Opið bréf til Gylfa Ægissonar

Höfundur: Nansý Guðmundsdóttir

Við hvað ert þú hræddur, Gylfi? Ég myndi bjóða þér í kaffi til mín og gott málefnalegt spjall, en ég get það ekki. Ég flutti erlendis!

Þú talar fyrir því að vernda börnin okkar frá samkynhneigðum, svo ég spyr þig: Hvað með samkyn­hneigðu börnin? Ætlar þú að vernda þau frá sjálfum sér líka?

gylfiægis20bestuköstinNú skrifa ég hér sem móðir 17 ára gamals drengs sem er samkynhneigður. Við vissum það þegar hann var þriggja ára. Ég réð mig í vinnu á gamla leikskólanum hans eftir BA námið mitt í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands sirka 13 árum seinna, leikskólakennararnir vissu þetta. Flestir í fjölskyldunni vissu það fyrir 5 ára aldurinn, svo opinn og yndislegur var hann og er! Heldur þú að hann hafi bara valið þetta?

En hann var öðruvísi, hann fór sínar eigin leiðir og gerir enn. Hann fylgdi aldrei þessu „normi“ hvað svo sem það á að vera. Hann fór sem Mjallhvít í leikskólann einn öskudaginn, við útskýrðum fyrir honum að hann kæmi líklega niðurbrotinn heim, því við vissum að enn væri til svona fólk eins og þú. Hann kom niðurbrotinn heim!

Hann fór með bangsa á dótadag í skólann því hann lék sér ekki með þetta hefðbundna action strákadót sem var vinsælt þá. Við útskýrðum sama hlutinn fyrir honum og við gerðum með leikskólann bara nokkrum árum seinna, því við vissum að enn var til svona fólk eins og þú. Hann kom niðurbrotinn heim!

Hann vissi sem betur fer að knúsin voru alltaf til staðar heima, til að vega upp á móti svona fólki eins og þér!

Krakkar geta verið illgjörn, þau leggja í einelti, þau stríða, þau skilja ekki fjölbreytileika eins vel og við fullorðna fólkið gerum, eða flest okkar. Það þarf að fræða börnin, kenna þeim og fá þau til að skilja að það eru ekki allir eins. Sonur minn gekk í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, sú skólaganga var hræðileg fyrir hann þar til í 8. bekk, þá eignaðist hann, sem betur fer, nokkrar góðar vinkonur og tvo góða vini. Þessa vini er hægt að telja á fingrum annarrar handar. Aldrei gleymum við þó námsráðgjafanum og umsjónakennaranum hans sem loks tóku almennilega á málunum.

Ég fagna því mínum heimabæ og allri fræðslu um fjölbreytileikann. Mér leiðist að tala um „hinsegin“ fólk. Við erum öll fólk, sama hvaða lit við berum, trúabrögðum við fylgjum eða kynhneigð við höfum, við erum eins misjöfn og ólík eins og við erum mörg. Ég vona svo innilega að þessi fræðsla nái fram að ganga og í alla skóla til að vega upp á móti fólki eins og þér. Kannski þá þurfa þessi börn ekki að ganga um með kvíðahnút og skömm í maganum yfir því að finnast þau öðruvísi en aðrir, meðtekin í hópinn og ekki skilin útundan.

Vernd fyrir fólki eins og þér

Gylfi, þú talar um að barnaverndalög eigi að vernda börnin okkar og já þau eiga svo sannarlega að gera það, lögin og við, foreldrarnir, eigum að vernda þau fyrir fólki eins og þér!

Þegar þú komst fyrst fram með þína fordóma og fáfræði um samkynhneigt fólk þá varst þú að tala um barnið mitt og hjálpi mér hvað mér sárnaðu þessi ummæli þín. Ég skora á þig, Gylfi, skoðaðu barnaverndarlögin aftur og segðu mér hvaða grein laganna þú sjálfur hefur brotið með því að tala svona um barnið mitt (og öll hin samkynhneigðu börnin) í fjölmiðlum? Lestu vel, því greinin er þarna!

Þú talar um að barnið mitt skemmist fyrir að vera hann sjálfur! „Börn sem horfa á og alast upp við að þetta sé allt eðlilegt finnst þetta kannski spennandi og skemmast við að sjá þetta seinna meir. Ef svo að þjóðin öll verður orðin öfug eftir nokkur ár, þarf að flytja inn börn frá Rússlandi,“ skrifar þú. Gylfi þú gerir þér grein fyrir því að samkynhneigð er ekkert val!

Það yndislega við þetta allt saman er að 17 ára sonur minn stendur uppi sem hetjan, fyrir að hafa þolað fólk eins og þig, lesið það sem þú hefur skrifað og hlustað á það hvernig þú talar um hann. Hann lét  það ekki á sig fá, það sama má segja um allar hinar hetjurnar sem fagna fjölbreytileika og láta ekki hópa eins og þinn, „Barnaskjól“ sem hafa 380 „like“ á Facebook þegar þetta er skrifað, á meðan hópurinn „Verndum börnin frá fáfræði og fordómum“ hefur 6.465. Þið eruð hávær lítill hópur, það verð ég að gefa ykkur en takk kærlega fyrir þið 6.465 sem standið á bak við þessi „like“. Þið eruð best í heimi. Gylfi, þú sagðir í Útvarp Sögu „þjóðin hefur talað“, hvað segja tölurnar þér?

Áfram fjölbreytileikinn, áfram Hafnarfjörður og áfram sonur minn!
Kossar og knús frá Svíþjóð

Kveðja
Nansý Guðmundsdóttir

Ein athugasemd við “Opið bréf til Gylfa Ægissonar

  1. Góð grein! Er að vísu ekki sammála því að börn skilji ekki fjölbreytileika. Þau gera það best af öllum! Þangað til einhver fullorðinn skapar eitthvað annað í huga þeirra (eða jafnaldrar sem einhver fullorðinn hefur haft neikvæð áhrif á).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.