Mun Hæstiréttur aldrei ná strætó?

Höfundur: Ragnar Aðalsteinsson

RagnarAdalsteinsson1Hinn 7. febrúar 2000 birti ég grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Hæstiréttur missir af strætó“.  Sex árum síðar, eða 23. mars 2006, birti ég enn grein undir fyrirsögninni „Missir Hæstiréttur enn af strætó?“ Nú níu árum síðar örvænti ég um að Hæstiréttur muni nokkurn tíma ná strætó. Tilefni þessara skrifa minna eru þau að Hæstarétt skipa nánast eingöngu karlar enda þótt óumdeilt sé að um það bil helmingur íbúa landsins sé konur. Af níu dómurum réttarins eru átta karlar og ein kona eða 11%. Mér þótti óviðunandi sú aðstaða árið 2006 að aðeins tvær konur skipuðu dóminn eða 22%, og var það tilefni greinaskrifa minna.

Nú er staðan sú að þrír hafa sótt um lausa dómarastöðu í Hæstarétti, tveir karlar og ein kona, allt umsækjendur sem að mínu viti eru hæfir til að gegna starfinu og enginn þeirra augsýnilega hæfari en annar. Einn umsækjenda hefur starfað sem lagakennari og sem dómari við alþjóðlegan dómstól. Annar hefur starfað sem lögmaður og sá þriðji, konan, sem héraðsdómari um áratuga skeið auk þess sem hún er nú og hefur um hríð verið settur dómari við Hæstarétt.

Miklu skiptir að æðsti dómstóll landsins sé þannig skipaður að til hans og verka hans beri allur almenningur sem mest traust. Eitt af skilyrðum þess að rétturinn njóti trausts er að skipun hans endurspegli eftir því sem unnt er þá sem í landinu búa. Við blasir að það er í fullkomnu ósamræmi við viðtekin lýðræðis- og jafnréttisgildi okkar tíma að æðsta dómstól landsins skipi nánast eingöngu karlar, nánar tiltekið átta af níu. Ætla má að fáir beri fullt traust til dómstóls sem þannig er skipaður.

Með breytingu á stjórnarskrá árið 1995 var sérstaklega áréttað, að gefnu tilefni, í ákvæði um jafnræðisreglu að konur og karlar skyldu njóta jafns réttar í hvívetna. Má sjá það leiðarljós endurspeglast í stefnumörkun Alþingis, sem birtist m.a. í lagaákvæðum um skipun stjórna hlutafélaga þar sem kveðið er á um að kynjahlutföll skuli ekki fara niður fyrir ákveðin hlutföll sem tilgreind eru í lögum. Þá er í lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 2008 kveðið á um að í nefndum á vegum ríkisins skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40%. Treysta verður því að þess sé gætt í þeim nefndum sem fjalla um val á dómurum og tjá sig um hæfni þeirra, enda geta slíkar nefndir bundið hendur ráðherra um skipunina nema hann sendi málið til Alþingis. Sé reglu þessarar ekki gætt eru ákvarðanir nefnda ógildar og óbindandi.

hæstiretturHæstiréttur leysir ekki aðeins úr þeim deilum sem undir hann eru bornar, heldur eru dómar hans iðulega stefnumarkandi og hafa því ekki aðeins áhrif á líf þeirra sem aðild eiga að málum heldur og fjölmargra annarra, jafnvel allan landslýð. Beri landsmenn ekki traust til Hæstaréttar og dóma hans getur það smám saman leitt til þess að dómarnir verði sniðgengnir og taldir marklausir. Fordæmisgildi þeirra mun fara þverrandi.

Fátt er mikilvægara á tímum er vantraust ríkir gagnvart þingi og stjórnvöldum en að efla traust almennings á dómstólum ekki síst á Hæstarétti. Dómurunum þar er ætlað að vera gæslumenn réttlætisins og síðasta vígi borgarans þegar að honum er sótt hvort sem er af einkavaldi eða opinberu valdi. Það vígi má ekki falla.

Þeim, sem fara með vald til að hafa áhrif á og ákveða hverjir skipi sæti dómara í Hæstarétti, er skylt að hafa hagsmuni almennings í fyrirrúmi. Þeir hagsmunir eru án efa að æðsti dómstóll landsins og dómar hans njóti almenns trausts. Það er ekki hlutverk þeirra, sem með valdið fara, að grafa undan trausti á réttinum meðal landsmanna, heldur að leitast við að auka traust á honum. Það verður ekki síst gert með því að auka áhrif kvenna í dómstólnum og fjölga þeim sem mest þar til nokkru jafnvægi er náð. Þeir sem vinna gegn þessu markmiði bera mikla ábyrgð.

Höfundur er lögmaður. Greinin birtist upphaflega í Mbl og er endurbirt með leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.