Hér fer hugleiðing sýningastjórans, Helgu Þórsdóttur:
Í viðtali sem Margrét Sveinbjörnsdóttir tók við Sigurð Pétursson sagnfræðing í útvarpsþættinum Ég heiti Karitas Skarphéðinsdóttir var hann spurður hvort fólk á Vestfjörðum kannaðist almennt við Karítas og sögulegt framlag hennar. Svar hans var einfaldlega: „Nei“ — almúgakonur frá fyrri hluta tuttugustu aldar eru ekki partur af hinni stóru söguklukkuskífu sem tikkar í rökréttu framhaldi, frá sekúndu, til mínútu og þaðan yfir í klukkutíma, eða frá Jóni Baldvinssyni til Jóns Baldvins Hannibalssonar.
Femínistinn og heimspekingurinn Rosi Braidotti fjallaði í bók sinni Metamorphoses um afleiðingar þess að tilheyra óskilgreindum minnihlutahópi, eins og fullyrða má að hafi verið hlutskipti Karítasar. Þar segir hún líkamann vera miðju hins pólitíska valds, bæði í hinu stóra þjóðhagslega samhengi og í hinu smáa persónulega samhengi. Þetta er sá kraftur sem hagnýtir sér líkama borgaranna til að keyra heimshagkerfið. Fjöldinn er háður valdi þessarra krafta og fer þannig, út frá túlkun Milans Kundera, með hlutverk innskotsins í hinu stóra samhengi valdsins. Kundera fjallar nánar um hugmyndina um innskotið í bók sinni Ódauðleikanum:
Innskotið er mikilvægt hugtak í verki Aristótelesar, Um skáldskaparlistina, Aristóteles er lítt hrifinn af innskotinu. Innskotstilburðir eru að hans dómi allra atburða verstir (ef litið er út frá skáldskaparlistinni). Þar sem innskotið er ekki nauðsynleg afleiðing þess sem undan er gengið og hefur engar afleiðingar í för með sér, stendur utan við þá atburðarás sem sagan er.
Karitas mun hafa talist kona i meðalagi að vexti, grannvaxin og létt í hreyfingum. Hún hélt sig vel i klæðaburði, og fékk fyrir það glósur frá búrakörlum og öðrum, sem töldu að almúgafólk hefði engan rétt til að ganga sómasamlega til fara. Hún var ein af þeim, sem ekki lét baslið smækka sig. Hún kunni vel að koma fyrir sig orði og flutti mál sitt af einurð og festu.
Kundera gengur út frá forsendum Aristótelesar, en bætir síðan við þessu: „Ekkert innskot er fyrirfram dæmt til að vera innskot til eilífðarnóns, því hver atburður, jafnvel sá allra ómerkilegasti, býr yfir þeim möguleika að geta seinna orðið orsök annarra atburða, og breytast á þann hátt í sögu, ævintýri.