Andvaka

Höfundur: Ylfa Mist Helgadóttir

morfísÞað er erfitt að fæða af sér börn. Í mínu tilviki afar erfitt. Ég hef stundum sagt að væri ég belja, væri löngu búið að lóga mér! En að fæða börn er „peanuts“ miðað við það sem við tekur. Maður vill ekkert gera rangt – en gerir svo margt rangt. Maður vill börnunum sínum allt gott – en stundum gengur það ekki eftir. Maður vill að börnin endurspegli góða uppeldið sem maður hamast við að veita þeim – en stundum láta þau bara ekki að stjórn. Maður vill að börnin fari óskemmd og ósærð í gegnum lífið – en því miður verður manni sjaldnast að þeirri ósk. Síðast en ekki síst vill maður að börnin manns komist í gegnum lífið án þess að særa aðra og í mínu tilfelli hefur það verið áhersla sem ég hef lagt hvað mest kapp á. – En… eins og með allt hitt, gengur það ekki alltaf eftir.
Þá verður maður brjálaður. Öskrar, æpir, skammast og rífst. Spyr: hvað í dauðanum gerði ég svona rangt? Hvernig gat þetta gerst?

Sonur minn, erfinginn, gerði stór mistök í sinni framkomu við unga konu. Hann varð sér til skammar. Ég tók hið móðurlega brjál. Reiddi upp allar ræðurnar um framkomu, samskipti, vinsemd, virðingu og hvað væri viðeigandi og hvað ekki. (Sumum kann að virðast það vera í ofurlítilli mótsögn – ég er ekki alltaf mest viðeigandi manneskja í heimi!) Þegar því var lokið og reiðin og gremjan viku fyrir skynseminni veitti ég fyrst líðan hans athygli. Hann var svo innilega fullur iðrunar og eftirsjár. Hann gat ekki tekið neitt til baka. Um hann voru skrifuð misfalleg orð. Hann sá að „allir hötuðu hann“. Að „hann myndi aldrei getað bætt fyrir þetta“. Bull! sagði ég, móðir hans. Þú bara mannar þig upp og biður stúlkuna og hlutaðeigendur afsökunar. Allir geta hlaupið á sig. Sjálf eyddi ég mörgum klukkutímum nýverið í að hlusta á rígfullorðna menn segja ömurlega brandara sem einkenndust af karlrembu og kvenfyrirlitningu og það var kallað skemmtidagskrá! Fyrst þeir geta gengið um uppréttir, þá getur þú það alveg!

Drengurinn skrifaði stúlkunni bréf, bað hana um fyrirgefningu – sem hún af stórmennsku sinni veitti (aðdáunarvert hjá henni!), beygði sig því næst í duftið og baðst opinberlega afsökunar á hinum óvægna vettvangi netsins. Ég fylltist stolti. Alls ekki yfir því að drengurinn skyldi hafa hagað sér eins og kjáni. Heldur yfir því að hann skyldi hafa manndóm í sér til að finna í sér auðmýkt til að viðurkenna að hann hefði gert hræðileg mistök og sæi eftir þeim. Og ekki sem hluti af þeirri heild sem lið hans var, heldur einn og sjálfur. Hann tók á sig sína gjörð, sinn þátt í atburðinum og skýldi sér hvergi. Ég sá að honum væri, þrátt fyrir allt, svo vel viðbjargandi.

Það sem veldur mér helstum áhyggjum er síðan úrvinnslan. Hvernig spor kemur þetta til með að skilja eftir sig? Stúlkan sem hann sýndi dónaskap mun spjara sig. Hún var í fullum rétti. Hún stóð upp gegn móðguninni sem henni var sýnd og sagði opinskátt: Svona má ekki tala við mig! Og það er alveg rétt hjá henni. Ég dáist að henni fyrir vikið. Ég vildi óska að ég hefði sjálf haft kjark til að gera slíkt á hennar aldri þegar mér þótti að mér vegið sem ungri konu.

En þá eru það gerendurnir. Hvernig mun þeim takast að lifa með og sættast við gjörðir sínar? Munu þeir læra af mistökum sínum? Mun dómstóll götunnar hafa það í sér að fyrirgefa þeim, líkt og stúlkan gerði? Mörg óvægin orð hafa verið sögð. Við, fullorðna fólkið, erum óspör á þau í dómhörku okkar. Þeir hafa lesið að þeim dugi sko ekki nein afsökunarbeiðni. Að þetta sé ófyrirgefanlegt. Að þeir séu bæjarfélagi sínu öllu og jafvel öllu samfélaginu til skammar. Margt fleira hefur verið sagt sem ég treysti mér ekki til að hafa eftir.

Jú, þeir urðu sér til skammar. Sjálfum sér. Persónulega. Þeir voru skólanum sínum ekki til sóma. Og þeir eiga vitanlega að skammast sín. Sem þeir gera. En spurningin er: hvaða áhrif hefur þetta á þá? Verður þetta til þess að þeir sem fullorðnir menn komi til með að standa í fullum sal af fólki og segja „skemmtisögur“ af píkuþrengingum, hvað það sé nú karlmannlegt að míga standandi þegar nóg sé til að kvenfólki til að þrífa upp eftir þá, líkt og ég sat undir á nýafstöðnu þorrablóti?

Ég vona ekki. Ég vona einmitt að þeim hafi lærst hvað er viðeigandi og hvað ekki. Þeir hafa hlotið, það sem mætti kalla opinbera hýðingu. Sem þeir áttu eflaust skilið. Ekki dettur mér í hug að gera lítið úr gjörðum þeirra. Ég veit samt að ef þessir drengir eiga eftir að getað orðið að mönnum, þurfa þeir að getað borið höfuðið hátt aftur. Ég hef fulla trú á að það muni þeir gera.

„Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.“ Öll þekkjum við þessi tilmæli Jesú Krists. Sjaldnast förum við þó eftir þeim. Ekkert okkar er syndlaust, hvort sem komist hefur upp um syndir okkar eður ei.

Einu sinni framdi ég afar stóra synd. Í dag hefur mér verið hún fyrirgefin. Syndin sem ég dragnaðist með, hefði getað eyðilagt líf margra. Og á tímabili leit út fyrir að hún myndi gera svo. En mér bar gæfa til að bæta brot mín og synd mín varð, ef svo má segja, gæfa mín á margan hátt. Kannski af því að ég varð reynslunni ríkari og eftir það hef ég aldrei tekið neinu sem sjálfgefnum hlut.

Ég vona að sonur minn og félagar hans muni einhverntíma geta sagt það sama. Það er nú í höndum þeirra, sem og dómstólum götunnar. Samferðamönnum þeirra.

Kveðjur inn í morguninn frá andvaka móður í Bolungarvík.

Ylfa Mist er móðir Björgúlfs Egils Pálssonar, liðsstjóra ræðuliðs MÍ.

 

9 athugasemdir við “Andvaka

 1. Vissulega steig sonur þinn feilspor en, eins og þú réttilega bendir á, iðraðist hann sáran og baðst afsökunar. Fæstir hafa manndóm til þess – flestir forherðast bara við að vera bent á það sem þeir gerðu rangt. Þakka þér kærlega fyrir þessi skrif – þau minna okkur á að við getum öll hlaupið á okkur og að ekkert á að vera ófyrirgefanlegt ef syndarinn iðrast raunverulega. Sonur þinn á frábæra móður og þú átt frábæran son.

 2. Þessi drengur er lánsamur að eiga móður sem tekur á málum af svona miklum þroska og festu. Ég las fréttir af málinu og var misboðið, en las líka afsökunarbeiðnina hans og hún vakti athygli mína fyrir hversu einlæg hún var og beint frá hjartanu. Ekki reynt að réttlæta sig, heldur einlæg iðrun. Í öllu því afsökunarflóði sem hefur dunið yfir á síðustu árum, m.a. í tengslum við bankahrunið, er þetta eitt af fáum skiptum sem ég hef lesið svona yfirlýsingu sem ég virkilega trúði að kæmi beint frá hjartanu. Við þurfum öll að taka ábyrgð á gjörðum okkar, en við erum ekki mistökin og alveg óhætt að skilja þau eftir í fortíðinni en taka lærdóminn af þeim með sér áfram í framtíðina. Gangi ykkur vel 🙂

 3. Þessi skrif eru eins og þú sjálf Ylfa mín, hrein og bein og mikið sem ég er þakklát fyrir að hafa lesið þetta. Þetta mun hjálpa mér ÞEGAR mínir synir taka sín feilspor. Það er dásamlegt hvað þú sérð allt á þroskaðan og sanngjarnan hátt. Það mega allar ungar mæður líta upp til þín og sjá hlutina sömu augum og þú gerir.Strákarnir þínir eru heppnir að fá að alast upp með þig sem móður :-*

 4. Þetta verður þessum ungu strákum áreiðanlega mjög lærdómsríkt og þeir láta vonandi ekki hanka sig á slíku aftur. Þeir hafa nefnilega þá afsökun að vera ungir og óþroskaðir og fá í rauninni frábært tækifæri til að þroskast og mannast, við verðum víst öll stundum að reka okkur á, mistökin eru okkar stærstu kennarar oft á tíðum. Sökudólgurinn að mínu mati er þjálfari liðsins, þrítugur maður sem á að vita betur, sérstaklega þar sem hann á reynslu að baki sem hann hefur ekki lært af. Kannski það sé bara einmitt lærdómur ungu strákanna, að taka ekki alltaf mark á þeim sem eru eldri og reyndari en maður sjálfur því að þeir eru kannski ekki á svo góðum stað í lífinu. En sá sem baðst svona einlæglega afsökunar, hann er á flottum stað í lífinu og á bjarta framtíð. Kannski ekki síst út af þessari reynslu.

 5. Ég skil bara ekki af hverju ungir strákar í dag læra ekkert af málum eins og Gilz málinu og falla í sama forarpyttinn aftur og aftur.

  Svo er spurning í þessu máli og öðrum álíka hvort strákar sem mæta stelpum í keppni falli í þá freistni að fara í manninn en ekki boltann af því þeir vita að undan svona „húmor“ svíður sárt og í ræðukeppni gildir að koma andstæðingnum úr jafnvægi næstum „hvað sem það kostar“ en heimska þeirra varð til þess að þeir skutu undan sér fæturna í leiðinni. – En frábært að þetta endaði vel og vonandi hafa strákagreyin lært af þessu að setja sig í spor annarra áður en þeir láta vaða.

 6. Mér finnst þetta afar vel skrifað, heiðarlega og án meðvirkni. „Maður vill ekkert gera rangt – en gerir svo margt rangt.“ Og setur það sem þarna gerðist í stærra samhengi, sem er nauðsynlegt og hollt fyrir okkur öll og fyrir stráka eins og strákinn sem þarna á í hlut.

  Takk fyrir skrifin, Ylfa!

 7. Þó mér misbyði þessi framkoma drengjanna, skrifaði ég þetta á samfélagsmein … frekar en að þessir drengir væru svona slæmir. Þeir eru bara partur af stemmingu sem ríkir. Þeirra mein er að í hvert sinn sem einhver kvartar undan kvenfyrirlitningu, kynferðisdónaskap eða slíku … þá rísa flestar þeirra fyrirmyndir upp til varnar framkomunni … í stað þess að fordæma hana. Hvernig eiga ungir menn að læra heilbrigða framkomu, ef þeir eldri þrjóskast við að ástunda hana.

  Ég fyrirgaf þessum pilti af heilum hug um leið og hann baðst afsökunar … og óska honum til hamingju með að eiga frábæra mömmu. Það hygg ég að flestir aðrir geri líka.

 8. Bakvísun: Sá yðar sem syndlaus er … | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.