… ég var aldrei barn … Karítas Skarphéðinsdóttir

Mánudaginn 19. júní 2017 var formlega opnuð ný grunnsýning í Byggðasafni Vestfjarða sem byggir á ævi Karítasar Skarphéðinsdóttur og ber sýningin heitið Ég var aldrei barn.

Hér fer hugleiðing sýningastjórans, Helgu Þórsdóttur:

Í viðtali sem Margrét Sveinbjörnsdóttir tók við Sigurð Pétursson sagnfræðing í útvarpsþættinum Ég heiti Karitas Skarphéðinsdóttir var hann spurður hvort fólk á Vestfjörðum kannaðist almennt við Karítas og sögulegt framlag hennar. Svar hans var einfaldlega: „Nei“ — almúgakonur frá fyrri hluta tuttugustu aldar eru ekki partur af hinni stóru söguklukkuskífu sem tikkar í rökréttu framhaldi, frá sekúndu, til mínútu og þaðan yfir í klukkutíma, eða frá Jóni Baldvinssyni til Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Karítas er hér kynnt sem bæði táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma; hún er líkami konu sem ekki var ætlað að hafa yfirráð yfir sjálfri sér. Þannig var skipt á henni og húsi þegar hún var aðeins 16 ára gömul.
Femínistinn og heimspekingurinn Rosi Braidotti fjallaði í bók sinni Metamorphoses um afleiðingar þess að tilheyra óskilgreindum minnihlutahópi, eins og fullyrða má að hafi verið hlutskipti Karítasar. Þar segir hún líkamann vera miðju hins pólitíska valds, bæði í hinu stóra þjóðhagslega samhengi og í hinu smáa persónulega samhengi. Þetta er sá kraftur sem hagnýtir sér líkama borgaranna til að keyra heimshagkerfið. Fjöldinn er háður valdi þessarra krafta og fer þannig, út frá túlkun Milans Kundera, með hlutverk innskotsins í hinu stóra samhengi valdsins. Kundera fjallar nánar um hugmyndina um innskotið í bók sinni Ódauðleikanum:
Innskotið er mikilvægt hugtak í verki Aristótelesar, Um skáldskaparlistina, Aristóteles er lítt hrifinn af innskotinu. Innskotstilburðir eru að hans dómi allra atburða verstir (ef litið er út frá skáldskaparlistinni). Þar sem innskotið er ekki nauðsynleg afleiðing þess sem undan er gengið og hefur engar afleiðingar í för með sér, stendur utan við þá atburðarás sem sagan er.
Ef við skoðum feril Karítasar í þessu samhengi, þá má velta því fyrir sér hvort hún hafi verið undirseld því hlutverki að vera innskot. Það er ljóst að hún tók á ferli sínum meðvitaða afstöðu til eigin lífs og aðstæðna og hún ákvað að leggja sjálfa sig undir sem farveg breytinga. Þetta átti bæði við um persónulegt líf hennar og þau átök sem hún átti í við utanaðkomandi öfl, í átökum hennar gegn valdboði og stofnunum valdsins. Halldór Ólafsson minnist hennar í grein í Þjóðviljanum með þessum orðum:
Karitas mun hafa talist kona i meðalagi að vexti, grannvaxin og létt í hreyfingum. Hún hélt sig vel i klæðaburði, og fékk fyrir það glósur frá búrakörlum og öðrum, sem töldu að almúgafólk hefði engan rétt til að ganga sómasamlega til fara. Hún var ein af þeim, sem ekki lét baslið smækka sig. Hún kunni vel að koma fyrir sig orði og flutti mál sitt af einurð og festu.
Karítas Skarphéðinsdóttur sem persóna hefur greinilega ekki haft áhuga á því hlutverki sem innskotið býður upp á. Samtal hennar og virkni í umhverfinu hefði út frá því átt að skila henni meiru, eða varanlegum ódauðleika, umsvifalaust og áður en hold hennar náði að hrörna. Hún átti skilinn varanlegan stað á Íslandssöguklukkuskífunni.

Kundera gengur út frá forsendum Aristótelesar, en bætir síðan við þessu: „Ekkert innskot er fyrirfram dæmt til að vera innskot til eilífðarnóns, því hver atburður, jafnvel sá allra ómerkilegasti, býr yfir þeim möguleika að geta seinna orðið orsök annarra atburða, og breytast á þann hátt í sögu, ævintýri.

Ekki geri ég ráð fyrir að Karítas hafi ætlað að skilja eftir sig ævintýri, en sögu skildi hún eftir, sögu sem við hjá Byggðasafni Vestfjarða leggjum okkur fram við að segja í nýrri grunnsýningu safnsins. Hér reynum við að koma til skila samtali hennar við ráðandi öfl, samtali sem skilaði árangri til skemmri og lengri tíma í formi bættra lífskjara fyrir hönd vinnandi stétta. Söguklukkuvísinum er hér beint að konu sem átti ekki að vera neitt nema innskot — sem „hefur engar afleiðingar í för með sér, stendur utan við þá atburðarás sem sagan er — en tók í staðinn frumkvæði í viðleitni sinni til að stjórna eigin lífi. Með þessu átti hún þátt í að skapa rekjanlega atburðarás — ævintýri sem tikkar í rökréttu framhaldi frá Karítas Skarphéðinsdóttur til Bjarkar Guðmundsdóttur.
Hér má enn hlusta á áhugaverðan útvarpsþátt um Karítas Skarphéðinsdóttur, sem vísað er til í hugleiðingunni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.