Viljinn til verka

Höfundur: Katrín Harðardóttir

Í kjölfar byltinganna í sumar sem leið sendi Knúzið opið bréf til ríkisstjórnar Íslands þar sem lagðar voru fram „spurningar um aðgerðir, vilja og hugsanleg viðbrögð hvers ráðuneytis“ við kynbundnu ofbeldi. Svar barst frá Velferðarráðuneytinu sem bauð á fund með ráðherra og sendi í framhaldi þetta bréf. Í bréfinu kemur fram að ásamt innanríkis- og menntamálaráðherra hafi félags- og húsnæðismálaráðherra tekið höndum sama í baráttunni gegn „ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess“, og að Ólöf Nordal innanríkisráðherra hafi [nú í desember] skipað stýrihóp sem ælað sé að undirbúa aðgerðaráætlun til fjögurra ára. Hlutverk hópsins er að:

Auka á forvarnir og fræðslu, annars vegar gagnvart almenningi og hins vegar gagnvart þeim sem í störfum sínum geta á einhvern hátt komið að málum sem tengjast ofbeldi. Þannig má jafnframt stuðla að opinni umræðu um ofbeldi og viðhorfsbreytingum í þjóðfélaginu. Þá er nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að vinna að forvörnum og stefnumótun á þessu sviði að fyrir liggi rannsóknir á ofbeldi sem leiða til aukinnar þekkingar á eðli, umfangi og afleiðingum þess.

Atkvæði eftir þingflokkumÁstæða þessarar upprifjunar er sú að þann 16. febrúar síðastliðinn fór á Alþingi fram atkvæðagreiðsla um breytingartillögu þeirra Oddnýjar G. Harðardóttur, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, Brynhildar Pétursdóttur og Ástu Guðrúnar Helgadóttur við frumvarpi til fjárlaga ársins 2016 um að auka fé til átaks ríkissaksóknara gegn kynbundnu ofbeldi.
Í ljósi áðurnefndra loforða kemur nokkuð á óvart að allir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna greiddu atkvæði gegn tillögunni. Nánar má kynna sér málið hér á síðu Alþingis, en þess má geta að ríkissaksóknara var neitað um fjórar milljónir króna sem áætlaðar voru í átak gegn kynbundnu ofbeldi.
Ekki hefur borist svar við fyrirspurn um í hvað umræddar milljónir ættu að fara en ef horft er til þeirrar gagnrýni sem embættið, æðsti valdhafi framkvæmdavaldsins, hefur sætt, má draga þá ályktun að af nægu sé að taka. Fréttir af embættinu voru ekki góðar í upphafi árs en að sögn Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara vantar enn um 30 milljónir upp á svo hlutverki stofnunarinnar verði sinnt sem skyldi. Um síðustu árámót færðist ákæruvald ríkissaksóknara í sakamálum til nýs embættis héraðssaksóknara og þó að ákæruverkefnum hafi fækkað til muna jókst eftirlitshlutverk embættisins sem því nemur, enda fer það enn með saksókn í nokkrum Hæstaréttarmálum auk þess að nú er hægt að kæra niðurfellingu kynferðisbrota og annarra ofbeldisbrota til ríkissaksóknara.

„Það má sjá fyrir sér að það verði hundrað mál eða meira á ári. Miðað við þá fjölgun sem er í kynferðisbrotamálum og að það er tiltölulega há niðurfellingaprósenta þar,“ segir Sigríður.

Nú leikur undirritaðri forvitni á að vita hvort átak gegn kynbundnu ofbeldi sé starf sem eigi að vera í sjálfboðavinnu en í áðurnefndu bréfi er vísað í úrræði til handa þolendum kynbundins ofbeldis og stingur í stúf að þar á meðal eru Stígamót, Aflið og Sólstafir, allt sjálfsprottin, sjálfstæð samtök sem reiða sig helst á framlög einstaklinga og fyrirtækja, eins og frægt er orðið.
Einnig vekur athygli að ekki er sérstaklega tekið fram í bréfinu að ráðherrar taki höndum saman gegn kynbundnu ofbeldi. Með fellingu áðurnefndrar breytingartillögu hafa þingmenn stjórnarmeirihlutans tekið af allan vafa um það að þau þurfi öll með tölu að fara á námskeið um þesskonar ofbeldi sérstaklega, hjá áðurnefndum samtökum, nú eða þá með lestri knúzgreina!

María Rut Kristinsdóttir

María Rut Kristinsdóttir

Því skal haldið til haga að ekki er sömu sögu að segja af því starfi sem fer innan veggja ráðuneytanna. Áðurnefndur stýrihópur er nú fullbúinn undir forystu Maríu Rutar Kristinsdóttur, sérfræðings hjá Innanríkisráðuneytinu og einni af skipuleggjendakjarna Druslugöngunnar. Að stýrihópnum koma fulltrúar frá neyðarmóttökunni, lögreglustjóraembættinu, héraðs- og rikisaksóknara, dómsmálaráðuneytinu sem og lögmannafélaginu.

Verkefni hópsins mun felast í því að fara yfir verkferla sem snúa að kynferðisbrotum innan réttarvörslukerfisins og taka afstöðu til þeirra, stytta og gera meðferð mála manneskjulegri. Starfið byggir að miklu leyti á rannsóknum á réttarvörslukerfinu sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með árið 2010, í tíð Ögmundar Jónssonar, þáverandi innanríkisráðherra og aðstoðarmanns hans, Höllu Gunnarsdóttur. Rannsóknirnar unnu Hildur Fjóla Antonsdóttir, mann- og kynjafræðingur, og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttur, lögfræðingur, ásamt Maríönnu Þórðardóttur, þáverandi meistaranema í lýðheilsuvísindum. Teymið fann tíu galla og lagði til 2-3 úrbótatillögur sem nú munu verða flokkaðar eftir vægi, s.s. eftir fjármagni og því hvort lagabreytinga sé þörf við eftirfylgni.

María Rut hefur sett hópnum það takmark að vera tilbúinn með aðgerðaráætlunina þ. 1. júní. Hún segir mikinn vilji vera til úrbóta, bæði í ráðuneytinu sem og hjá réttarvörslukerfinu, öllu máli skipti að sem flestar raddir og sjónarmið komist til skila inn í vinnu áætlunarinnar og að í forgrunni verði upplifun þolenda. Hún tekur undir með Björgu Valgeirsdóttur um að kerfið sjálft sé ekki til mikillar fyrirstöðu, heldur sé það túlkun laganna og ríkjandi viðhorf innan dómskerfisins. Það verður spennandi að fylgjast með því hvað mun gerast á næstu fjórum árum. Von er til að áætlunin varpi enn ljósi á glufurnar sem þolendur, og gerendur, týnast í. Verður henni fylgt eftir eða mun hún daga uppi aftast í neðstu skúffu ráðherra? Standa byltingar síðasta sumars undir nafni?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.