Markvisst uppeldi

Höfundur: Dóra Björt Guðjónsdóttir

erfðaefni

Ljóst er að genamengið og samfélagsáhrifin vinna saman að því að gera manneskju að því sem hún er, þetta á einnig við um okkar kynjatengdu eiginleika. Samfélagsáhrifin eru tilviljunarkennd og breytileg en þeim er hægt að stýra upp að vissu marki. Ef við viljum í alvöru að kynin eigi sömu tækifæri er það einmitt nauðsynlegt. Félags- og uppeldisfræði snúast um hvernig við notum þá möguleika sem líffræðin og genin bjóða upp á. Enn í dag heyrast foreldrar segja „svona, svona, þú ert svo sterkur“ við grátandi syni sína eins og það að sýna tilfinningar sínar sé af hinu illa og það þurfi að beita afli til sigrast á. Um leið er stúlkum oftast hrósað fyrir útlit sitt, eins og þeirra gildi tengist því afdráttarlaust. Hægt er að gera ráð fyrir að slík orð hafi áhrif á hugmyndir barna um sig og hegðun sína, og þau takmarka þá á vissan hátt barnið í þróun sinni og félagsmótun. Í þessum texta ætla ég að taka fyrir heimspekigreinina umhyggjusiðfræði í tengslum við uppeldisfræði og hvernig hægt er að nota hana til að breyta samfélaginu.

 Umhyggjusiðfræðin

Þróunarsálfræðingurinn Carol Gilligan skrifaði á níunda áratugnum um að menn og konur hugsi út frá mismunandi sjónarmiðum þegar þau taka  siðferðilegar ákvarðarnir. [1] Gilligan gerir greinarmun á svokölluðu réttlætissjónarmiði og umhyggjusjónarmiði og segir að karlmenn noti í meiri mæli hið fyrra og konur hið seinna. Þetta styður hún með rannsóknum þar sem börn á mismunandi aldri voru spurð út í hvernig þau myndu bregðast við mismunandi aðstæðum þar sem þau stæðu fyrir mismunandi siðferðilegum ákvörðunum. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að við siðferðilegar ákvarðanir byrjuðu flestir drengir á að miða við sjálfa sig og sína persónulegu hagsmuni og færðu svo athyglina yfir á fólkið í kringum sig, til sinna tengsla. Stúlkur byrjuðu aftur á móti að hugsa um tengslin og leiddu þar næst hugann að sér sem einstaklingum. Hvort þetta sé afleiðing erfða eða félagsmótunar verður ekki efni greinarinnar, en gert er ráð fyrir að þetta sé samblanda beggja og að því sé hægt að hafa áhrif á þetta.

Skrif Gilligan voru vísir að umhyggjusiðfræðinni, heimspekigreinar sem snýst um rannsóknir á gildismati þess sem í gegnum tíðina hefur verið heimur konunnar; heimilið og hið persónulega gagnstætt hinu opinbera sem sögulega hefur verið umhverfi karlmannsins. Umhyggjusiðfræðin hefur það sem markmið að vísindin taki inn hið sögulega kvenlega sem áður var að miklu leyti yfirséð í fræðikenningum og vísindum allmennt.

Gilligan heldur því fram að sennilega sé best að drengir og stúlkur blandi saman umhyggju- og réttlætissjónarmiði til að verða sem hæfastir einstaklingar. Það segir sig næstum sjálft að því fleiri sjónarmið sem koma að ákvarðanartöku því betri verði ákvörðunin. Mismunandi upplifanir hvers einstaklings móta manneskjuna og skilur okkur frá hvert öðru. Bæði sjónarmiðin eru mikilvæg og eiga að njóta virðingar. Að einskorða ákveðin sjónarmið við eitt kynið í gegnum uppeldið hefur áhrif á möguleika okkar og þróun okkar. Hægt er að túlka þetta á þann veg að það að ala börn upp á þann hátt að þau eigi sama möguleika á að þróa með sér bæði þessi sjónarmið gefi þeim jafnari möguleika seinna í lífinu.

Merki Hjallastefnunnar. Myndin er sótt hingað.

Merki Hjallastefnunnar. Myndin er sótt hingað.

Á Íslandi fyrirfinnst skólastofnun sem hefur það að markmiði að kenna stúlkum og drengjum bæði þessi sjónarmið. Sú vill gera þau sem hæfust fyrir lífið með því að hjálpa þeim að skilja hvort annað og kunna að meta hvort annað á jafnréttisgrundvelli. Þessi stofnun er Hjallastefnan sem rekur marga leikskóla hérlendis og einnig nokkra barnaskóla fyrir fyrstu fjögur skólastigin. Undirrituð vann hjá Hjallastefnuleikskóla einn vetur fyrir nokkrum árum. Á nokkrum mánuðum kynntist ég hugmyndastefnu og uppeldisfræði leikskólans og lærði hvernig ég skyldi bera mig að til að nota hana í skólastarfinu.

Einstaklingsmiðað kerfi

Til að ná tilætluðum árangri leggur Hjallastefnan áherslu á að sambandið milli einstaklingsins og kerfisins sé háttað á þann veg að þarfir einstaklingsins komi á undan þörfum kerfisins. Hver einstaklingur á að fá einstaklingsmiðaða kennslu og aðstoð eftir þörf. Það sem ég hef upplifað í starfi mínu hjá ónefndum ekki-Hjallastefnuleikskóla var að þarfir kerfisins fengu í rauninni að koma á undan þörfum einstaklingsins þrátt fyrir að þetta hafi sennilega ekki verið meðvitað. Það viðhorf er í mínum huga óheppilegt. Það bætir engu við barnið nema hugmyndinni um að það sé bara hluti af kerfi, ekki mikilvægur einstaklingur. Að sjálfsögðu er mikilvægt að læra að taka tillit til annarra, en það er hægt að læra það á jákvæðan hátt í einstaklingsmiðuðu kerfi þar sem mismunandi einstaklingar fá að halda sérkennum sínum og dafna og þróa hæfileika sína.

Skiptir kyn máli á leikskóla? Myndin er sótt hingað.

Skiptir kyn leikskólabarna máli ? Myndin er sótt hingað.

Starfsfólk ónefnda ekki-Hjallastefnuleikskólans sem ég vann hjá sagðist einnig meðvitað hafa hugmyndastefnu að vinna eftir og það virðast flestir leikskólar hafa. Þó varð ég sjaldan vör við að þessari hugmyndastefnu væri beitt í verki. Það virkaði eins og hún væri mest notuð til að skreyta skólann með fallegum plakötum og kjarnagildum svo foreldrarnir gætu haldið til vinnu sinnar á morgnanna án minnsta samviskubits. Það verður að gera hugmyndina að verki á hverjum degi, á hverri stundu, svo hún hafi áhrif.

Hugmyndastefna Hjallastefnunar gegnumsýrir allt skólastarfið, hver einasti þáttur skóladagsins er vel úthugsaður út frá þeim markmiðum sem ég hef nefnt. Það að barnið upplifi sig sem mikilvægan og sérstakan einstakling er aðalatriði hjá Hjallastefnunni, allt skipulag beinist að þessu markmiði, þar á meðal deildarskiptingin og hópaskipting innan deildanna þar sem börnum er deilt upp eftir aldri og kyni til að hægt sé að taka hvað mest tillit til þarfa einstaklingsins. Þessi deildarskipting er umdeildasti þáttur Hjallastefnunnar meðal þeirra sem standa utan við hana, en einn sá mikilvægasti í starfinu. Margrét Pála Ólafsdóttir [2] skrifaði meistararitgerð um muninn á Hjallastefnubörnum og öðrum börnum í grunnskólastarfi, eftir að þau koma saman í kynjablönduðum skóla. Hennar niðurstaða var byggð á spurningakönnunum sem foreldrar, börn og kennarar svöruðu um „færni, líðan og viðhorf þátttakenda“. Munurinn var sá að Hjallastefnubörnin virtust hafa meiri almenna sjálfsvirðingu, meiri námsgetu og vera öruggari gagnvart gagnstæða kyninu.

Það sýnir sig í kynjablönduðu skólastarfi að drengir eru ókyrrastir og trufla starfið, með þeim afleiðingum að þeir fá mesta athygli þar sem starfsfólkið neyðist til að nota orku í að róa þau börn sem trufla. Þegar þetta ferli endurtekur sig, og er oftast kynjabundið, það er að segja að stúlkurnar bíða á meðan vandræðadrengirnir eru róaðir, þá festist það í sessi og hefur áhrif á hugmyndir barnanna um sjálf sig. Stúlkur læra að bíða og þegja á meðan strákarnir læra að taka pláss og krefjast athygli með látum. Þegar stúlkurnar eru rólegar og bíða fá þær athygli í formi hróss, því flestir kennarar þakka fyrir þau börn sem taka lítið pláss og auka ekki á vandræðin. Allt þetta styrkir svo kynjaða háttalagið sem hefst vegna kerfisins.

Hjallastefnan hefur úthýst því kerfi sem festir þetta kynjaða háttalag í sessi með því að kynjaskipta deildirnar. En það þýðir ekki að kynin hittist ekki. Kynin hittast á hverjum degi í svokallaðri blandaðri stund þar sem þau mætast á jöfnum grundvelli og leika með verkefni sem þau eru líkleg til þess að takast jafn vel upp með. Einnig gera börnin jafnan æfingar þar sem þeim er kennt að trúa á sig og þora að stíga fram og láta rödd sína heyrast um leið og þau eigi að vera góð við hvort annað og taka tillit. Bæði kynin læra þannig að nýta þau tvö sjónarmið sem Gilligan og umhyggjusiðfræðin fjalla um. Þar með er hringurinn rofinn og nýtt jákvætt kerfi byggt upp. Þetta veit ég ekki til að neinir aðrir íslenskir skólar og leikskólar hafi gert.

Á okkar tímum höfum við aðgang að niðurstöðum umfangsmikilla rannsókna á sviði sál- og uppeldisfræði. Þessi nýja vitneskja getur hjálpað okkur á svo margvíslegan hátt, þar á meðal við uppeldi barna okkar. Hana verður að nýta fyrir alvöru til að breyta, auka tækifæri einstaklingsins og gefa fjölbreytileikanum pláss. Bætum heiminn og byrjum á uppeldi einstaklingsins.

Tilvísanir: [1] Carol Gilligan. 1982. In a different voice. London: Harvard University Press. [2] Margrét Pála Ólafsdóttir. 2000. Gengi Hjallabarna í grunnskóla. Hefur kynjaskipt leikskólastarf áhrif á færni, líðan og viðhorf stúlka og drengja þegar í grunnskóla er komið? Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands. Höfundur stundar nám í heimspeki- og alþjóðafræði við Háskólann í Osló og Freie Universität í Berlín

10 athugasemdir við “Markvisst uppeldi

  1. Hjallastefnan er örugglega ágæt fyrir suma en hvers vegna þurfa allar greinarnar um hana að gera lítið úr öðrum aðferðum? Jújú, höfundur hér fer fínt í það og nefnir bara einhvern einn ónefndan leikskóla, öfugt við höfuð stefnunnar sem ræðst á almenna skólakerfið með offorsi og rangfærslum.

    Ég veit bara að minn gutti, sem undi sér best einn úti í horni að perla og átti einn vin í leikskólanum – stelpu – hefði engan veginn þrifist ef hann hefði verið neyddur til að vera aðallega í kring um ókyrra stráka í leikskóla. Bara vegna kyns síns.

    • Sammála. Mér finnst mjög leiðinlegt að sjá þessa anecdotal röksemdafærslu notaða til þess að tala upp Hjallastefnuskólana á kostnað hins almenna skólakerfis.

      Eins geri ég alvarlega athugasemd við það að nota Mastersritgerð forstöðukonu og höfund Hjallastefnunnar um gengi Hjallastefnunnar sem röksemdafærslu um gæði hennar. Það er augljóst mál að Margrét Pála er ekki í stakk búinn til þess að fjalla hlutlaust um málið á fræðilegum grundvelli. Þessi mjög svo ófullkomna heimild stendur hér ásamt einni annarri heimild – en engar heimildir eru notaðr til þess að fjalla um hið almenna skólakerfi.

      Mér finnst þetta eiginlega vandræðaleg grein og satt að segja ekki Knúzinu samboðin. Það er ekki þar með sagt að Hjallastefnan sé slæm eða að Margrét Pála alvitlaus – en greinin hvorki afsannar né sannar það.

      • Kári, færslan sem þú ert sammála byggir á anecdoti um „einn gutta, sem unir sér best út í horni“. Þýðir það að þér sé í nöp við eigin athugasemd?

    • Drengirnir mínir þrír hafa allir verið í almennum ekki-Hjallastefnuleikskóla og það hefur verið ákaflega vel um þá hugsað, sem og þarfir þeirra. Ég skil ekki þessa endalausu þörf Hjallastefnufólks að hnýta í og gera lítið úr starfsfólki á almennum leikskólum og því góða starfi sem víða er þar stundað.

      • já segi sama – á Grænuborg þar sem allir mínir krakkar voru, gengu börnin alveg fyrir. Þegar uppgötvast að dóttir mín, þá að verða fjögurra, var með króníska eyrnabólgu og heyrði mjög illa, var starfsmaður sendur á talkennslunámskeið og hún fékk einkatíma á hverjum einasta degi upp frá því, þar til hún útskrifaðist. Kalla það ekki að börnin víki fyrir þörfum kerfisins.

  2. Ég hef ekki kynnt mér Hjallastefnuna til hlítar og finnst áhugavert að lesa umfjöllun höfundar um hana. Hins vegar tek ég undir með öðrum hér, að mér finnst óþarfi að tala niður til annarra leikskóla án þess að hafa kynnt sér þá nánar. Margir leikskólar hafa ákveðnar, sérstakar stefnur og það væri áhugavert að skoða nánar og bera saman skólastarfið milli þessara leikskóla með kynjajafnrétti í huga. Líklega hafa ekki verið gerðar nægilega víðtækar rannsóknir á þessu sviði til að hægt sé að fullyrða um gagnsemi ákveðinna hugmynda til að stuðla að jafnrétti kynjanna – en væri áhugavert.

  3. Sæl verið þið og takk fyrir athugasemdir. Mitt takmark með þessari grein var alls ekki að segja að allt annað skólakerfi væri slæmt og var hún ekki meint sem neinskonar árás á neinn, heldur vildi ég reyna að útskýra hugmyndafræði Hjallastefnunnar byggt á minni eigin upplifun sem starfsmanns, og mér þótti umhyggjusiðfræðin koma að gagni. Til samanburðar nefni ég svo annan leikskóla sem ég unnið hjá, svo ég er ekki að reyna að fela að þetta er mín persónulega upplifun og greining. Það er bara yndislegt ef ykkar börn hafa haft það gott í öðrum leikskólum og ég efa það ekki. Ég ætlaði mér ekki að koma með mjög fræðilega grein með fullt af heimildum, heldur vildi ég greina praktíska vinnuferla Hjallastefnunnar sem ég lærði í starfi mínu út frá þessari heimspeki sem ég hef haft áhuga á í gegnum mitt heimspekinám, til bæði gagns og gamans.

    • Já – ég er bara svo ósammála þeirri eðlishyggju sem felst í Hjallastefnunni. Strákar eru ekkert allir eins og allir órólegir, stelpur heldur ekki allar litlar og feimnar og þurfa pláss í friði frá strákunum. Væntanlega algengt en engan veginn algilt. Og hvað með transkrakka sem eru ekki búnir að átta sig í líkamanum?

    • Ég sé svolítið eftir því hvað ég var hvass í athugasemdinni minni. Ég hef þróað með mér vissa vörn gegn umræðu um Hjallastefnuna og keyrði um þverbak. Ég vona að við tökum áfram góða umræðu um gildi kynjafræðilegrar nálgunar á skólastarf og þakka þér fyrir að setja boltann af stað.

  4. Enn og aftur takk fyrir athugasemdirnar. Þetta er mikilvæg umræða og gott að fá innspil og pælingar.

    Hildigunnur:
    Það er rétt hjá þér að það er ekki algilt, heldur algent, og þess vegna hægt að kalla það kerfisbundið. Ég myndi halda að það snúist minna um líffræði þeirra og meira um hvernig sé talað við þau frá blautu barnsbeini. Þar með er talað eins við transbörn eins og önnur byggt á líffræðilegu kyni þeirra. Ég hef lesið einhversstaðar rannsókn sem sýndi að það er ótrúlegur munur á því hvernig fólk talar við að meira að segja ungabörn út frá kyni. Það hljómar kannski furðulega en með því að kynjaskipta deildirnar finnst mér Hjallastefnunni einmitt takast að búa til meira pláss fyrir hvern einstakling hvort sem hann sé „týpískur“ strákur eða „týpísk“ stelpa svo að börnin upplifi sig sem einstaklinga og ekki sem kyn, og það er mikil meðvitund um hvernig er talað við börnin og að það sé ekki byggt á kyni þeirra. Það er svo ætlunin, sem virðist takast ágætlega, að stúlkur og drengir sjái hvort annað frekar sem einstaklinga og ekki bara sem kyn, og unnið sérstaklega með það í blönduninni sem ég nefndi í greininni.

    Kári Emil:
    Takk fyrir þessa athugasemd, ég kann virkilega að meta hana. Ég vona líka að við getum saman opnað fyrir áhugaverðar pælingar um skólakerfið og möguleika þess í jafnréttisbaráttunni. Þegar ég nefni hinn leikskólann sem ég vann hjá vil ég undirstrika að það var ekki til að segja að allt hjá þeim leikskóla sé slæmt, það voru margir mjög flottir og hæfileikaríkir leikskólakennarar sum unnu góða vinnu á þeirri stofnun. En mér fannst kynjameðvitundin sem er hjá Hjallastefnununni hafa vantað. Ég var stundum furðulostin yfir því hversu mikið stúlkum var hrósað fyrir bæði klæðnað og útlit, á meðan strákarnir voru kallaðir sterkir og öflugir (stundum til þess að „pína“ þá til að hætta að gráta). Þetta hefur verið leyst í Hjallastefnunni með því að notast við skólabúninga sem eru eins fyrir alla (þægileg föt sem börnin eiga auðvelt með að leika sér í). Auk þess var mín upplifun sú að hinn leikskólinn hafi ekki verið jafn upptekinn af kennslumöguleikunum sem felast í leikskólum, og mér fannst okkar starf hafa snúist mun meira um að passa börnin en að kenna þeim.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.