Sagan endurtekur sig

Höfundur: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta var á aðfangadagskvöld árið 1989. Fjölskyldan öll saman komin heima hjá systur minni og komið að hinu hefðbundna ávarpi biskupsins. Frá því sjónvarp kom á æskuheimili mitt höfðum við alltaf hlustað á biskupinn á aðfangadagskvöld. Ekki af neinni sérstakri trúrækni, bara gömlum vana frá fyrstu árum íslenska sjónvarpsins þegar ávarp biskups var eitthvað. Svo mæltist séra Sigurbirni oft vel, hann var góður ræðumaður.

En nú var kominn nýr biskup. Pétur Sigurgeirsson búinn að þjóna í millitíðinni í nokkur ár og Ólafur Skúlason tekinn við. Þegar sjónvarpsþulan kynnti biskup stóð ég upp og fór inn í herbergi með bók. Skömmu síðar kom systir mín í gættina og spurði hvort ég ætlaði ekki að hlusta á biskupinn. Ég sagði nei og skýrði það ekkert frekar.

Sannleikurinn var sá að ég þoldi manninn ekki. Það var eitthvað við hann sem mér fannst alveg einstaklega ógeðfellt, þótt ég hefði aldrei hitt hann eða talað við hann. Ég hef fengið þessa tilfinningu fyrir ýmsum og lært að hlusta á innsæið, því það hefur aldrei brugðist mér.

Tæpum sex árum seinna kemur Sigrún Pálína fram á sjónarsviðið og sakar Ólaf um kynferðislega áreitni. Ég þekkti til og vissi að hún var að segja sannleikann. Mér var líka sagt frá dóttur Ólafs, en það mál var ekki staðfest fyrr en löngu seinna. Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni.

Ólafur Skúlason var valdamikill maður. Í klíkunni, ef svo má segja. Fram stigu félagar hans, vinir, klíkubræður og ættingjar og mynduðu breiðfylkingu honum til varnar. Sjálfur neitaði hann öllu. Orðræðan í samfélaginu var skelfileg, þótt þarna hafi ekkert Internet verið komið til sögunnar. Sigrún Pálína, þolandinn, hraktist úr landi. Engu að síður var Ólafi ekki vært í embætti biskups og hann hætti árið 1997. Við vitum, öll eftir síðari tíma atburði, að Ólafur var bæði nauðgari og barnaníðingur. Fleiri konur sögðu frá samskiptum sínum við hann og þar vó einna þyngst Guðrún Ebba, dóttir hans. Við munum þetta, það eru bara tvö ár síðan.

Mér finnst ég vera að upplifa svipaða orðræðu núna. Þolendur kynferðisofbeldis stíga fram og segja sögu sína. Slíkt hefur reynst mjög árangursríkt og hvetjandi fyrir aðra þolendur sem hafa leitað sér aðstoðar við að vinna úr skelfilegum tilfinningum sem kynferðisofbeldi hvers konar veldur þolendunum. Við munum eftir Kastljóssþáttunum í janúar og bylgjunni sem þeim fylgdi. Þar voru það strákar, karlar, sem höfðu verið beittir ofbeldi. Gerendurnir höfðu verið valdaðir og verndaðir af samfélaginu á meðan þeir frömdu sín myrkraverk þótt almenn vitneskja væri um gjörðir þeirra.

Í vor var fjallað um ungu konuna frá Húsavík, Guðnýju Jónu, sem var hrakin á brott úr heimabæ sínum þegar hún kærði nauðgun þegar hún var unglingur. Guðný Jóna sagði á skýran, skilmerkilegan og yfirvegaðan hátt frá líðan sinni þá, nú og í þann tíma sem liðinn er frá atburðunum.

Ég hélt að skilningur almennings á afleiðingum kynferðislegrar áreitni, nauðgunar og annars konar kynofbeldis fyrir þolendur hefði aukist eftir alla þá umræðu sem farið hefur fram undanfarin ár. Hvernig þolendum getur liðið árum og áratugum saman. Sálræna áfallið sem bætist við hið líkamlega og tekur mörg ár að vinna úr, ef það þá tekst. Áhrifum á fjölskyldu og nánasta umhverfi þolendanna.

En það er ekki sama hver gerandinn er. Eins og í tilfelli Ólafs Skúlasonar – og reyndar allra gerenda nema þeirra allra lægst settu í samfélaginu – virðast það vera sjálfvirk viðbrögð einhvers óskilgreinds hóps af fólki að koma gerendum til varnar. Þolendurnir gleymast, jafnvel þótt vitað sé að þeir eru fleiri en greint hefur verið frá opinberlega. Jafnvel þótt vitað sé um fjölmörg brot þeirra eins og barnaníðingsins á Ísafirði, sem samfélagið verndaði af því hann var svo skemmtilegur karl.

Tvær konur skrifa bréf og spyrja spurninga. Eðlilegra spurninga. Í skrifum þeirra er frekar undrun en reiði og bréfið er beitt. Undrunin er ofureðlileg. Þær biðja um skýringar – mjög kurteislega, svo ekki sé meira sagt. Konurnar eru að tala um karl, valdamikinn og löggiltan eldri borgara, vinsælan og áberandi ‘gleðimann’ sem allmargir hafa borið virðingu fyrir í áratugi, jafnvel þótt þeir hafi vitað… allt mögulegt.

Skyndilega upplifir maður aftur orðræðuna í biskupsmálinu. Ég man ekki hvaða orð voru höfð um Sigrúnu Pálínu á sínum tíma, en ég man að mér blöskraði. Fyrir kurteislega en beitta bréfið sitt hafa þessar tvær konur verið kallaðar öllum illum nöfnum og úthrópaðar af ótrúlegasta fólki. Fólki sem veit betur – eða á að vita betur. Ég efast stórlega um að helmingur þess hafi í raun og veru lesið bréfið. En allt þetta fólk á að vita, því ekki skortir það greindina, að kynferðisbrot eru með alvarlegri brotum sem hægt er að fremja, hver sem það fremur, og að þolendur eiga alltaf að njóta vafans. Hvað sem öllum dómum eða lagabókstöfum líður.

Allt frá Hruni hefur fólk tjáð sig mikið um skort á siðferði í samfélaginu, gjarnan er talað um siðrof. Jafnframt hefur fólk verið duglegt við að gagnrýna dóma og dómstóla fyrir bókstafstúlkun laga og frávísun mála sem augljóslega eru framin af fullkomnu siðleysi. Stundum snúast málin um peninga, stundum annað.

Svo verður allt vitlaust þegar siðferði er látið ráða ákvörðunum umfram lagabókstafi og dóma.

Stundum má satt kyrrt liggja – en aldrei þegar kynferðisbrot og annað ofbeldi er annars vegar. Hver sem gerandinn er.

 

(Lesið bréfið, kæru vinir, og leggið ykkar mat á réttmæti þess að úthúða Hildi og Helgu Þóreyju fyrir það eins og gert hefur verið.)

6 athugasemdir við “Sagan endurtekur sig

 1. Stend heilshugar með Hildi og Helgu. Þó eg hafi ekki lent í alvarlegu níði, þá man ég alltof vel framkoma dónakarla við okkur stúlkur. Við eigum að taka á þessu meini af fullum þunga.

 2. Mér finnst orðræðan ofurlítið menntaðri á hærra plani og beittari, nefni ég Inga Frey. Það er auðvelt að sjá hvað heiðarlegt fólk vill gera eins og þeir sem vilja „sleggja“ Hildi en það verður að lesa menntuðu sleggjaranna tvisvar til að átta sig.

  • Sammála, þetta er oft lúmskt en harkan er samt til staðar: Þær gengu þarna allt of langt og því ber að hafna svona baráttuaðferðum umbúðalaust, annars er maður að styðja stækt ofstæki. Svo hljóðar hið heilaga orð.

 3. Ég játa mig fúslega sekan um að hafa borið í bætifláka fyrir Jón Baldvin til að byrja með…í huga mér. Enda gamall stuðningsmaður hans og Alþýðuflokksins. Maðurinn skrifaði jú bara dónaleg bréf til unglingsstúlku, eða hvað?. Ég setti svo málið í samhengi. Hvað ef stúlkan hefði verið dóttir mín, systir, frænka eða vinkona?

  Kveikti á perunni hve alvarlegur glæpur það er að senda slík bréf. Hvað þá að hanga fyrir utan rúm hennar í utanlandsferðum eins og hýena. Rosalega hlýtur maðurinn að vera veikur á geði. Svona kemur maður ekki fram.

  Dæmdur eða ekki. Svona einstaklingur á ekkert erindi sem gestafyrirlesari við Háskóla Íslands. Hann er betur geymdur á ríkulegum ellilaunum frá ríkinu upp í Mosfellsbæ. hjá konu sinni sem virðist fyrirgefa honum allar yfirsjónir.

  Ég játa eigin dómgreindarbrest og styð þá ákvörðun að perrar fái ekki að kenna við Háskóla Íslands. Nóg er til af öðru hæfileikafólki sem hefur þekkingu á Evrópusambandinu og Eystrasaltslöndunum.

  Skil ekkert í þeim sem eru að verja manninn. Þar eru greinilega samskonar perrar á ferð sem finnst ekkert tiltökumál að leita á unglingsstúlkur. Látið ungar konur í friði gömlu perrar!

  P.S. Ég þoli ekki þá sem skrifa undir dulnefni. Þeir eru heybrækur af verstu sort.

  • Ég verð aðeins að impra á einni málsgrein í þessu annars ágæta kommenti þínu, Edvard.

   „Skil ekkert í þeim sem eru að verja manninn. Þar eru greinilega samskonar perrar á ferð sem finnst ekkert tiltökumál að leita á unglingsstúlkur“

   Ég hef gagnrýnt vinnubrögð Háskólans í þessu máli. Ég hef einnig gagnrýnt þann hugsunarhátt sem er að ryðja sér til rúms í samfélaginu að fólk sé útskúfað um aldur og ævi eftir að það hefur brotið af sér.
   Hins vegar hef ég aldrei farið leynt með þá skoðun mína að brot Jóns Baldvins gagnvart Guðrúnu Harðardóttur hafi verið svívirðileg og sympatía mín með manninum sjálfum er afar takmörkuð. Auk þess skil ég ekki allt það skítkast sem Hildur Lilliendahl og Helga Þórey Jónsdóttir hafa fengið á sig. Það er dálítið eins og að skjóta sendiboðann. Þetta var einfaldlega þeirra skoðun á málinu og þær eiga fullan rétt á henni líkt og hver annar.

   Að þessu sögðu er kannski nokkuð óvarlegt að kalla alla þá sem ekki eru sammála ákvörðun Háskólans perra. Skrýmslavæðing á andstæðingum sínum er annað þreytandi trend í þjóðfélaginu.

   Ps. Fín grein hjá Láru Hönnu og ég gæti ekki verið meira sammála henni um biskupskrípið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.