Um krúttvæðingu eldri kvenna og aðra aldursrembu

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

Síðastliðinn fimmtudag lauk fréttatíma Sjónvarpsins á myndum af yfirlitssýningu konu að nafni Hanna Pálsdóttir, en sýningin sýnir þróun verka hennar undanfarin fjórtán ár. Tekið var fram í inngangi að hún væri 81 árs og hefði byrjað að mála þegar hún fór á eftirlaun. Þessi tvítekning á aldrinum var til að áhorfendur næðu nú örugglega fréttapunktinum: Kona fór að mála á gamalsaldri og þessar myndir þykja nógu merkilegar til að sett hafi verið upp sýning (þetta er reyndar níunda einkasýningin hennar). Jú, auðvitað er áhugavert þegar fólk tekur upp nýjan starfsferil seint á ævinni þó óþarfi hefði kannski verið að tvítaka þetta með aldurinn, og þetta hefði kannski sloppið ef ekki hefði verið fyrir lagið sem spilað var undir myndunum. RÚV valdi nefnilega lagið „Ég skal mála allan heiminn elsku mamma“ fyrir þetta tilefni og skapaði þannig hugrenningatengsl milli málverka Hönnu og fyrstu málverka barns sem vill gleðja móður sína. Þetta er að mínu mati mjög lítillækkandi og jafnvel þó kannski hafi verið um hugsunarlaust val af hálfu stöðvarinnar að ræða en ekki meðvitaða tilraun til lítillækkunar, gerir það atvikið ekki minna mikilvægt. Og kannski mikilvægara, því það er einmitt í hugsunarleysi okkar sem sterkustu fordómarnir koma í ljós.

6e9025ce2462f0471a03d881262ec0af.600x

 

Í Bretlandi hefur verið mikil umræða um aldursrembu á undanförnum árum, t.d. í tengslum við niðurstöður  Evrópsku Viðhorfskönnunnarinnar  (European Social Survey) þar sem í ljós kom að aldursremba er sérlega stórt vandamál þar í landi. Einnig var mikil vakning um vandamálið í kringum tímamótamál Miriam O’Reilly en hún vann mál gegn BBC fyrir rúmum tveimur árum. Málið snérist um það að O’Reilly, sem stýrt hafði sjónvarpsþætti hjá stöðinni, var sagt upp, að því er hún taldi sökum aldurs. Hún vann og BBC þurfti að greiða henni háar skaðabætur, auk þess sem hún var endurráðin til stöðvarinnar (en nýlegar fréttir herma að hún ætli sér að hætta vegna slæmrar meðferðar af hálfu samstarfsfólks í kjölfar málsins).

 

En hvað er aldursremba?

OldLady

Aldursremba (á ensku ageism) er það þegar einstaklingi eða hópi er mismunað á forsendum aldurs. Hugtakið var fyrst notað árið 1969 til að lýsa mismunun gegn eldri borgurum  en þó það sé oft notað yfir mismunun gegn eldra fólki (enda sýnir evrópska viðhorfskönnunin að elsti aldurshópurinn er talinn hafa lægsta félagslega stöðu af öllum aldurshópum) er hugtakið líka notað yfir mismunun og fordóma gegn börnum og unglingum. Þá er mikilvægt að átta sig á því að aldursremba fer oft saman við aðrar tegundir fordóma, ekki síst karlrembu, því eins og sjá má t.d. í sjónvarpi er annað að eldast fyrir konur en karla. Þessu til stuðnings má til að mynda nefna könnun í Bretlandi sem sýndi að af því fólki sem starfar á skjánum og er yfir fimmtugu eru 82% karlar. Þá er áhugavert að sú birtingamynd aldursrembu sem beinist gegn börnum og eldra fólki er keimlík. Öll börn hljóta að hafa lent í því að talað sé um þeirra mál við fólk sem þeim er ókunnugt fyrir framan þau („Elsa komst í sundliðið“, „Jón lenti hjá skólastjóranum í gær“) eða talað er fyrir þau óumbeðið („Elsa borðar ekki kökur“), hegðun sem þætti jaðra við andlegt ofbeldi ef um væri að ræða maka viðkomandi. Sams konar hegðun hefur mér virst viðgangast gagnvart eldra fólki, en við það bætist undarleg tilhneiging til að brýna röddina þegar um eldri viðmælanda er að ræða (að minnsta kosti í fjölmiðlum). Þá er athyglisvert að eldra fólk, eins og reyndar fólk með fötlun, er yfirleitt ekki viðmælendur í fjölmiðlum nema um málefni sem eru beinlínis tengd því að vera eldri borgari (hjúkrunarheimili, kjör eldri borgara) eða í tengslum við mál sem passa vel inn í þá ímynd sem við höfum af eldri borgurum, sem samkvæmt ímyndinni eru allir æstir í gömlu dansana, handavinnu og félagsvist. Þá er áberandi kynjamunur í því hvernig okkur birtist gamalt fólk í fjölmiðlum, því eldri menn eru jú stundum spurðir út í þjóðmálin. Þeir eru heldur ekki jafn mikil krútt og konurnar, og því ástæða til að efast um að sama lag hefði orðið fyrir valinu hjá RÚV í áðurnefndum fréttatíma ef myndlistarmaðurinn hefði verið karlkyns.

Eins og þegar um börn er að ræða er einnig ákveðin tilhneiging til þess að hafa vit fyrir eldra fólki varðandi það sjálft. Frægt dæmi er Hrafnistumálið svokallaða, þegar fréttist að hjúkrunarheimilið Hrafnista hefði sótt um vínveitingaleyfi en um það voru mjög skiptar skoðanir. Andstæðingar framtaksins nefndu alkóhólisma og aðrar geðrænar afleiðingar neyslu auk þess að benda á að ofurölvun fylgdi mikil slysahætta á meðan aðrir undruðust forræðishyggjuna sem talin var felast í andstöðunni  (sjá t.d. umræður hér). Þó vafalaust hafi viðbrögðin beggja megin verið vel meint er alveg ljóst að ekki hefði bar ætlaður öðrum fullorðnum hópi vakið nálægt því jafn mikil viðbrögð.

 

MaggySmithLadyGranthamDowntonAbbeyEmmysHversu algengt er að fólk upplifi mismunun á grundvelli aldurs?

Áður en farið er yfir fyrirliggjandi tölur um aldursrembu þarf að setja mikilvægan fyrirvara. Þegar tekið er úrtak fyrir kannanir er yfirleitt miðað við aldurshópinn 18–70 ára, sem þýðir að börn og eldra fólk er yfirleitt ekki spurt, einmitt fólkið sem hvað mesta aldursrembuna upplifir. Þetta skekkir auðvitað allar tölur, en áhrifin af skekkjunni eru væntanlega þau sömu í öllum könnunum sem liggja hér til grundvallar og því er samanburðurinn marktækur, þó tölurnar sjálfar séu líklega mjög vanáætlaðar.

Í Evrópsku viðhorfskönnuninni árið 2008 (sem Ísland tók ekki þátt í) var röð spurninga um aldursrembu. Meðal niðurstaðna er að talsvert stór hluti Evrópubúa hafði upplifað oft eða mjög oft a) fordóma vegna aldurs (7,8%)  skort á virðingu vegna aldurs (8,7%) og/eða illa meðferð (5,1%). Til samanburðar má nefna að aðeins 4% höfðu upplifað oft eða mjög oft fordóma vegna kynferðis og 3,5% merktu við að hafa oft eða mjög oft upplifað fordóma vegna uppruna (e. ethnicbackground). Jafnvel þó að upplifun á fordómum sé auðvitað ýmsu háð, t.d. því að hve miklu leyti fólk sér fordóma sem fordóma (en ekki t.d. sem eðlilegar væntingar), auk þess sem tölurnar eru ekki sundurgreindar (t.d. eftir þjóðernishópum en heimamenn með ráðandi litarhátt og trúarbrögð verða væntanlega ekki fyrir fordómum vegna uppruna svo dæmi sé tekið), sem skekkir niðurstöður umtalsvert, þá sýna þessar niðurstöður að aldursremba er algengt vandamál.

yoga-old-woman

Íslendingar hafa tvisvar tekið þátt í Evrópsku viðhorfskönnuninni, 2004 og 2012.Í báðum könnunum var spurt: „Telur þú þig tilheyra hópi sem beittur er misrétti?“ Ef svarandi merkti við já fékk hann spurninguna: „Hvers vegna er þessi hópur beittur misrétti?“ og fékk þar ýmsa svarmöguleika, svo sem „vegna kynferðis“, „vegna þjóðernis“ og „vegna aldurs“. Merkjamátti við fleiri en eitt atriði (t.d. bæði við kyn og þjóðerni). Fyrra árið reyndist hlutfall þeirra sem sögðu eigin hópi vera mismunað á forsendum aldurs vera 2,9% (vigtað[1]) hérlendis, sem var hæsta hlutfallið í löndunum 25 sem tóku þátt. Árið 2012 var svo Tékkland með hæsta hlutfallið, 3%, en Íslendingar voru í fjórða sæti með 2%. Svo virðist því sem aldursremba sé töluvert vandamál hér á landi miðað við Evrópu, þó setja beri fyrirvara. Í fyrsta lagi skiptir þjóðfélagslegt samhengi máli en hérlendis er atvinnuþátttaka mjög mikil, bæði hjá körlum og konum, og eftirlaunaaldurinn hár í samanburði við Evrópu en það er ekki síst á vinnumarkaði þar sem fólk upplifir mismunun á hvers kyns forsendum. Þá er umræðan mikilvæg til að fólk átti sig á því að um mismunun sé að ræða og við Íslendingar búum að því að hér er jafnréttisumræðan nokkuð sterk og þar með meðvitundin. Það rennir stoðum undir þessa túlkun að hlutfall þeirra sem höfðu upplifað mismunun á grundvelli kynferðis var einnig langsamlega hæst á Íslandi 2004, eða 4,5% (næst á eftir var Bretland með 1,1%).

 

Dæmi um veraldlegar afleiðingar

Á töflunni hér fyrir neðan er að sjá annars vegar atvinnuþátttöku (þ.e. hlutfall vinnuafls sem er virkt á vinnumarkaði, annað hvort í vinnu eða leit að vinnu) og hins vegar atvinnuleysi á Íslandi árið 2013, eftir kyni og aldri, unnið upp úr gögnum Hagstofunnar. Eins og sést á töflunni er atvinnuþátttaka lægri í elsta hópnum en í þeim yngri hjá báðum kynjum. Þetta skýrist af því að hluti hópsins er farinn á eftirlaun (enda nær aldursbilið til 74 ára), auk þess sem aldurstengd heilsufarsvandamál spila inn í. Þá má bæta við að atvinnuþátttaka meðal kvenna af þessari kynslóð hefur alltaf verið lægri en hjá þeim sem á eftir koma. Taflan sýnir líka að atvinnuleysi er lægst hjá þessum elsta hópi, sem segir okkur að fólk í elsta aldurshópnum, sem hefur þá væntanlega oft langan starfsaldur, sé að einhverju leyti verndað í störfum sínum miðað við aðra hópa. En hvar er þá aldursremban — fyrir utan að vera mögulega að einhverju leyti skýring á háu atvinnuleysi hjá yngsta hópnum?

tafla1

Heimild: Hagstofan

 

Hún birtist ekki í tölum yfir fólk í vinnu heldur í tölum yfir atvinnuleysi. Ef við lítum sérstaklega á þá sem hvað erfiðast eiga með að finna vinnu (hafa leitað að vinnu í sex mánuði eða lengur og eru þar með samkvæmt skilgreiningu langtímaatvinnulausir), sést að langtímaatvinnuleysi eykst með aldri og er 55% af öllum atvinnuleitendum í hæsta aldurshópnum, þar sem það er hæst. Þá sést líka að í öllum aldurshópum er hærra hlutfall langtímaatvinnuleysis hjá konum en körlum. Þetta sýnir okkur að það er erfiðara fyrir eldra fólk að fá vinnu en yngra, en einnig að jafnvel konur sem komnar eru af barneignaaldri eiga erfiðara uppdráttar á vinnumarkaði en karlar á sama aldri. Aldursremba, eins og önnur remba, hefur því ekki aðeins tilfinningaleg áhrif á þá sem fyrir henni verða heldur getur hún líka haft veraldlegar afleiðingar, eins og minni möguleika á vinnu.

tafla2

Heimild: Vinnumálastofnun

 

 

Taka skal fram að þó hér séu aðeins teknar tölur fyrir einn mánuð eru þær lýsandi fyrir almennar tilhneigingar: hlutfallslega hefur langtímaatvinnuleysi yfirleitt verið hæst í elsta aldurshópnum og hærra meðal kvenna en karla.

 

 


[1] Þau sem standa að könnuninni mæla með því að vigtir (e. weights) séu notaðar þegar upp eru gefin hlutföll úr könnuninni. Það er gert hér í öllum tilfellum.

8 athugasemdir við “Um krúttvæðingu eldri kvenna og aðra aldursrembu

  1. mjög góð og þörf grein um alvöru vandamál. Takk fyrir hana. En af hverju er mynd af Maggie Smith í gerfi Lady Grantham með greininni? ef eitthvað er er sá karakter sterkur bandamaður í stríðinu gegn age-isma, þrælsterkur og gersamlega laus við krúttlegheit. Eitt orð frá Lady Grantham og jarlinn sjálfur lyppast niður eins og tuska! 🙂

  2. Takk fyrir.
    Hvað varðar myndirnar þá voru þær sérstaklega valdar því þær eru í andstöðu við ríkjandi hugmyndir um eldri konur. Lady Grantham er t.d. alls ekki krútt heldur höfuð fjölskyldunnar og Betty White (sem er á forsíðu) hefur gert í því að vera ekki krútt, t.d. í hlutverkum sínum í Boston Legal og í þáttaröðinni Hot in Cleveland.

  3. Takk fyrir góða grein. Það er synd að ekki skuli enn vera búið að lagfæra stjórnarskrá Íslands. Vil ég benda á að í tillögum stjórnlagaráðs var í II. kafla Mannréttindi og náttúra 6.gr. Jafnræði, greinin sem átti að koma í stað 65. greinar í núverandi stjórnarskrá, m.a. bætt ‘aldri’ í setninguna sem byrjar svona „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, ALDURS“…, en núverandi stjórnarskrá nefnir ekki aldur einu orði. í lögum og reglugerðum Evrópusambandsins, í Bandaríkjunum og Bretlandi er tekið fram að ekki megi mismuna fólki vegna aldurs og er þá bæði átt við ungmenni og aldraða.

  4. Virkilega flott grein, hef svo oft velt þessu fyrir mér. Af hverju fullorðið fólk, 40-50 ára oftast, kemur svona fram við annað fullorðið fólk 70 ára og eldri. Ef heilsan, andleg sérstaklega, er í lagi er engin þörf á að tala fyrir, taka ákvarðanir fyrir eða tala hærra og einfaldara við eldra fólk. Vonandi er þetta ekki vaxandi vandamál en miðað við kannanir virðist svo vera :T Takk fyrir góð skrif! (er sjálf 26 ára ef það breytir einhverju)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.