Auðvitað hata ekki allir karlar konur

en allir karlar hljóta að vita að þeir græða á kynjakerfinu.

Hrafnhildur Ragnarsdóttir skrifaði grein í Fréttablaðið á dögunum þar sem hún ávarpaði karla og kallaði eftir því að þeir tækju afstöðu gegn kvennakúgun. Greinin hefur vakið gríðarlega harkaleg viðbrögð og af því tilefni birtum við hér þýðingu á grein breska blaðamannsins Laurie Penny úr The New Statesman. Þýðingin er einnig okkar framlag í 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.
Höfundur: Laurie Penny (@twitter)
Þýðing: Hildur Lilliendahl
Noomi Rapace lék ekki í kvikmyndinni Sumir karlar sem hata konur

Noomi Rapace lék ekki Lisbeth Salander í kvikmyndinni Sumir karlar sem hata konur

Þetta verður sárt. Undanfarna mánuði hefur verið nánast útilokað að opna dagblað eða kveikja á sjónvarpi án þess að rekast á frétt um enn eina stelpu undir aldri sem hefur verið nauðgað, enn eina stjórnmálakonuna sem hefur verið áreitt eða enn eina transkonuna sem hefur verið myrt.

Nú eru stelpur, konur og sívaxandi fjöldi karlkyns samherja að rísa upp og tala upphátt gegn kvenhatri, en á sama tíma er dálítið furðulegt að gerast: sumt fólk kvartar yfir því að umræða um fordóma sé í sjálfu sér ákveðin gerð fordóma.

Það gerist æ oftar þessa dagana að við konur erum beðnar, áður en við tölum um kynbundið misrétti, um að breyta orðræðu okkar svo við særum ekki karla. Ekki segja: „karlar kúga konur“ – það er bara misrétti, að minnsta kosti jafnslæmt og allt það misrétti sem konur þurfa að þola, hugsanlega verra. Í staðinn skaltu segja: „sumir karlar kúga konur.“ Sama hvað þú gerir, ekki alhæfa. Það er eitthvað sem karlar gera. Ekki allir karlar – bara sumir karlar.

Þetta málnotkunarnöldur er mjög áhrifarík leið til að þagga niður í konum. Við höfum jú flestar alist upp við þá hugmynd að góðar stelpur leyfi annarra manna tilfinningum að hafa forgang fram yfir okkar tilfinningar. Við eigum ekki að segja skoðun okkar ef það er einhver möguleiki á að það komi illa við einhvern eða jafnvel reiti einhvern til reiði. Svo við troðum inn í ræðuna okkar allskonar afsökunum, fyrirvörum og sefandi hljóðum. Við hughreystum vini okkar og fjölskylduvini, fullvissum þá; „þú ert sko alls ekki einn af þessum körlum sem hata konur.“

Það sem við segjum ekki er: að sjálfsögðu hata ekki allir karlar konur. En menningin hatar konur og karlar sem alast upp í kvenhatandi menningu hafa tilhneigingu til að segja karlrembulega hluti, oft án þess að ætla sér það. Við erum ekki að dæma ykkur en það þýðir ekki að við séum ekki að óska eftir því að þið hagið ykkur öðruvísi. Það hvernig þér líður gagnvart konum í hjarta þínu er ekki eins aðkallandi mál og hvernig þú kemur fram við þær.

Þú getur verið indælasti og ljúfasti karl í heiminum og samt grætt á kynjakerfinu. Þannig virkar kúgun. Þúsundir manna sem að öðru leyti eru fínasta fólk, eru þvingaðir til að gangast undir óréttlát kerfi af því að það er minna vesen en að brjótast út úr því. Eðlileg viðbrögð þegar einhver krefst breytinga á kerfi sem er óréttlátt, er að hlusta, fremur en að snúa sér við eða öskra, eins og barn, að þetta sé ekki þér að kenna. Því það er ekki þér að kenna. Þú ert örugglega mjög fínn. Það þýðir hinsvegar ekki að þú berir ekki ábyrgð; að það sé ekki þitt að gera eitthvað í því.

Við ættum öll að geta verið sammála um það, án þess að þurfa að grípa til hallærislegra staðalímynda um múltítask, að það er fremur einfalt að geyma fleiri en eina hugmynd í einu í mannsheilanum. Heilinn er stórt og flókið líffæri, um það bil jafnstórt og -þungt og skelfilegur myglaður blómkálshaus, og í honum er pláss fyrir margar seríur af plotti úr lélegum sjónvarpsþáttum og símanúmer fyrrum elskhuga sem þú ættir helst ekki að vera að hringja í eftir sex vodkaskot. Ef heilinn höndlaði ekki flóknar kerfisbundnar hugmyndir, á sama tíma og minni persónulegri hugmyndir, hefðum við aldrei komist niður úr trjánum eða lært að byggja hluti eins og borgir og verslanamiðstöðvar.

Það ætti því ekki að vera eins erfitt og raun ber vitni að útskýra fyrir meðalkarlinum að þótt þú, einstakur karl, sem dundar þér við þitt daglega líf, étur snakk og spilar BioShock 2, hatir kannski ekki eða meiðir konur, þá gera karlar það vissulega – sem hópur og sem strúktúr. Ég trúi því ekki að meirihluti karla sé of heimskur til að skilja muninn á þessu tvennu. Ef svo er þurfum við sannarlega að leggja okkur betur fram við að breyta því að þeir stýri nánast hverri einustu ríkisstjórn heimsins.

Samt er af einhverjum ástæðum erfitt að tala við karla um kynbundið misrétti án þess að rekast á heilan vegg af varnarháttum sem stundum minna ískyggilega á heift og jafnvel ofbeldi. Reiði er fullkomlega eðlilegt viðbragð þegar þú kemst að því að þú ert flæktur í kerfi sem kúgar konur. En lausnin er ekki að beina þeirri reiði aftur til kvenna. Lausnin er ekki að drepa alla umræðu með því að saka okkur um „öfuga kynjamismunun“ eins og það muni einhvern veginn jafna vandamálið út og koma í veg fyrir að þér þurfi að líða svona óþægilega.

Kynbundna óréttlætið á að vera óþægilegt. Það er sársaukafullt og gerir mann brjálaðan að vera þolandi kvenhatursárása og það er líka sársaukafullt að horfa á það gerast og vita að þú ert einhvern veginn flæktur í það, þrátt fyrir að þú hafir ekki kosið að vera það. Þú átt að bregðast við þegar þér er sagt að hópur sem þú tilheyrir sé með virkum hætti að valta yfir aðrar manneskjur, á sama hátt og þú átt að bregðast við þegar læknir lemur með hamri í hnéð á þér til að prófa taugarnar. Ef ekkert hreyfist er eitthvað alvarlegt að.

Það hljómar kannski eins og ásökun þegar ég segi „allir karlar eru hluti af menningunni sem hatar konur“ – ekki bara sumir karlar, heldur allir karlar. En í raun er það áskorun. Þú, stakur karl, með þínar einstöku þrár og drauma, baðst ekki um að fæðast inn í heim þar sem það að vera strákur gaf þér félagslegt og kynferðislegt forskot fram yfir konur. Þú vilt ekki búa í heimi þar sem litlum stúlkum er nauðgað og þeim síðan sagt í réttarsal að þær hafi kallað það yfir sig; þar sem vinna kvenna er illa greidd eða ógreidd; þar sem við erum kallaðar druslur og hórur fyrir að krefjast kynferðislegs jafnréttis. Þú valdir ekkert af þessu. Það sem þú getur hinsvegar valið um núna er hvað gerist næst.

Þú getur valið, sem karl, að hjálpa til við að búa til réttlátari heim fyrir konur – og fyrir karla. Þú getur valið að skora kvenhatur og kynferðislegt ofbeldi á hólm hvar sem þú sérð það. Þú getur valið að taka áhættu og verja orku í að styðja konur, koma konum á framfæri, koma fram við konurnar í lífi þínu sem alvöru jafningja. Þú getur valið að standa upp og segja nei. Á hverjum degi bætast karlar og strákar í hóp þeirra sem hafa valið það. Spurningin er: verður þú einn þeirra?
——————–

Greinin birtist upphaflega á New Statesman í ágúst síðastliðnum. Hún er þýdd og birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

49 athugasemdir við “Auðvitað hata ekki allir karlar konur

  • Það er rétt, hún lék í kvikmyndinni Karlar SEM hata konur ( Män som hatar kvinnor), byggða á samnefndri skáldsögu Stieg Larsson. Þetta “sem” er afskaplega mikilvægt orð í titilinum.

   • Og þar skilur á milli Stieg Larssonar og Hrafnhildar.
    Stieg skrifaði um þá (og í reynd bara suma þeirra) karla sem hata konur. Hrafnhildur skrifaði bréf til allra íslenskra karla.

 1. Fyrirsögnin er:
  Auðvitað hata ekki allir karlar konur

  en efnislegu skilaboðin eru:

  Karlar – sem hópur og strúktúr – hata konur.

  Er þetta ekki rétt skilið? (Ég er enn að læra og reyna að skilja og er opinn fyrir útskýringum.)

  • Nei Einar Karl, þetta er ekki rétt skilið. Skilaboðin eru ekki þau að karlar hati konur. En samt eru mjög margar konur hræddar við karla í ýmsum aðstæðum og í raun ekki að ástæðulausu. Staðreyndin er að við konur ölumst upp við þá vitneskju að þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi af hálfu karlmanns. Það er í raun mesta furða hvað konur eru tilbúnar til að treysta körlum svona almennt, fara með þeim í partý, fara í heimsókn til þeirra, bjóða þeim í heimsókn, fara út að skemmta okkur o.s.fr. En þeir virðast lítið kunna að meta þetta traust sem þeim er almennt sýnt.

   • Þetta var setningin sem ég var að vísa til:

    „þótt þú, einstakur karl […] hatir kannski ekki eða meiðir konur, þá gera karlar það vissulega – sem hópur og sem strúktúr“

   • Og vel meira en þriðji hver karl verður einhverntíma fyrir ofbeldi, þannig að ofbeldi gegn körlum er skv. talsvert meira vandamál en ofbeldi gegn konum, eða hvað?

    Samt virðist líðan karla vegna ótta um ofbeldi vera minni en sú hræðsla kvenna sem mjög er af látið nú um stundir.

 2. Jebb. Hopurinn sem karlmenn tilheyra, kynjalega sed, „hatar“ konur. Tvi teir karlmenn sem „sitja i stjorn“ hafa engan ahuga a ad retta vogina. Hins vegar eru margir teirra, innan hopsins, sem ekki hafa myndad ser skodun, eda gert ser grein fyrir malefninu, sem bara gera eins og samfelagid bodar. Teir eru svo oheppnir ad tilheyra slikum hopi og gera ser ekki grein fyrir tvi. Greinar eins og tessi getur opnad mørg eyru og kveikt a mørgum perum. En ta tarf hopurinn ad vilja heyra. (inni i tessum hopi eru ad sjalfsøgdu lika feministar og menn sem berjast fyrir rettindum kvenna, teir eru bara ekki ordnir nogu margir ennta).

  tad er lang lettast ad hugsa ad „eg hef tad nu svosem gott, tarf ekkert ad breyta neinu min vegna…“ en tad er samfelagsleg abyrgd okkar allra ad tryggja børnum okkar goda framtid, og tad er stærri vinna ad bua stulkum goda framtid en drengjum. Eins og tetta er nuna turfa teir eiginlega bara ad elta hopinn, rettindin sem konur berjast fyrir streyma i attina ad drengjunum eftir tvi sem arin lida og teir vaxa og troskast.

  Frabær grein! takk!

 3. Það eru bæði karlar og konur sem viðhalda kynjakerfinu og bæði karlar og konur sem berjast gegn því. Orðræða sem setur alla karla i hlutverk kúgarans og allar konur í hlutverk fórnarlambsins bendir til algjörs misskilnings á kynjakerfinu.

  Þá hafna ég því alfarið að ég sem karl hagnist á kynjakerfinu. Það eru hlutir af kynjakerfinu sem styðja við hagsmuni ákveðinna karla en það eru ekki mínir hagsmunir. Ég hef ekki áhuga á að vinna langan vinnudag og vera fjarskildur ættingi barna minna og ég legg mjög mikið upp úr því að hafa full réttindi gagnvart börnum mínum. Kynjakerfið vinnur því gegn þeim hagsmunum mínum að lifa lífinu mínu eftir mínu verðmætamati.

  • „Ég hef ekki áhuga á að vinna langan vinnudag og vera fjarskildur ættingi barna minna og ég legg mjög mikið upp úr því að hafa full réttindi gagnvart börnum mínum. “
   Heyr, heyr! Sammála og verð því miður að segja að samfélagsstrúkturinn er að færast í það að konur JAFNT á við karla þola oft þessi sömu örlög þegar þær finna sig knúna til að vinna úti. Það er erfiðara fyrir fólk af báðum kynjum sem metur tíma meira en peninga, og pláss meira en dót að fúnkera í þessu samfélagi, en baráttan virðist snúast um hver fær að vinna mest, og þéna best og eiga sem flest. Þetta er ekki barátta allra. Gangi þér vel Héðinn.

 4. Athyglisverður punktur hjá Héðni Björnssyni. „Ég hef ekki áhuga á að vinna langan vinnudag og vera fjarskildur ættingi barna minna“ Vil í því sambandi nefna hugtakið „kvennagildra“ sem gjarnan er flaggað þegar heimgreiðslur ber á góma. Allt er þetta spurning um verðmætamat. Það sem einum finnst argasta pest þykir öðrum hreinasta dásemd.

 5. Aftur er verið að snúa útúr – það er enginn fúll yfir einhverri málfræði. Þessi hugmyndafræði sem gengur út á að karlmenn (allsstaðar í heiminum, lifandi sem gengnir) sem heild séu kúgarar (þó sumir fái að vera það „bara óvart og ómeðvitað“) er mjög ógeðfelld. Það er verið að mótmæla henni – ekki málnotkun eða málfræði.

  Í stað þess að reyna að eiga samtal í framhaldi af þessum mótmælum – þá er reynt að snúa út úr og því haldið fram að einhverjir þurrpumpulegir karlfauskar séu að púlla Eið Guðnason á málfæðina. Svona á milli þess sem þeir lemja konuna sína og óttast að missa gríðarleg völd sín. Það er ekki rétt og ætti að vera öllum ljóst.

  Enn hefur engin getað bent mér hvað ég á að vera að gera sem stuðlar að/viðheldur ofbeldi gegn konum. Í staðinn er boðið upp á langa rullu um að ég sé með þöggunartilburði (takk Hrafnhildur og takk Knúz) bara afþví að ég samþykki ekki þessa hugmyndafræði. Við erum ekki ósammála, ég er bara með þöggunartilburði – þá þarf ekkert að gera meira við þá vitleysu sem kemur frá mér. Síðan er mér vinsamlega bent á að ég hafi grætt á „kynjakerfinu“ – reyndar kemur ekki fram hvað það er sem ég græddi – en það er örugglega rosa verðmætt. Ég á bara að halda kjafti og vera ljótur og samþykkja þennan ógeðfellda málflutning.

  Yfirlýsingar á borð við „Hopurinn sem karlmenn tilheyra, kynjalega sed, “hatar” konur“ fá mann til að velta því fyrir sér hvert ferðinni er heitið. Ekki í átt að sameiginlegu markmiði um jafnan rétt, jafna stöðu og gangkvæma virðingu á milli kynja – stefnan er greinilega ekki tekin þangað.

  • Það er enginn að benda á þig persónulega. Það sem hún segir í greininni er einfaldlega „karlmenn sem hata konur“. Það er ekki alhæfing yfir alla karlmenn, heldur ÞÁ karlmenn, sem meðvitað eða ekki, stuðla að þessu misrétti.

   Þú sem karlmaður hefur grætt. Hærri laun, áheyrn án spurningamerkja vegna kyns, virðingu vegna kyns, auðveldari leiðir í réttarkerfinu, upphafningu vegna kyns o.s.fv. Munaður sem konur þurfa að berjast fyrir á hverjum degi, vegna kyns.

   Þú baðst ekki um þetta, það er alveg rétt. En ef þér finnst þetta jafn ósanngjarnt og þetta í raun er – þá er verið að biðja þig sem karlmann um að fara í naflaskoðun og athuga hvort þú sért hluti af vandamálinu. Hvort þú hugsir sem karlremba. Hvort það hvernig þú hagar þér og horfir á lífið komi niður á konum.

   • Sæl, skv. ýmsum könnunum er kynbundinn launamunur í kringum 10% ekki satt? Hér er ég að tala um launamun þegar horft ar á sömu/sambærileg störf og leiðrétt fyrir unnum tímaum o.s.frv. – við erum sammála um þetta ekki satt?

    Það er rétt – ég er í hópnum sem fær hærri laun, ég ætla ekki að afsaka það að ég sæki stíft að fá launahækkanir þegar ég tel mig eiga rétt á þeim eða hafi unnið fyrir þeim. Ég veit ekki hvort það skiptir máli en 3 af síðustu 4 viðsemjendum hafa verið konur. En óréttlátt er það engu að síður, ég veit ekki hver lausnin er – en það er útilokað að ég hætti að sækja launahækkanir bara svo einhver annar fái ekki lægri laun en ég. Það er kannski eigingjarnt af mér, það má alveg saka mig um það.

    Ég kannast ekki við neinn virðingarauka umfram konur og veit ekki hvernig hann er fundinn út. Hef ekkert í höndunum sem afsannar þessa fullyrðingu en væri til í að sjá e-ð sem styður hana.

    Ég veit ekki hvaða auðveldari leiðir mér bjóðast í réttarkerfinu, ekki er það í forræðismálum og ekki fengi ég vægari dóm en þú fyrir afbrot – raunar benda rannsóknir til hins gangstæða. Ef þú ert að vísa til ákæruhlutfalls í kynferðisbrotamálum – þá bjóðast mér ekkert auðveldar leiðir þar af þeirri einföldu ástæðu að ég er ekki kynferðisbrotamaður.

    Ég þarf ekki ásakanir um að ég sé kúgari og ofbeldismaður til að ég fari í „naflaskoðun“ – hún hefur löngu farið fram og vonandi fer hún fram reglulega. En það hefur ekkert að gera með málflutning eins og þú ert að verja – mér var ekki hrundið út í sjálfsskoðun útaf ofstopafullum málflutningi. Er einfaldlega alinn þannig upp.

    En finnst lesendum þessarar síðu það standast skoðun að allir karlmenn séu hluti af vandamálinu??

 6. Sammála Stefán,

  Þetta er mjög yfirlætisfullur málflutningur.

  Þetta er einhvers konar „hrútskýring“ með öfugum formerkjum. Því er haldið fram fullum fetum að karlmönnum sem sárni að vera kallaðir hluti af einhverju vandamáli sem þeir hafa flestir ekkert lagt til séu bara of blindir vegna eigin forréttinda og því sjái þeir ekki að þeir séu flæktir í vef kúgunar og ofbeldis.

  Ég skil ekki hvað er unnið með svona málflutning sem stenst enga rökhugsun. Til dæmis, er í þessari grein, ekkert samræmi á milli fyrirsagnarinnar og meginmálsins.

 7. Mér finnst þessi grein gölluð að því leyti að það er ekki tekið inn í myndina að karlmenn eru líka fórnarlömb kynjakerfisins. Að það er ekki bara 100% gott fyrir þá og að þeir „græði“ á því að kerfið sé til staðar. Þeir græða kannski á ákveðnum sviðum en tapa á öðrum og það sama á við um konur. Ég held þess vegna að hluti af ástæðunni fyrir því að margir karlar bregðist ókvæða við þegar þeir eru sakaðir um það að „hata konur“ og að vera kúgarar, sé ekki sú að þeir móðgist svo mikið vegna þess að þeir hafi forréttindi og séu valdamiklir, heldur einmitt vegna þess að þeir upplifa sig líka sem hluta af kúguðum hópi (slík kúgun felst þá í áherslunni á að vera sterkur og viðhalda fjölskyldunni, á sama tíma og þeir fá e.t.v minni völd yfir barnauppeldinu og eru jafnvel útilokaðir úr því – auk þess hvað fyrirfram gefnar hugmyndir um hvernig kynin eigi að vera og haga sér eru útilokandi og eyðileggjandi fyrir fólk af báðum kynjum). Þannig að ég veit ekki hvað það bætir að skrifa hvern pistilinn á fætur öðrum þar sem aðal umræðuefnið er: „Við erum meira kúgaðar heldur en þið!“ og fá síendurtekið sama svarið: „Nei, við erum meira kúgaðir“.

  • Þetta er mjög góður punktur, það má alveg ræða forrétindi kvenna og karla og misrétti sem konur og karlar verða fyrir og þá geta allir verið með og enginn liðið eins og þeir séu útundan. Það er allt í lagi að viðurkenna að þetta sé til og finna jafnvægi sem allir geta verið sáttir við.

 8. Skil ekki af hverju sé enn verið að vitna í þennan blessaða pistil. Ætlar þú þá að sama skapi sem hvítur einstaklingur að gangast undir að bera ábyrgð á öllu því ofbeldi sem hvítir hafa gert um allan heim, nauðgunum, stríðum, kúgunum, pyntingum og svona gæti ég haldið endalaust áfram? Bara á þeim forsendum að þú hagnast á þeim.

  Ætlast þú sem kona að bera ábyrgð á þeim málum er varðar umgenginsrétt barna og ferða? Ert þú mín ógnarstjórn, að ef ég slít sambandi, þá á ég hættu á að hitta ekki barnið mitt nema örsjaldan? (já önnur hver helgi er örsjaldan). Þó ég þekki þig ekki neitt.

  Ætlar þú sem straight einstaklingur að bera ábyrgð á öllu því ofbeldi sem hefur verið framið og er verið að fremja gegn samkynheigðnum og transfólki? Þó að þú hafir ekkert komið nálægt því.

  Persónulega mun ég alla tíð berjast fyrir réttindum fólks. Ég mun ávallt gagnrýna. Ég mun viðurkenna mín eigin forréttindi og ég mun vinna að jafnrétti. Ég mun vinna gegn öllu ofbeldi og misrétti. Ég mun gera mitt besta til að dætur og synir mínir (og annara) lifi í þjóðfélagi án haturs og fordóma.

  EN ég ætla ekki að gangast undir að vera ógnarstjórn neins, né bera persónulega ábyrgð á því ástandi sem er í dag. Og það að ég sé ósammála þér í þessum pistli, þá ætla ég ekki að samþykkja að það sé einhverskonar þöggun. Ég tel bara frá hjarta mínu, þetta ekki vera leiðin að jafnrétti.

  • Já Jakob, ég verð að gangast við minni ábyrgð á því samfélagi sem kúgar samkynhneigða, forræðislausa feður og litað fólk. Eina leiðin til að berjast fyrir réttindum þessa fólks er að gangast við því að vera hluti af samfélaginu sem þarf að breyta. Ef þú neitar að taka á þig ábyrgð þá muntu aldrei geta breytt neinu og yfirlýsingar um stuðning verða bara orðin tóm.

   • Manneskja sem er beitt ofbeldi er væntanlega líka hluti af samfélaginu? Er þess krafist að hún gangast við því að bera ábyrgð á því ofbeldi sem hún er beitt?

 9. Hér er fyrst og fremst verið að tala um það hve mikil ógn konum stendur af kynbundnu ofbeldi. Körlum stendur líka ógn af ýmsu, það er alveg rétt. Engum dettur í hug að ásaka saklausan mann. Mér skilst að hér sé fyrst og fremst verið að höfða til samvisku karla, hvers og eins og benda honum á að skoða það hvort hann taki þegjandi þátt í ríkjandi viðhorfum og kúgun eða hvort hann þori að standa upp og mótmæla. Við hljótum öll að vera sammála um það að við viljum mannréttindi fyrir alla, konur og karla, hvíta, svarta, samkynhneigða, gangkynhneigða, feita, mjóa o.s.frv. Staðreyndin er þó því miður sú að mjög margar mínar vinkonur (sem eru afar venjulegar konur) hafa orðið fyrir kynbundnu/kynferðislegu ofbeldi og er ég sjálf þar ekki undanskilin. Ég þekki vel þann veruleika að taka skömmina, ábyrgðina og allt saman á mig eins og lengi vel var gert og gerist því miður oft enn. Mér finnst t.d. það að nota meiðandi brandara um hitt kynið ljótt. Um daginn las ég t.d. brandara þar sem gert var grín að lyfjanauðgunum og dæminu snúið við þannig að konurnar væru að „tæla“ karlmenn með bjór og „neyða þá svo í fast samband“. Margir menn gerðu „like“ á þetta en mér var gróflega misboðið. Sjálf þekki ég nokkrar stúlkur sem hafa lent í slíku. Ég hef ekki oft heyrt um lyfjanauðganir á körlum, þó það sé vissulega til. Við þurfum að standa saman, bæði kyn, og koma vel fram og af virðingu við hvert annað. Ríkjandi kerfi er kúgun, ekki allir einstaklingar. Höfundurinn er fyrst og fremst að hvetja alla karla til að rísa upp gegn gömlu kúguninni, ekki kalla þá alla drullusokka. Meðan við förum sífellt í skotgrafir vinnst enginn sigur. Mér verður oft hugsað til s.k. súffragetta sem voru kvenréttindakonur fyrir meira en einni öld og tróðust undir hestum í Englandi þegar þær mótmæltu. Undir hverju troðumst við? Varnarviðbrögðum? Bróðir minn er ekki drullusokkur, ekki maðurinn minn, ekki pabbi en ég veit samt og hef reynt á eigin skinni að ofbeldismenn geta leynst undir fögru jafnt sem ljótu skinni. Það sést ekki né heyrist við fyrstu kynni að maður sé ofbeldishneigður og því eru konur sífellt á tánum. Leiðinlegt en satt. Vona að öll dýrin í skóginum verði vinir. Fyrr náum við engum árangri. Friður og kærleikur.

 10. Umræða á þessum nótum, þar sem konur eru ávalt frá Venus og karlar eru ávalt frá Helvíti, gerir ekkert annað en að valda gremju, úlfúð og setja karla og konur enn lengra í Við/Þið hópa.

  Talandi um forréttindi. Konur eru með 96% betri stöðu en karlar í sifjamálum (96% þeirra sem greiða meðlag eru karlar og því í veikari stöðu). Það fólk sem tálmar að litlu eða miklu leiti (svona eins og Hjördís Svan er að gera núna) er í svipuðum hlutföllum konur sem gerendur.

  Má ég þá fara af stað og skrifa „skilaboð til íslenskra kvenna“ á sömu nótum og Hrafnhildur gerði? Hálfpartinn fullyrða yfir allar konur Íslands að annað hvort eru þær vandamálið eða hluti af vandamálinu? Og ef einhver kona mótmælir svona dylgjum, þá bara segja henni bara að hætta þessum þöggunartilburðum því hún sé í forréttindahópi, verandi kona? (wo)mansplaina hana?

  Eruð þið virkilega hissa á því að svona vælubíll, sem þessi grein er, valdi gremju og mótmælum? Ekki bara frá flestum körlum heldur líka frá fjölmörgum konum?

  Svo er nú alveg perla að þýða grein eftir Laurie Penny. Hún heldur því fram fullum fetum að sum áhersluafbrigði femínisma sé rangur.
  http://www.youtube.com/watch?v=GOareP9NNcY tími: 0:30

  S.s. hún, og hún ein (og hennar strangskilgreindu skoðanasystur) er handhafi sannleikans. Enginn annar. Dæmigerð fyrirlitning á afstöðu annarra sem eru að langmestu leiti sammála henni, greinir bara örlítið á um áherslur.

  Lifið heil og gleðilega hátið.

  • Mér finndist ekkert að því Sigurjón að forræðislausir feður biðluðu til kvenna til að hjálpa til við að breyta þessu. Heldurðu að það sé hægt að breyta því ef konur taka ekki þátt í umræðunni og neita að kannast við vandamálið? Ef þær segja bara, nei, þetta er bara vandamál karla og ég sjálf er alveg frábær kona sem deili öllu jafnt með mínum fyrrverandi, ergo kemur mér það ekki við að fjöldi barna fá ekki notið eðlilegrar umgengni við föður sinn og að skráning sem forsjárlaust foreldri hjá hinu opinbera jafngildir því að vera skráður sem barnlaus einstaklingur? Ertu hissa á því að konur vilji ekki koma til móts við karla í málum þar sem hallar á þá þegar karlarnir hringja allir á vælubílinn af því að þeir eru persónulega móðgaðir yfir því að bent sé á vandamál í samfélaginu þar sem karlar eru að mestum hluta gerendur?

   • Sæl Sif og takk fyrir athugasemdina.
    Reyndar var ég að velta upp „hvað ef“ vinkli á orð Hrafnhildar og notaði sifjamál sem ílag í þann vinkil. Og ég er sammála þér um að að sjálfsögðu eru þessi málefni öll mál okkar allra. Þannig ætti það að vera. Reyndar fylgist ég þétt með þeim málum þar eð kornung bróðurdóttir mín hefur ekki hitt pabba sinn í þrjú ár, þökk sé tálmunarmóður hennar sem er flúin til Danmerkur í þessum tilgangi, fetar fótspor Hjördísar Svan. Femínistar hafa algerlega verið fjarverandi í þessari málefnabaráttu, barist á móti umbætum, ef eitthvað er.

    En þú nefndir þarna einn punkt: „Ef þær segja bara, nei, þetta er bara vandamál karla […]“ þá er það einmitt nálgun sem Hildur Lilliendahl velti upp fyrir um ári síðan. Hún sagði sem svo (ég man þetta nú ekki alveg orðrétt) að það karlmenn ættu sjálfir að berjast fyrir sínum málum, það væri ekki hennar að taka þátt í því. Þetta er einmitt nálgun sem ég hef heyrt fleiri róttæka femínsta koma með.
    So…. Við/Þið enn og aftur. Ekki góð þróun :(, nokkuð sem við verðum að hverfa frá. Og ég ítreka, þessar greinar, sú sem hér birtist frá Laurie Penny sem og sú sem Hrafnhildur skrifaði, gera ekkert annað en að grafa þessar skotgrafir enn dýpra. Og mig langar akkúrat ekkert að taka þátt í slíku.

    Lifið heil.

   • Ég hef margoft sagt að ég vilji ekki láta skipa mér, sem femínista, að berjast fyrir réttindum karla. Það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki gera það, ég vil bara ekki láta segja mér að gera það.

   • Er þér ekki í fullvald sett hvort þú ákveður að berjast fyrir jafnrétti kynjanna?

    Ef þú telur að tíma þínum sé betur varið t.d. í að byggja þak yfir heimilislausa eða rækta mat handa svöngum, þá efast ég um að margir reyni að telja þér hughvarf.

    En það breytir því ekki að einnig geti verið gagnlegt að finna leið til að miða forræði að hag barna. Að setja eiginhagsmunabaráttu foreldra mörk. Ef sýnt er að móðir sé líklegri til að bera hag afkvæmis síns fyrir brjósti heldur en faðir þess og dómstólar, þá á hún að ráða þeim mun meiru. Annars ekki.

   • Ég hef lengi haldið því fram að þú sért eitt best heppnaða nettröll íslandssögunar. Þetta komment styður það.

    Ég sem karlremba vill ekki láta segja mér að berjast fyrir kvenréttindum. Það þýðir ekki að ég vilji ekki jafnrétti ég vill bara ekki láta segja mér að berjast fyrir þvíþ

 11. Þeir sem geta lesið út úr þessari grein að hún sé persónuleg árás á þá eru að misskilja hana vísvitandi að ég held. Er einhver þjóðfélagshópur sem þarf að tipla jafn mikið á tánum í kring eins og óöryggir karlar sem halda að sér sé vegið?

  Ég er femínisti. Ég reyni að berjast gegn núverandi kynjakerfi af því mér finnst það ekki þjóna mínum hagsmunum. Það býr til ákveðna staðalímynd fyrir mig sem karlmann sem ég passa ekki inn í og finn mig ekki í.

  Það trend sem ég hef hins vegar áhyggjur af er ákveðið Catch-22 gagnvart þeim karlmönnum sem sjá sig sem femínista eða jafnréttissinna. Sú hugsun hefur orðið sterkari (og ég rek hana aðallega til ákeðinna afkima kynjafræðis innan hins akademíska samfélags) að karlmenn geti ekki og eigi ekki að hjálpa til eða skipta sér af jafnréttisbaráttunni. Þeir séu og verði alltaf óvinurinn og geti í besta falli farið frá, í versta falli verið umbylt.

  Þessu vil ég mótmæla þar sem það tekur jafnréttisbaráttuna frá því að vera sammannlegt vandamál og yfirfærir hana yfir í að vera einkamál ákveðinna hópa, líkara sértrúarsöfnuði.

  • Voðalegt misskilningstal er þetta. Það er enginn að misskilja neitt. Ef greinarhöfundurinn er að meina eitthvað annað en hún skrifar ætti hún að skrifa það. Hún segir beinlínis og nánast orðrétt:

   „Karlar – sem hópur og strúktúr – hata eða meiða konur“.

   en hér að ofan er sagt að það eigi alls ekki að skilja þessi orð sem það sem þau segja!

   Það að hundruð feminista virðast skilja þessa setningu sem eitthvað allt annað en hún segir, að þetta sé bara „ákall“ til karlmanna eða þar fram eftir götunum, segir mér bara að feministar skilja ekki íslensku, eða eru farnir að tala eitthvert nýtt tungumál.

   Þegar ég segi „feministar skilja ekki íslensku“ meina ég ekki að ALLIR feministar skilji ekki íslensku, en að feministar, sem „hópur eða strúktúr“, skilji ekki íslensku.

   Eða ýta feministar málskilningi og dómgreind til hliðar fyrir göfugan málstað?

 12. Við erum öll hluti af þessum samfélagsstrúktúr. Mér finnst það mikil einföldun að draga eingöngu karlmenn til ábyrgðar og firra þannig konur ábyrgð. Við konur erum ekki bara fórnarlömb. Við viðhöldum líka þessum staðalímyndum þegar við ölum upp syni okkar og dætur, þegar tjáum okkur um hvernig karlmenn „eiga að vera“, þegar okkur finnst við eiga meira tilkall til fæðingarorlofs og vera hæfari til að mæta þörfum barnanna okkar eða þvo fötin þeirra á réttu prógrammi. Þegar við segjum strákunum okkar að vera „harðir“ þegar þeir meiða sig en tökum stelpurnar í fangið og huggum þær. Þegar við hrósum stelpum fyrir það sem þær eru en strákum fyrir það sem þeir gera. Þegar við tölum illa um kvenkyns yfirmann eða karlkyns hjúkku í návist barnanna okkar o.s.frv. Það er alveg margt til í þessari grein en ég myndi vilja teygja ábyrgðina. Við erum öll hluti af vandamálinu og þurfum öll að vera meðvituð um það hvernig við erum virkir eða óvirkir þátttakendur í að viðhalda því.

  • Já, algerlega sammála því Sólveig að konur bera líka ábyrgð og taka þátt í að viðhalda „status quo“ en það þýðir ekki að mínu mati að ekki megi líka kalla karla til ábyrgðar. Mér finnst það ekki vera samasemmerki og að firra konur ábyrgð.

   • Auðvitað á að vera hægt að benda á að karlar komi illa fram við konur án þess að allir karlmenn fari að hrópa „það var ekki ég!“ í taugaveiklunarkastu. Ég er líka nokkuð viss um að það hafi ekki verið ætlunin hjá greinarhöfundi að láta greinina hljóma eins og karllægt samfélag sé eingöngu körlum að kenna en hún gerir það samt.

 13. konur hata karla

  sumar konur hata karla

  konur hata suma karla

  sumar konur hata suma karla

  Hvað finnst ykkur um þessar fullyrðingar?
  Skiptir engu máli hverja þeirra maður notar?

  Ef maður segir að karlar hati konur þegar maður meinar í raun að sumir karlar hati konur (og maður meinar ekkert illt með því gagnvart hinum), er maður þá ekki að hafa áhrif á hvernig samfélagið sér karla?

  Ef maður segir að stelpur elski bleikt, þegar maður meinar í raun að sumar stelpur elska bleikt í vissu samhengi, er maður þá ekki að hafa áhrif á hvernig samfélagið sér stelpur?

  Það skiptir máli hvernig maður segir og skrifar hluti.
  Alveg eins og það skiptir máli hvernig stelpur og strákar eru sýnd í auglýsingum, bíómyndum, tölvuleikjum o.s.fr.
  (þó að maður meini ekki neitt illa með því að hafa engar kvenpersónur í tölvuleiknum sínum)..

  • Tökum þetta aðeins lengra

   Karlar nauðga
   Stelpur elska bleikt

   Gott vel! Hálfalhæfingar, ef það má kalla það svo, þetta er vægara en „Allir karlar nauðga“ og allar stelpar elska bleikt.

   En ef við gefum okkur að 2% karla nauðgi einhvern tímann á æfinni og 60% stelpna á ákveðnu aldurskeiði en 40% allra kvenna elski bleikt, er þá a) Karlar nauðga og b)
   Stelpur elska bleikt, jafn óréttmætar fullyrðingar

   • Ég var ekki að segja að bæði séu jafn alvarlegir „glæpir“. (mér finnst það í raun ekki skipta miklu máli í þessu samhengi hvort sé skárra af tvennu illu)

    Ég var að segja að báðar fullyrðingarnar móta samfélagsleg viðhorf ef þær eru endurteknar oft.

    Þetta með að bleikt sé stelpulitur er einmitt gott dæmi, því að það er vel þekkt samfélagsviðhorf að bleikt sé stelpulitur en það er 100% samfélagslegt. Ástæðan fyrir því að bleikt sé álitið stelpulitur er bara útaf því að fólk er allstaðar og í sífellu að segja það (bæði með orðum og á annan hátt).
    Það myndi líka hafa áhrif á samfélagsleg viðhorf ef fólk væri alltaf að segja að karlmenn séu nauðgarar.

   • En ég var einmitt ekki að leggja út af alvarleikanum, heldur tíðninni. Ef 2% karla nauðga, er réttmætt að tala um að karla sem nauðgara.
    Ef að stór hluti kvenna elskar bleikt, má þá ekki segja að konur elska bleikt, svo lengi sem það er staðreynd, alveg óháð því að hvort að samfélagið þvingi konur til að elska bleikt eða karla til að nauðga.

    Sannleikurinn er sagna beztur og menn skyldu fara mjög varlega í því að ljúga til þess að ná fram einhverjum öðrum æskilegum áhrifum. (Svo sem að fá konur til að hætta að elska bleikt, sé slíkt æskilegt).

    Grunnspurningin er þessi, hver þarf að vera tíðni viðkomandi atburðar til þess að fara má í „hálffullyðringar?“

    Ef að annar hver karlmaður nauðgaði, þá myndi mér sárna minna tilkall til karla að hætta að nauðga en á meðan það er bara brotabrot.

   • Mér finnst mjög ósennilegt að talan sé svona lág. Það er erfitt að fá nákvæmar og áreiðanlegar tölur um nauðgunartíðni en ég man eftir að hafa lesið brot úr rannsókn í Kanada þar sem þriðjungur aðspurða kvenna hefði verið nauðgað. Ég vona innilega að rannsóknin hafi verið gölluð og að tíðnin sé ekki svo mikil. Þótt það væri „ekki nema“ ein af hverjum fimm, þá þyrfti hver nauðgari að nauðga 10 mismunandi konum til þess að „aðeins“ 2% karla væru nauðgarar.

   • Skv. „íslenzku“ rannsókninni telja 13% kvenna að þeim hafi verið nauðgað eða gerð tilraun til nauðgunar (hvort tveggja áhugaverðar (en sorglegar) tölur og furðulegt að gera ekki greinamun á milli, en látum það liggja á milli hluta. En alla vega þá hefur vel innan við 2% íslenkra karla verið dæmdir fyrir nauðgun, eins mikið og það segir okkur. Svo getum við velt fyrir okkur hvort að það sé líklegra að karl nauðgi (eða geri tilraun til) mörgum konum eða margir karlar nauðgi (eða geri tilraun) sömu konunni. En til einföldunar gefum okkur að bilið sé 2 til 10%, getur þú þá svarað spurningunni? Þ.e. hve há þarf þátttaka úr einhverju í þýði að vera til þess að við getum farið að beita „hálfalhæfingum“. Það má alveg ræða um hver margir karlar nauðga, en það er ekki spurningin. Vona að spurningin sé skýrari núna en síðast.

   • „Grunnspurningin er þessi, hver þarf að vera tíðni viðkomandi atburðar til þess að fara má í “hálffullyðringar?”“

    Kannski 99%?

    Dæmi um fullyrðingu sem mér finnst í lagi er t.d. „fólk hefur tvo fætur“. Það er alveg til fólk sem er með færri fætur en það er frekar óalgengt frávik.

    Fullyrðingar sem mér finnst ekki vera í lagi eru t.d. „karlar kunna ekki að prjóna“ og „konur hafa ekki áhuga á knattspyrnu“ Það er kannski rétt í 90% tilvika en fullyrðingarnar eru engu að síður rangar.

    Ég held að þú hafir ekki skilið hvað ég átti við með að fullyrðingar og annað hefur áhrif á skoðanir og viðhorf í samfélaginu.
    Þetta er ekki spurning um að „þvinga“ konur til að elska bleikt eða karla til að nauðga.
    Þetta er spurning um hvernig samfélagsleg viðhorf mótast, sem hefur síðan áhrif á sjálfsmynd einstaklinga.

    Maður þarf að gera sitt besta til að vera meðvitaður um hvaða skilaboð maður sendir út í samfélagið með því sem maður segir (og hvernig maður segir það) eða því sem maður gerir.

 14. > Þú vilt ekki búa í heimi þar sem vinna kvenna er illa greidd eða ógreidd;
  Ég skil greinina þannig að réttast sé þá að greiða konum fyrir vinnu sína. Þetta er merkilega byltingarkenndur hugsunarháttur, en vonandi merki um að okkur miði áfram.

  En mega konur ekki líka, rétt eins og aðrir, vinna við það sem þær vilja og krefjast þeirrar greiðslu sem þær vilja? Ég er sammála því að yfirmenn ættu ekki að greiða körlum hærra kaup en konum. En höfum við nokkurn rétt á því að banna konum að þiggja hærra kaup fyrir þá vinnu þar sem framlag þeirra er mikilvægara eða torsóttara heldur en gagnkynhneigðra karla, svo sem í klámi?

 15. Kaldhæðnislegt að öll gagnrýni á þessa grein virðist þögguð niður aðallega með því að gagnrýnin er sögð þöggunartilburðir.

 16. Í lýðræðissamfélagi geta konur ráðið öllu sem þær vilja , þær eru nefnilega fleiri en karlarnir (oftast um 51%). Þær vantar bara samstöðu.

  • Já en karlarnir geta barið kellingarmellurnar á flestum stöðum. Og svo eiga kellingar nátturulega ekki að gera neitt nema að elda og skúra. Það er það sem þær voru skapaðar fyrir. Eins og allir vita var Eva sköpuð til þess að þjóna Adam.

 17. langar að þakka þér hildur fyrir að vera svona framtaksöm gegn kynbundnu misrétti, greinilega mikið mótlæti sem þú lendir í.

  hvaða álit hefur þú við nálgun í auknu jafnrétti

  þjóðarátak gegn kynbundnumisrétti

  samstöðu í stað baráttu

  ,,Við þurfum þjóðarátak gegn kynbundumisrétti gagnvart konum. með samstöðu náum við árangri. Það er staðreynd að dóttir, eiginkona, móðir eru í allt og mikilli hættu og mun líklegri en karlar til að vera, nauðgaðar, undirlaunaðar, áreittar, þunglyndar, kvíðnar og með litla sjálfsvirðingu sem stafar af öflum innan samfélagsins sem ýtir undir óraunhæfa hugmynd um útlit. Flestir karlmenn vilja að dætur, eiginkonur og mæður hafi tækifæri og réttindi til á að lifa, starfa og njóta sín eftir eigin geðþótta og lífsýn. Sýnum það í verki með því að huga að þessu næst þegar við (karlar/konur) tjáum okkur um náungan eða setjum hvort annað staðalímyndað hlutverk. Því það er staðreynd að ef við höldum ekki áfram að vinna öttulega að áframhaldandi jafnrétti þá breytist þetta ekki. Vert þú breytingin sem þú vilt sjá í heimum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.