Höfundur: Tryggvi Hallgrímsson
Sameinuðu þjóðirnar hafa endurtekið lagt áherslu á mikilvægi þátttöku karla í vinnu gegn kynbundnu ofbeldi. Árið 1995, í tengslum við Pekingráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, var ályktað um mikilvægi þátttöku karla sem lið í að koma á nauðsynlegum breytingum sem tryggja kynjajafnrétti. Sameinuðu þjóðirnar hafa auk þess ályktað sérstaklega um þátttöku bæði karla og kvenna við að ná markmiðum um samfélag án ofbeldisógnar í vinnu að hinum svokallaða CEDAW sáttmála (e. The Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination against Women). Þá er því við að bæta að áhersla á mikilvægi þátttöku drengja og karla hefur verið áberandi í samþykktum kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (e. The Commission on the Status of Women) síðustu ár.
Á Íslandi hefur um nokkurt skeið verið lögð áhersla á þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál. Fyrst árið 1991 skipaði Jóhanna Sigurðardóttir, þá félagsmálaráðherra, ráðgjafanefnd um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnari fjölskylduábyrgð og verkaskiptingu. Árið 1994 var skipuð ný ráðgjafanefnd (karlanefnd) sem hafði að markmiði að auka hlut karla í umræðunni um jafnréttismál. Nefndin starfaði til ársins 2000 og var á þeim árum nokkuð áberandi í umræðu um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Efnistök nefndarinnar snéru að mestu að þeim sviðum þar sem karlar höfðu áður verið áberandi, svo sem á sviðum foreldrajafnréttis og vinnu karla gegn ofbeldi. Ingólfur V. Gíslason starfaði með nefndinni og vann nokkuð umfangsmikla könnun á viðhorfum íslenskra karla til jafnréttismála. Óhætt er að segja að sú vinna hafi haft áhrif á framgang umræðunnar um hlut karla í jafnréttismálum á Íslandi.
Meðal þess sem karlanefndin lagði til var að ábyrgð á málaflokki „karla og kynjajafnréttis“ væri falin þeim stofnunum sem framfylgja stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum. Með jafnréttislögum var Jafnréttisstofu því falið, eins og segir í lögunum, að „auka virkni í jafnréttismálum, m.a. með aukinni aðild karla að jafnréttisstarfi“.
Í Jafnréttislögum segir ennfremur að stjórnvöld skuli leggja fram áætlun til fjögurra ára á sviði jafnréttismála sem með réttu má kalla gildandi stefnumótun á sviðinu. Í ár lýkur þeirri stefnu sem gilt hefur fyrir árin 2011-2014. Eitt þeirra verkefna sem kveðið var á um er skipan svokallaðs starfshóps um karla og jafnrétti. Verkefni starfshópsins fólst í að gera tillögur um hvernig auka mætti þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál og auka aðild þeirra, fjalla um áhrif staðalmynda á stöðu karla í íslensku samfélagi, þátttöku karla í verkefnum fjölskyldunnar og fjalla m.a. um tengslin milli heilsu, lífsgæða og kynjasjónarmiða. Afrakstur þeirrar vinnu eru fimmtán tillögur að aðgerðum, rannsóknum og verkefnum, sem skilað var til ráðherra í skýrslu sem finna má á heimasíðu velferðarráðuneytisins.
Starfshópnum var falin umfjöllun um mjög víðfeðmt svið. Því var ákvörðun tekin að fjalla um viðfangsefnin undir fimm efnisköflum; karlar og umönnunarstefna, karlar heilsa og lífsgæði, klám og vændiskaup, menntun og kynskiptur vinnumarkaður. Að lokum fjallaði einn kafli sérstaklega um karla og ofbeldi, þar sem áhersla var lögð á kynbundið ofbeldi.
Ljóst er að þetta eru allt þekkt þemu jafnréttismála og vert að minnast á að þau tengjast innbyrðis á marga og ólíka vegu. Hér er ekki hægt að gera grein fyrir öllum ofangreindum sviðum en þess í stað rætt um þær tillögur sem starfshópurinn lagði fram undir efniskaflanum Karlar og ofbeldi – kynbundið ofbeldi.
Hvað er hægt að gera?
Það er brýn þörf á frekari rannsóknum á ofbeldismenningu og þætti karla í henni. Með aukinni þekkingu á félagslegum ástæðum ofbeldismenningar má efla forvarnir gegn ofbeldi í nánum samböndum og öðrum tegundum ofbeldis.
Í umfjöllun um ofbeldi var mat lagt á það sem þegar hefur verið gert – rætt var við sérfræðinga um reynslu þeirra af vinnu í málaflokknum, fjallað um um rannsóknir á sviðinu og í kjölfarið reynt að meta þörf fyrir nýjar rannsóknir og aðgerðir. Sammerkt með allri umfjöllun voru spurningarnar hver er vandinn? og hvað er hægt að gera til þess að til þess að minnka þann vanda?
Í umfjöllun um ofbeldi ríkir samstaða um að ofbeldi er vandamál. En hvað er ofbeldi? Flestir þekkja að ofbeldi getur haft ólíkar birtingamyndir, það getur verið hulið eða öllum ljóst. Ofbeldi getur verið líkamlegt eða andlegt, kynferðislegt eða kynbundið. Svo vandast málið frekar þegar ofbeldi er blanda af tveimur eða fleiri tegundum ofbeldis. Til einföldunar kaus starfshópurinn að fjalla sérstaklega um ofbeldi með því að gera greinarmun annarsvegar á „ofbeldi karla gegn konum – m.a. það sem við köllum kynbundið ofbeldi“ og hinsvegar „ofbeldi almennt og þá sérstaklega svokallaða ofbeldismenningu“
Ofbeldi, útbreiðsla þess og birtingarmyndir hafa talsvert verið rannsakaðar á Íslandi. Velferðarráðuneytið hefur sem dæmi sl. ár staðið að gerð rannsókna sem gefa okkur sífellt betri sýn á stöðuna. Í nýlegri rannsókn Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd, kom fram að rúmlega 42% kvenna (meðal svarenda) höfðu verið beittar ofbeldi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Af þeim sögðu um 4% að þær hefðu orðið fyrir ofbeldi síðastliðna 12 mánuði. Í sömu könnun segir að um 22% kvenna sögðust hafa verið beittar ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Það jafngildir að um 23-27 þúsund konur hér á landi séu beittar ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma á ævinni.
Umræða um kynbundið ofbeldi snýr jafnan að ofbeldi karla gegn konum. Það er hinsvegar ekki að finna haldgóðar upplýsingar um ofbeldi kvenna gegn körlum. Því fjallaði starfshópurinn ekki um þá tegund ofbeldis. Ástæður þess voru því ekki þær að starfshópurinn teldi slíkt ofbeldi ekki alvarlegt, heldur fremur viðurkenning á því að meginvandinn snýr að ofbeldi karla sem gerenda, einkum ofbeldi þeirra gegn konum. Það er einmitt þessi afstaða til rannsóknarefnisins sem hópurinn hafði áhuga á að skoða frekar. Það virðist vera að áhersla rannsókna varpi frekar ljósi á þá sem fyrir ofbeldinu verða – ekki á þá sem ofbeldinu beita. Þessu þarf að breyta. Þetta á bæði við um hlut karla í kynbundnu ofbeldi og einnig hlut karla í ofbeldismenningu almennt.
Meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar hefur verið starfrækt um nokkurra ára skeið. Hugmyndafræði þess byggir á á norska meðferðarúrræðinu Alternativ til vold sem leggur áherslu á ábyrgð gerenda og uppbyggingu á getu þeirra til að þróa með sér skilning á valkostum við ofbeldi. Aðferðin gengur útfrá því að ofbeldið sé sálfræðilegt vandamál og notar aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar til að kenna skjólstæðingum viðbrögð við vanmætti í samskiptum.
Aðsókn í meðferðarúrræðið hér á landi hefur aukist mikið síðastliðin ár. Aukning hófst sérstaklega undir lok ársins 2012 og hefur haldið áfram. Síðustu ár hefur Jafnréttisstofa haft umsjón með framlögum ríkisins til verkefnisins og þurft að hafa nokkuð fyrir því að útvegna aukafjármagn til að koma til móts við mikla eftirspurn. Karlar vilja komast að í slíkri meðferð.
Þegar tillaga starfshópsins var til umræðu hafði alþingi nýlega samþykkt Austurrísku leiðina, lagaúrræði sem gerir lögreglu kleyft að fjarlægja einstaklinga, sem beita maka ofbeldi, af heimili. Það ríkti því kannski nokkur bjartsýni, í starfshópnum, að ætla að dómum í ofbeldismálum kynni að fjölga í kjölfarið – og að tillögur hópsins hefðu þannig mögulega aukið vægi. Niðurstaðan eftir að verða þrjú ár er sú að lögreglan notar aðferðina lítið, enda hefur úrræðinu hvorki fylgt nægt fjármagn né fræðsla.
Engu að síður taldi starfshópurinn að kanna ætti hvort dómarar hefðu not fyrir heimild til að dæma gerendur sem beita ofbeldi til meðferðar – þ.e. til samtalsmeðferðar hjá sálfræðingum í tengslum við afbrot sitt. Þetta hefur augljóslega marga annmarka. Geta gerenda til að takast á við og taka þátt í slíkri meðferð er vissulega mjög misjöfn. Tegundir ofbeldis eru einnig mjög misjafnar. En hugsunin með tillögunni gengur útá betrun geranda án eiginlegrar refsivistar.
Hvað er hægt að gera?
Það þarf að gera kynjafræði og nám um ofbeldi í nánum samböndum veigameiri hluta skólastarfs. Sérstaklega þarf að huga að og útfæra fræðslu fyrir drengi um tengsl siðferðis og samskipta í nánum samböndum.
í Jafnréttislögum segir að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Þá hefur tekið gildi ný aðalnámskrá sem kveður á um að nemendur skuli hljóta jafnréttisfræðslu í skólum.
Á pappír lítur þetta vel út, en það vita þeir sem unnið hafa með þessi markmið að peningum er ekki varið í málaflokkinn. Námsefni er af skornum skammti og síðast en ekki síst eru kennarar mishæfir til að leiða nemendur í umræðum um umfjöllunarefni sem eru oft á tíðum mjög erfið.
Af þessum sökum er þessi síðasta tillaga mögulega nokkuð botnlaus ef henni fylgir ekki innleiðing sem byggir á raunverulegri og samþykktri stefnu stjórnvalda. Um leið og ástæða er til þess að óttast það að tillagan hafi litla þýðingu í reynd – kann hún að vera ein sú augljósasta og jafnvel sú mikilvægasta.