Frjálst val eða þvingað

Höfundar: Steinunn Rögnvaldsdóttir kynjafræðingur og Silja Bára Ómarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur
pro-choiceReynsla kvenna af fóstureyðingum er upplifun sem sjaldan er talað um. Almenna umræðan er á þann veg að engin kona vilji fara í fóstureyðingu. Þess vegna loðir það gjarnan við alla umræðu um fóstureyðingar að þær séu neyðarúrræði. Það þurfi alltaf að vera hræðilegir erfiðleikar sem knýja konu til að leggja í þá vegferð. Engu að síður eru framkvæmdar um 1000 fóstureyðingar á hverju ári, 14,5 fóstureyðingar á hverjar 1000 konur (m.v. árið 2010). Miðað við hversu einhliða umræðan um fóstureyðingar er mætti ætla að þetta lýsti mikilli neyð í samfélaginu, að grípa þurfi svo oft til neyðarúrræðis. Er neyðin svona mikil hérlendis að allar þessar konur finni sig þvingaðar til þess að velja þessa leið?

Tölum fyrst um hvað er neyð. Ef við erum settar í þá stöðu að þurfa að kollvarpa lífi okkar vegna einhvers sem aldrei átti að verða, en höfum eitt ákjósanlegt úrræði til að koma okkur út úr þeirri stöðu, er það þá neyðarúrræði? Kannski er það hugtak óþarft og kannski eigum við að hætta að tala um fóstureyðingar sem neyðarúrræði. Kannski ættum við bara að tala um frjálst val. Við teljum að konur hafi – eða eigi a.m.k. að hafa – frjálst val um það hvort eða hvenær þær eignast börn (upp að vissu marki, því þær eiga ekki að geta stjórnað líkömum annarra kvenna í þeim tilgangi). Þegar talað er um að fóstureyðingar eigi sér eingöngu stað þegar konan metur stöðuna þannig að enginn annar kostur sé fær er dregið úr þessu frjálsa vali.

Reyndar eru fóstureyðingar ekki “fóstureyðingar”. Það er engu eytt. Framkallað er meðgöngurof, annað hvort með aðgerð eða með lyfjum. Það þýðir að annað hvort er fóstrið fjarlægt, með aðgerð, eða konan missir fóstrið í kjölfar lyfjanna. Með því að nota hugtak sem setur fóstrið í aðalhlutverk er konan í raun sett til hliðar. Með þessu hugtaki er stuðlað að því að kona sem hugleiðir að binda endi á meðgöngu setji sjálfa sig í annað sæti – þar sem samfélaginu finnst kannski að hún eigi að vera.

Ekki vita allir að fóstureyðingar eru ekki frjálsar á Íslandi. Til þess að fá að framkalla meðgöngurof þarf kona að fara í viðtal hjá félagsráðgjafa og lækni, eða tveimur læknum, sem þurfa að samþykkja að meðgöngurofið sé heimilað. Það er þá annað hvort á læknisfræðilegum forsendum eða félagslegum.

FóstureyðingarFélagslegu forsendurnar eru í raun ruslahaugur fyrir allar þær ástæður sem konur hafa til að vilja ekki eiga börn, frasinn sem kerfið þarf að heyra til að heimila konum að nýta sér þann rétt sem þær eiga að hafa yfir eigin líkama.

 

Ástæðurnar sem eru að baki því að kona vilji binda endi á meðgöngu eru eflaust fleiri en kassarnir á forminu gefa til kynna. Kona getur viljað eignast barn, en ekki með þessum manni, ekki á þessum tíma, ekki inn í þetta samband. Hún getur verið í ofbeldissambandi, hún getur verið atvinnulaus, hún getur verið í námi, hún getur verið með ung börn heima. Hún getur líka verið í hamingjusömu hjónabandi, í góðri vinnu, átt börn – eða ekki – og getur einfaldlega ekki hugsað sér að eignast barn. Það á ekki að skipta máli.

Sem betur fer búum við ekki í samfélagi sem skilgreinir frjóvguð egg sem fóstur, og fóstur sem manneskju sem nýtur sömu réttinda og nýfætt barn eða fullorðin manneskja. En það þarf ekki mikið að breytast til að svo verði. Fjöldahreyfingar og dómsúrskurðir í Bandaríkjunum eru sífellt að grafa undan rétti kvenna til fóstureyðinga. Og vissulega er margt sem greinir að Ísland og Bandaríkin. En það er færra sem greinir okkar félagslega veruleika frá Evrópu. Og þar eru þessar breytingar líka að eiga sér stað.

Þess vegna viljum við byrja að ræða fóstureyðingar aftur í íslensku samhengi. Á næsta ári verða liðin fjörutíu ár frá því að fóstureyðingar voru lögleiddar á Íslandi. Eftir harða baráttu rauðsokkanna fyrir frjálsum fóstureyðingum samdi nefnd þriggja karlmanna frumvarpið sem varð að lögum sem gilda enn í dag og heimila fóstureyðingar ef félagslegar eða læknisfræðilegar ástæður eru til. Þótt þessi lög hafi dugað ágætlega – vegna þess að þau eru túlkuð í þeim anda að konan ráði í raun yfir eigin líkama – þá hefur sjaldan verið spurt um reynslu kvenna af fóstureyðingum.

Reynsla sem þúsundir kvenna á landinu deila er þannig í raun hulin öllum öðrum. Um hana er sjaldan rætt og sögum er ekki deilt nema í hálfum hljóðum. Samfélagið virðist einhvern veginn hafa ákveðið að þó að fóstureyðingar séu löglegar eigi helst ekki tala um þær. Reynsla sem getur verið sár, sorgleg, frelsandi og valdeflandi kemst ekki upp á yfirborðið, vegna þess að það þykir skömm að því að fara í fóstureyðingu.

Við viljum ekki að þessi reynsla sé hulin. Við viljum aflétta leyndarhjúpnum sem hvílir á þessum reynsluheimi kvenna og miðla þessari reynslu til þeirra sem standa frammi fyrir því að þurfa að velja hvort þær fara í fóstureyðingu. Við köllum því eftir frásögnum kvenna af fóstureyðingum. Markmið okkar er að setja þessa reynslu fram í opinbera rýmið, skapa svigrúm fyrir konur til að segja frá og hjálpa þannig öðrum konum að taka upplýstari ákvarðanir. Um leið viljum við draga úr þeirri leynd sem hvílir yfir ákvörðunum kvenna um barneignir og fjölskyldustærð.

Við viljum gjarnan heyra frá konum sem hafa farið í fóstureyðingu einhvern tíma um ævina. Helst viljum við fá sögur frá ólíkum tímaskeiðum og frá konum í sem fjölbreyttustum aðstæðum. Við biðjum konur því að segja frá þessu verkefni í vinahópum, saumaklúbbum og frænkuboðum. Við munum senda konum spurningalista ef þær vilja svara skriflega, eða hitta þær og taka upp frásögnina ef þær vilja frekar segja frá. Fullum trúnaði er að sjálfsögðu heitið, en sögurnar verða notaðar beint og óbeint í bókina sem við hyggjumst skrifa um málefnið, án þess að nafngreina viðmælendur, nema konur óski sérstaklega eftir því að koma fram undir nafni.

Hægt er að ná sambandi við okkur í gegnum netfangið sogurkvenna@gmail.com.

 

6 athugasemdir við “Frjálst val eða þvingað

    • Góðan daginn – Bókin verður fókuseruð á upplifun kvenna á fóstureyðingum sem þær reyna á eigin skinni. Upplifun karlmanna af því að vera aðilar tengdir konum sem fara í fóstureyðingar er áhugavert efni en ekki efni sem verður tekið fyrir sérstaklega í þessari bók.

  1. Bakvísun: Frjálst, en skammarlegt? | Knúz - femínískt vefrit

  2. Bakvísun: Frjálsar fóstureyðingar í augsýn? | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.