Kemur alltaf einhver kona?

Höfundur: Erna Magnúsdóttir

Myndin er sótt hingað.

Myndin er sótt hingað.

Fjórar starfsstéttir hafa verið í verkfalli á Landsspítalanum síðan 7. apríl.

Þegar þetta er skrifað hefur verkfallið staðið yfir í 21 dag og lítið fréttist af samningaviðræðum. Eða orðum það öðruvísi: Lítið fréttist af verkfallsaðgerðum yfir höfuð. Ekki ber á öðru en að heilbrigðiskerfisþreyta hafi heltekið fjölmiðla eftir að læknadeilan leystist rétt um áramót.

Á meðan læknadeilan stóð yfir átti hún fjölmiðlana með húð og hári. Stöðugt var rætt í fjölmiðlum um óásættanleg laun lækna, erfiðar vinnuaðstæður á sjúkrahúsum landsins, vinnuálag og atgervisflótta. Þá fengum við líka reglulega að frétta af því hversu mörgum aðgerðum hefði þegar verið frestað og yrði væntanlega frestað vegna kjaradeilunnar. Fjölmiðlar voru mikilvægt vopn í kjarabaráttu lækna. Það var passað vel upp á að almenningur gerði sér grein fyrir alvarleika málsins.

Nú þegar fjórar kvennastéttir hafa lagt niður störf á Landsspítala fer minna fyrir fréttaflutningi. Þó er ljóst að fjölda aðgerða hefur verið frestað vegna verkfallanna, enda fáar aðgerðir framkvæmdar nema réttar greiningar liggi fyrir.

Núverandi verkfall hefur síst minni áhrif á starfsemi heilbrigðiskerfisins í landinu en læknadeilan hafði. Það gleymist nefnilega oft í umræðunni að til þess að meðhöndla fólk þarf heilt teymi. Og nú er mikilvægur hluti teymisins í verkfalli. Lítið er um sjúkdómsgreiningar og aðgerðir á Landspítala á meðan flestir þeir sem framkvæma prófin hafa lagt niður störf.

Hverju ætli það sæti, þetta áhugaleysi fjölmiðla á verkfallinu? Er það meint heilbrigðiskerfisþreyta? Eða skyldi það vera vegna þess að þessar kvennastéttir vinna flestar störf sín á bak við tjöldin og við verðum þeirra ekki vör?

Eða ætlumst við til þess að þessar konur vinni störf sín af köllun?

Hljóðið í fólki er þungt. Lítið sem ekkert þokast áfram í samningaviðræðum og lítið fer fyrir samningsvilja ríkisins. Maður heyrir því sífellt oftar fleygt fram að það eigi að draga verkfallið á langinn. Að ganga ekki að samningsborði af alvöru fyrr en verkfallssjóði fer að þverra. Maður spyr sig hvort að það sé ekki helst til skammsýn tækni ef satt reynist.

Megum við við því að sífellt fækki í hópi þeirra sem nú heyja verkfallsbaráttu?

Það er ljóst að þessar stéttir sem nú standa í sinni kjarabaráttu og beita verkfallsvopninu hafa tekið á sig tvöfaldan skell í samkeppninni um ásættanlega umbun fyrir vinnuframlag. Í fyrsta lagi fæst lítil umbun fyrir menntun á Íslandi, sem er ástand sem fjármálaráðherra datt í hug að kalla „of mikinn jöfnuð“, en í öðru lagi eru þetta kvennastéttir og hafa að þeim sökum oft setið á hakanum við kjaraleiðréttingu.

Baráttan við atgervisflóttann er síst minni hjá þessum stéttum en hjá læknum, þótt flóttinn hefjist fyrr, því sífellt færri kjósa að mennta sig sem lífeinda- eða geislafræðingar vegna slakra launakjara og erfiðra vinnuaðstæðna. Það er því ekki bara við spekileka til útlanda að glíma, heldur til annarra starfsstétta, þar sem fólk með áhuga á líf- og heilbrigðisvísindum sækir annað.

Það er ekki nema von að mann reki í rogastans við  að lesa ritdeilu um mikilvægi jáeindaskanna nú, þegar geislafræðingar hafa verið í verkfalli í á þriðju viku.

Hver á að keyra skannann eftir að síðasti geislafræðingurinn hefur hætt störfum á Landsspítala vegna bágra kjara?

 

Myndin er sótt hingað.
Kona
Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál heimsins eru
vegin metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstar
í alvöru augnabliksins
– kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út.

 

Það bregst ekki.

 

  Ingibjörg Haraldsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.