Útgeislun yfir viðmiðunarmörkum

Frá Ritstjórn

 

Hér blæs Fegrunarfélag Reykjavíkur til skemmtunar árið 1950. Búktal, töfrabrögð, flugeldar og fegurð (sjá hér).

Hér blæs Fegrunarfélag Reykjavíkur til skemmtunar árið 1950. Búktal, töfrabrögð, flugeldar og fegurð (sjá hér).

Forðum daga var keppt í fegurð í Tívolí, og stúlkurnar skulfu af kulda á sviðinu í Vatnsmýrinni. Þá var brúnkuspreyið enn óuppfundið og stúlkurnar allar bláhvítar nema sú sem hafði verið í útlöndum, enda var keppninni frestað svo hún gæti verið með og sigrað.

Þá var þetta grímulaus keppni í staðlaðri útlitsfegurð, sem þróaðist síðar í eins konar fjölþraut þar sem einstakar greinar voru gangur á háum hælum með tilheyrandi mjaðmahnykkjum, spígsporað í sundbol með teppalímbandið á sínum stað og svifið um sviðið í samkvæmiskjól sem mamma eða amma saumaði eða var keyptur í útlöndum fyrir nokkur kýrverð. Síðar bættist líkamsrækt við, matarkúr og megrun, nema grönnu stelpunum var gefinn rjómi til að koma þeim í rétta þyngd.  Þá voru staðalímyndirnar á hreinu, málin voru tilskilin 90-60-90 og læknir (ekki dýralæknir) skoðaði keppendur, mældi og vigtaði í bak og fyrir. Frá mörgu þessa er sagt í Brosað gegnum tárin, sem er saga fegurðarsamkeppna á Íslandi og um margt merkisbók. Hér má lesa nokkra góða mola.

Vatnsmýrin tilheyrir fortíðinni. Nú er keppnin í eigu World Class-samsteypunnar og verður haldin í Hörpu. Ekkert verður til sparað svo umgjörðin verði sem glæsilegust.

Fegurðin kemur innan frá. Þetta fullyrða fyrirtækin sem selja okkur bílfarma krema og olía. Stundum spyr kona sig hvort það væri þá ekki nær að éta kremin og drekka olíurnar, en sennilega er átt við að útgeislunin sé birtingarform fegurðarinnar og hún verður sko ekki mæld með slembiaðferðum, heldur kvörðuðum útgeislunarmæli sem Staðlaráð hefur vottað (ÍST-FE100). Af einskærri tilviljun hefur nýstofnað fyrirtæki hafið innflutning á þessu þarfaþingi sem allar konur þurfa að eignast. Mælirinn sýnir langtímaútgeislun á ákveðnu tímabili og einnig skammtímaútgeislun, t.d. þegar kona er með ljótuna, en það upplifa allar konur reglulega, líka þær sem eru á aldrinum 18-24 ára, en það eru aldursmörkin í ár.  Þetta aldursbil er til að koma í veg fyrir þátttöku fullorðinna kvenna þar sem útlitslega er farið að halla undan fæti og langtímaútgeislun yfirleitt talsvert undir viðmiðunarmörkum um æskileg váhrif í starfi, hugsanlega vegna ónógrar krem- og olíuneyslu, en líka bara vegna almennrar hrörnunar. Ekkert teppalímband heldur slíkri hnignun í skefjum.

mælirútgeislun

Útgeislunarmælir vottaður af Staðlaráði. IST-FE 100

Keppni í fegurð er og verður keppni í fegurð, þótt nú sé fullyrt að aðrir eiginleikar verði metnir að sögn umsjónarkonu keppninnar, sem er sjálf í FFF, eða Félagi Fyrrverandi Fegurðardrottninga.. „Persónuleiki, útgeislun og hvort viðkomandi er fær um að höndla verkefnin sem koma til með að taka við. Að svo stöddu höfum við ekki sett niður neinar reglur um útlit.“ Þetta lásu margir á fréttaveitum netsins og ýmist hlógu eða hristu höfuðið.

Þetta er svo sem ekki í alfyrsta sinn sem fegurðarsamkeppni reynir að láta eins og hún sé eitthvað … ja, eitthvað allt annað en keppni í stöðluðum útlitseinkennum sem hafa verið úrskurðaðir æskilegri en aðrir. Allt frá því að Fegrunarfélag Reykjavíkur hætti að halda „fegurðarsamkeppni milli reykvískra kvenna“ hafa rekstrarstjórar slíkra fyrirtækja rembst við að breiða yfir hinn eiginlega tilgang samkundunnar með því að þræta fyrir að það væri neitt beinlínis verið að keppa í fegurð. Margir muna tilraunina Ungfrú Ísland.is, sem fór nokkrum sinnum fram og var svo umhugað um að vera ekki fegurðarsamkeppni að það var sóttur sérfræðingur að utan til að lýsa því yfir að keppnin væri „allt öðruvísi“. Og þegar einn keppenda reyndist ekki vera „alvöru“ keppandi heldur kvikmyndagerðarkona (sem var óvart líka bara mjög sæt og komst meira að segja í annað eða þriðja sætið) varð aðstandendum ekki um sel og sóttu fast að fá lögbann sett á myndina sem kvikmyndagerðarkonan gerði og sýndi alveg ágætlega að í raun var bara verið að keppa í því að vera sæt. Sæt og góð.

En ekki í þetta skipti, segir umsjónarmaðurinn. Nú er það útgeislunin sem blívur.

Ungfrú Ástralía árið 2014. Áhugafólki um keppnina Miss Universe þykir hún fullhraustlega tennt, sjá hér.

Ungfrú Ástralía árið 2014. Áhugafólki um keppnina Miss Universe þykir hún fullhraustlega tennt, sjá hér. Því verður þó seint neitað að hún er há til hnésins.

„Afsakið meðan ég æli,“ fnæsti ein kunningjakona Knúzzins, en fékk um hæl áminningu um að vera nú ekki að því, það hefði svo neikvæð áhrif á útgeislunina. Uppköst rýra líka persónuleikann og skerða færni kvenna til að höndla verkefni (sjá lýsingu á hæfniskröfum hér að ofan). „En ég mjókka af því,“ benti hún á. Sem er vissulega rétt, en … þetta snýst nú ekki um útlitið. Ekki að sögn umsjónarkonu keppninnar.

Heldur útgeislunina.

Enn hnussaði kunningjakonan. „Þetta snýst um að vera há til hnésins, falleg, mjó, sæt, barngóð, með mikla útgeislun, myndast vel, hafa svakalega hvítar og hæfilega stórar tennur, vera brúnkuspreyjaður frá hvirfli til ilja, með sítt hár, glæsilegt göngulag og ónotað leg – ekki verra ef meyjarhaftið er heilt líka en það er ekki frágangssök – já og að lúkka vel í bíkíníbrók á hælum.“

Með það slitum við talinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.