Við mótmælum #þöggun á Þjóðhátíð

Frá aðgerðahópnum Aktívismi gegn nauðgunarmenningu og vefritinu Knúz.is

engaþoggunSamkvæmt frétt á vísi.is hefur lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, Páley Borgþórsdóttir, sent frá sér bréf til viðbragðsaðila á Þjóðhátíð með tilmælum um að halda upplýsingum um kynferðisbrot sem hugsanlega verði framin yfir hátíðina frá fjölmiðlum. Þetta er gert á þeim forsendum að það sé „þungbært fyrir aðila kynferðisbrots að málið sé á forsíðum blaðanna“.

Þetta verður að teljast undarleg stjórnsýsluákvörðun þegar við horfum til aðgerða seinustu mánaða. Þolendur hafa rofið þögnina undir myllumerkjunum #þöggun og #konurtala og sagt frá kynferðisofbeldi sem samfélagið hefur ítrekað þaggað niður og reynt að hunsa. Þetta verður því að teljast veik röksemdafærsla í ljósi þess að þarna virðist enn eiga að reyna að sópa kynferðisofbeldi, umfangi þess og afleiðingum, undir teppið.

Það er erfitt að skynja ekki þöggunarmynstur í tengslum við Þjóðhátíð, sérstaklega eftir að stjórn hátíðarinnar lýsti því yfir fyrir nokkrum árum að starfsemi Stígamóta væru ekki lengur velkomin. Það er auðvitað ekki að ástæðulausu að yfirvöld í Eyjum skuli gera sem minnst úr þeirri staðreynd að kynferðisofbeldi er víðtækt og alvarlegt vandamál á stærstu fjöldahátíðinni sem haldin er á þessari litlu eyju á hverju ári. Það getur haft slæm áhrif á fjárhaginn þegar þolendur benda á að ástandið sé ólíðandi og að eitthvað verði að breytast. Það kostar peninga að gera raunverulegar breytingar og oft eru breytingarnar óþægilegar og stuðandi. Þær kalla á sjálfsgagnrýni og vekja upp erfiðar spurningar. Það er lítill þjóðhátíðarstemmari í því að tala um kynferðisofbeldi. Yfirvöld Eyja gera því allt sem í þeirra valdi stendur til að stroka það út með þessum aðgerðum.

Því viljum við segja þetta við lögreglustjórann í Vestmannaeyjum:

Þolendur hafa um árabil og alveg sérstaklega undanfarnar vikur og mánuði gert hverjum þeim sem kýs að hlusta á raddir þeirra rækilega ljóst, að þögnin hefur aldrei verið þeim í hag, að þögnin er í raun enn frekara ofbeldi gegn þeim. Tilmæli um að upplýsa ekki um kynferðisbrot, jafnvel þótt eftir verði spurt, virðast í raun tilraun til að breiða yfir þá staðreynd að á Þjóðhátíð er kynferðisofbeldi viðvarandi vandamál og að hátíðarstjórnendur hafa aldrei gert nóg, né virst hafa áhuga á að gera nóg, til að vernda gesti sína gegn ofbeldismönnum.

Við krefjumst þess að lögreglan í Vestmannaeyjum og viðbragðsaðilar á Þjóðhátíð þaggi ekki niður umræðu um kynferðisofbeldi. Við krefjumst þess að þau segi satt og rétt frá ef kynferðisbrotamál koma upp. Það er vel hægt að upplýsa fjölmiðla um fjölda brota yfir hátíðina án þess að greina þurfi frá smáatriðum sem geta verið íþyngjandi fyrir þolendur.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, femínisti, rithöfundur og fyrirlesari, kemst vel að orði um þetta mál:

Hér eru skýlausir þöggunartilburðir settir fram með þeim rökum að það sé þolendum fyrir bestu, annað sé svo „íþyngjandi“. Sem þolandi kynferðisofbeldis staðhæfi ég að ekkert er meira íþyngjandi en yfirvöld sem þagga niður umræðu um kynferðisbrot. Við eigum ekki að sætta okkur við að verja tilbúna glansmynd af þjóðhátíð í Vestmannaeyjum með kúgun af þessu tagi.

Þögnin var rofin með krafti hugrakkra kvenna, en enn þarf að standa vörð um það frelsi sem hefur unnist með því átaki. Brjótum niður þagnarmúrinn sem umvefur Þjóðhátíð, opnum umræðuna um kynferðisofbeldi upp á gátt.

Leyfum röddum þolenda að heyrast!

Aktívismi gegn nauðgunarmenningu og Knúz.is

3 athugasemdir við “Við mótmælum #þöggun á Þjóðhátíð

  1. Nauðgun er ekki oviljaverk heldur yfirveguð aras. Su staðreynd ætti ekki að dyljast neinum. I ljosi umræðunnar um tilmæli lögreglunnar i Eyjum, kann maður þo að spyrja sig þo hvort fornarlömb kynferðislegs ofbeldis seu misilla a sig komin eða tilbuin að hleypa sinum malum i fjölmiðla strax eftir verknaðinn. Það ætti þo ekki að breyta þeirri staðreynd að taka þarf a nauðgunarmalum strax og með sama þunga og öðrum alvarlegum glæpum. Umfjöllun i fjölmilum, þ.e. nanar og niðurlægjandi lysingar, mættu gjarnan syna viðurkvæmni og bera vott um virðingu fyrir fornarlömbunum. Það mætti einnig e.t.v. fa leyfi fra brotaþolum aður en mal eru gerð opinber. I minum huga er það ekki þöggun, heldur stuðningur við brotaþola, og viðleitni til að halda saman brotinni sjalfsimynd. A hinn boginn ætti það ekki að vera feimnismal lögreglunnar að upp hafi komist um nauðganir. Frekar, að hversu illa tekst að fyrirbyggja þær – til dæmis með þvi að afþakka aðstoð sjalfboðaliða!

  2. Það hefur aldrei verið ítarlega fjallað um þolendur í fjölmiðlum strax eftir atburðinn með „nánum og niðurlægjandi lýsingum,“ hvað þá án þeirra samþykkis. Yfirleitt er hins vegar sagt frá því í fréttum hversu mörg kynferðisbrot voru tilkynnt, án allra smáatriða, að sjálfsögðu. Lögreglustjórinn er ekki að reyna að vernda þolendur, heldur er hún að vernda orðspor þjóðhátíðar. Hún baðst fyrir um að þessi tilskipun hennar yrði leynileg, það átti enginn að fá að vita það að hún ætlaði að banna fjölmiðlum að fjalla um kynferðisbrot. Auðvitað var þetta til að fegra ímynd hátíðarinnar heittelskuðu. Þegar þetta spurðist út greip hún til þeirra ráða að þykjast að þetta hafi allt verð til þess að vernda þolendur, sem er algjörlega fáránlegt í ljósi þess sem þolendur hafa verið að berjast fyrir, sérstaklega undanfarna mánuði, að rjúfa þögnina. Þetta trikk hennar til að bjarga eigin skinni gerir líka illt verra fyrir þolendur og grefur undan baráttu þeirra fyrir aukinni umræðu, sem þeir hafa lagt mikið á sig að berjast fyrir. Hvernig ætli það sé að tilkynna nauðgun, en heyra svo frá fólki að engar fréttir hafi borist af kynferðisbrotum og að allt hljóti bara að hafa gengið rosalega vel um helgina?

    Við erum að reyna að uppræta þessa skömm sem hefur fylgt þolendum svo lengi. Það á ekki að vera skammarlegt fyrir þolendur að tilkynna nauðgun eða að um fjölda nauðgana sé fjallað í blaðinu, heldur jafn eðlilegt og að tilkynna aðra glæpi og fjallað um þá. Það er það sem við erum að berjast fyrir. Fréttir af fjölda nauðgana eru ekki skammarlegar fyrir þolendur, heldur fyrir gerendur.

  3. Bakvísun: Konur tala 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.