Nauðganir í kyrrþey

Höfundur: Kristín Pálsdóttir

 

Greinin birtist fyrst á Smugunni 2. maí 2011 og er endurbirt með góðfúslegu leyfi.

 

Í vikunni opinberuðust mjög fornaldarleg viðhorf til kynferðisofbeldis, og mikilvægi réttra viðbragða við því, hjá aðstandanda stærstu útihátíðar sem haldin er á landinu um verslunarmannahelgina, Páli Scheving formanni þjóðhátíðarnefndar Vestmannaeyja. Eins og heyra má á hljóðskrá frá opnum borgarafundi í Vestmannaeyjum 28. apríl 2011 tjáði Páll sig nokkuð vafningalaust um afstöðu sína til forvarnaraðgerða gegn kynferðisofbeldi á hátíðinni og þeirrar gagnrýni sem fjölmargir, bæði fagfólk og leikmenn, hafa komið með vegna fjölda kynferðisafbrota sem tengdust hátíðinni, einkum hvað varðar aðkomu Stígamóta. Hljóðskrána er að finna hér og þar má m.a. heyra eftirfarandi orðaskipti Páls við einn fundargesta þar sem Páll setur fram, sem frægt varð að endemum, kenningu sína um að viðvera Stígamóta á hátíðinni beinlínis auki hættuna á kynferðisbrotum. Orðaskiptin hefjast á 21. mínútu.

Páll Scheving Ingvarsson: „Það myndu allir vilja eiga Þjóðhátíð. Einhverja hátíð sem er, eins og í fyrra, 750-800 milljóna innspýting í samfélagið, einhverja fimm daga. Gengur undir stórum hluta kostnaðar við íþróttahreyfinguna og það eru allir að reyna að búa þetta til. Bæjarhátíðir hér og þar, það getur enginn einu sinni rukkað. Það er frítt inn á allar bæjarhátíðir og ég veit ekki hvað og hvað. Vestmannaeyjar eru fyrsta frétt á ljósvakamiðlunum í þrjá til fjóra daga. Í öllum miðlum göngum við þessa daga, gríðarleg umfjöllun um samfélagið og vekur gríðarlega athygli á því. Ómetanlegt, algjörlega ómetanlegt.“

Gestur í sal: „Það er líka ekkert skemmtilegt að vera með frétt nr. eitt oft. Það er alltaf þetta sama og ég ætla að biðja ykkur um að reyna að koma því til skila núna. Það er útaf þessum blessuðum Stígamótum. Þær eru alltaf vælandi þessar kerlingar að það sé ekki pláss inní Dal fyrir þær, þær hafa ekki kompu og þær hafa ekki ljós og þær hafa ekkert. Að klára þetta bara í upphafi Þjóðhátíðar, sko, að þið bara leysið þessi mál.“

Páll Scheving Ingvarsson: „Stígamót voru hér lengi vel bankandi á dyrnar hjá okkur og vildu fá aðstöðu í Dalnum og við áttum að kosta allt. Það var þeirra hugmynd í þessu við að þær ætluðu að koma og hjálpa okkur en þetta er þannig þar sem þær hafa birst á hátíðum er eins og vandamálið hafi stækkað. Það er ljótt að segja það en ég segi það samt. Það er eins og samtökin nærist á því að vandamálið sé til staðar og þær reyni frekar að ýta undir það heldur en hitt. Vandamálin verða alltaf miklu fleiri og stærri þegar Stígamót eru á staðnum þannig að við höfum sagt: Þið eruð velkomnar, þið bara borgið ykkur inn á svæðið eins og allir aðrir, komið ykkur fyrir og verðið með ykkar aðstöðu og það hefur haldið þeim frá. Við erum hins vegar með okkar sálgæslu í Herjólfsdal, með fullkomið viðbragð við kynferðisbroti í Herjólfsdal. Það er fullkomið viðbragð alla leið inn á Landspítala í Reykjavík, ef með þarf. Unnið með lögreglu og fagfólki alla leið.“

 

Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að Páll segi af sér. [Innsk. ritstjórnar: Þegar greinin birtist á Smugunni var Páll Scheving formaður þjóðhátíðarnefndar. Hann situr ekki í nefndinni nú.] Hann er hins vegar ekki einn í þessum hugarheimi og varla rót vandans heldur birtingarmynd rosalegrar kynjaslagsíðu og andvaraleysis gagnvart jafnréttissjónarmiðjum sem víða má sjá innan íþróttahreyfingarinnar. Það er nefnilega Íþróttabandalag Vestmannaeyja sem heldur Þjóðhátíð og þess vegna er upplagt að nota þetta tækifæri til að ræða og skoða jafnréttis- og siðferðismál íþróttafélaga sem þiggja hundruð milljóna af afmannafé árlega á þeim forsendum að þar fari fram mikilvægt uppeldis-, fyrirmynda- og forvarnastarf. (Þórdís L. Gísladóttir áætlar styrki til æskulýðs- og íþróttafélaga frá sveitarfélögum 2.2 milljarða á ári, í meistararitgerð sinni um hagræn áhrif íþrótta, 2007. Þá er ótalið framlag ríkisins, Lottópeningar og fleira.)

Það gerir ábyrgð Páls síst minni að hann situr í bæjarstjórn Vestmannaeyja, og fræðslu- og menningarnefnd, ásamt því að vera fyrrverandi formaður ÍBV og handhafi Silfurmerkis þess.

Í lauslegri höfðatöluúttekt hjá ÍBV kemur í ljós að í rúmlega 80% tilfella eru karlar handhafar valds og heiðursmerkja. Ánægjuleg undantekning er Íþróttamaður æskunnar þar sem 5 stúlkur hafa verið valdar en 3 strákar. Silfurmerki bandalagsins hefur 101 karl fengið og 26 konur. Af 10 skráðum gullkrosshöfum er 1 kona og af 42 gullmerkishöfum eru 6 konur. Í stjórn ÍBV eru 4 karlar og 1 kona  og af nítján aðilum sem hafa verið formenn ÍBV eru 18 karlar og 1 kona. (http://ibv.is/). Af 33 Íþróttamönnum Vestmannaeyja eru 8 konur og til að ljúka þessum hausatalningum þá eru í stjórn Þjóðhátíðar 4 karlar en engin kona (http://dalurinn.is/).

Hvernig er ástand jafnréttismála í íþróttafélögum í þínu bæjarfélagi? Þá á ég ekki bara við hvað varðar iðkendur heldur stjórnskipulag félaganna.

Þjóðhátíðarnefnd hefur lengi verið uppsigað við umtal um nauðganir eins og sjá má í grein í Morgunblaðinu 3. ágúst 1995. Páll birti sjálfur grein árið 2004 þar sem hann er ósáttur við neikvæða umræðu um Þjóðhátíð og bendir á hversu slæm sú umræða geti verið fyrir viðskiptahagsmuni hátíðarinnar.

Ummæli hans um Stígamót nú virðast heldur ekki vera sögð í neinni andstöðu við álit þjóðhátíðarnefndar né forsvarsmenn ÍBV, að minnsta kosti hef ég hvergi séð þau borin til baka eða hörmuð af þeim aðilum.

Þó að svona hausatalningar séu enginn algildur mælikvarði á stöðu jafnréttismála segja ofangreindar tölur okkur að það sé kominn tími til að skoða jafnréttismál og siðferðismál innan íþróttahreyfinga af meiri alvöru en hingað til. Þau sjónarmið sem opinberast hafa í þessu máli eiga ekki að þrífast innan hreyfingar sem að miklu leyti er fjármögnuð af almannafé í skjóli þess að þar fari fram uppbyggilegt starf fyrir ungmenni. Það er líka ömurlegt að fjárþörf (eða græðgi?) íþróttafélaga sé notuð til að þagga niður lífsnauðsynlega umræðu.

Fólk sem stuðlar að því að nauðganir fari fram í kyrrþey vegna markaðssjónarmiða á ekki að stjórna íþróttastarfi eða útihátíðum og það er svo sannarlega ekki til fyrirmyndar fyrir neinn.

—-

Tenglar á nokkrar fréttir og greinar um þetta mál:

http://blog.pressan.is/jakobbjarnar/tag/pall-scheving/

http://www.dv.is/frettir/2011/8/5/pall-scheving-segir-starfsmenn-ekki-abyrga/

http://www.dv.is/frettir/2011/5/5/pall-scheving-ummaelin-um-stigamot-standa/

http://www.dv.is/frettir/2011/4/29/segir-stigamot-naerast-vandamalum/

http://www.dv.is/frettir/2011/5/1/eg-vaeri-reidubuinn-ad-vinna-med-stigamotum/

http://eyjar.net/frett/2012/11/30/pall_scheving_afram_formadur_thjodhatidarnefndar

Þjóðhátíðarnefnd ÍBV skipa nú:

Birgir Guðjónsson

Hörður Orri Grettisson

Magnús Sigurðsson

Dóra Björk Gunnarsdóttir

Eyjólfur Guðjónsson

Elías Árni Jónsson

Í stjórn ÍBV sitja:

Sigursveinn Þórðarson, formaður

Íris Róbertsdóttir,  varaformaður

Guðmundur Ásgeirsson, gjaldkeri

Páll Magnússon,  meðstjórnandi

Stefán Örn Jónsson, meðstjórnandi

Arnar Richardsson, fulltrúi handknattleiksd.

Hannes K. Sigurðsson, fulltrúi knattspyrnud.

Ingibjörg Jónsdóttir, varamaður

Styrmir Sigurðsson, varamaður

Ein athugasemd við “Nauðganir í kyrrþey

  1. Bakvísun: Við mótmælum #þöggun á Þjóðhátíð | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.