10. desember í jóladagatalinu er … Hulda Jensdóttir

Höfundur: Guðrún C. Emilsdóttir

Hulda Jensdóttir, í viðtali í Kastljósi snemma árs 2014

Hulda Jensdóttir, í viðtali í Kastljósi snemma árs 2014

Hulda Jensdóttir ljósmóðir (1925 – ) hefur alla tíð verið umdeild vegna skoðanna sinna á fóstureyðingum, en hún er talskona þess að reglur varðandi þær verði hertar og taki mið af því að líf kvikni strax við getnað. Hulda lagði meira að segja fram tillögu að breytingu á lögum um fæðingarhjálp og fóstureyðingar þegar hún sat sem varaþingmaður á Alþingi í nokkra mánuði árin 1990-1991.

Óumdeilt er hins vegar að Hulda gerbreytti viðhorfi almennings á Íslandi varðandi fæðingaraðferðir, fæðingarhjálp. fræðslu og þátttöku feðra við fæðingar. Meðal þess sem Hulda innleiddi er slökun og öndun við fæðingu, að feður væru viðstaddir fæðingu, að mæður fengju börnin í fangið strax eftir fæðingu og áður en klippt væri á strenginn, að börnin væru sett strax á brjóst og að systkini fengju að koma í heimsókn fljótlega eftir fæðingu. Í hennar augum er fæðing náttúrulegur atburður sem á að eiga sér stað við sem eðlilegastar aðstæður og í heimilislegu umhverfi. Í þeim anda var hún talsmaður þess að ljósmæður önnuðust fæðingarhjálp og kölluðu aðeins til lækni ef eitthvað kæmi upp á sem krefðist aðkomu læknis, enda væri fæðing algerlega náttúrulegur viðburður en ekki sjúkdómsástand. Fyrir þetta uppskar hún litla hrifningu margra úr læknastétt, en þessi afstaða er í dag viðtekin í fæðingarhjálp á Íslandi og þykir nánast sjálfgefin.

Ég hélt námskeið fyrir barnshafandi konur. Það þótti óttalegt bull að kenna konum að slaka á og fræða þær um fæðinguna. Þeir sem hæst létu sögðu að konur hefðu fætt börn frá örófi alda án þess að fá fræðslu. Ég krafðist þess líka að móðirin fengi barnið í fangið um leið og það fæddist, sem hafði ekki verið til siðs. Mér fannst það nánast óskiljanlegt. Ég byrjaði rólega, spurði mæðurnar hvort þær vildu fá barnið í fangið og auðvitað vildu þær það allar. Það er dásamleg stund þegar móðir leggur barnið að brjósti sér og faðirinn er viðstaddur. Hverjum dettur í hug í dag að þetta sé einhver vitleysa?

Ég var kölluð á teppið til landlæknis sem var Vilmundur Jónsson því ég hafði verið klöguð. „Fyrir hvað er ég klöguð?“ spurði ég. Hann sagði að ég hefði verið klöguð fyrir að vera með námskeið þar sem konum væri kennt að fæða. „Er það rangt?“sagði ég. „Ég sé ekkert rangt við það,“ sagði hann. Við ræddum heilmikið saman. Vilmundur var framsýnn maður. Þegar við kvöddumst klappaði hann á öxlina á mér og sagði: „Haltu áfram, ekki gefast upp, láttu engan trufla þig í þessu. Þú ert á réttri leið.“ Seinna fór ég á fund tveggja landlækna. Þeir sögðu kannski ekki mjög mikið en stóðu ekki með mér.

–  Hulda Jensdóttir, í viðtali við Blaðið, 18. ágúst 2007

Skjáskot úr umfjöllun um Fæðingarheimilið og aðdraganda lokunar þess í Veru, 3. tbl., bls. 22-27

Skjáskot úr umfjöllun um Fæðingarheimilið, tilurð þess og aðdraganda lokunar þess í Veru, 3. tbl., bls. 22-27

Hulda var brautryðjandi á sviði fræðslunámskeiða fyrir verðandi foreldra og hélt sitt fyrsta námskeið árið 1953. Það síðasta hélt hún fyrir 7 árum síðan – svo hún hefur verið að í rúma hálfa öld. Hún var jafnframt forstöðukona Fæðingarheimilisins frá upphafi, en það opnaði 18. ágúst 1960, og þar til því var lokað, um 30 árum síðar. Þrátt fyrir þá miklu andstöðu sem Hulda mætti meðal lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks á sínum tíma, þegar fullyrt var að aðferðir hennar byðu hættunni heim, þykir flest af því sem hún boðaði sjálfsagður hlutur í dag. Einnig virðist áhugi á heimafæðingum hafa aukist undanfarin ár þar sem aðrir fjölskyldumeðlimir geta tekið þátt með beinum stuðningi eða með því einfaldlega að vera til staðar. Fyrir áhugasama má benda á eftirfarandi síðu http://heimafaeding.is/.

Stuðst var við eftirfarandi heimildir:

http://www.ruv.is/innlent/klogud-fyrir-ad-kenna-slokun

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=226802&pageId=3056647&lang=is&q=Hulda%20Jensd%F3ttir

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=346322&pageId=5424749&lang=is&q=F%C6%D0INGARHEIMILI%D0

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=358990&pageId=5752703&lang=is&q=Hulda%20Jensd%F3ttir%20lj%F3sm%F3%F0ir

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=346322&pageId=5424749&lang=is&q=F%C6%D0INGARHEIMILI%D0

 

 

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.