Tæknileg lausn á félagslegu vandamáli?

… Það er líka annað í þessu að það er alltaf undir hverjum og einum komið að vera meðvitaður um það að ef þeir drekka mikið, taka lyf eða fíkniefni þá getur ýmislegt gerst. Vandamálið felst meðal annars í því að fólk leitar ekki inn á við og sér ekki að það er að setja sjálft sig í hættu með drykkju og dópneyslu.

– Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu.

Orðin sem vitnað er til hér að ofan vöktu mikla eftirtekt og talsverða reiði hjá mörgum þegar þau voru látin falla í viðtali við DV 16. ágúst 2010,  enda þótti ámælisvert að yfirmaður þeirrar deildar innan lögreglunnar sem hefur með höndum rannsókn nauðgana skyldi með þessum hætti leggja áherslu á að þolendum nauðgana og þeim sem gætu orðið fyrir nauðgun bæri í raun fyrst og fremst að líta í eigin barm, horfa til eigin hegðunar, taka sjálf ábyrgð á því sem gerðist eða gæti gerst, enda væri það á einhvern hátt í þeirra eigin höndum að forðast  aðstæður eða líkamlegt ástand þar sem þau væru líklegri en ella til að vera nauðgað.

Í kjölfar víðtækrar gagnrýni á þessi ummæli ákvað Björgvin að stíga til hliðar úr starfi sínu en rúmu ári síðar bað lögreglustjóri hann að snúa aftur til starfa, enda hefði hann „ætíð notið fyllsta trausts yfirstjórnar lögreglu og verið einn af þeim sem byggðu upp starfsemi kynferðisafbrotadeildar.“
Síðustu misseri hefur verið mikil umræða um svokallaðar „lyfjanauðganir“, sem er hugtak sem þarf varla að skýra frekar – og nýjasta innleggið til þeirrar umræðu er lítil viðskiptahugmynd nokkurra nemenda í Háskólanum í Reykjavík, en þeir sitja nú áfanga sem gengur út á stofnun nýsköpunarfyrirtækja. Hugmyndin snýst um einfalda en hugsanlega mjög skilvirka aðferð til að verða var við það ef einhver hefur blandað nauðgunarlyfi í drykkinn manns á barnum og nemendurnir kalla fyrirbærið SafeCube.

Ekkert er nýtt undir sólinni og ef marka má þessa frétt á UPI.com voru vísindamenn í háskólanum í Tel Aviv reyndar að bauka við eitthvað svipað á síðasta ári, hvort sem hugmynd þeirra um drykkjarrör, sem breytast í sjálflýsandi viðvörun ef vart verður við nauðgunarlyf, komst nú á markað eða ekki. Og ekki þarf lengi að gúgla til að sjá að hugmyndin hefur stungið sér niður hér og hvar, t.d. datt einhverjum í hug að framleiða heila línu af drykkjarglösum sem væru gædd svipuðum eiginleika.

En er SafeCube – og önnur tilbrigði við sama stef – einföld og bráðsnjöll lausn á erfiðu og flóknu vandamáli eða ábatasöm viðskiptahugmynd sem gæti veitt fólki falskt öryggi og orðið þar að auki enn eitt „trikkið“ sem konur eiga að tileinka sér til að vera nú alveg vissar um að hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að vera ekki nauðgað?

Nú er það svo að nauðgun er að mörgu leyti flóknari glæpur en margir aðrir, bæði tilfinningalega, félagslega og framkvæmdalega, ef svo má að orði komast.  Við læsum húsunum okkar og hjólunum okkar, við skiljum ekki verðmæti eftir á glámbekk – og sá sem tekur fartölvu með sér á kaffihús, skreppur á klósettið og kemur aftur að auðu borði verður pirraður og reiður en mun tæplega gera kaffihúseigandann ábyrgan fyrir því að einhver skuli hafa komið inn á veitingastaðinn hans  með illum ásetningi og tekist verkið án inngripa eigandans. Fartölvueigandinn mun að líkindum fyrst og fremst álasa sjálfum sér fyrir að hafa skilið tækið eftir.  Og væntanlega gæta betur að verðmætum sínum í framtíðinni.

En fartölvuþjófnaður er ekki nauðgun, jafnvel þótt það hafi verið svolítið í tísku á tímabili að halda því fram að fólki sem hefði verið brotist inn hjá liði „eins og því hefði verið nauðgað“, alla vega í einhverri auglýsingu frá tryggingafélagi sem ég man ekki hvað heitir. Það var hjákátleg auglýsing og flestir áttuðu sig fljótt á því að staðhæfing sem þessi var bara rugl. Líkami, líkamsmörk, kynfrelsi og einstaklingsfrelsi er allt annað og viðkvæmara „þýfi“ en fartölva, flatskjár eða x-box.

Þótt mikið hafi breyst í viðhorfi almennings til kynferðisbrota er vissulega enn nokkuð grunnt á þeirri aldagömlu hugmynd að í raun sé það á ábyrgð kvenna að forðast að vera nauðgað, fremur en karla að sleppa því að nauðga.

Sé farið með „forvarnarhugmyndina“ alla leið má hæglega segja, eins og Björgvin Björgvinsson raunar gerir í viðtalinu fræga, að áfengi  sem slíkt sé líka nauðgunarlyf, sem og önnur vímuefni sem sumir taka meira eða minna meðvitaðar ákvarðanir um að nota, gjarnan í tengslum við skemmtistaðaferðir. Af hverju segjum við ekki konum að hætta bara að drekka? Og dópa? Það er jú miklu öruggara. Svona álíka öruggt og að að læsa húsinu sínu.

Og „öruggast“ væri náttúrulega að konur héldu sig bara heima hjá sér, ekki satt? Það er að segja, ef ekki væri fyrir það að stærstur hluti nauðgana á sér stað í heimahúsum og gerandinn er einhver sem brotaþolinn þekkir.

 

Hjálpartæki nauðgunarmenningarinnar?

En með því að þróa tæki og tól sem er ætlað að forða konum frá því að vera nauðgað má í raun segja að skapist tvenns konar hætta.

Annars vegar sú að við sem samfélag normalíserum nauðgun sífellt meira. Með því að „viðbragðsvæða“ kynferðisofbeldi er verið að gera það að einhverju sem við erum búin að sætta okkur við að sé hluti af raunveruleika okkar, að minnsta kosti sem yfirvofandi hætta – rétt eins og innbrot, vasaþjófnaður, umferðarslys og annað slíkt. Þetta er bara svona, hugsum við, konur eiga einfaldlega sífellt á hættu að vera nauðgað, þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf vera og er ekki frábært að það skuli vera til alls konar sniðug forvarnartæki til að komast hjá slíkum ósköpum? Eins og piparúði, sjálfsvarnarnámskeið og nú þessi sniðugi kubbur!

Stelpur,  þið VERÐIÐ að fá ykkur svona, þetta er sko algjörlega spurning um að taka einhverja lágmarks ábyrgð á sjálfum sér, er það ekki? … það var kynning í saumó um daginn og við keyptum okkur allar, á æðislegum kynningarafslætti … Mér finnst ég svo miklu öruggari eftir að ég fékk mér SafeCube. Ég gleymi að vísu rosalega oft að setja hann út í, sérstaklega eftir nokkur glös, en ég meina, maður verður nú að gera það sem maður getur, annars getur maður nú eiginlega bara sjálfri sér um kennt ef …

(Nú skal tekið fram að hér er verið að fabúlera, enda varan enn á þróunarstigi og alveg óljóst hvenær eða hvernig hún kemur á neytendamarkað eða með hvaða hætti hún verður markaðssett ef það gerist.)

Um leið skapast sú hætta að sú eða sá sem verður fyrir lyfjanauðgun upplifi enn meiri fordæmingu á þeirri hugsanlega „röngu“ hegðun sem kann að hafa leitt til brotsins en þolendur nauðgana gera nú þegar – hvers konar fífl er manneskjan, var hún ekki með SafeCube?

Er það ekki bara henni/honum að kenna að henni/honum var nauðgað?

En á það að vera ábyrgð þess sem kaupir þjónustu á veitingastað að gæta þess að varan sé örugg? Ætti það ekki að vera veitingasalans? Þróunarkonsept SafeCube nær reyndar líka til þeirrar útfærslu og það er áhugaverður möguleiki að sjá fyrir sér að ábyrgðin á notkun kubbsins yrði alfarið sett í hendur veitingasalans og barþjónanna. Ekki þeirra kvenna og karla sem kaupa drykkina og drekka þá.

Það væri sannarlega ánægjulegt ef þessi litla viðskiptahugmynd yrði til þess að ýta undir þá umræðu og kveikja þær spurningar.

 

Hversu hrædd eigum við að vera? Hversu hrædd er heilbrigt að vera?

Það má líka spyrja sig hvort „tæki“ eins og SafeCube, verði það markaðssett, séu ekki einfaldlega liður í markaðsvæðingu óttans. Lögregla, fjölmiðlar, við sjálf, stundum skólar barnanna okkar – allir senda okkur þau skilaboð að það sé ýmislegt sem beri að óttast. Innbrot, undirheimaátök, sjúkir menn sem reyna að lokka börnin okkar upp í bíl til sín eða neyða þau jafnvel með valdi með sér, nauðganir í miðbænum, nauðganir í húsasundum, nauðganir á næsta bar. Hversu hrædd eigum við að vera og hversu mikið megum við láta hræðsluna ráða gerðum okkar? Gerum við okkur veikari og valdaminni með því að vera hrædd?

Hræðsluviðbragðið er eitt af sterkustu eðlisviðbrögðum mannskepnunnar og það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á því hvenær óttinn er rökréttur og eðlilegur og hvenær hann er áunninn, lærður og skilyrtur, t.d. vegna óeðlilega mikillar æsingaumræðu í fjölmiðlum eða vegna fordóma gegn ákveðnum þjóðfélagshópum, svo eitthvað sé nefnt.  Hvert einasta foreldri í Reykjavík hefur líklega upplifað sterk hræðsluviðbrögð við fréttinni um barnsránið í liðinni viku og líklega hafa flestir þeirra foreldra lagt sig fram um að ná tökum á eigin hræðslu áður en þeir ræddu við börnin sín um það sem gerðist. Fæstir foreldrar vilja gera börnin sín hrædd við að vera ein á ferð, hrædd við alla ókunnuga, hrædd við allt, en það þarf samt að gera þeim einhverja grein fyrir því sem gerðist því stálpaðir krakkar lesa blöð og heyra fréttir út undan sér og þau þurfa að fá einhver svör. Kannski þurfum við, sem foreldrar, að gera okkur grein fyrir því sjálf hversu hrædd við teljum eðlilegt að vera áður en við setjumst niður með börnunum. Við þurfum að skilja eigin ótta, hvaða áhrif hann hefur á okkur og hegðun okkar, hversu raunhæfur hann er, hversu heilbrigður eða óheilbrigður hann er.

Við búum í heimi þar sem er því miður til fullt af fólki sem er tilbúið að brjóta af sér á ýmsa vegu, fara fram með alls konar yfirgangi, ofbeldi og ruddaskap. Auðvitað ber það fólk ábyrgð á sinni hegðun og það er ekkert sem hver og einn einstaklingur getur gert til að breyta því, þótt við getum kannski í einhverjum tilfellum haft áhrif á þá hegðun sem samfélag.  Einstaklingurinn getur auðvitað reynt að verja sig og draga úr líkunum á því að hann verði fyrir barðinu á hegðuninni. Við læsum íbúðinni, bílnum og hjólinu, við sneiðum yfirleitt hjá svæðum þar sem stríðsátök eru í gangi og gerum ráðstafanir sem geta dregið úr líkunum á því að á okkur verði ráðist, hvort sem það er með nauðgun eða einhverjum öðrum hætti. Flestir foreldrar reyna að hindra að börnin þeirra séu ofurölvi niðri í bæ. Með því er fólk ekki að taka á sig ábyrgð á afbrotum, það reynir bara að forða sér og sínum frá atvikum sem það hefur ekki stjórn á. Við hlaupum undan grjótskriðu án þess að vera um leið að taka á okkur ábyrgðina af skriðunni eða á því að hindra grjótskriður. Maður gerir alls konar ráðstafanir til að lágmarka eigin skaða af hlutum sem maður hefur ekki stjórn á, hvort sem það eru náttúruöfl eða hegðun annars fólks. Og það er auðvitað lítil fórn ef það er hægt að forðast nauðgun með því að skella litlum kubb í glas. Það væri öllu verra ef málið snerist um að hreinlega sleppa því að sækja skemmtistaði eða fara út úr húsi.

En erum við að normalísera nauðganir, sætta okkur við þær sem óhjákvæmilegan hluta af hversdagslífinu og með óbeinum hætti að ýta undir nauðgunarmenningu samtímans með því að taka fagnandi og nota varúðarráðstafanir á borð við SafeCube?

Að beita varúðarráðstöfunum felur í sér, beint eða óbeint, að maður sé hræddur. Kannski ekki stöðugt og sífellt, kannski ekki skjálfandi af ótta daginn á enda – en einhvers staðar.

Kannski snýst málið einfaldlega um að gera greinarmun á því sem við getum gert sem samfélag og því sem við getum gert sem einstaklingar. Sem samfélag getum við unnið gegn nauðgunarmenningu, reynt að hafa áhrif á það hugarfar og umhverfi sem getur af sér þá sem nauðga eða beita öðru ofbeldi, að beita úrræðum við samfélagsaðstæðum sem geta af sér þjófa og þess háttar. Sem einstaklingar í ófullkomnu samfélagi getum við fyrst og fremst reynt að verja sjálf okkur. Og það gerir enginn með því að vera sífellt á varðbergi og haga sér „rétt“. Það er nefnilega ekkert hægt að gera til að hafa áhrif, a.m.k. ekki með beinum hætti, á hegðun þeirra sem hafa hug á að nauðga einhverjum. En með því að gera ákveðnar varúðarráðstafanir má draga úr líkunum á því að verða sjálf(-ur) fyrir barðinu á viðkomandi einstaklingi.

Með því er auðvitað ekki verið að fría neinn ábyrgð á eigin ofbeldisverkum og það er nauðsynlegt að vinna markvisst gegn þeirri ranghugmynd.

Eftir stendur þessi spurning: er SafeCube stórsnjöll lausn á aðkallandi vandamáli margra sem eru í áhættuhópi fyrir lyfjanauðganir – eða enn eitt markaðssetningartrixið sem nærist á inngrónum og áunnum ótta kvenna, enn eitt „hjálpartækið“ sem sendir stúlkum og konum þau skilaboð að það sé þeirra að tryggja, með öllum tiltækum ráðum, að þeim verði ekki nauðgað?

 

16 athugasemdir við “Tæknileg lausn á félagslegu vandamáli?

  1. Ef að hættulegt dýr leynist í miðbæ Reykjavíkur um helgar, héldi til á börum og herjaði á konur með því að sprauta eitri í drykkina þeirra, tæki ég fagnandi yfirlýsingu frá lögreglunni um hvar dýrið héldi til og við hvað aðstæður það lætur til skara skríða. Ef ég þyrfti samt að vera á ferðinni á þessum hættuslóðum þar sem skepnan heldur sig þá finnst mér frábært að uppfinningamaður hafi fundið lausn svo ég geti varið mig sjálf á ókindinni. Ég tek þessari SafeCube teningnum fagnandi og lít á hana sem tæki til að koma upp um alvarlegan glæp og stöðva glæpamenn.

    • Ja, ef þetta væri dýr sem herjaði á konur þá væri búið að skjóta það, ekki gefin út gagnslausar viðvaranir.

  2. Já þetta er snúið og ég veit sjálf ekki hvað mér finnst… en það má heldur ekki vanmeta fælingarmáttinn sem molinn gæti haft – á gerendur (ef hann kæmist í almennilega dreifingu). Það þora trúlegast fáir að nostra við glös sem láta strax vita með glóandi merkjum. Þetta eru líka skilaboð til gerenda, að þeir komast ekki upp með eitthvað pukur.

  3. …en ef þetta á að vera málið, þá vil ég að ábyrgðin sé staðarins. Drykkir séu ekki seldir þar án mola eða eitthvað slíkt. Stelpur eiga að geta farið rólegar á djammið þó þær gleymi veskinu með „molanum“ heima.

    • Ég er sammála Karen, að mér finnst eðlilegast að veitingasölumenn taki þessa ábyrgð á sig. Þá sér maður hins vegar fyrir sér sjálfkrafa verðhækkun … En í mínum huga ætti það að vera söluaðilans að tryggja öryggi þeirra veitinga sem hann selur, ekki neytandans.

      • Halla og Karen, hafið þið hugleitt hvað þið eruð að segja hér að ofan, að veitingastaðurinn eigi að bera ábyrgð á að enginn geti sett eitthvað út í drykkina ykkar eftir að þið eruð farnar með drykkinn frá barborðinu, að þið berið ekki sjálfar ábyrgð á ykkar drykk, berið ekki ábyrgð á að sýna skynsemi og sleppa að drekka þó þið „gleymið“ molanum heima?

        Það er alvarlegt kæruleysi af ykkar hálfu að færa ábyrgð á lífi ykkar yfir á aðra, meir en kæruleysi, hreint ábyrgðarleysi satt að segja. Þið bæruð skv. þessu ábyrgð að viðlagðri refsingu ábyrgð á ef einhver helti út í kókglas mitt áfengi í heimboði hjá ykkur, og ég félli ef ég væri óvirkur alkohólisti. Sýnist ykkur þetta virkilega ganga upp?

  4. „Þótt mikið hafi breyst í viðhorfi almennings til kynferðisbrota er vissulega enn nokkuð grunnt á þeirri aldagömlu hugmynd að í raun sé það á ábyrgð kvenna að forðast að vera nauðgað, fremur en karla að sleppa því að nauðga.“

    Hvað með:
    „…að í raun sé það á ábyrgð annarra að forðast að vera afhausaðir, fremur en múslima að sleppa því að afhausa.“
    „…að í raun sé það á ábyrgð hvítra að forðast að vera rændir, fremur en svartra að sleppa því að ræna.“

    Lítum aðeins á hina feminísku „kennum körlum að nauðga ekki“ möntru sem stundum er teflt fram sem svari við annarri feminískri uppfinningu (victim blaming) undir því yfirskini að ráðast gegn strásamfélagi sem (surprise!) femínistar hafa reist. Strásamfélagi sem ber í bætifláka fyrir nauðgara ef fórnarlömb þeirra klæddu sig á tiltekinn hátt eða voru á röngum stað á röngum tíma. Sem betur fer er það bara strásamfélag!

    Þessi þankagangur fjallar um nauðganir eins og eitthvað sem aðeins karlmenn framkvæmi – og aðeins gegn konum. „Nauðgari“ er þar hið eðlilega ástand karla sem þarf að þjálfa þá ofan af. Annars muni þeir nauðga.

    Þetta er í senn heimskulegt, gagnslaust og til þess fallið að reka annars líklega bandamenn á vergang. Það á a.m.k. við um mig. Límmiðann mun ég ekki líma á mig, eins mörgu og ég er þó sammála.

  5. það hræðir mig eiginlega mest hvað gæti mögulega komið í staðinn.þegar þessi möguleiki hefur verið gerður næsta ómögulegur fyrir svona brotamenn.
    það kemur eitthvað í staðinn,það er klárt mál.

    • Já, Íris, ég get tekið undir það sjónarmið og það er ein af röksemdunum að baki þeirri skoðun að það sé í raun nauðsynlegt að leita félagslegra leiða til að leysa málið, fremur en „tæknilegra“. Hvað varðar ábyrgð söluaðilans á þeim veitingum sem hann á rekstrarlega afkomu sína af því að selja (og ekki beinlínis ódýrt :)) má að mínu mati alveg færa rök fyrir því að í því viðskiptalega umhverfi sem drykkir eru seldir í á bar eða veitingahúsi megi líta svo á að veitingasöluaðilinn sé ábyrgur fyrir öryggi vörunnar. Það er ábyrgð sem hlýtur að vera allt annars eðlis en t.d. á veitingum í heimahúsum. Þegar upp er staðið er hér um að ræða vanda sem er bæði samfélagslegur og „praktískur“ og sem samfélagið ætti að taka sameiginlega ábyrgð á – þar gæti veitingasalinn tekið sinn þátt með því að bjóða upp á þessa leið. En þessi umræða er auðvitað á byrjunarstigi og um að gera að taka hana bara og ræða allar hliðar málsins. Þarna eiga allir hagsmuna að gæta, ekki bara konur sem eiga á hættu að vera nauðgað heldur líka karlar sem eiga hið sama á hættu, sem og fólk af báðum kynjum sem á á hættu að vera gefið lyf í því skyni að ræna það eða misþyrma á annan hátt. Og samfélagið sem heild, sem bíður skaða í hvert sinn sem einhver þessara glæpa er framinn.

      • Halla, eftir að þú borgar vöruna og þér er afhent vöruna, þá er varan þín og á þinni ábyrgð. Að fara að kenna barþjónum og veitingahúsaeigendum um eitthvað creep sem setur nauðgunarlyf í drykkinn þinn er far out……

      • Það má vera ósammála um það eins og annað. Ég er ekki sannfærð um þetta sjálf en finnst nauðsynlegt að ræða ábyrgð veitingahúsaeigenda á öryggi gesta sinna. Mér finnst fátt vera einhlítt í þessu máli og hreint ekki sérlega far out að kalla eftir þátttöku veitingasala í þessu eins og mörgu öðru.

      • Af hverju „félagslegra leiða *fremur en* tæknilegra“? Þarf annað að útiloka hitt? Varla eru talsmenn molanna að fara fram á að við hættum að berjast gegn nauðgunarmenningu? Er ég eitthvað að hindra félagsleg úrræði fyrir þá sem eiga á hættu að leiðast út í innbrot ef ég læsi húsinu mínu? Mér sýnist þetta vera false dilemma, þetta er ekkert spurning um annaðhvort/eða.

    • En Íris, eigum við almennt að taka upp þá reglu að reyna ekki að verja okkur gegn slæmum hlutum af ótta við að þá komi bara eitthvað annað verra fyrir í staðinn? Á ég að sleppa því að verja mig gegn hnefahöggum vegna þess að þá muni þeir sem vilja lúskra á mér bara ná sér í hníf eða byssu?

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.