Höfundur: Magdalena Schram

Margaret Atwood þá … http://chaplaincy.tufts.edu/humanist/2015/09/04/small-group-reflection-stories-through-margaret-atwood/
,,Mig langar ekki til að vera að segja þessa sögu“ segir Offred, sögukona þessarar bókar aftur og aftur. Þó verður hún að halda áfram að segja söguna og lesandinn verður að halda áfram að lesa þessa óhugnalegu en hræðilega spennandi bók. Sagan gerist í Gilead-lýðveldinu, sem verður til í náinni framtíð þar sem nú eru Bandaríkin. Gilead-sinnar myrða forsetann og taka völdin, — eitt fyrsta verk þeirra er að þurrka nöfn kvenkyns-krítarkorthafa út af tölvunum, svo allar konur standa uppi slyppar og snauðar. (Um þær mundir er Gilead verður til, hefur notkun „ekta“ peninga fyrir nokkru verið bönnuð í Bandaríkjunum og plastkortin því eini gjaldmiðillinn.) Þegar þar var komið í mannkynssögunni, að ofstækishópar á borð við Gilead-valdaræningjana gátu hrifsað öll ráð í sínar hendur, hafði barnsfæðingum fækkað mjög. Getnaðarvarnir höfðu gert konum kleift að ráða sjálfar hvenær þær yrðu ófrískar en að auki var mengun í umhverfinu orðin slík, að ófrjósemi var mjög algeng og fæðingar andvana eða vanskapaðra barna einnig. Ýmsir hópar fólks, til að mynda hið svokallaða „moral majority“ eða siðastrangi meirihlutinn, höfðu þá um nokkurt skeið haldið uppi mótmælum gegn getnaðarvömum og fóstureyðingum, en aðrir, t.d. feministar, höfðu barist gegn ofbeldi gegn konum s.s. klámi. Fordómar í garð siðleysingja á borð við homma og lesbur óðu uppi o.s.fr. Stjórn Gilead-lýðveldisins var algleymi hugmynda slíkra hópa og snerist af afefli gegn siðspillingunni og að því að fjölga hvíta kynstofninum á nýjan leik. Samfélaginu var skipt í stéttir sem báru einkennisbúninga, persónunjósnir héldu vakandi augum yfir öllu, dauðarefsing var innleidd (t.d. fyrir ofbeldi gegn konum) — sumir voru einfaldlega skotnir eða hengdir, aðrir sendir í útrýmingarbúðir. Útrýmingarbúðirnar voru á útjöðrum ríkisins og voru í raun vinnubúðir umhverfis mengandi verksmiðjur svo þau sem þangað voru send létust hægum, oft geislavirkum dauðdaga.

Margarete Atwood nú. http://lithub.com/margaret-atwood-on-vampires-gene-splicing-and-talking-turnips/
Offred, sögukona bókarinnar — var „handmaid“ eða mær, þ.e.a.s. hún tilheyrði þeirri stétt kvenna, sem hafði þann eina tilgang að ala börn. Þegar valdaránið átti sér stað var hún gift kona og átti eina dóttur, þá fimm ára. Fjölskyldan reyndi að flýja þegar Ijóst varð hvert stefndi, en náðist á flóttanum. Offred var flutt i æfingabúðir, þar sem kvennastéttin „frænkur“ þjálfuðu hana upp í hið nýja hlutverk. Offred vissi aldrei hvað varð um mann sinn og dóttur. Hún var sett í hlutverk „meyjar“ vegna þess að hún var enn á bamsburðaraldri og hraust. Meyjum var gert að klæðast rauðum kuflum, sem huldu líkama þeirra gjörsamlega. Á höfðinu báru þær hettu, sem varnaði því að þær sæju til hliðar sér. Líkt og öðrum konum í Gilead-lýðveldinu var þeim bannað að lesa og skrifa, snyrta sig á einn eða annan hátt, þeim var enn fremur bannað að vera úti við nema a.m.k. tvær og tvær saman. Þær fengu ekki að halda nöfnum sínum heldur var þeim gefið nafn karlsins sem þær voru hjá hveriu sinni: Of-Fred, Of-Glen, Of-Warren, þ.e. eignarfall nafns karlsins.
Öllum konum í Gilead var skipt í stéttir eftir hlutverki þeirra í þágu lýðveldisins. Hver stétt hafði sinn einkennislit. En svo við höldum okkur við „meyjarnar“ þá var Offred komið fyrir hjá hjónum, eiginkonan orðin of gömul til að eignast barn sjálf. Offred var haldið þarna í nokkurs konar stofufangelsi. Hún var látin eta vel og fór í læknisskoðun reglulega og á „fengitímanum“ var henni gert að láta eiginmanninn ríða sér í viðurvist eiginkonunnar. Kæmi ekki barn undir á vissum tíma, var hún flutt á annað heimili og reynt aftur með öðrum karli. Þær meyjar, sem urðu ófriskar ólu börn sín en afhentu þær síðan eiginkonu mannsins til eignar, þær voru sem sagt staðgengilsmæður. Mey, sem aldrei náði því að ala heilbrigt barn var dæmd ó-kona og send í útrýmingabúðir eða annað verra. Ástæðan fyrir því að eiginkona var talin þess hæf að ala upp barn, var einfaldlega sú að hún var gift og aðeins eiginkonur í fyrsta hjónabandi voru gildar. Lesbur, fráskildar konur eöa konur giftar fráskildum mönnum (líkt og Offred hafði verið) og annað ó-konulegt kvenfólk, var dæmt til annarra hluta.
í bókinni lýsir Offred hlutskipti sínu. Hún rifjar einnig upp fyrri daga, ást sína og Luke, mannsins síns og hugsar um dóttur sína, sem hún veit ekki hvort lifir enn og undir hvaða kringumstæðum. Hún segir frá mömmu sinni, einstæðri móður sem hafði tekið virkan þátt í frelsisbaráttu kvenna á 7. áratugnum (m.a. tekið þátt í baráttunni gegn klámi og klámblaðabrennum) og þreytt dóttur sína á endalausum upprifjunum á atburðum kvennahreyfingaráranna. Hún lýsir atburðum hversdagsins í Gilead, barnsfæðingu, samförum sínum og eiginmannsins, Freds, framkomu kvennanna í garð annarra kvenna og togar söguna fram oft með erfiðismunum því hún vildi svo mikið óska þess að þetta væri ímyndun, ekki raunveruleiki. Í lok sögu hennar segir frá því að svarti bíllinn kemur að sækja hana og við vitum ekki hvort það er andspyrnuhreyfingin sem er að koma henni til bjargar eða lögregla lýðveldisins. Síðasti kafli bókarinnar segir svo frá ráðstefnu haldinni árið 2195 af sagnfræðingum sem hafa sögu Gilead sem sérsvið og við getum lesið erindi eins fræðingsins sem er að fjalla um segulbandsspólur, er fundust og flytja sögu Offred. Lesandinn varpar öndinni léttar í vitneskjunni um að Gilead leið undir lok.
Þessi bók er dásamlega skrifuð eins og virðist beint frá hjarta konu, sem ég fann óstjórnlega mikið til með — eiginlega kvaldist með allan lesturinn. Smátt og smátt rennur upp vitneskjan um það við hvaða aðstæður hún lifir og hvers vegna. Sársaukinn, uppgjöfin gegn örlögum sem engin leið virðist að flýja og vonarneistinn sem kviknar, kviknar líka hjá lesandanum og það er næstum ómögulegt að leggja bókina frá sér án þess að fá að vita hvað verður um Offred.
Þessari bók hefur verið líkt við Fagra veröld Huxleys og 1984 eftir Orwell, enda af sama toga: framtíðarsýn höfundar sem er að horfa í kring um sig, þar sem gerir hana svo raunverulega er að í rauninni byggir hugmynd fræði Gilead á hugmyndum, sem eru fyrir hendi allt í kringum okkur. Sjálf hefur Margaret Atwood bent á þetta, hún segist hafa skoðað rækilega fregnir af trúarofstækishópum vestan hafs og bendir til Afghanistan og Íran. „Það er ekkert í bókinni, sem ekki er til einhvers staðar“ segir hún, það eina sem hún gerir er að fara með öfgana aðeins nær ystu nöf. En bókin verður aldrei pólitísk prédikun eða yfirlýsing, sjálfsagt vegna þess hversu mannlegar persónurnar eru og sagan listilega vel sögð. Þetta er einfaldlega mögnuð bók, sem vekur til umhugsunar. Hún er einbeitt gagnrýni, t.d. á hugmyndir femínista, enda hafa sumar hverjar risið upp til varnar og neitað því með öllu að róttækur feminismi geti farið út á álíka brautir. Trúarofstækishópar hafa svarað fyrir sig á sama hátt.
Margaret Atwood er kanadísk og hefur áður sent frá sér skáldsögur, Ijóð og smásögur og er með virtustu kvenrithöfundum í sínu heimalandi. Ég hafði áður lesið bók hennar „Bodily Harm“ sem varð til þess að síðan kaupi ég allt sem ég rekst á eftir þennan höfund.
Með bókinni ,,The Handmaid’s Tale“ virðist hún ætla að ná alþjóðlegri frægð og verið er að búa til kvikmynd eftir bókinni — hvort sem það eru nú meðmæli eða ekki! En ég mæli a.m.k. með þessari bók hér með — verst að hún skuli ekki vera til á íslensku.
Ms
Greinin birtist áður í tímaritinu Veru hinn 01.10.1987. Hún er endurbirt í tilefni þess að bókin hefur verið kvikmynduð á nýjan leik og nú sem þáttaröð. Fyrstu þrír þættirnir birtast á erlendu kvikmyndaveitunni Hulu hinn 26.04.2017.
Þarf ekki að vera spoiler alert á greininni?