Ungfrú Gaur og strympulögmálið

Anita Sarkeesian hefur á síðu sinni Feminist Frequency – Conversations with Pop Culture birt fræðslumyndbönd þar sem leitast er við að varpa ljósi á birtingarmyndir kvenna í poppkúltúr og afþreyingarefni. Nýlegasta myndbandið á síðunni, Ms. Male Character, er innlegg í seríuna Tropes vs. Women in Video Games, sem áður hefur verið fjallað um á Knúzinu (sjá hér og hér) en þar rýnir Sarkeesian í framsetningu kvenpersóna í tölvuleikjum.
[Hér á eftir fer stutt samantekt á efni myndbandsins og hugleiðingum sem vöknuðu við áhorf þess, en ég mæli náttúrlega eindregið með að lesendur horfi á myndbandið sjálft.]

Í nýja myndbandinu tekur Sarkeesian sem dæmi persónugallerí tölvuleikja allt frá Pacman til Angry Birds til að sýna fram á eftirfarandi gegnumgangandi stef. Kvenpersóna (einmitt mjög gjarnan í eintölu, þó karlpersónur séu fleiri) er sérkennd með útlitsatriðum, einu eða fleirum: barnalegu hárskrauti, varalit, löngum augnhárum, háhæluðum skóm. Ef leikurinn er af flóknara tagi, með söguþráðum og díalógum, koma ýmis (allajafna neikvæð) skapgerðareinkenni gjarnan til sögunnar: kvenpersóna er hégómleg, duttlungafull, grunnhyggin og skapstór. Hin kvenlegu sérkenni eru, að mati Sarkeesian, svo yfirborðskennd sem raun ber vitni vegna þess að þeim er í raun ekki ætlað að gæða karaktera persónuleika heldur fyrst og fremst að greina þá frá karlpersónunum, og undirstrika þannig tvíhyggjuna sem felst í algjörri aðgreiningu hins kvenlega og karllega. Með öðrum orðum felist helsta persónueinkenni kvenpersónanna í því að vera konur, enda séu þær markaðar eigin kyni og þar að lútandi steríótýpum meðan karlarnir fái svigrúm til að hafa raunverulegan persónuleika og sérkenni, enda megi kalla þá hið default setting eigin samhengis ‒ þeir séu normið, miðlægir, en kvenpersónurnar jaðraðar sem frávik.

Ms. Male-skilgreiningin vísar til þess að oft er kvenpersónu bætt inn í samhengi eftir á, einfaldlega sem kvenlegri útgáfu af karlpersónu sem var þar fyrir, og eins og Sarkeesian bendir á kemur sköpunarsaga Biblíunnar óneitanlega upp í hugann: fyrst kom Adam og seinna var Eva bókstaflega byggð úr líkama hans. Önnur nærtæk dæmi úr heimsbókmenntunum eru t.d. Mína Mús, Strympa og Andrésína Önd.

Mér finnst freistandi að tengja hugmyndina um kvenkyn sem afleiðingu karlkyns við málfræðina. Í flestum tungumálum (ef þá ekki öllum?), sem á annað borð kyngreina málfræði, er kvenkynið fengið með endingum sem bætt er við karlkyns frummynd orðsins. Þannig er Smurfette, Strympa, málfræðilega séð ekki annað en strumpur með franskri kvenkynsendingu. Sarkeesian vísar einmitt í strympulögmálið, sem Katha Pollitt skrifaði um í byrjun 10 . áratugs síðustu aldar (og sem Sarkeesian hefur gert sérstakt vídjó um). Það má einnig yfirfæra á heiminn utan Strumpaþorps og einkennist m.a. af því að í hópi karlpersóna er ein token (eða málamynda-) kvenpersóna, sem oft þjónar helst því hlutverki að vera ástarviðfang karlanna. Einnig má halda því fram að þótt hópur karla í einhverju samhengi (t.d. í stjórnmálum) sé með eina token konu innanborðs, þá sé heildarmyndin ekkert minna karlmiðuð fyrir það. Sama gildir um kvikmyndir og annað afþreyingarefni (samanber fyrsta skilyrði Bechdel-prófsins, að tvær nafngreindar konur skuli vera meðal persóna).

Sarkeesian nefnir vissulega einnig dæmi um mótvægi við Ms. Male-fyrirbærið, þ.e. leiki með almennilegum kvenpersónum, en þeir virðast þá yfirleitt teljast til indie-tölvuleikja. Líkt og hún bendir svo á í lokin kann hvert og eitt dæmi um kvenlegar steríótýpur með strympuheilkenni vissulega að virðast meinlaust út af fyrir sig. Hinsvegar er erfitt að líta framhjá hinni dýpri merkingu þeirra sem kemur í ljós þegar heildarmynstrið er skoðað.

2 athugasemdir við “Ungfrú Gaur og strympulögmálið

  1. Bókstaflega þoli ekki þessa manneskju.

    Fannst best af öllu að mass effect, sem er spilað í 98% tilvika af karlmönnum… Það var ekki nóg að það væri hægt að spila kvennmann, það var ekki nóg að hægt væri að skipta út frontinu á cd coverinu….

    Þetta er eins og ef karlmenn færu að rífast yfir því að kvennfólk birtist alltof mikið í auglýsingum um make up…

    Aðeins einn félagi minn svo ég viti til spilar ekki tölvuleiki…

    Held ég þekkji 2 stelpur sem spila tölvuleiki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.