Andlát – annáll 2016

Margar merkar konur kvöddu okkur á árinu. Vefritið knuz.is hefði viljað geta nefnt þær allar en hér verður nokkurra minnst. Umsjón með samantekt: Ásdís Paulsdóttir og Magnea J. Matthíasdóttir.

Guðríður Ósk Elías­dótt­ir

gudridur-osk-eliasdottirGuðríður fæddist á Akranesi 23. apríl 1922 og lauk unglingaprófi frá Unglingaskólanum á Akranesi 1937. Framan af vann hún ýmis störf en varð skrifstofumaður hjá Verkakvennafélaginu Framtíðinni 1949 og starfaði þar til ársins 1967. Guðríður varð snemma virk í verkalýðsbaráttunni og var í stjórn Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar 1949-1976, sem formaður félagsins frá 1967. Hún sat einnig í framkvæmdastjórn og sambandsstjórn VMSÍ og í miðstjórn og sambandsstjórn ASÍ árin 1984-1988 og var varaforseti ASÍ árin 1984-1988, en hún var jafnframt fyrsta konan sem gegndi því embætti.
Guðríður vann ýmis trúnaðarstöf fyrir Alþýðuflokkinn, var m.a. varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði frá 1974 og bæjarfulltrúi 1977-1978. Hún sat í stjórn Verkamannabústaða í Hafnarfirði 1980-1991, en einnig í stjórn Hjúkrunarheimilisins Skjóls, Sambands almennra lífeyrisshóða, Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði. Árið 1997 var hún sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að verkalýðsmálum.
Guðríður lét af störfum vegna veikinda árið 1999 og lést á Landspítalanum í Fossvogi 9. janúar 2016, 93 ára að aldri.

Ragnhildur Helgadóttir lögfræðingur og fyrrverandi ráðherra

ragnhildur-helgadottirRagnhildur sat á þingi í 24 ár, eða 1956-1963, 1971-1979 og 1983-1991. Þegar hún hlaut kosningu fyrsta sinn var hún aðeins 26 ára gömul og var þá eina konan sem sat þá á alþingi. Ragnhildur var alla tíð eindregin kvenréttindakona og á mörgum sviðum brautryðjandi. Hún var fyrst kvenna kosin til forsetastarfa á Alþingi en hún var forseti neðri deildar þingsins 1961–1962 og á ný 1974–1978. Hún varð önnur konan sem settist í ráðherrastól og fyrst til þess að sitja á ráðherrabekk heilt kjörtímabil. Hún varð menntamálaráðherra 1983 og síðan heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1985–1987. Hún varð fyrst kvenna — og raunar alþingismanna — til þess að fara í fæðingarorlof frá þingstörfum, árið 1960, sem raunar hét þá „veikindaforföll“. Henni tókst á stjórnmálaferli sínum að knýja í gegn merkilega áfanga í réttindamálum kvenna þar sem var almennt og launað fæðingarorlof kvenna.
Ragnhildur Helgadóttir lést 29. janúar.

FEBRÚAR

Harper Lee rithöfundur

harper-leeÞann 19. Febrúar lést rithöfundurinn Harper Lee. Hún fæddist þann 28. apríl 1926 og er þekktust fyrir bókina “To Kill A Mockingbird” sem kom út 1960. Bókin fjallaði um kynþáttafordóma í suðurríkjum Bandaríkjanna og er af mörgum talin ein besta skáldsaga allra tíma.
Bókin fékk mikla gagnrýni á sínum tíma en sömuleiðis dreifingu á skömmum tíma. Hún seldist í milljónum eintaka um og var þýdd á fjölmörg tungumál. Hún fékk Pulitzer verðlaun í flokki skáldsagna fyrir bókina 1961 og kvikmynd var gerð eftir henni. Lee sendi ekki frá sér aðra skáldsögu þangað til í fyrra þegar Go Set A Watchman var gefin út.

 

MARS

Jenna Jensdóttir rithöfundur jenna-jensdottirvar fædd 24. ágúst 1918 á Læk í Dýrafirði. Hún var menntaður kennari og fékkst lengst af við kennslu og ritstörf. Hún stofnaði skóla á Akureyri ásamt Hreiðari Stefánssyni eiginmanni sínum sem var einnig samhöfundur hennar að fjölmörgum barna- og unglingabókum, meðal annars Öddu-bókunum sem nutu gríðarlegra vinsælda. Síðar flutti Jenna til Reykjavíkur og kenndi lengi í Langholtsskóla. Auk bókanna sem hún skrifaði með Hreiðari sendi hún frá sér ljóðabók og smásögur og skrifaði einnig greinar í dagblöð og tímarit um árabil.
Jenna tók mikinn þátt í félagsstarfi og var um tíma formaður Félags íslenskra rithöfunda sem rann síðar saman við Rithöfundasamband Íslands. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín að fræðslumálum og ritstörf.
Jenna lést á Hrafnistu í Reykjavík 6. mars sl., þá á 98. aldursári.

APRÍL

Alyson Bailes aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

alyson-bailesAlyson var fædd í Manchester í Bretlandi 6. apríl árið 1949. Hún stundaði nám við The Belvedere School í Liverpool og las nútímasögu við Somerville College í Oxfordháskóla þaðan sem hún lauk BA-prófi 1969 og MA-prófi 1971. Hún starfaði í 30 ár í bresku utanríkisþjónustunni og gegndi þar fjölda trúnaðarstarfa, síðast starfi sendiherra í Helsinki. Á árunum 2002-2007 var hún forstöðumaður Alþjóðafriðarrannsóknastofnunarinnar (SIPRI) í Stokkhólmi en kenndi eftir það við Stjórnmálafræðideild HÍ og sem gestaprófessor við College of Europe í Brugge 2010-2015.
Alyson sérhæfði sig í utanríkismálum Norðurlanda, Norðurslóðamálum og smáríkjafræðum og hún var ein af virtustu fræðimonnum um varnar og öryggismál í Evrópu, vopnaeftirlit og afvopnun. Hún tók einnig virkan þátt í starfi Alþjóðamálastofnunar, Rannsóknaseturs um smáríki við HÍ og Rannsóknaseturs um Norðurslóðir innan Alþjóðamálastofnunar. Eftir hana liggja margir tugir fræðigreina en auk þess ritstýrði hún fjölmörgum bókum og ritum.
Til að minnast Alyson og framlags hennar til fræðanna hafa Stjórnmálafræðideild HÍ, Alþjóðamálastofnun HÍ og breska sendiráðið í Reykjavík ákveðið að veita árlega verðlaun í hennar nafni fyrir framúrskarandi BA- eða MA-ritgerð á sviðum öryggismála, Norðurslóðarannsókna eða utanríkistefnu Norðurlandanna.
Alyson Bailes lést 29. apríl.

MAÍ

Margrét Indriðadóttir fréttastjóri

margret-indridadottirMargrét fæddist á Akureyri 28. Október 1923, hún varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1943 og starfaði að því búnu á Morgunblaðinu og sá þar um sérstaka kvennasíðu. Eftir þrjú ár þar hélt hún til náms í blaðamennsku í Bandaríkjunum þar sem hún lauk BA-prófi frá School of Journalism við Minnesota háskóla árið 1947.
Eftir heimkomu starfaði hún á Morgunblaðinu og skamma hríð á Tímanum en var árið 1949 ráðinn fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins, fyrst kvenna. Margrét varð fréttastjóri þar árið 1968, fyrst kvenna á Norðurlöndum. Hún lét af störfum árið 1986. Starfsferill hennar á fjölmiðlum spannar þannig 43 ár.
Hún hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal hin norrænu Nordfag-verðlaun 1991 og hina íslensku fálkaorðu árið 2007.
Margrét Indriðadóttir lést 18. maí.

JÚLÍ

Kristín Halldórsdóttir Kvennalistakona/þingmaður

kristin-halldorsdottirKristín var fædd 20. október 1939, hún lauk stúd­ents­prófi frá MA 1960 og kenn­ara­prófi frá KÍ 1961. Hún var blaðamaður á Tím­an­um, rit­stjóri Vik­unn­ar, starfs­kona Sam­taka um kvenna­lista og fram­kvæmda­stjóri flokks og þing­flokks Vinstri grænna. Um­hverf­is­mál og nátt­úru­vernd voru henni hjart­ans mál og tók hún meðal ann­ars virk­an þátt í starfi Um­hverf­is­vina sem söfnuðu 45 þúsund und­ir­skrift­um til að þyrma Eyja­bökk­um. Krist­ín var þingmaður Reyk­nes­inga 1983–1989 og 1995–1999. Hún var formaður ferðamálaráðs 1989–1993.
Kristín lést 14. júlí eftir erfið veikindi.

ÁGÚST

Ólöf Eldjárn þýðandi og ritstjóri lést 15. ágúst

olo%cc%88f-eldjarn-iÓlöf Eldjárn fæddist í Reykjavík 3. júlí 1947. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967 og lagði stund á enskunám, fyrst við Háskóla Íslands en síðan við Kaupmannahafnarháskóla þaðan sem hún lauk meistaraprófi 1973. Eftir það hóf hún aftur nám, nú í almennum málvísindum, við Háskóla Íslands meðfram starfi verslunarstjóra í Bóksölu stúdenta, stundakennslu og þýðingum. Ólöf starfaði sem ritstjóri hjá Bókaforlagi Máls og menningar og síðar Eddu útgáfu frá 1990 til 2007, en eftir það vann hún við þýðingar og yfirlestur bókmennta og fagrita af ýmsu tagi.
Eftir Ólöfu liggja margar úrvals þýðingar, meðal annars Umbreytingin eftir Liv Ullman; Kastaníugöngin og Miðbærinn eftir Deu Trier Mørch; Purpuraliturinn eftir Alice Walker; Heimur feigrar stéttar, Saga sonar míns og Ferð allra ferða eftir Nadine Gordimer; Dagbók steinsins eftir Carol Shields; Guð hins smáa eftir Arundhati Roy; Myrtusviður eftir Murray Bail, Og svo varð afi draugur eftir Kim Fups Aakeson, Undantekningin eftir Christian Jungersen, Dóttir myndasmiðsins eftir Kim Edwards; Barnið í ferðatöskunni eftir Lene Kaaberbøl og Agnete Friis; Húshjálpin eftir Kathryn Stockett, 23 atriði um kapítalisma eftir Ha-Joon Chang, Herbergi eftir Emmu Donoghue, Sækið ljósuna eftir Jennifer Worth og Undur eftir R.J. Palacio. Síðustu þýðingar hennar voru Meistari allra meina. Ævisaga krabbameins eftir Siddhartha Mukherjee, sem kom út 2015, og Heimför eftir Yaa Gyasi sem er væntanleg innan tíðar.
Ólöf var einn af stofnfélögum Bandalags þýðenda og túlka og einnig félagi í Rithöfundasambandi Íslands, þar sem hún gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hún var einnig virkur stuðningsaðili Fjöruverðlaunanna og lagði drjúgan skerf af mörkum til þeirra.
Ólöf Eldjárn lést á heimili sínu á Öldugötu í Reykjavík 15. ágúst 2016.

SEPTEMBER

Guðrún Jónsdóttir arkitekt

gudrun-jonsdottirGuðrún Ólafía Jónsdóttir var fædd 20. mars 1935 á Blönduósi. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955 og hóf þegar nám í arkitektúr í Konunglegu akademíunni í Kaupmannahöfn þaðan sem hún útskrifaðist 1963. Að námi loknu fór hún að vinna á teiknistofu í Kaupmannahöfn hjá prófessorum sínum í akademíunni en flutti síðan til Íslands og rak þar teiknistofuna Höfða ásamt fleirum til 1979 þegar hún stofnaði TGJ Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur sem hún rak til dauðadags. Guðrún hafði brennandi áhuga á verndun gamalla húsa og skipulagsmálum og tók virkan þátt í umræðunni um þau. Hún varð forstöðumaður Þróunarstofnunar Reykjavíkur (síðar Borgarskipulag Reykjavíkur) á árunum 1980-1984 og var varaborgarfulltrúi, fyrst Nýs vettvangs og síðar Reykjavíkurlista, og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir borgina, m.a. í skipulagsnefnd, menningarmálanefnd og byggingarnefnd Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi. Hún var einnig virk í öðrum félagsstörfum, sat í stjórn Arkitektafélags Íslands 1969-1973 og var formaður félagsins 1970-1972. Hún var formaður Torfusamtakanna 1972-1979, sat í ráðgjafarnefnd Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 1972-1984 og einnig í framkvæmdastjórn Listahátiðar, Skipulagsstjórn ríkisins og Náttúruverndarráði. Frá 1999-2003 sat hún í faghópi vegna Rammaáætlunar og var formaður stjórnar húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna 1998-2015. Árið 2015 var Guðrún kjörin heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands.

Guðrún lést á Landspítalanum 2. september 2016.

OKTÓBER

Edda Heidrun leikkona, leikstjóri og listmálari

edda-heidrunEdda Heiðrún Backman fæddist 27. nóvember 1957 á Akranesi en fjölskyldan flutti til Reykjavíkur þegar hún var þriggja ára og þar ólst hún upp. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund 1978 og útskrifaðist sem leikari frá Leiklistarskóla Íslands árið 1983. Upp frá því átti hún farsælan feril á sviði og í kvikmyndum allt þar til hún neyddist til að leggja leiklistina á hilluna vegna MND-sjúkdómsins árið 2006. Sjúkdómurinn náði þó ekki að bæla niður sköpunargleði og lífsþorsta Eddu Heiðrúnar sem opnaði blómabúðina Súkkulaði og rósir árið 2007 þar sem hún bauð upp á „heimsins besta súkkulaði og fallegustu rósir“. Í versluninni var ævinlega kynntur listamaður mánaðarins, bæði skáld og myndlistarmenn, og árið 2008 tók Edda Heiðrún sjálf að mála myndir með vatnslitum og olíu þó að hún gæti ekki notað hendurnar við verkið. Hún varð meðlimur í alþjóðlegum samtökum munn- og fótmálara og hélt fjölda sýninga hérlendis en einnig á samsýningum í öðrum löndum.
Á leiklistarferli sínum lét Edda Heiðrún mörg stór hlutverk, meðal annars í Sem yður þóknast, Brúðuheimilinu, Kirsuberjagarðinum, Ríkarði þriðja, Höll sumarlandsins, Hart í bak og Gullna hliðinu, og hún starfaði einnig sem leikstjóri. Þótt hún léki stór hlutverk í dramatískum verkum þekktu landsmenn hana ef til vill best sem gamanleikkonu því hún hafði sérlega gott vald á skopi og sló eftirminnilega í gegn í hlutverki Auðar í Litlu hryllingsbúðinni. Í þeirri sýningu og fleirum naut söngrödd hennar sín vel og hún talaði einnig og söng inn á fjölda vinsælla teiknimynda. Edda Heiðrún söng líka inn á barnaplötur og hún var um tíma meðlimur í sönghópnum Blái hatturinn sem kom fram víða um landið.
Edda Heiðrún hlaut margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir list sína, fyrst Stefaníustjakann árið 1989 og árið 2003 hlaut hún Grímuna sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í Hægan Elektra og Kvetch og sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í Kryddlegnum hjörtum, en þá voru íslensku leiklistarverðlaunin veitt í fyrsta sinn. Sama ár hlaut hún einnig Edduna, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin, fyrir leik sinn í Áramótaskaupinu 2002. Edda Heiðrún var borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2006 og árið 2008 bætti Alþingi henni í hóp heiðurslistamanna. Árið 2015 voru henni veitt heiðursverðlaun Grímunnar.
Síðustu árin barðist Edda Heiðrún ötullega fyrir réttindum fatlaðs fólks og lagði drjúgan skef af mörkum til að bæta hag þess, stóð m.a. fyrir vel heppnaðri landssöfnun ásamt Hollvinasamtökum Grensás til endurbóta á Grensásdeild. Henni var líka náttúruvernd hugleikin og skömmu fyrir dauða sinn stofnaði hún félagið Rödd náttúrunnar til að veita náttúrunni rödd og berjast fyrir réttindum hennar.
Edda Heiðrún lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. október 2016.

Katrín Pálsdóttir fréttamaður lést 9. okt

katrin-palsdottirKatrín fædd­ist 14. júlí 1949 í Reykja­vík, hún lauk stúd­ents­prófi frá Verzl­un­ar­skóla Íslands árið 1970, íþrótta­kenn­ara­prófi 1971 og BA-prófi í fé­lags­vís­ind­um frá Há­skóla Íslands 1976.
Þá lauk hún námskeiðum í blaðamennsku hjá New York Times og fleiri miðlum. Hún lauk síðar námi í rekstrar- og viðskiptafræðum og meistaraprófi í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2006. Lokaritgerð hennar bar titilinn Fjórða valdið. Katrín starfaði sem blaðamaður hjá Vísi og ritstýrði tískublaðinu Líf 1980 – 1982. Hún starfaði á Fréttastofu útvarpsins frá 1982 til 1987 og á Fréttastofu Sjónvarpsins frá árinu 1987-2007. Auk þess starfaði hún sem dagskrárstjóri Rásar 2.
Katrín var einn af stofnendum Félags fréttamanna og sat í stjórn félagsins. Katrín starfaði sem stundakennari við Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Síðustu ár starfaði hún hjá Sölufélagi garðyrkjumanna samhliða kennslu og var formaður menningarnefndar Seltjarnarnessbæjar.
Katrín Pálsdóttir lést 9. október, eftir snarpa baráttu við krabbamein.

NÓVEMBER

Ingunn Einarsdóttir frjálsíþróttakona

ingunn-einarsdottirLátin er eftir erfið veikindi ein skærasta frjálsíþróttastjarna Íslands á áttunda áratugnum, Ingunn Einarsdóttir. Ingunn var fædd árið 1955.
Ingunn keppti fyrst árið 1968, aðeins 13 ára gömul og á fermingarárinu 1969 sló hún í gegn, setti alls 10 Íslandsmet. Fjögur í grindahlaupum, tvö í 400 metra hlaupi, tvö í 800 metrum, eitt í 200 m hlaupi og það tíunda í fimmtarþraut. Bjó hún á þessum tíma á æskustöðvunum á Akureyri en fluttist til Reykjavíkur og gekk í ÍR árið 1972, aðeins 17 ára. Var hún atkvæðamikil á frjálsíþróttavellinum og var í mörg ár einn af burðarásum sterkrar frjálsíþróttasveitar ÍR sem vann Bikarkeppni FRÍ þetta ár í fyrsta sinn og síðan 16 ár í röð. Munaði mikið um Ingunni fyrir ÍR. Þá var hún lykilmanneskja í landsliðinu á áttunda áratugnum og til dæmis afar sigursæl í Kalott-keppninni. Áfram hélt metum að rigna frá Ingunni og sló hún t.d. alls átta met sumarið 1974. Lengi vel átti hún Íslandsmetin í 100, 200, 400 metra hlaupum, 100 metra grindahlaupi og fimmtarþraut, svo og bæði félags- og landsmet í boðhlaupum. Eins og vill stundum verða hjá íþróttamönnum sem mikið leggja á sig þurfti Ingunn öðru hverju að taka sér frí frá keppni vegna meiðsla. Keppnisskapið mikla dreif hana áfram og alltaf birtist hún aftur á hlaupabrautinni. Ingunn var sterk á innanhússmótum veturinn 1977-78, varð þrefaldur meistari og setti met í langstökki, 5,80 metra, sem var lengra en Íslandsmetið utanhúss. Síðustu árin var hún búsett í Hollandi þara sem hún lést. (Tekið af vef ÍR)

Elísa Steinunn Jónsdóttir (Schram) listakona og listgalleríeigandi

elisa-steinunnElísa var fætt á Vaðstakksheiði á Snæfellsnesi 4. júlí 1935. Hún var leirlistamaður, lagði stund á listnám í skólum í Cambridge í Bretlandi og í Oakland í Kaliforníu. Eftir heimkomuna hélt Elísa nokkrar sýningar á keramikverkum og tók þátt í samsýningum.
Í Kaupmannahöfn kynntist Elísa líflegum sýningarsölum þar sem hægt var að ganga að verkum listamanna og árið 1987 stofnaði hún Gallerí List í Skipholti í Reykjavík, líklega hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Hún rak galleríið um árabil með miklum skörungsskap og var áberandi í myndlistarlífi Reykvíkinga, einkum á 9. og 10. áratug síðustu aldar.
Elísa lést 1. október á Landspítalanum eftir stutt veikindi.

Ingibjörg Haraldsdóttir ljóðskáld og þýðandi

olo%cc%88f-eldjarnIngibjörg Haraldsdóttir ljóðskáld og þýðandi er látin 74 ára að aldri. Ingibjörg lærði kvikmyndagerð í Moskvu og bjó og starfaði í Havana á Kúbu að því loknu fram til 1975. Fyrsta ljóðabók hennar kom út árið 1974, en eftir Ingibjörgu liggja fimm ljóðabækur, tvö ljóðasöfn og endurminningabók.
Hún var afkastamikill þýðandi; úr rússnesku, spænsku og fleiri málum. Hún þýddi helstu stórvirki rússnesku skáldanna Fjodors Dostojevskí og Mikhails Búlgakov, leikrit Tsjekov og Túrgenév, auk ljóða rússneskra, sænskra, kúbanskra og annarra skálda í Rómönsku Ameríku.
Ingibjörg fékk íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2002 fyrir ljóðabókina Hvar sem ég verð auk þess sem bókin var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Fyrir þýðingar sínar hlaut hún meðal annars íslensku þýðingarverðlaunin og menningarverðlaun DV. Ingibjörg lætur eftir sig tvö börn og þrjú barnabörn.
Ingibjörg Haraldsdóttir lést 7. nóvember.

DESEMBER

Steinunn Finnbogadóttir ljósmóðir, borgarfulltrúi og aðstoðarráðherra

steinunn-finnbogadottirSteinunn var fædd í Bolungarvík þann 9. mars árið 1924 hún lauk námi frá Ljósmæðraskólanum 1943 og átti farsælan feril sem ljósmóðir. Steinunn var formaður Ljósmæðrafélags Íslands um árabil. Jafnframt var hún í forystusveit kvenna sem létu til sín taka í félags- og stjórnmálum upp úr miðri síðustu öld. Steinunn var einn stofnenda og sat í stjórn Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og var borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík 1970-1974 og varaborgarfulltrúi 1974-1978.
Árið 1971 varð Steinunn fyrsta konan á Íslandi til að gegna starfi aðstoðráðherra, en hún var aðstoðarmaður Hannibals Valdimarssonar Samgöngu- og félagsmálaráðherra til ársins 1973.
Steinunn lést 9. desember.

Dóra Hlín Ing­ólfs­dótt­ir

dora-hlinDóra Hlín Ing­ólfs­dótt­ir, rann­sókn­ar­lög­reglu­kona, var fædd 17. ágúst 1949. Dóra Hlín lauk gagn­fræðiprófi og síðar námi frá lög­reglu­skól­an­um en hún var önn­ur af tveim­ur fyrstu kon­um í sögu lög­regl­unn­ar til að klæðast lög­reglu­bún­ingi og gegna al­menn­um lög­reglu­störf­um, 30. júní 1974.
Hún var ráðin sem rann­sókn­ar­lög­reglu­kona við stofn­un Rann­sókn­ar­lög­reglu Reykja­vík­ur árið 1977 og flutt­ist svo sjálf­krafa til Rann­sókn­ar­lög­reglu rík­is­ins (RLR) þegar það embætti var stofnað. Þaðan fór hún til lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu þegar RLR var lögð niður árið 1997 en þar starfaði hún til starfs­loka árið 2014.
Dóra Hlín var mik­ill brautryðjandi í meðferð kyn­ferðis­brota inn­an lög­regl­unn­ar. Hún hlaut viður­kenn­ingu fyr­ir vel unn­in störf fyr­ir lög­regl­una og í þágu al­menn­ings þegar hún lét af störf­um.
Dóra Hlín var ein af stofn­end­um Stíga­móta. Þá var hún einnig einn stofn­enda Krí­anna, hags­muna­fé­lags lög­reglu­kvenna, og fyrsti formaður fé­lags­ins sem sett var á lagg­irn­ar árið 1994.
Dóra Hlín starfaði með Kvenna­list­an­um og tók síðar þátt í stofn­un Sam­fylk­ing­ar­inn­ar en hún starfaði einnig með flokkn­um.
Dóra Hlín Ing­ólfs­dótt­ir lést 22. desember

Esma Redzepova-Teodosievska

esma-redzepova-teodosievskaEsma fæddist í Skopje árið 1943. Hún varð þekkt fyrir söng og lagasmíðar strax á unglingsaldri og var stundum nefnd drottning sígaunatónlistarinnar. Tónlistarferill hennar stóð í u.þ.b. 60 ár og hún sótti sér einna helst innblástur í balkanska þjóðlagatónlist og Róma-tónlist. En hún kom víða við á ferli sínum, söng einnig popptónlist og tók meðal annars þátt í Eurovision árið 2013. Einna þekktust var hún þó fyrir að styrkja stöðu Róma-tónlistar og gera Róma-fólk stolt af eigin tónlist á þeim tímum þegar Róma-fólk var ofsótt og forðaðist að syngja á eigin tungumáli. Esma var einnig mjög þekkt fyrir mannúðarstarf og tók meðal annars að sér 47 börn auk þess sem hún lagði sitt af mörkum í þágu kvenna og Róma-fólks. Hún hélt einnig fjöldan allan af góðgerðartónleikum til stuðnings ýmsum góðum málum og var heiðursmeðlimur rauða krossins í Makedóníu. Hún tók virkan þátt í stjórnmálum og var enn borgarfulltrúi í Skopje þegar hún lést í desember á þessu ári.

Vera Rubin

Vera RubinVera Rubin, stjarnvísindamaður, var frumkvöðull á sviði stjarnvísinda og leiddu rannsóknir hennar til kenninga um hulduefnið (e. the dark matter). Hún sótti um í Princeton, en var neitað um inngöngu vegna kyns síns. Hún lauk því prófi í eðlisfræði í Cornell og í framhaldinu doktorsgráðu í Georgetownháskóla árið 1954. Hún hefur hlotið ýmis heiðursverðlaun vegna rannsókna sinna og uppgötvana, en margir undrast að hún fékk þó aldrei Nóbelsverðlaun. Vera Rubin lést á jóladag, 88 ára að aldri.

Mæðgurnar Carrie Fisher og Debbie Reynolds

carrie-og-debbieCarrie Fisher leikkona, rithöfundur og grínisti, lést 27. desember í kjölfar hjartaáfalls sem hún fékk um borð í flugvél, aðeins sextug að aldri. Carrie er líklega langþekktust fyrir hlutverk sitt í Stjörnustríðsmyndunum, en Leia prinsessa er mikil hetja í þeirri sögu. Hún skrifaði sjálfsævisögulegu skáldsöguna Postcards from the Edge, sem hún færði svo í kvikmyndahandrit. Þar talar hún opinskátt um geðsjúkdóminn og fíkn í eiturlyf. Hún lætur eftir sig eina dóttur, Billie Lourd, sem segir móður sína hafa alið sig upp án áherslu á kyn.
Rétt um sólarhring eftir dótturmissinn, lést Debbie Reynolds, móðir Carrie Fisher, 84 ára gömul. Debbie var vinsæl leikkona, líklega minnisstæðust fyrir hlutverk sitt í Singin’ in the Rain. Hún skrifaði einnig bækur og kvikmyndahandrit, söng en rak auk þess dansstúdíó og fleiri fyrirtæki, í lengri eða skemmri tíma. Debbie Reynolds hafði áhuga á varðveislu kvikmyndasögunnar og var í forsvari fyrir geðheilbrigðissamtökin The Thalians.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.