„Klám er ekkert annað en kynlíf fest á filmu“

Höfundur: Anna Bentína Hermansen

Mynd: Wikimedia Commons

Fyrirsögnin er tekin úr athugasemd sem birtist á athugasemdakerfi vefmiðils fyrir nokkrum dögum. Ungur maður var að gefa kynsveltum femínistum tóninn enda voru þeir svo óforskammaðir að níða klám sem niðurlægjandi ofbeldi þar sem hlutaðeigandi aðilar eru hlutgerðir.

Nokkrir lögðu orð í belg og sögðust ekki skilja hvað væri átt við með klámvæðingu. Ég held að athugasemdin unga mannsins; „klám er ekkert annað en kynlíf fest á filmu“ sé ótvíræð lýsing og staðfesting á því hvernig klámið hefur náð að seytla inn í menningu okkar.

Klámvæðing er heiti á því menningarferli þegar klám og hlutverk, myndmál, táknmyndir og orðfæri úr kláminu smeygja sér inn í okkar daglega líf sem hversdagslegt, samþykkt og jafnvel dáð menningarlegt fyrirbæri. Mörkin verða svo óljós að við gerum ekki lengur greinarmun á kynlífi og klámi, það er orðið eitt og hið sama.

Svo virðist sem að kynlíf sé smættað í menningu okkar, niður í öreindir. Yfirleitt eru kynlífi gerð svo takmörkuð skil að það verður okkur framandlegt nema í gegnum áreiti sem vekja grunnhvatir sem síðan heimta líkamlega útrás.

Samfélag okkar er haldið kynferðislegum og líkamlegum framandleika en virðist jafnframt vera heltekið af líkamanum og kynlífi. Eitt hámark á slíkri „heltekningu“ er í formi kláms, þar sem tvenns konar (jafnvel fleiri) kynfæri smella saman í taktföstum dampi undir stynjandi, másandi einstaklingum sem virðast þurfa öndunarvél hið snarasta.

Þegar horft er á klám er sá sem horfir algjörlega framandi þeim sem horft er á. Klám er skrumskæling þess sem við köllum kynlíf og aðeins örmynd þeirrar víðáttu sem gott kynlíf stendur fyrir. Gefandi og nærandi kynlíf byggir á gagnkvæmu ferli samveru og samþykki jafningja, þar sem báðir aðilar sýna umhyggju og virðingu. Í þeim farvegi geta þau tjáð þarfir sínar og þeim þörfum er sinnt með fullu samþykki beggja.

Líkamlegur framandleiki birtist ekki síst í því að líkaminn er annað hvort upphafinn með tilbeiðslukenndum öfgum eða gildi hans er hafnað. Tengslaröskun milli sálar og líkama sést vel í þeirri almennu afstöðu í samfélagi okkar að líta á skynsemi og tilfinningar sem andstæður. Slík aðgreining leiðir til þess að við förum að líta á líkama manneskju sem hlut sem er aðskilinn frá persónunni sem ber hann. Við vitum öll að við búum ekki í líkömum eða hulstri sem er aðskilið frá okkur sjálfum. Við erum sá líkami sem við berum. Virðing fyrir líkamanum samsvarar virðingu fyrir persónunni sem hann ber. Það líkamsrými sem við höfum er grundvöllur fyrir persónulegri veru okkar og viðleitni til að deila nærveru okkar með öðrum. Það hvaða augum við lítum á líkama okkar og tengjumst öðrum líkömum er bókstaflega grundvöllur allrar tilveru okkar.

Annað hámark líkamlegs framandleika eru vændiskaup, sem venjulega eru réttlætt undir þeim formerkjum að viðskiptasamband sé á milli tveggja jafnra og viljugra einstaklinga. Jafnræði milli þeirra getur hins vegar aldrei orðið að veruleika, þar sem sá sem kaupir hefur rétt á að fá sínu fullnægt, án tillits til þarfa eða óska aðilans sem selur. Langanir seljandans og þarfir eru í aukahlutverki og skipta ekki máli í þessu samhengi. Val hans er auk þess alltaf skilyrt, eins og flest „val“ er. Því varla velkjumst við í vafa um hvort valið standi á milli þess að vera lögfræðingur eða vændiskona. Flestir vændisseljendur bjóða fram þjónustu sína til að framfleyta sér, vegna peninganna eða til að fjármagna neyslu. Nautn og gríðarleg löngun í kynlíf er sjaldnast ástæða þess að manneskja leiðist út í vændi.

Kynlíf í formi líkamlegrar útrásar, eins og klámneytendur og vændiskaupendur sækjast eftir, er vafalítið afar takmarkað. Slík takmörkun lýsir sér best í því að alltaf þarf að ganga lengra til að fá örvun og útrás. Fullnægingar eru í raun hverfandi nema ef vera skyldi sáðlát karlmannsins, sem á ekkert skylt við raunverulega fullnægingu sem nærir alla verund einstaklingsins. Slíkar „nægingar“ verða aldrei „fylltar“, eru sjaldan fullnægjanlegar og þörfin fyrir meira verður knýjandi. Samfélagið setur slíkar kenndir á stall sem eitthvað óseðjandi og villt tryllingskynlíf sem eftirsóknarvert sé að ástunda. Hinsvegar virðist þessi viðleitni vera fremur fálmkennd og getur aldrei uppfyllt tilheyrandi tómleika sem virðist botnlaus, þar sem hugurinn fær aldrei ró því hann fylgir ekki með.

Hvergi erum við eins líkamlega framandi og í þessu tvennu; klámi og vændi. Hvergi sýnum við líkömum okkar og annarra eins mikla vanvirðingu.

Við erum miklu meira en viðbrögð við áreiti. Sem kynverur erum við öll tilvera okkar. Kynvera er ekki eitthvað hlutverk sem við göngum í þegar við stundum kynlíf. Við aðgreinum ekki líkamann frá huga okkar eða því félagslega samhengi sem við lifum í.

Kynverund okkar birtist í öllu sem við erum, gerum og hugsum, í löngunum okkar og þrám. Kynverund okkar er miklu viðtækari og dýpri en líkamleg útrás tveggja líkama í samförum. Slík útrás er eins og örsaga við hliðina á skáldsögu í 5 bindum. Einmitt þess vegna eru afleiðingar vændissölu og klámiðnaðarins svo gríðarlegar. Það er ekki hægt að aftengja líkamann persónunni sem ber hann. Líkaminn og persónan eru eitt og hið sama. Ekki síst af þessum sökum getur lítið réttlætt að við fullnægjum okkar kenndum með því að kaupa aðgang að líkama annarrar manneskju.

Afleiðingar kláms og vændis á þá sem selja þjónustu sína, eru taldar hliðstæðar afleiðingum kynferðisofbeldis en mun alvarlegri. Skömmin sem manneskjan ber, ekki síst vegna þeirrar skoðunar samfélagsins að það sé hennar einlæga val að selja líkama sinn, brýtur endanlega niður sjálfsvirðingu hennar. Lítilsvirðingin sem mætir þessum manneskjum í formi virðingarleysis fyrir persónu þeirra, draumum og löngunum gerir það að verkum að margar gefast upp.

Samtökin Pink Cross Foundation sérhæfa sig í að koma klámneytendum og klámmyndaleikurum til hjálpar. Eftirfarandi myndband er gert undir þeirra formerkjum og er tileinkað minningu klámstjarna sem hafa látist fyrir aldur fram. Yfirleitt af eigin völdum.

Mundir þú vilja að dóttir/sonur, móðir/faðir, systir/bróðir þín/þinn seldi líkama sinn eða léki í klámmyndum? Hvert og eitt þeirra andlita sem hér birtast í myndbandinu var dóttir, sonur, systir, bróðir, jafnvel móðir eða faðir einhvers.

Ein athugasemd við “„Klám er ekkert annað en kynlíf fest á filmu“

  1. Bakvísun: Femínistar sem hata gagnrýni « Móðursýkin

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.