Kyn, starfsframi, laun – og jafnlaunastaðall

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

 

Hinn 20. maí síðastliðinn var haldinn fundur á vegum tveggja ráðuneyta undir heitinu Kyn, starfsframi og laun. Þar voru kynntar niðurstöður rannsóknarverkefna aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.

Um var að ræða tvær rannsóknir, annars vegar fyrstu íslensku rannsóknina á kynbundnum launamun sem nær yfir vinnumarkaðinn í heild og aðra sem gerði úttekt á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Fjórir fyrirlestrar voru haldnir á fundinum, auk ávarps Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Fyrst kynntu skýrsluhöfundar hvora ofangreindra rannsóknina fyrir sig, svo steig dr. Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur í pontu og fór yfir niðurstöður rannsóknar á skiptingu heimilisstarfa á Íslandi  og að lokum greindi Guðný Einarsdóttir sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá ferli og vinnu aðgerðahópsins sem miðar að því að fyrir árslok 2015 verði hægt að fá faggilta vottun samkvæmt  jafnlaunastaðlinum, ÍST 85 Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar, sem gefinn var út af Staðlaráði Íslands í desember 2012.

Rannsókn á kynbundnum launamun á Íslandi

Hér er hægt að skoða glærur fyrirlestrar Sigurðar Snævarr, hagfræðings,

Hagstofa Íslands vann þessa rannsókn í samvinnu við fyrrnefndan aðgerðahóp, sem byggist á viðamiklum gagnagrunni um laun og margvíslega þætti sem varða stöðu launamanna, s.s. kyn, menntun, aldur, starfsaldur og starfsgrein. Tímabilið sem unnið var með eru fimm ár: 2008­-2013.

Hagfræðingurinn Sigurður Snævarr er höfundur skýrslu sem unnin var upp úr niðurstöðunum, en lokatölur eru þær að á þessu tímabili var kynbundinn launamunur 7,6%. Á almennum vinnumarkaði reyndist hann vera hærri, eða 7,8%, en um 7% hjá hinu opinbera.

Skjáskot úr glærum með fyrirlestri Sigurðar Snævarr, en efnið má finna hér.

Skjáskot úr glærum með fyrirlestri Sigurðar Snævarr, en efnið má finna hér.

Það hljóta þó að teljast afar góðar fréttir að launamunur minnkaði jafnt og þétt á meðan á rannsókninni stóð, eða um 2,1 prósentustig. Árið 2013 var kynbundinn launamunur 5,7%. Þessi þróun er studd af niðurstöðu rannsókninnar um að kynbundinn launamunur fer hækkandi með hækkandi aldri.

Í rannsóknarniðurstöðum er gerður góður greinarmunur á óskýrðum og skýrðum launamun kynjanna. Þegar þær tölur eru skoðaðar, má sjá að óskýrði munurinn er svipaður á öllum vinnumarkaðnum, bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Helsta skýring launamunar á Íslandi reynist vera það sem kallast „kynbundinn vinnumarkaður“. Hin rannsóknin kafar ofan í það fyrirbæri sem við skulum nú skoða nánar.

Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði – staðreyndir og staða þekkingar 

Hér er hægt að skoða glærur fyrirlestrar dr. Katrínar Ólafsdóttur lektors í hagfræði við HR

Þetta síðara rannsóknarverkefni er í raun samantekt á ýmsum rannsóknum sem unnar hafa verið í gegnum árin, með þeim fyrirvara að sumar þeirra séu of litlar til að gera annað en að gefa vísbendingar um ástandið. Í skýrslunni, sem unnin var af dr. Katrínu Ólafsdóttur, er sérstaklega tekið fram að þörf sé á frekari rannsóknum og bent á hvar þeirra væri helst þörf.

Í máli Katrínar kom fram að þrátt fyrir að lagalegt jafnrétti sé mikið hér á landi sýni kannanir og rannsóknir fram á viðvarandi kynbundinn launamun sem sé ótvírætt brot á jafnréttislögum. Launamunur sé undantekningarlaust konum í óhag og hann skili sér meðal annars í lægri lífeyrisgreiðslum til kvenna. Þrátt fyrir lagaskyldu séu enn stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki sem skila ekki jafnréttisáætlunum til Jafnréttisstofu. Engin viðurlög eru við brotum á lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og kærunefnd jafnréttismála hefur eingöngu úrskurðað í 15 málum á 11 árum. Það má því draga þær ályktanir að eftirliti með jafnréttislagabrotum sé ábótavant.

Óskýrði munurinn loksins viðurkenndur

Undirrituð játar að vissu leyti að langa meira til að geispa en að fara ítarlega yfir þessar niðurstöður, svo innilega koma þær henni lítið á óvart. Það er þó vissulega ákveðinn léttir að sjá yfirvöld, og þar að auki í samvinnu við Samtök aðila vinnumarkaðarins, viðurkenna að þegar rætt er um kynbundinn launamun, hefur það ekki verið þvaður byggt á lygum, eins og svo oft heyrist og sést skrifað. Maldað hefur verið í móinn með ákveðnum skýringum, sem vissulega eru fyrir hendi: konur taki til dæmis frekar að sér umönnun barna og gamalmenna í fjölskyldunni og hafi því tilhneigingu til að samþykkja að vera í hlutastarfi og jafnvel tregðast við að taka að sér ábyrgðarstöður. En þegar búið er að hreinsa þær breytur burt með skýrum skilgreiningum, stendur eftir sú staðreynd að óskýrði munurinn er fyrir hendi og raunverulegur. Það var löngu kominn tími á að sýna það svart og hvítu. Og best er að hin rannsóknin skuli svo grafast fyrir um það hvað veldur þessum óútskýrða launamun. Í frétt á vef velferðarráðuneytisins kemur fram að sú rannsókn verði birt fljótlega í heild.

Þá er og léttir að heyra úr munni ráðherra að hér sé um að ræða samverkandi þætti hefða og félagsmótunar, í staðinn fyrir að falla í pyttinn gamla um eðli kvenna eða karla. Eftir að hafa lesið glærurnar og umfjallanir um ráðstefnuna er ekki laust við að í mér hafi kviknað von.

Merki Jafnlaunastaðalsins er eftir Sæþór Örn Ásmundsson, sem sigraði keppni á vegum ráðuneytisins árið 2014.

Jafnlaunamerkið er eftir Sæþór Örn Ásmundsson, sem sigraði samkeppni á vegum ráðuneytisins árið 2014.

Jafnlaunastaðallinn er góð byrjun, en það var í ráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur sem hann var gefinn út.
Knúz fjallaði um þennan staðal í góðum pistli Guðrúnar C. Emilsdóttur. Næsta rökrétta skrefið er að sjálfsögðu að veita fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til að skreyta sig með vottunarmerkinu sem er hér meðfylgjandi á mynd.

Mikilvægt skref væri einnig að farið væri að taka á því vandamáli að fyrirtæki komist upp með að brjóta jafnréttislög. Ég kalla því eftir einhvers konar refsiákvæðum gagnvart þeim fyrirtækjum og stofnunum sem gerast sek um slík brot.

Ítarlefni:

Fyrri frétt ráðuneytis eftir fundinn.

Seinni frétt ráðuneytis eftir fundinn.

Launamunur karla og kvenna – skýrsla.

3 athugasemdir við “Kyn, starfsframi, laun – og jafnlaunastaðall

 1. Sæl Kristín.
  Staðlaráð Íslands gaf reyndar út jafnlaunastaðalinn svokallaða, ÍST 85 Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar, í desember árið 2012, fyrir nærri tveim og hálfu ári. Á þessum tíma hafa mörg fyrirtæki og stofnanir keypt staðalinn og eru farin að vinna eftir honum. Ekkert fyrirtæki eða stofnun hefur þó enn fengið faggilta vottun á jafnlaunakerfi samkvæmt staðlinum. Merkið hér að ofan sem er kallað „Merki Jafnlaunastaðalsins“ er það strangt til tekið ekki, þar sem það er ekki á vegum Staðlaráðs. Þetta merki er á vegum velferðarráðuneytisins og „verður veitt fyrirtækjum og stofnunum sem hljóta vottun um launajafnrétti kynja samkvæmt nýjum jafnlaunastaðli.“
  Afsakaðu smámunasemina.
  Bestu kveðjur
  Guðrún Rögnvaldardóttir
  framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands.

  • Ekkert að afsaka, kærar þakkir fyrir þessa leiðréttingu sem ég mun færa inn í pistilinn. Ég ruglaði algerlega saman staðlinum og vottuninni.

   Með kærri kveðju,
   Kristín Jónsdóttir
   Þýðandi, Knúzari og Parísardama.

 2. Það er vert að hafa í huga, að „óútskýrður“ launamunur verður ekki skýrður með öðrum breytum sem reiknilíkanið nær yfir en kyni. Það þýðir hins vegar ekki að kyn sé valdurinn, heldur aðrir þættir sem líkanið mælir ekki, t.d. dugnað við að fara í launaviðtöl, nákvæmlega sambærileg störf í stað starfahópa, t.d. var rannsókn í Bandaríkjunum sem sýndi kynbundin mun hjá læknum, en hann hvarf þegar gerður var greinamunur á skurðlæknum og lyflæknum, en karlar voru hlutfallslega fjölmennari í fyrri stéttinni eða konur í þeirri síðarnefndu, jafnframt eru skurðlæknar með hærri laun. Með öðrum orðum, óútskýrður launamunur þýðir ekki að hann sé ekki útskýranlegur með öðru en kyni, líkanið er bara ekki betra en raun ber vitni. Sem þýðir auðvitað ekki að laun séu ekki kynbundin.

  Að lokum má færa rök fyrir því að lífeyrisréttindi kvenna líklega betri en karla, a.m.k. útfrá samtryggingadeildum, enda eiga þær von á að lifa meira en 5,8% lengur á lífeyrisaldri en karlar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.