart einhverjum. Eða berjast gegn einhverju eins og ráðningu sem fyrirlesari.

  Ég hef lesið bréfin og mér finnst maðurinn virkilega subbulegur karakter, hvað varðar kvennfólkið sem hefur staðið upp, þá hallast maður frekar að því að trúa því en hitt , vegna margra hluta sem benda á að maðurinn gangi ekki heill til skógar, en engu að síður, maðurinn hefur ekki verið dæmdur.

  Þannig ég persónulega veit eigilega ekki hvar mér finnst að þetta mál hafi átt að enda, en mér finnst þetta vera virkilegur dómbrestur hjá háskólanum að hafa ráðið hann yfir höfuð.

  Ætla að hrósa þér fyrir skrifin samt, sjaldan sem ég les eitthvað eftir þig þar sem ég er að mestu sammála, mjög vel skrifað.

 15. Vitnisburður um feðraveldið sem nötraði, góð greining. Það er merkilegt að sjá hvað gerist þegar örin hittir í mark, takk fyrir.

 16. Bakvísun: Dónakarlar | Edvard Kr. Guðjónsson

 17. Sæl og blessuð.

  Þetta er svakaleg grein, mjög góð og þörf.

  Ég ætla ekki að fara út í smáatriði sem aðrir hafa nefnt, en ég held ég geti að einhverju leiti útskýrt þetta með af hverju fólk bregst ókvæða við að heyra svona ásakanir á Jóni Baldvin.

  Það er einfaldlega með einhverja hugmynd um þennan mann í hausnum á sér, í hausnum á þeim er Jón Baldvin einhver tiltekin manneskja, í þessu tilfelli einhver sem þeim líkar við, líta jafnvel upp til og hafa gert lengi.

  Það að heyra það að hann sé svo einhvern vegin allt öðruvísi inn við beinið, að hann hafi gert hluti sem hver sem er myndu samþykkja að væru viðurstyggilegir, það er ómögulegt að samræma með þeirri mynd af honum sem þau hafa.

  Í raun ertu að segja þeim að Jón Baldvininn í hausnum þeirra sé ekki til. Hafi líklega aldrei verið til. Og það sem meira er, þá ertu að segja þeim að þeim líki vel við barnaníðing, hafi litið upp til hans, tekið í höndina á honum og hrósað honum. Að þau hafi ekki séð í gegnum blekkinguna.

  Þú ert semsagt bæði að reyna að drepa þann mann sem Jón Baldvin er í hausnum á þeim, og segja þeim að þau hafi algjörlega brugðist sem mannþekkjarar, hafi jafnvel tekið inn á sig einhverjar hugmyndir eða hugsanir frá honum, beint eða óbeint.

  Þetta er mjög erfitt fyrir fólk að sætta sig við. Stór hluti undirmeðvitundarinnar krefst þess einfaldlega að þetta sé ekki satt, það er svo miklu þægilegri veruleiki að díla við góða Jón Baldvin og fölsku ásakanirnar á hendur honum, þá er hægt að fara í réttláta vörn og fleira, en að díla við falska Jón Baldvininn og fórnarlömb hans.

  Þetta held ég að útskýri raunar mjög mjög mörg tilfelli þess að fólk neiti að trúa svona upp á fólk, sama hversu haldgóðar sannanir eða einlægar frásagnir er um að ræða. Það er bara sálfræði, fólk vill ekki sætta sig við að ‘vinur’ þeirra sé ekki til eins og þau héldu að hann væri, að þau hafi blekkst, etc.

  Þetta er í raun það sama og þegar fólk setur meiri peninga í svikamillur eftir að það hefur tapað smá, það er einfaldlega ekki tilbúið að sætta sig við að hafa gert mistök upphaflega og finnst auðveldara, sálrænt, að trúa því að ef það fari bara all-in, þá geti það komið í ljós að þetta hafi aldrei verið mistök, að vinur þeirra sé í alvöru til, þau hafi ekki blekkst, að nígeríski seðlabankastjórinn hafi lent í tollavandræðum í sviss og þurfi bara smá reddingu með flugfar svo hann komist með ávísunina til þín.

  En þetta er nauðsynlegur slagur að taka, og ég virði það svakalega við þig að standa í honum, ég get ekki ímyndað mér að þetta hlutverk sem hefur svona hálfpartinn verið ýtt upp á þig sé auðvelt.

 18. Bakvísun: Þolandi sagði frá | *knúz*

  • Takk fyrir Þessa grein. Búin að hugsa mikið um hana i morgun …..se að það var ekki bara eg sem upp lifði kynferðislega áreitni ótal karlmanna a minum æskuarum. …Þetta er sennilega frekar regla en undantekning.. Takk fyrir að tala fyrir okkur öll sem eigum svona æskuminningar…skömminn er ekki okkar, sendum hana heim…

 19. Þakka þér fyrir skrifin þín Hildur, ég táraðist við lesturinn. Við erum svo mörg sem höfum upplífað svipaða hluti og þú gefur okkur öllum rödd. Og við þurfum öll að nota röddina okkar, ekki bara bíða eftir að þú gerir það. Eins og áður fyllist ég af krafti við lesturinn og lofa sjálfri mér í hvert skipti að líða ekki lengur karlahatur og kvenfyrirlitningu. Ég lofa sjálfri mér að nú verði það ekki lengur liðið og að ég muni ekki lengur þegja. Ég dáist að hugrekki þínu og finnst þú æðisleg fyrirmynd fyrir konur og karla. Ég tek undir orð Kára Emils, skrif þín eru alveg rosalega valdeflandi.

 20. Ég trúi ávallt börnum sem segja frá upplifun kynferðisofbeldis…þar til einhverjum tekst að sannfæra mig um að þau séu að ljúga…sem hefur ekki gerst ennþá. – Hvor hefur meiri hagsmuni að verja með lygum níðingurinn sem neitar eða þolandinn sem segir frá?
  Lýsum upp skúmaskot illskunnar með kastljósi sannleikans. – Hildur haltu þínu striki.

 21. Bakvísun: Hvað er ófyrirgefanlegt? | iSpeculate

 22. Bakvísun: Viðjar vanans | *knúz*

 23. Takk Hildur fyrir hugrekkið og kraftinn sem gefur okkur svo margt að hugsa um. Lýsingin af óttanum er svo nákvæm að ég fylltist honum enn og aftur við lesturinn… og varð svo létt við að vita að ég stend ekki ein á brauðfótunum mínum!

 24. Þú ert mögnuð Hildur! Ég lít svo upp til þín og það eru forréttindi fyrir samfélag okkar að hafa þig í fararbroddi í jafnréttisumræðunni! Bravó!

 25. Bakvísun: Knúzannállinn 2014 | *knúz*

 26. Be the change you want to see in the world,
  ég elska þessa setningu og trúi á hana.
  Ég er ekki alltaf samála þér, les ekki allt sem þú skrifar, EN þú ert ein af þessum mannverum sem þora að standa upp þó það sé óþægilegt og stuði einhverja. Að berjast fyrir réttlæti og breyttum viðhorfum er eitthvað sem allt of margir þora ekki að setja sig út fyrir að gera vegna þess að það kastar gagnrýnisljósi á mann.
  Húrra fyrir þér!

 27. Þakklæti til þin Hildur Hef aldrei skilið hvað JBH er latin tala eins og mektarmaður i fjölmiðlum Hann er ekki i lagi Afram þu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.