Lítil spor

Höfundur: Ásdís Thoroddsen

Tvær nýlegar kvikmyndir Höllu Kristínar Einarsdóttur hafa fengið mig til að líta um öxl og rifja upp liðna tíma, því að þessi mikla saga sem myndirnar greina frá, hefur gerst á uppvaxtarárum mínum, í minni borg. Þegar Vilborg Dagbjartsdóttir setti auglýsinguna í útvarpið 1970 og hvatti konur á rauðum sokkum að mæta í kröfugönguna fyrsta maí, var ég í barnaskóla. ,,Konur á rauðum sokkum“ segir frá tíma Rauðsokkanna. Síðari myndin, sú sem nú er til sýninga, ,,Hvað er svona merkilegt við það?“ fjallar um kvennaframboðin tvö á níunda og tíunda áratug, en þá var ég komin í háskólanám til útlanda. Aldrei kom það til að ég tæki þátt í starfsemi þessara félagasamtaka, sem breyttu svo miklu og þegar ég horfði á myndirnar spurði ég, hvar var ég?

Í slíkum vangaveltum á leiðinni heim af seinni mynd mundi ég eftir skjali sem ég hafði fundið í glatkistunni, ljósrituðu bænarskjali frá bekknum mínum í Laugarnesskóla, 4-L og frá nokkrum í 4-A. Árið var 1969. Komin heim skellti ég upp kistulokinu og gramsaði, fann pappírinn. Á honum stendur (málfars- og stafsetningarvillur ekki leiðréttar):

ljosmyndHerra skólastjóri!
Við í 4.L. og sumar stelpur í 4.A. beiðumst þess að skólastjóra vorum að stúlkur mega líka vera í smíði því ýmsar stúlkur og þær sem skrifaðar eru á eftirfarandi lista óska þess. Er það beinasta afturhald að stúlkur þurfa að stoppa sokka og sauma, í stað þess að vinna úti, og taka þátt í lífi og starfi þjóðarinnar. Og beiðumst við þess af skólastjóra, að sinna ósk þessari. Við vitum að ekki er hægt að breyta þessu á þessum vetri en við vonum að þessu verði breyt á næsta vetri. Virðingarfyllst:

Síðan kemur löng strolla nafna niður síðuna, en því miður var bakhliðin ekki ljósrituð, en þar voru nöfn enn fleiri stúlkna og drengjanna. Allir krakkar í 4-L undirrituðu skjalið og börn úr öðrum bekkjum vildu það líka, en áður en varði var búið að hlaupa með skjalið til skólastjóra og leggja inn, svo færri komust á blað en vildu. Skólastjórinn kom til móts við okkur; næsta vetur fengu stúlkur í 5-bekk einn mánuð í smíði og tálguðum við út hind á mjóum fæti og drengirnir saumuðu út mynd af Gamla-Ford, sem var sett á púða.

(Sögnin að beiðast e-s kemur tvisvar fyrir í þessum stutta texta og veit ég ekki hvaðan hún er ættuð. Kannski að lestur á Þúsund og einni nótt hafi valdið, þar sem undirdánugir beiðast hins og þessa af kalífanum Harún al Rashid).

Ég hefði gjarnan viljað segja að hugmyndin að bænarskjalinu hafi verið mín, en það var hún ekki heldur var hún pabba míns, (Sigurðar, 1902-1983) þegar ég kvartaði við matverðarborðið yfir því, að við stelpurnar fengjum ekki smíðakennslu og strákarnir ekki að sauma. En hver á hugmyndir? Liggja þær ekki í loftinu? Var þetta ekki andi tímans? Þarna var árið 1969, veturinn áður en styttan úr Lýsiströtu var borin niður Laugaveginn. Börn eru næm á andrúmsloft.

Sama handavinnukennsla fyrir bæði kyn (þá voru þau aðeins tvö) var sett inn í fræðslulöggjöf árið 1974. Misjafnt var eftir landshlutum og jafnvel skólum hvenær reyndist unnt að framfylgja henni, út frá húsnæði og stundatöflum en Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur segir pistlahöfundi að hún haldi að flestir skólar í Reykjavík hafi þá byrjað strax. Barátta rauðsokka og Úanna í Kvenréttindafélaginu hafi skilaði sér þarna en þær voru margar barnakennarar. En pistlahöfundur leyfir sér að ætla, að framtak 4 bekkjar L í Laugarnesskóla hafi líka verið lóð á vogarskálina, því að Kristján J. Gunnarsson heitinn, skólastjóri Langholtsskóla og síðar fræðslustjóri árið 1973, var faðir einnar stúlkunnar í okkar bekk, Elínar. Þessi breyting á handavinnukennslu mun hafa verið ein af hans fyrstu verkum í embætti fræðslustjóra.

En þetta var ekki í eina skiptið sem nemendur létu í sér heyra vegna handavinnukennslu. Vinkona mín Björg Björnsdóttir var á fermingaraldri í Egilstaðaskóla árið 1983-84. Í þeim skóla fengu stúlkur ekki að spreyta sig á smíðum né strákar á saumum, þótt það væri fyrir löngu komið inn í fræðslulöggjöfina. Stúlkurnar fóru fram á smíðakennslu og var þeim útdeilt tíma klukkan níu á laugardagsmorgni um eitthvert skeið. Þær létu sig hafa það og rifu sig upp á frídeginum með miklum sjálfsaga.

Svona tökum við þátt í stórum breytingum, með mörgum smáum sporum.

6 athugasemdir við “Lítil spor

  1. Ég var í Seljaskóla og er fædd 1969. Þar var handavinna og smíði kennd þannig að helming ársins voru strákar í smíði og stelpur í handavinnu og svo var skipt. Einn veturinn, líklega 1980 eða 1981, kom upp sú staða að handavinnukennarinn neitaði að taka strákana. „Lausnin“ var vitanlega sú að fella þá bara niður smíðatíma fyrir stelpurnar, sleppa þessari skiptingu. Við vinkonurnar vorum nú ekki sáttar og áttuðum okkur á því að í þessu fælist mismunun. Við sendum bréf til menntamálaráðherra og lausnin breyttist í að strákarnir fengu frí þegar við stelpurnar fórum í smíði.

  2. Ég man að ég reyndi þetta í Hagaskóla árið 1989 en þá vildi engin skrifa undir. Það var greinilega allt of kósí í handavinnu og hitt of mikið vesen.

  3. Við í Garðaskóla fengum smíði í 8. bekk (núverandi 9. bekk). Stelpurnar fyrir jól og strákarnir voru í handavinnu á meðan. Ríflega hálfa önnina „fengum“ við að hefla spýtu þar til hún yrði nægilega slétt til að kennarinn væri sáttur. Ég man ekki eftir hvað annað við gerðum. Þetta varð ekki til þess að stelpurnar sæktust eftir smíði í 9. bekk.

  4. Um svipað leyti fórum við á fund skólastjóra í Laugalækjarskóla nokkrar stelpur og báðum um smíðakennslu í anda jafnréttis. Til að byrja með fengum við hálfan vetur og máttum velja okkur verkefni – ég smíðaði skáphillu með útskornu hjarta.

  5. Gaman að þessu. Um svipað leyti gengum við nokkrar stelpur í Laugalækjarskóla á fund skólastjóra og báðum um smíðakennslu í anda jafnréttis. Fengum hálfan vetur á móti handavinnunni. Máttum smíða eitthvað að eigin vali – ég smíðaði skáphillu með hjarta.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.