Hugleiðing í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2012.

Höf. : Rún Knútsdóttir, lögfræðingur

Mikið hefur verið rætt um nýlegan dóm Hæstaréttar í máli nr. 521/2012 þar sem einn ákærðu var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot, þar sem hann stakk fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola sem hluti af grófri líkamsárás sem  hann ásamt öðrum beitti brotaþola.kynbundid-II

Fimm dómarar dæmdu í málinu. Fjórir þeirra vildu sýkna ákærða af kynferðisbrotinu og sakfelldu hann fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hér eftir nefnd hgl.) en einn dómari skilaði sératkvæði þar sem hún taldi brotið varða við 194. gr. sömu laga.

Í 2. mgr. 218. gr. hgl. er fjallað um alvarlega líkamsárás sem veldur verulegu tjóni og skaða á líkama viðkomandi eða er framkvæmd með sérstaklega hættulegri aðferð. Til þess að brot verði fellt undir það ákvæði þarf því að vera um mjög alvarlegt ofbeldisbrot að ræða. Í 1. mgr. 194. gr. hgl. segir hins vegar:

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum  eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Ágreiningur meirihluta og minnihluta í þessu dómsmáli fjallar að því er virðist um það hvort það að stinga fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola, sem liður í yfirstandandi líkamsárás, telst vera „önnur kynferðismök“ í skilningi greinarinnar. Meirihluti dómenda virðist telja að þar sem ásetningur geranda hafi ekki verið kynferðislegur, heldur sá að meiða brotaþola, falli brotið ekki undir það að vera samræði eða önnur kynferðismök.

Það er ýmislegt við þessa niðurstöðu að athuga. Í fyrsta lagi bera að líta til þess að kynferðisbrot eru í eðli sínu ofbeldisbrot. Sú háttsemi að beita einhvern ofbeldi eða þröngva honum á annan hátt til þess að ná fram vilja sínum gagnvart viðkomandi gæti oftar en ekki fallið undir ákvæði hegningarlaganna um líkamsárás eða aðra ólögmæta nauðung. Það er hins vegar andlag brotsins, það að hluti ofbeldisins beinist að kynfærum og kynfrelsi viðkomandi sem gerir það að verkum að slík brot ber að heimfæra undir 194. gr. en ekki 217. gr. eða 218. gr. Upplifun brotaþola, sem lendir í því að hlut eða fingrum er stungið upp í leggöng eða endaþarm hlýtur að vera sú að brotið sé gegn honum kynferðislega. Slíkt brot hlýtur því að teljast brot gegn kynfrelsi einstaklings, alveg óháð því hvort að gerandinn hafði eitthvað kynferðislegt í huga. Verndarandlagið er kynfrelsi viðkomandi og þá hlýtur upplifun hans af atburðinum að skipta máli, en ekki endilega afstaða geranda.

Þá er einnig til þess að líta að kynferðisbrot, og þá sérstaklega nauðganir, eru oftar en ekki notaðar einmitt í þeim tilgangi að niðurlægja viðkomandi, meiða og valda honum skaða. Þekkt er að nauðganir eru notaðar markvisst í stríðum til þess að ná fram þessu markmiði. Skipulagðar hópnauðganir í stríðsátökum hafa ekki það höfuðmarkmið að svala kynferðislegum löngunum þeirra sem þær framkvæma. Þá er til þess að líta að sá þröngi skilningur sem meirihlutinn leggur í hugtakið “önnur kynferðismök”, virðist ekki eiga sér stoð í lögskýringargögnum, eins og rakið er í sératkvæði Ingibjargar Benediktsdóttur. Þar segir hún m.a. eftirfarandi:

Um hugtakið „önnur kynferðismök“ sagði síðan í athugasemdum við frumvarp sem varð að  lögum nr. 61/2007 að undir það teldist meðal annars falla sú háttsemi að setja fingur eða hluti í leggöng eða endaþarm. Þetta hefur verið staðfest meðal annars með dómum Hæstaréttar 10. júní 2010 í máli nr. 421/2009, 16. febrúar 2012 í máli nr. 624/2011 og 16. maí 2012 í máli nr. 572/2011.

Ákærði Elías Valdimar veittist að brotaþola ásamt meðákærðu Andreu Kristínu og Jóni eins og nánar er lýst í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Jafnframt stakk hann fingrum upp í endaþarm hennar og leggöng og klemmdi á milli. Með þessum verknaði beitti hann brotaþola grófu kynferðislegu ofbeldi og braut þannig freklega gegn kynfrelsi hennar. Er fallist á með ákæruvaldinu að þessi háttsemi hafi verið af kynferðislegum toga og afar niðurlægjandi fyrir brotaþola. Skiptir ekki máli hvort tilgangur ákærða hafi verið einhver annar en að veita sér kynferðislega fullnægju, enda nægir að verknaður sé almennt til þess fallinn.

Í kjölfar dómsins verður ekki komist hjá því að velta fyrir sér hvert fordæmisgildi hans verður. Til einföldunar má segja að fordæmisgildi dóms felist í því að eftir uppkvaðningu hans skulu sambærileg mál, sem koma til kasta dómstóla eftirleiðis fá sambærilega niðurstöðu.

Fordæmisgildi dómsins liggur kannski ekki alveg ljóst fyrir þegar litið er til þess að meiri hluti dómsins eyðir ekki mörgum orðum í að rökstyðja þessa afstöðu sína en þó má draga ákveðnar ályktanir af honum. Í málinu var um að ræða mjög grófa líkamsárás, sem var fyrirfram skipulögð. Svo virðist sem að framangreindur gjörningur hafi fyrst og fremst verið að valda brotaþola sársauka. Hér er því mikið vægi gefið í hvaða tilgangi gerandi framdi verknaðinn á kostnað upplifunar brotaþola. Undirrituð telur varhugavert að gefa slíku sjónarmiði jafn mikið vægi og hér er gert.

Spurningin sem vaknar óneitanlega við lestur dómsins er sú hvort að það sé vilji réttarins að fara þá leið að láta afstöðu geranda til eigin verknaðar ráða því undir hvaða ákvæði brot hans verður heimfært. Eins og að framan er rakið eru ekki alltaf mjög skýr skil á milli nauðgunar og líkamsárásar, sérstaklega í ljósi ofbeldisþáttar 194. gr. Fordæmisgildið sem í þessum dómi gæti falist, er það að ofbeldisfull kynferðisbrot verði framvegis heimfærð undir líkamsárásarákvæði 217. eða 218. gr. hgl. haldi gerandi því fram eða geri líklegt að kynferðishlutinn hafi aðeins verið liður í ofbeldinu. Slík niðurstaða hlýtur alltaf að vera geranda mjög hagfelld, bæði í ljósi refsiramma viðkomandi ákvæða og þess hversu ólíkum augum nauðganir og líkamsárásir eru litnar í þjóðfélaginu.

Um leið er gert lítið úr upplifun brotaþola.

Er það von mín að Hæstiréttur endurskoði afstöðu sína, komi slíkt mál aftur til kasta dómsins, og taki sömu afstöðu og minnihluti dómenda gerir í þessu máli.

14 athugasemdir við “Hugleiðing í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2012.

  1. Tilgangur (hugarástand) geranda, eða hugarástand brotaþola ætti í raun ekki að hafa áhrif á dóminn. Í fullkomnum heimi myndi hvorugt hafa áhrif, og einungis dæmt útfrá atvikum sem gerðist, og svo rannsóknum sem styðja hver besta úrlausnin er fyrir báða aðila. En þetta er gott dæmi um karlmenn sem setja sig í spor hins seka, ekki brotaþola þegar þeir dæma og er það ömurlegt.

  2. Ég held að grein 195. gr. Allmenna heglingarlaga skýri vel hvenær brotið teljist kynferðisbrot, eins og ég myndi segja að þetta hafi verið.

    195. gr. [Þegar refsing fyrir brot gegn 194. gr. er ákveðin skal virða það til þyngingar:
    a. ef þolandi er barn yngra en 18 ára,
    b. ef ofbeldi geranda er stórfellt,
    c. ef brotið er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt.]

  3. Það ætti að vera alveg ljóst, að hafi tilgangur Elíasar bara verið að meiða brotþola, þá eru til þægilegri, þrifalegri og skilvirkari leiðir til þess að valda sársauka en að afklæða og pota fingrum. Hér tala ég að vísu ekki af reynslu. Það eru pervertískar hvatir sem búa að baki slíkri hegðun, sem hefur allt með kynferðistengd málefni að gera en ekkert með það að gera að berja fólk.

    Með sömu röksemdarfærslu og meirihlutinn beitir mætti segja að frásagnir af skipulögðum nauðgunum t.d. í Bosníustríðinu og víða t.d. í borgarastyrjöldum í Afríku séu ekki kynferðisbrot þar sem megintilgangurinn er ekki að svala þörfum geranda heldur valda skaða á einstaklingunum sem fyrir verða og samfélagi þeirra.

  4. Þetta mál er grundvallaratriði í mannskilningi þarna bregður rétturinn útaf áratuga mannskilningi.
    Það má velta því fyrir sér hvort konan var ógift og þar með enginn þolandi?

    Má ég bæta þessu við:
    Samk. 3. mg 208. gr. l. nr. 88/2008 getur Hæstiréttur „ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi.“
    Þrír héraðsdómarar höfðu metið það sannað að ákærði hefði gerst brotlegur við 194. gr hgl., það gerði héraðsdómur á grundvelli munnlegs framburðar samt víkur Hr. sönnun héraðsdóms frá gegn 208 gr. Athygli er vakin á að ekki er um að ræða refsilækkun samk. 1. mg 208 heldur sönnunmarfærslu samk 3. mg.
    Samt barma sömu dómarar sér yfir sömu 208. gr. þegar kemur að því að meta sýknu héraðsdóms yfir manni sem er nefndur X. Þetta er ekki fyllilega sambærilegt en sker í auga og líka vegna ný-fallins dóms ME í Vegasmálinu.

    Annað mál er það að land sem býr við yfir „Hæstarétti“ sem má raða saman á yfir eittþúsund vegu búi við nokkra réttaróvissu.

  5. Mér, eins og mörgum, er mjög misboðið með þessum dómi og trúi ekki að meiri hluti starfandi dómara Hæstaréttar hefðu komist að þessari niðurstöðu. Þess vegna kem ég til með að muna nöfn þessara fjögurra sem hér dæmdu.

  6. Við skulum líka leggja á minnið nafn dómarans sem skilaði sératkvæðinu þar sem hún gerir grein fyrir því á afskaplega skýran og skiljanlegan hátt á hvaða hátt dómur meirihlutans er EKKI í anda þeirra laga sem þeim er gert að fylgja og sem meirihluti almennings í landinu á þokkalega auðvelt með að skilja, jafnvel þótt sumir lögfræðingar kjósi að ganga þvert gegn þeirri samfélagssátt sem nú virðist loks hafa náðst um skilgreiningu á kynferðisbrotum. Kærar þakkir til Ingibjargar Benediktsdóttur.

  7. Bakvísun: Hvort viltu nauðgun eða líkamsmeiðingar? | Pistlar Evu

  8. Bakvísun: Ítarefni um dóm hæstaréttar í máli nr. 521/2012 | *knùz*

  9. Bakvísun: Heyrðu Hæstiréttur … | *knùz*

  10. Bakvísun: Vituð ér enn? | *knùz*

  11. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.