Fjárhús orðanna

Höfundur:  Erna Magnúsdóttir
Mynd af: http://www.creativecommunities.is

Ég sit hér og hlusta á Question Time á BBC.  Þar er verið að tala um kynþáttahatur í fótboltaheiminum.  Það er mjög athyglisvert að heyra hvernig rætt er um það mál.  Sérstaklega hjó ég eftir því hvað fólki þykir mikilvægt að breyta viðhorfum í samfélaginu með því að byrja strax á leikskólunum að kenna börnum kurteisi og virðingu í talsmáta.  Við Íslendingar hristum oft hausinn yfir orðaforða í öðrum löndum sem einkennist af “pólitískri rétthugsun” (e. political correctness).  Ísland er lítið samfélag og flest erum við af sama eða svipuðu sauðahúsi og eigum kannski erfitt með að sjá fyrir okkur baráttu minnihlutahópa eins og fólks af öðrum kynþætti en okkar.  Við áttum okkur oft ekki á því að þessi rétthugsunarorðræða er ekki sprottin af engu, hún er bein afleiðing margra ára baráttu fólks fyrir réttindum og kröfu um að rætt sé um það af virðingu.

Að sama skapi hryllir mig stundum við samræðum sem ég verð vitni að á Íslandi, því að það virðist enn vera í lagi að segja brandara hér þar sem samkynhneigðir, fólk af öðrum kynþáttum en hvítir og konur eru gerð að aðhlátursefni.
Þegar Hildur Lilliendahl safnaði saman ummælum sem lýsa kvenhatri af netinu var áhugavert að fylgjast með viðbrögðum samfélagsins.  Fólk vaknaði upp af svefninum og margir gerðu sér grein fyrir því að það væri vandamál á ferðum. En í stað þess að það myndaðist umræða um kvenfyrirlitninguna sem ummælin lýsa, endaði umræðan í sparðatínslu um framsetninguna á myndaalbúmi Hildar, val hennar á titli þess, hvort að öll ummælin ættu nú heima þar, hvort að hún hafi tekið einstaka ummæli úr samhengi og jafnvel hvort að hún sjálf hafi nokkurn tíman gerst sek um vafasamt orðalag á netinu.  Ef mæla ætti sparðatínsluna í taðjafngildum mætti halda því fram að ekki þyrfti að moka út úr nokkru fjárhúsi á Íslandi í vor.
Ég er slegin af þessari ótrúlegu afvegaleiðslu umræðunnar.  Ekki það að ég sé hissa á því að margir hafi ákveðið að ráða sendiboðann af dögum frekar en að lesa skilaboðin og hugsa út í þau. Nei, en ég varð samt hissa á því að það varð nánast engin umræða í netheimum um vandamálið sem Hildur var að vekja athygli á.  Nú er ég ekki að segja að hún hafi ekki vakið fólk til vitundar, ég hef fulla trú á því að hún hafi gert það, en ég er ekki sátt við þennan skort á almennri umræðu um kvenhatursorðræðu og afleiðingar hennar.
Það virðist vera ótrúleg afneitun í gangi í íslensku samfélagi. 
Hvers vegna er fólk ekki til í að ræða það kvenhatur sem birtist í myndamöppu Hildar?  Er það vegna þess að íslenskt samfélag er svo gegnsýrt af þessum viðhorfum gagnvart konum að fólk sér ekki að keisarinn sé nakinn sama hversu hátt drengurinn hrópar?  Þykir þetta svo eðlilegur hluti af samfélaginu að fólki þyki þetta ekki tiltökumál?  Er sá háværi hópur sem tók að sér sendiboðaaftökur í byrjun vikunnar bara hræddur og passar upp á að viðhalda afvegaleiðslu umræðunnar?  Eða er þetta svo erfitt og viðkvæmt mál að fólk treystir sér ekki til að ræða það og ræðst bara á garðinn þar sem hann er lægstur og gerir mótárás? Það er auðvitað miklu auðveldara að gagnrýna Hildi fyrir það að hafa einu sinni kallað konu truntu og segja henni að fá sér stílista, en að ræða hverjar ástæðurnar séu fyrir því að við leyfum hatursorðræðu að grassera,  hverjar afleiðingar hennar séu og hvað við gætum mögulega gert til að stemma stigu við henni.  
Ísland stendur kannski framarlega á heimsmælikvarða í jafnréttisbaráttunni, en viðbrögð samfélagsins við myndaalbúmi Hildar segja okkur að við eigum enn nokkuð langt í land. Ég er samt ekki frá því að maðurinn sem kvaddi sér hljóðs á BBC áðan hafi haft rétt fyrir sér þegar hann benti á að byltingin byrji í leikskólum landsins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.