KSHK er ekki prívat SAFT verkefni

Höfundur: Helgi Eiríkur Eyjólfsson

Facebook albúmið KSHK [Karlar sem hata konur] sem síðar þurfti að breyta í tumblr síðu gengur ekki, að mínum skilningi allavega, út á að hvetja til ábyrgrar netnotkunar sem margir virðast halda. Eins og Hildur Lilliendahl hefur sagt margoft hóf hún að safna skjáskotum af kvenhatursummælum sem hún fann á internetinu. Eitt af skilyrðunum sem hún setti sér var að ummælin væru opinber, þ.e. öllum aðgengileg og látin falla í því sem má skilgreina sem opinbera umræða. KSHK sýnir fram á að í opinberri umræðu telst það ekki sérstakt tiltökumál að viðhafa kvenhatur gegn konum. Oft í þeim tilgangi til að reyna þagga niður í þeim sem hópi. Það er lykilatriði. Kvenfyrirlitning og kvenhatur (e. misogyny) er hugtak sem lýsir því hvernig konur eru sem hópur undirsettar og eru gagnrýndar vegna þess að þær eru konur, ekki vegna þess hvað þær segja eða gera. Unknown

KSHK er feminískur aktívismi vegna þess að ætlunin er að varpa ljósi á kvenhatrið sem kerfisbundna orðræðu sem hefur lögmæti. Stundum hefur komið upp sá einfaldi (mis)skilningur að KSHK sé eitthvað í átt við að vera prívat SAFT verkefni [sjá t.d. hér – aths. ritstjórnar] hennar – að maður skuli passa sig í samskiptum á netinu. Það er KSHK ekki. Hildur hefur aldrei málað sig sem einhvern internet-siðapostula. Það hafa aðrir gert.

Þar sem KSHK er femínískur aktívismi sem bendir á undirokun kvenna í orðræðu á internetinu skal gagnrýna KSHK fyrir sem það sem það er. Og fagna því það sem það er – jafnvel veita því viðurkenningu fyrir það sem það er. Ég hélt að Stígamót hefðu t.a.m. veitt Hildi viðurkenningu sína vegna þess. En nú virðist það komið í ljós að skilningur þeirra á viðurkenningunni hafi verið einhvers konar karakter viðurkenning; og hún sé nú ekki þess verðskulduð. Það þykir mér naívískt af Stígamótum, sem stórkostlegum samtökum sem byggja á feminískri hugmyndafræði, að hafa ekki litið svo á að þau hafi verið að viðurkenna KSHK verkefni Hildar heldur persónu hennar sem einhvers konar siðferðislegt viðmið.

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að skrifa í löngu máli um ummælin sem hafa verið til fordæmalausar umfjöllunar upp á síðkastið en þau eru að sjálfsögðu engum til sóma. Það hefur Hildur sagt sjálf og Páll maðurinn hennar. Þau hafa beðist auðmjúklega afsökunar á þeim. Hvort fólk vilji taka fyrirgefningarnar til greina eða ekki er þeirra mál.

KSHK stendur óhaggað. Að sjá það ekki gefur óneitanlega í skyn að skilningi á kynjamisrétti og kvenhatri sé ábótavant. Annaðhvort það eða vegna and-feminískra sjónarmiða. Nema hvort tveggja sé.

Fengið af bloggi Helga og birt með góðfúslegu leyfi höfundar. 

7 athugasemdir við “KSHK er ekki prívat SAFT verkefni

 1. Ég fengi óneitanlega meiri botn í þessi skrif ef ég vissi hvað „prívat SAFT verkefni“ væri. Ég hef einhverja óljósa mynd af SAFT sem samtökum sem berjast fyrir bættri netmenningu en veit svo sem ósköp lítið um starf þeirra. Telur höfundur að það blasi við að verkefni sem hefði þann boðskap að maður skyldi passa sig í samskiptum á netinu (sem er eina lýsingin sem við fáum á þessu með prívat SAFT verkefnið) fæli í sér að sá sem ynni verkefnið væri að stilla sér sjálfum upp sem internet-siðapostula?

  Þótt það sé ekki orðað sérstaklega þá hlýtur lesandinn að draga þá ályktun að sá sem boðar það að fólk skuli passa sig í netsamskiptum sé að „mála sig“ sem siðapostula. Jafnframt virðist látið í það skína að það sé eitthvað asnalegt við SAFT. Mér finnst svona dylgjutaktík lágkúruleg.

  • Sælar,
   Það hefði mátt bæta því við að SAFT verkefni snýst um bætta netnotkun í almennu samhengi, til dæmis má nefna íslensku SAFT samtökin sem berjast fyrir öruggri netnotkun barna og unglinga (sjá http://www.saft.is/um-okkur/). Ég les ekkert út úr færslunni sem gefur til kynna að SAFT verkefni séu asnaleg í sjálfu sér. Eins og ég skil Helga er hann að benda á að myndaalbúmið snérist aldrei um það að fólk ætti að vera siðavandara á netinu í sjálfu sér, heldur hitt að benda á hvað kvenfyrirlitning er algeng í opnum tjáskiptum þar. Myndaalbúmið tekur ekki tillit til annars, svo sem aldursrembu, rasisma, eða almenns dónaskapar, til að mynda.

  • Sæl, Eyja.

   Ég hélt nú reyndar að það væri almenn vitneskja hvað SAFT væri. Í sambandi við seinni punktinn þinn um „að stilla sér sjálfum upp sem internet-siðapostula?“ finnst mér koma ágætlega í ljós hvað ég eigi við þegar maður les pistilinn og er að finna hér: „Hildur hefur aldrei málað sig sem einhvern internet-siðapostula. Það hafa aðrir gert.“ Punkturinn minn er sá að aðrir hafa málað Hildi sem einhvern siðapostula. En hún hefur hins vegar verið gagnrýnd á þann hann að hún hafi málað sig sem einhvern siðapostula. Geti nú ekki lengur tekið þátt í „umræðunni“, hún sé ómerkingur o.þ.h. Finnst þér þetta óljóst hjá mér?

   Síðan væri ágætt að þú værir ekki að leggja mér orð í munn um að mér finnist SAFT asnalegt. Það eru þín orð og þinn vilji að lesa það út úr þessum pistli. Mér finnst svoleiðis dylgjutaktík frekar lágkúruleg, ef ég á að segja eins og er.

 2. Kæri Helgi,

  Þú segir: „Hildur hefur aldrei málað sig sem einhvern internet-siðapostula. Það hafa aðrir gert.“

  Það er einfaldlega ekki rétt. Ég hvet þig til að lesa þessa tilkynningu um málfund um hatursáróður á netinu:

  http://www.ruv.is/frett/taka-tharf-hatursarodur-a-netinu-alvarlega

  Þar segir Hildur: „Tjáningarfrelsi þitt nær ekki lengra en svo að um leið og þú ert farinn að valda öðrum sársauka og þjáningum, þar lýkur því,“

  Þetta er mjög almennt orðað hjá henni, er það ekki? Ef þessi yfirlýsing er ekki internets-siðapostulapredikun, ja, þá veit ég ekki hvað væri það eiginlega.

 3. Sæll Helgi.

  Mér finnst þú og sumt annað fólk vera að sveigja ykkur yfir í kringlu við að útskýra það af hverju Hildur Lilliendahl hafi ekki gerst sek um tvískinnung með netskrifum sínum.

  Ég er sammála þér að KSHK-listinn gengur út á að benda hversu opin kvenfyrirlitning er en hann gengur einnig út á að benda á vonda og hatursfulla umræðu á internetinu. Nú er komið í ljós að Hildur sjálf hefur gerst brotleg um að kynda undir vondri og hatursfullri umræðu.

  Það sem hefur vakið athygli mína eru hennar eigin útskýringar. Annars vegar að eiginmaður hennar beri ábyrgð á verstu ummælunum. Hann ætti því eðli málsins samkvæmt að fara upp á KSHK-listann. Hins vegar er að hún og aðrir hafi gengist inn í ákveðinn kúltúr sem tíðkaðist á bland.is. Þessi útskýring er mjög slæm því Hildur sjálf hefur gagnrýnt mjög harðlega þann kúltúr sem viðgengst á mörgum síðum.

  Hún hefur hins vegar beðið um fyrirgefningu á þessum hlutum og ég sé enga ástæðu til að fara með málið neitt lengra. Ég tel hana einfaldlega ekki vera heppilegan kandídat sem einhvers konar andlit femínismans út á við eins og hennar stuðningsmenn hafa dubbað hana upp í.

  Og þar komum við að kjarna málsins. Stuðningsmannahópi Hildar. Það er fólkið sem ég er ósáttastur við. Af því það kemur fram við jafnréttisbaráttuna eins og sitt eigið einkafyrirtæki og þeirra hugsunarháttur líkist meira þankagangi sértrúarsöfnuðar en nokkru öðru. Mikið af þeirri gagnrýni sem Hildur hefur fengið á sig er mjög ógeðfelld en margt af henni er réttmæt. Þessir stuðningsmenn virðast ekki geta greint þarna á milli.

  Ég hef oft verið sammála Hildi. Til dæmis fannst mér KSHK-listinn mesta þarfaþing. En ýmislegt annað hefur mér ekki líkað við. Sem dæmi má nefna mjög furðulega og vanstillta gagnrýni sem kom frá Hildi á þáttinn Harmageddon þar sem var tekið viðtal við ungan kvenkyns rappara. Sú gagnrýni fannst mér vera móðursýkisleg, mjög púrítanísk og bera öll þess merki að það væri vísvitandi verið að misskilja viðtalið til að rugla fólk í rýminu.

  Fyrir að tjá mig um þessa hluti hef ég verið úthrópaður oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sem kvenhatari. Ég lít á mig sem femínista. Það þýðir í mínum huga að ég vil jafnrétti kynjanna á öllum sviðum þjóðfélagsins. Hins vegar er ég praktískur maður og skil að samfélagið þróast jafnt og þétt með ýmsum málamiðlunum. Því er ég ekki í sama hólfi og Hildur og sumt annað fólk sem er róttækast. Það hafnar öllum málamiðlunum að því er ég fæ séð og vill heldur berjast á banaspjót heldur en að finna sameiginlega grundvelli. Þau hafa að sjálfsögðu fullan rétt á því og reyndar tel ég róttæklingana nauðsynlega því þeir draga vagninn.

  Mér mislíkar það hins vegar þegar róttæklingarnir snúast gegn okkur sem erum meira, hvað skal kalla það, liberal eða moderate, og saka okkur um kvenhatur. Bara af því við getum ekki verið sammála þeim og fólki eins og Hildi í einu og öllu. Þar kemur sérstrúarsafnaðarfnykurinn upp. Við erum ekki nógu hrein í trúnni.

  En femínisminn er ekki ein blokk. Hann er massíf fjöldahreyfing fólks með mismunandi skoðanir sem samt á sér sameiginlegt markmið, jafnrétti kynjanna. Engin skoðanakúgun ætti að líðast innan hans og allar tilraunir til hennar ætti að mæta af fullri hörku.

 4. Ég hef líklega ekki útskýrt nógu vel samhengið í því sem ég sagði. Málið snýst um þennan hluta hér, sem virðist hugsaður sem kjarninn í greininni (alla vega ef marka má fyrirsögnina):
  „Stundum hefur komið upp sá einfaldi (mis)skilningur að KSHK sé eitthvað í átt við að vera prívat SAFT verkefni [sjá t.d. hér – aths. ritstjórnar] hennar – að maður skuli passa sig í samskiptum á netinu. Það er KSHK ekki. Hildur hefur aldrei málað sig sem einhvern internet-siðapostula. Það hafa aðrir gert.“

  Í þessum hluta virðist þrír hlutir lagðir að jöfnu eða í það minnsta taldir röklega tengdir: a) að vinna SAFT-verkefni, b) að gefa til kynna að fólk eigi að passa sig í samskiptum á netinu, c) að „mála sig sem“ internet-siðapostula. Ef meiningin er ekki að gefa til kynna að þetta þrennt sé annað hvort jafngilt eða nátengt þá er samhengið óskiljanlegt. Hvers vegna er annars verið að tala um þetta allt í sömu andrá?

  Ég veit hvað SAFT er. Ég þekki hins vegar ekki starfsemi þeirra það vel þannig að ég átti mig á hvað það er í starfi þeirra sem gerir þá sem vinna verkefni fyrir SAFT sjálfkrafa að siðapostulum. Sé ætlunin að vera með ádeilu á SAFT þá hlýtur að vera lágmark að skýra hana nánar. Ef það hefur ekki verið ætlunin að setja fram slíka ádeilu hlýtur að þurfa að útskýra hver tengingin er frá „prívat SAFT-verkefni“ yfir í „siðapostula“.

  Mig grunar að við leggjum ólíkan skilning í orðið ‘siðapostuli’ en er samt ekki fyllilega viss. Ég hef vanist því að þetta orð sé notað um þá sem lesa yfir öðrum um hvernig þeir skuli hegða sér, oft með yfirlæti og jafnvel hroka. Siðapostuli er þannig einhver sem fer í taugarnar á öðrum og það er neikvæð umsögn að kalla einhvern siðapostula. Þannig myndi varla nokkur fara að kalla sjálfan sig siðapostula eða gefa til kynna með öðrum hætti að hann væri slíkur nema þá sem hluta af einhvers konar sjálfsírónískum gjörningi. Það ætti því að liggja fyrir að Hildur hefur ekki vísvitandi gefið sig út fyrir að vera siðapostuli. Hvort hún hefur gerst sek um að hegða sér sem slíkur er væntanlega annað mál; ég get ekki sagt að ég hafi upplifað hana þannig en sumir hafa greinilega gert það og kannski hafa einhverjir, t.d. fjölmiðlar, gert í því að láta hana líta út sem siðapostula. Ég skil þig þannig að þú eigir við að hún hafi ekki gefið sig út fyrir að vera siðferðilega fullkomin, eða eitthvað slíkt, en að aðrir hafi séð um að láta hana líta út fyrir að gefa slíkt í skyn. Eða kannski áttirðu við u.þ.b. það sama og ég með ‘siðapostuli’ og það er fyrst og fremst þetta „mála sig sem“ sem er að trufla mig.

  Ég skildi þig þannig að þú litir svo á að sá sem boðaði það að maður skuli passa sig í samskiptum á netinu hlyti að vera internet-siðapostuli. Það er ákveðin hefð fyrir því að gera ráð fyrir slíku jafngildi, þ.e. að gera engan greinarmun á því að gera eitthvað (eða segja) sem hefur siðferðilegan boðskap og því að vera predikandi (eða „móralíserandi“) siðapostuli. Það eru til ýmsar útgáfur af siðferðilegri tómhyggju eða níhílisma sem ganga út á einmitt þetta og það eru talsverðir slíkir tendensar í hinum ýmsu kimum menningarinnar þar sem fátt þykir hallærislegra en að móralísera og manni á helst bara að vera sama um allt og alla.

  Eins og gefur að skilja passar móralskur níhílismi frekar illa við flestar aktívistahreyfingar, í það minnsta þær hreyfingar sem ganga út á að efla einhver réttindi eða kjör eða sem hafa einhvers konar manngildishugsjónir eða aðrar gildishugsjónir að leiðarljósi. Mér þykir það því frekar ólíklegt að siðferðilegur boðskapur hafi hvergi komið við sögu í söfnun Hildar á ummælasúpunni í KSHK-möppunni. Vissulega má segja að mappan sem slík hafi fyrst og fremst þá virkni að afhjúpa kvenhatur á netinu en mér sýnist liggja nokkuð beint við að einhvers staðar komi þarna líka við sögu að ummæli á borð við þau sem þar koma fram séu ekki í lagi og að þetta þurfi að bæta, þótt það sé ekki tilgangur möppunnar að útskýra það fyrir fólki. Varla hefði Hildur farið að eyða tíma í þessa afhjúpun ef henni hefði ekki fundist að eitthvað þyrfti að breytast.

  Mér finnst niðurstaðan ágætlega skýr hjá þér og ég held ég sé mikið til sammála henni. Sú kvenfyrirlitning sem sést glögglega í möppunni umræddu hættir auðvitað ekkert að vera til hvað svo sem manneskjan sem safnaði upplýsingunum hefur gert eða ekki gert. Og það breytist auðvitað ekkert heldur að það sem sést í möppunni sé ekki í lagi og að það þurfi að laga. Það var sem sagt ekki niðurstaðan sem truflaði mig heldur leiðin að henni. Ég held að það þurfi að fara gætilega í að gefa í skyn að allir sem hafi siðferðilegan boðskap séu þar með orðnir að einhverjum hrútleiðinlegum siðapostulum, einmitt vegna þess að það er hellingur af fólki sem vill draga úr réttindabaráttu með einmitt slíkri taktík.

 5. Það er kannski rétt að taka það fram að þetta gríðarlanga komment mitt hér á undan var ætlað sem svar til Helga en ekki við því sem birtist þarna inn á milli.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.