… og þess vegna eru karlar ekki á pillunni!

Karlapillan er til. Og hún virkar. En kröfurnar sem framleiðendur gera til hennar fyrir hönd væntanlegra neytenda eru yfirgengilega strangar, að mati prófessors við Karolinska Institutet í Stokkhólmi.

Minnkandi kynlöngun, ógleði og þunglyndi eru aukaverkanir sem velflestar konur sem hafa notað getnaðarvarnarpillur kannast ágætlega við.

Og það eru einmitt þessar sömu aukaverkanir sem þeir karlar sem hafa gerst tilraunadýr fyrir getnaðarvarnapillur ætlaðar karlkyninu barma sér hvað sárast yfir. Munurinn er hins vegar sá að þegar karlarnir eru annars vegar teljast þessar aukaverkanir svo alvarlegar og íþyngjandi að enginn framleiðandi fæst til að fjárfesta í ævintýrinu, eins og fjallað er um í nýlegri frétt á heimasíðu norska ríkissjónvarpsins, NRK.

„Ef lyfjafyrirtækin sýndu minnsta áhuga væri varan svo gott sem tilbúin til afgreiðslu,“ segir Kristina Gemzell-Danielsson, prófessor á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Hún hefur sjálf rannsakað hugsanlegar getnaðarvarnir fyrir karlmenn. „Karlar eru klárlega hvekktari yfir hugsanlegum aukaverkunum en konurnar,“ segir Gemzell-Danielsson. „Konur hafa beinna og augljósra hagsmuna að gæta þegar kemur að því að forðast þungun. Fyrir körlum eru afleiðingar þungunar ekki jafn beinar og óumflýjanlegar og þegar málum er þannig háttað verður lyfið að vera algjörlega laust við óþægilegar hliðarverkanir til að þeim þyki koma til mála að nota það.“

Hún segir ýmsar hugmyndir hafa verið á kreiki um hvernig væri hægt að gera getnaðarvarnarpillur meira aðlaðandi fyrir karla, til dæmis með því að bæta meðölum gegn hárlosi út í blönduna í töflunum. Eins og sakir standa efast hún þó um að getnaðarvarnarpillur fyrir karla verði nokkurn tíma að veruleika á almennum markaði.

Innan íslenska heilbrigðissviðsins virðist afskaplega lítið hafa verið fjallað, ritað eða rætt, um karlapilluna, en í hressilegum texta á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga reifar Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur skoðun sem kallast á við orð Gemzell-Danielsson um að áhugi karla á pillunni kunni að reynast minni en kvenna af þeirri ástæðu að afleiðingar þungunar komi aldrei til með að bitna fyrst og fremst á þeim:

Alls konar efni hafa verið prófuð á mönnum og músum meðal annars efni sem hemja virkni testósteróns og þar með sæðisframleiðsluna. Þetta hafði hins vegar í för með sér skapsveiflur, þyngdaraukningu, bólótta húð… hmm bíddu nú við, hljómar þetta ekki eitthvað líkt upptalningunni hér að ofan [á þekktum aukaverkunum kvennapillunnar, innsk. greinarhöf.]?

Kannski að karlar séu eitthvað viðkvæmari fyrir aukaverkununum en konur eða sætti sig síður við þær. Þeir þurfa jú heldur ekki að velja milli þess að vera á slíkum lyfjum ellegar ganga með barn í níu mánuði. Ekki svo að skilja að það sé skelfileg eða alslæm reynsla heldur hentar það ekki alltaf.

Ragnheiður fer hins vegar skrefi lengra með þessa röksemdafærslu og telur ólíklegt að karlapillan, verði hún að veruleika, muni stuðla að minni neyslu kvennapillunnar –  því konur vilji ekki hafa karla á pillunni:

Samkvæmt könnunum má þó búast við því að konur verði helsta hindrunin þegar kemur að notkun karlapillu þó að þeir séu boðnir og búnir að taka á sig ábyrgðina. Það kemur nefnilega í ljós þegar að er gáð að þessa ábyrgð vilja konur síður láta frá sér fara. Við treystum ykkur ekki strákar!

Það væri nefnilega frekar glatað að fá barn í magann vegna þess að einhver ANNAR en maður sjálfur gleymdi að taka pilluna.

Afleiðingunum er auðveldara að taka ef það er aðeins við sjálfan mann að sakast. Mjög mannlegt (les. kvenlegt) og í hæsta máta eðlilegt.

(Birt á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga 24. júlí 2003, sótt þangað af vefsíðunni http://www.kyn.is, sem nú er ekki lengur virk)

Frá þessum bæjardyrum séð er staðan þessi: á meðan konur einar eiga á hættu að verða þungaðar munu þær hvort eð er ekki treysta körlunum. Hvort sú kenning er rétt eða ekki eða hvaða kannanir það eru sem Ragnheiður nefnir (en tilgreinir ekki í textanum sem vitnað er til hér) er efni í heila grein út af fyrir sig.

Samkvæmt Gemzell-Danielsson hafa rannsóknir einnig staðið yfir á öðrum tegundum getnaðarvarna fyrir karla, sem þá væntanlega hefðu ekki jafn hrikalegar aukaverkanir og þær sem konur sem nota pilluna hafa mátt láta yfir sig ganga áratugum saman.

Í klínískum tilraunum er verið að þreifa sig áfram með bæði hormónastafi og -hlaup. Niðurstöður þeirra tilrauna virðast jákvæðar, en rannsóknum er hvergi nærri lokið.

Og norska fyrirtækið Spermatech er sem stendur að gera tilraunir með nýja tækni sem gæti gert hormónalausa getnaðarvarnapillu fyrir karla að veruleika. Samkvæmt vísindamönnum Spermatech yrði slík pilla án aukaverkana, en henni er ætlað að hafa hamlandi verkan á tiltekin prótín sem stjórna sundfærni sáðfrumanna.

Þetta hljómar eins og draumur í pilludós, en í grein í norska dagblaðinu Aftenposten í sumar fullyrti Eirik Næss-Ulsetn, stjórnarformaður Spermatech, að þrátt fyrir að allt útlit væri fyrir að lyfið virkaði, strandaði verkefnið á fjármögnun.. „Tilraunir hafa sýnt fram á að lyfið virkar eins og til er ætlast; hali sáðfrumanna slappast og þá geta þær ekki synt, hvað þá troðið sér inn í egg og frjóvgað það,“ segir hann. „Og pilla fyrir karlmenn verður að hafa einmitt þannig áhrif, aukaverkanirnar verða að vera eins litlar og hugsast getur. Efnið sem við notum til að lama sáðfrumurnar er ekki hormón og á ekki að hafa nein önnur áhrif á líkamsstarfsemina,“ segir Næss-Ulseth.

Enn sem komið er vita þeir hjá Spermatech ekki hvort lyfið virkar utan tilraunastofunnar, því þeim hefur ekki tekist að fá lyfjaframleiðendur til að fjármagna tilraunir á mönnum.

„Næsta skref væri að fínpússa lyfið og fá staðfestingu á því að það hafi raunverulega þau áhrif á líkamsstarfsemi karlmanna sem tilraunir okkar hafa bent til að það geri,“ segir Næss-Ulseth. „Eftir fyrstu tilraunir á körlunum þarf að halda áfram með klínískar tilraunir á stærri hópum í allt að þrjú ár. Þessu fylgir gríðarlegur kostnaður og til að komast á það stig þurfum við að fá stóru lyfjafyrirtækin í lið með okkur. Í það heila tekið er afskaplega erfitt að fá slík fyrirtæki til að fjármagna lyf sem eru ætluð til notkunar af hraustum einstaklingum, jafnvel um margra ára skeið. Fyrirtækin óttast að til lengri tíma komi fram aukaverkanir sem ekki er hægt að sjá fyrir á tiltölulega stuttu tilraunatímabili, en sem gætu haft í för með sér háar skaðabótakröfur.“

Það er þó til mikils að vinna fyrir lyfjafyrirtækin, að mati Næss-Ulseth. „Getnaðarvarnapilla án aukaverkana hljómar eins og draumur hvers framleiðanda – ef væntanlegir neytendur fást til að nota hana. Það er að segja karlmennirnir. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lét gera skoðanakönnun þar sem karlar í öllum heimshornum voru spurðir að því hvort þeir myndu nota slíka pillu og 60% þeirra svöruðu játandi. Það bendir því allt til þess að það sé mikil eftirspurn eftir vörunni, ef okkur tækist að fullþróa hana.“

Draumurinn um karlapilluna er auðvitað ekki nýr af nálinni. „Hvenær kemur karlapillan?“ var spurt í róttæka kvennatímaritinu Forvitin rauð árið 1973, sex árum eftir að getnaðarvarnapillan var tekin á lyfjaskrá og 22 árum eftir að fyrsta getnaðarvarnapillan var sett á markað í Bandaríkjunum (eftir nokkurra ára tilraunir á konum í fátækrahverfi í Púertó Ríkó – konum sem höfðu raunar ekki hugmynd um að það væri verið að nota þær sem tilraunadýr):

Körlum líkar ekki að hróflað sé við eðlilegu líkamsástandi þeirra og halda að þá sé vegið að karlmennsku þeirra. Þessir hleypidómar karlmanna hafa komið í veg fyrir framleiðslu hentugra getnaðarvarna fyrir karla. Sú áhætta, sem talin er sjálfsögð fyrir þær konur sem notaðar eru eins og tilraunadýr við gerð getnaðarvarna, og þær sem síðan nota þessar varnir eftir að þær eru komnar á markaðinn, eru í engu samræmi við þá áhættu sem karlkyns vísindamaður telur hæfilega fyrir sig og kynbræður sína […] Tiltölulega litlu fjármagni og fyrirhöfn er varið til rannsókna á getnaðarvörnum karla, og vísindamenn gæta þar meiri varúðar en í tilraunum sínum á konum.

(Forvitin rauð, 2. tbl., 2. árg., bls. 8-9, höf.  Dagbjört og Elísabet Gunnarsdætur)

Og er það ekki makalaust hvað þessi orð eru grátbroslega sönn enn í dag, næstum 40 árum eftir að þau voru sett á blað?

10 athugasemdir við “… og þess vegna eru karlar ekki á pillunni!

  1. Karlar eru ekki á pillunni af því að þeir vilja ekki búa við höfuðverk og ógleði. Ekki ég heldur, þessvegna henti ég pillunni 16 ára að aldri og hef ekki látið þann viðbjóð ofan í mig síðan. Ég hef heldur ekki orðið mér úti um sambýlismann eða bólfélaga sem finnst líðan mín skipta svo litlu máli að það sé eitthvað annað en sjálfsagt að nota smokk.

    Er það virkilega „grátbroslegt“ ef karlmaður vill ekki misbjóða sjálfum sér með lyfjaáti? Er það ekki öllu heldur grátbroslegt af konu að vilja frekar sitja uppi með aukaverkanir af lyfjum en að nota smokk?

  2. Jú, það má alveg nálgast það frá þeirri hliðinni. Það er margt grát- og broslegt í þessari umræðu, ekki hvað síst að jafnvel hinn sígráðugi lyfjaiðnaður skuli heykjast á að fjárfesta í vöru sem allt bendir til að sé talsverður markaður fyrir. Svo má lengi velta vöngum yfir ástæðum þess, þessi pistill er opinn til allra átta. Eftir stendur að spurningin um það hvernig við förum að því að stjórna barneignum er miðlæg í allri umræðu um jafnréttismál.

  3. Pillan er vinsæl getnaðarvörn og gegnir veigamiklu hlutverki í því að stýra barneignum í nútímasamfélagi. Það gera líka lykkjan, smokkurinn og hettan, sæðisdrepandi froðurnar, sprauturnar ofl. ofl. Karlapillan er liður í því að auka fjölbreytni í þeim úrræðum sem fólk hefur aðgang að og slík fjölbreytni hlýtur að vera af hinu góða. Það má einnig líta á hana sem lið í því að bæði kyn axli sameiginlega ábyrgð á barneignum, t.d. með hormónainngripi í líkamann. Það finnst mér líka hið besta mál.

  4. Ég hreifst strax af karlapillumöguleikanum þegar ég las þetta því ég þekki bara alveg fullt af karlmönnum sem tækju því áreiðanlega fagnandi að hafa betri stjórn á getnaðarvörn sinni en smokkur og sæðisdrepandi froðu bjóða upp á. Ég er svo illa innrætt að mér datt jafnvel í hug að einhverjir þeirra gætu fagnað möguleikanum á að nota getnaðarvörn í laumi, eins og konur geta í dag.
    Ég þekki ótal margar konur sem nota pilluna með góðum árangri og í fullkominni sátt, jafnvel þó það séu einhverjar aukaverkanir. Ég þekki líka aðrar sem hafa ekki getað verið á pillunni, það væri nú sérdeilis fínt fyrir þær að geta alla vega látið elskhugann prófa.

  5. Ég hef hrifist af karlapillumöguleikanum sona minna vegna. Ég ól þá upp við þá skoðun að eina örugga leiðin til að koma í veg fyrir ótímabæran getnað væri að treysta ekki alfarið á hinn aðilann til að sjá um getnaðarvarnir, ekki frekar en maður afsalar sér aðgangi að bankareikningnum sínum eða leyfir makanum að svara tölvupósti í manns eigin nafni án samráðs.

    Ég efast þó um að þeir hlýði þessu enn í dag og á allt eins von á að að því geti komið að annar þeirra eða báðir verði feður gegn vilja sínum og þurfi svo jafnvel að standa í baráttu fyrir að fá að umgangast börnin. Mér finnst líklegra að kærusturnar þeirra virði þá reglu að treysta engum nema sjálfri sér fyrir getnaðarvörnum. Ég myndi ekki ráðleggja nokkurri konu að treysta karli fyrir pillunni. Ekki frekar en ég ráðlegg sonum mínum að afsala sér valdinu yfir getnaðarvörnum. Smokkurinn er ekki aðeins örugg og góð getnaðarvörn heldur sú jafnréttisvænasta á markaðnum og ég vildi frekar sjá samfélagið afleggja fordóma gagnvart smokknum en að markaðssetja fleiri lyf sem valda óþægilegum aukaverkunum.

    • Val á getnaðarvörnum er persónubundið og helgast m.a. af því hvort um er að ræða langtímasamband eða skyndikynni. Smokkar hafa bæði kosti og galla,rétt einsog aðrar varnir. Synir og dætur og þau sem þeir stunda kynlíf með mega ráða þeim leiðum sem þau nota til getnaðarvarna, þótt maður geti vitaskuld haft sína skoðun á því eins og öðru.

  6. Mér finnst furðulegt að vera á móti því að karlar geti valið pilluna og finn álíka lykt af því og fordómum gagnvart t.d. rítalíni. Ég þekki nefnilega einmitt líka fólk sem tekur rítalín og telur líf sitt hafa stórbatnað síðan.
    Lyf eru hættuleg en lyf eru líka góð.
    Karlapillan er til og fáránlegt að hún skuli ekki vera framleidd.

  7. „Körlum líkar ekki að hróflað sé við eðlilegu líkamsástandi þeirra “ segir í tilvitnuninni sem Halla segir enn „grátbroslega sönn“.

    Körlum til varnar má benda á að ófrjósemisaðgerum karla (svonefndum „karlaklippingum“) hefur snarfjölgað hin síðari ár. Svo það er nú ekki sanngjarnt að segja að ekkert hafi breyst.

    Ég set spurningamerki við að „velflestar“ konur finni fyrir „minnkandi kynlöngun, ógleði og þunglyndi“ vegna pillunotkunar. Er það virkilega svo? Og halda konur sem finna fyrir slíkum aukaverkunum áfram á pillunni árum saman?? (Er það „feðraveldinu“ að kenna …?)

  8. Höfundur greinarinnar skrifar eins og aukaverkanir karlapillunnar séu „nákvæmlega“ þær sömu og kvennapillunnar.

    Ég vil bara benda höfundi á að aukaverkanir, sérstaklega geðrænar líkt og þunglyndi, geta verið misalvarlegar bæði þegar litið er til tíðni sem og alvarleika.

    Að halda því fram að minnkandi kynlöngun, ógleði og þunglyndi sé sjálfkrafa það sama og minnkandi kynlöngun, ógleði og þunglyndi lýsir eiginlega vanþekkingu á þessum kvillum að mínu mati og þá er ég sérstaklega að horfa til þunglyndis.

    Ef aukaverkanir er í raun og veru algjörlega sambærilegar væri gaman að sjá vísað í gögn úr rannsóknunum sjálfum.

    Það er líka áhugavert að hafa í huga að það ætti að vera hagstæðara fyrir lyfjafyrirtæki að selja getnaðarvarnir til karla frekar en kvenna enda eru það æviskeið sem þeir eru frjóir mun lengra en hjá konum. Rökin að lyfjafyrirtæki vilji ekki selja þessi lyf sem þeir hafa þó fjárfest líklega milljörðum í að rannsaka í áratugi nú þegar vegna þess að þeim er svo annt um að karlar finni ekki fyrir óþægindum falla eiginlega um sig sjálf.

Skildu eftir svar við Sigríður Guðmarsdóttir Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.