Fegurðardrottning flýr heim

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

arnayrFulltrúi Íslands í fegurðarsamkeppni vestanhafs er nú komin heim eftir að hafa ekki sætt sig við kröfur keppnishaldara um aukna megurð fyrir úrslitakvöldið. Það ætti engum að koma á óvart að í útlitskeppni eru gerðar kröfur um útlit, enda eru keppendur þannig séð eign keppnishaldara og sæta ströngum reglum um allt mögulegt. Hér heima hefur verið reynt að fegra umgjörðina, tala fjálglega um að þetta snúist ekki bara um fegurð, engar sérstakar útlitskröfur séu fyrir hendi og þátttakan sé frábært tækifæri. En þegar öllu er á botninn hvolft, þá verður samband eigenda og keppenda alltaf álika og samband bónda við verðlaunakvígur í fjósi.

Að því sögðu ber að fagna því þegar sá eða sú sem stendur frammi fyrir því að vera misboðið ákveður að láta ekki bjóða sér slíkt. Það krefst hugrekkis að taka til máls í umhverfi þar sem enginn býst við að maður hafi neina rödd, að óhlýðnast þeim sem ekki vænta annars en skilyrðislausrar hlýðni við skráðar eða óskráðar reglur. Slíkt er einnig verðmætt lóð á vogarskálar gagnrýninnar umræðu um afkáraleika þeirra mælikvarða sem hér var spyrnt gegn fótum.

En þessi flótti Örnu Ýrar er ekki sá fyrsti hjá íslenskum keppanda.  Ungfrú Ísland 1997, Harpa Lind Harðardóttir, fór fyrir hönd þjóðarinnar í Miss Europe sem haldin var í Úkraínu. Hún segir farir sínar og annarra ekki sléttar í viðtali við Morgunblaðið sem vitnað er í í úrklippu hér fyrir neðan. Áhugavert er að sjá að líkt og í máli Örnu Ýrar nú, er misskilningi vegna tungumálaörðugleika kennt um:
harpa-lind-hardardottir

BROT Á REGLUM

elingestsdottirHún upplifði heldur ekki álíka samstöðu fólks og Arna Ýr og tjáði sig sérstaklega um óblíðar móttökur aðstandenda Fegurðarsamkeppni Íslands þegar heim var komið. Þrátt fyrir vitnisburð hennar frá Úkraínu sagði Elín Gestsdóttir, forsvarsmaður keppninnar hér heima þetta:

„Það er ekki litið hýru auga þegar gripið er til þannig aðgerða svo það var engin ástæða til að taka henni fagnandi þegar hún sneri heim, enda braut hún með því samningsreglur“

Heimild: „Brosað gegnum tárin“: Höfundur: Sæunn Ólafsdóttir.

Núverandi eigendur keppninnar á Íslandi hafa enn ekki tjáð sig um heimferð Örnu Ýrar, en ekki virðast öll kurl komin til grafar í málinu. Það er til dæmis afar erfitt að átta sig á því hvernig í ósköpunum keppnishaldarar geti gefið sér heimildir til að taka vegabréf af keppendum og krefjast hárrar greiðslu fyrir að afhenda það að ósk eiganda vegabréfsins. Slík meðferð minnir á aðferðir þeirra sem stunda mansal með vændisfólk.

 

Ein athugasemd við “Fegurðardrottning flýr heim

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.