Klám með kjötbollunum

Höfundar: Gísli Ásgeirsson og Halla Sverrisdóttir

Í Ráðhúsinu stendur nú yfir Afrekssýning kvenna. Þar eru mörg fróðleg spjöld og myndir frá gömlum og nýjum tíma og þótti mér mest koma til framlags Brynhildar og Kolbrúnar sem er á ganginum fyrir framan matsal borgarstarfsmanna. Ég (Gísli)  heimsótti sýninguna á laugardaginn og fór aftur í dag því sá hluti sem nefnist Kynleikar fór fram hjá mér þá en hefur síðan orðið umfjöllunarefni tveggja netmiðla. Báðir styðjast eingöngu við tilkynningu listamannanna þar sem segir:


ATH. Við biðjumst velvirðingar á því að gestir komi nær undantekningarlaust að svörtum myndbandsskjám og verkum í lamasessi á þessari sýningu. Aðstandendur sýningarinnar eru í viðræðum við starfsmenn borgarráðs og verkefnisstjóra afrekasýningarinnar og vonandi finnst farsæl lausn á þessu máli fljótlega. Í millitíðinni, ef þið kíkið á sýninguna, ekki hika við að kveikja á myndbandsverkunum sjálf. Starfsmenn í húsinu hafa tekið sér bessaleyfi til þess að slökkva reglulega á verkunum yfir daginn og það er lítið sem við getum gert í þessu máli sem stendur.

2015-09-16 16.04.46Einhvern tíma hefði þetta þótt nægilega fréttnæmt til að gera tíðindamann út af örkinni og athuga hverju þetta sætti. Þegar ég kom í dag var mér vísað á matsal ráðhúsfólksins þar sem nokkrum sjónvarpstækjum hefur verið komið fyrir og fyrir framan salinn hangir þetta skilti:

Þarna var slökkt á öllu þegar ég kom og sum staðar voru fjöltengi ekki í sambandi. Ég reyndi að kveikja á tækjum en gekk illa. Aðspurðir borgarstarfsmenn voru frekar fámálir og vildu helst ekkert skipta sér af þessu, sögðust ekkert vita um sýningarstjóra eða starfsmenn sýningarinnar og ekkert gekk hjá aðvífandi öryggisverði að ræsa græjurnar en svo bar að starfsmann sem gat hjálpað mér að kveikja á einum skjá. Verkið var hljóðlaust og ég naut þess ekki sem skyldi. Aðspurður sagði starfsmaðurinn að einhverjir starfsmenn hefðu upphaflega slökkt á matmálstímum því þeim hefði þótt verkin nógu ógeðsleg til að það hafði áhrif á matarlystina. Nánari lýsing fékkst eftir öðrum leiðum:

Frá upphafi voru margir ósáttir við nærveru myndbandsverkanna á matmálstímum. Þó liðu margir dagar þar til einn tók á sig rögg og slökkti á myndbandi af konu með brund í andlitinu. Fleiri fóru að dæmi hans og slökkt var á verki með blöndu af klámi og barnaefni og nakið fólk á eldhúsborði þótti heldur ekki lystaukandi. Þar sem þetta er starfsmannarými er trauðla hægt að segja fólki að fara annað í matartímanum og ekki hægt að mótmæla fólki sem vill ekki hafa ógeðslegt efni fyrir augunum nema það hafi ákveðið það sjálft.

Heggur sá er hlífa skyldi

Reykjavíkurborg vann á sínum tíma áhugaverða og ítarlega skýrslu með yfirskriftinni Klámvæðing er kynferðisleg áreitni. Skýrslan sætti talsverðum tíðindum og varð til að vekja athygli á vanda sem áður hafði legið nánast algerlega óbættur hjá garði.

Afrekskvennasýningin er á vegum borgarinnar og er auglýst á vef Reykjavíkurborgar sem slíkur viðburður; ráðhúsið lagði til starfsmann og verkefnastjóra. Það sætir hálfgerðri furðu að þessir aðilar skuli ekki hafa gert sér grein fyrir að þarna sættu borgarstarfsmenn kynferðislegu áreiti í matartíma sínum, sátu undir því sem þeir upplifðu sem ógeðslegt klám og voru þolendur þess sem þeir hefðu síst átt að sæta og létu lengi vel yfir sig ganga. En svo fengu þeir nóg.

Þetta er auglýst sem list og listrænt frelsi er í hávegum haft. Enginn vill ritskoða listina.  En klám er persónuleg upplifun, ekki háð skilgreiningu annarra og það á ekki að troða því í fólk. Það er ekki hægt að veifa hátimbruðum skilgreiningum á listgerningum til réttlætingar á þessu uppátæki. Þá mætti alveg eins efna til sýningar á Debbie Does Dallas á breiðtjaldi á Austurvelli, með tilheyrandi efnisviðvörunum.

En efnisviðvaranir eru einmitt til þess ætlaðar að benda fólki á að efnið sem viðvörunin fylgir geti valdið þeim vanlíðan, jafnvel orðið til að kalla fram einkenni hjá þeim sem glíma við áfallastreituröskun, til dæmis vegna kynferðisofbeldis eða annars konar ofbeldis.

Fólk á rétt á að verða ekki fyrir áreiti, hvað þá grófu áreiti, á vinnustaðnum sínum. Það er ekki valkvætt rými heldur staður sem fólk er yfirleitt skuldbundið til að vera á, en hefur þó oft litla beina stjórn á. Með öðrum orðum, fólk getur ekki farið eitthvert annað og þar af leiðandi varla undrunarefni þótt einhver hafi tekið sig til og slökkt á klámsjóinu.

ráðhús með twÞað eiga allir rétt á að upplifun þeirra af einhverju sem sjokkerandi og sem óþægilegu sé virt og að sú upplifun sé ekki afgreidd sem tepruskapur eða firring þess sem ekki kemur auga klámvæðinguna alls staðar í samfélaginu. Og það er ekkert firrt við að upplifa gróft klámefni – og þá er ekki átt við rúmstokksmyndir eða „Very Dirty Dancing“, heldur mjög grafískt og jafnvel ofbeldisfullt klám –  sem óþægilegt. Mjög mörgum, jafnvel meirihluta alls þorra almennings,  þykir óþægilegt að horfa á slíkt efni og er misboðið af því, og það þrátt fyrir að vita vel af tilvist efnisins. Fólk langar bara oft ekkert að horfa á það sjálft, enda er grafískt mainstream-klám jútjúb-samtímans gjarnan frekar ógeðfellt nema fyrir þeim sem sækjast meðvitað eftir því.

List í almannarými er vandmeðfarin. Sérstaklega list sem er ætlað að ögra. Með slíkri list eru efnisviðvaranir gagnslausar því efnisviðvörun virkar ekki nema sá eða sú sem hún viðvörunin á að gagnast geti forðast efnið og það helst án þess að það hafi veruleg áhrif á lífsgæði hans eða hennar. Er hægt að setja risastórt *TW* yfir allar inngöngudyr ráðhúss Reykjavíkur og gera það um leið að svæði sem sumt fólk getur einfaldlega ekki hætt sér inn á? Nei, það er varla boðlegt.

Ein athugasemd við “Klám með kjötbollunum

  1. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.