Höfundur: Guðrún Harpa Bjarnadóttir
Með orðatiltækið „enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað“ í huga lagði ég af stað inn í árið 2015 og ákvað að mitt framlag til kosningarafmælisársins yrði mæling á því plássi sem íþróttaafrek karla annars vegar og kvenna hins vegar fá á íþróttafréttasíðum Fréttablaðsins. Þetta má sjá í myndaalbúminu Íþróttafréttamenn sem elska konur. Nú þegar árinu er lokið er einboðið að líta tilbaka og skella í áramótauppgjör þessarar kynjagreiningar og fljótlegast er að draga greininguna saman í eina einfalda niðurstöðu:
Tölur eru hins vegar þeim skemmtilega eiginleika gæddar að þær má sundurliða og greina á ýmsa vegu og til dæmis er athyglisvert að skoða hvern mánuð ársins fyrir sig, en sú greining sýnir hversu ótrúlega þykkt og efnismikið glerþak íþróttafréttanna er:
Íþróttakynjagreiningardeildin var í netsambandslausu fríi erlendis allan ágústmánuð og því vantar þann mánuð inn í talninguna en miðað við tölur annarra mánaða tel ég fullvíst að sá mánuður hefði ekki haft úrslitaáhrif á niðurstöður ársins.
Þegar skoðaður er fjöldi vikna og daga sem hvort kyn um sig hefur yfirhöndina verður misréttið enn meira áberandi.
Minn þægindarammi er snyrtilega innpakkaður í ferkantaða excelreiti og þess vegna lýsti ég því yfir í upphafi árs að fyrirætlan mín væri einungis að setja fram tölulegar staðreyndir en láta matskennda liði eiga sig. Ég ætlaði því ekki að leggja mat á það hvort þessi eða hin umfjöllunin væri mikilvægari eða merkilegra en önnur, eða hvort þessi eða hin íþróttagreinin verðskuldaði meira pláss en önnur. Oft erum við svo ótrúlega samdauna kynjakerfinu sem umlykur okkur öll á hverjum degi og tökum ekki eftir misréttinu sem liðast svo lymskulega um alla króka og kima samfélagsins. Þegar misréttið er sett fram sem svart-hvítar tölur opnast þó oft augu manna og kvenna, eins og eftirfarandi athugasemdir sýna: „Þú ert með þessu framtaki búin að rétta mér íþróttakynjagleraugun“ og „Ég sem aldrei hef lesið íþróttafréttirnar er farin að líta yfir þær á hverjum degi með prósentu tölu í huga!“.
Þrátt fyrir þessa upphaflegu og ferköntuðu ætlan mína finnst mér ómögulegt annað en að draga fram nokkur tilvik sem vöktu athygli mína og annarra á liðnu ári og meti nú hver fyrir sig hvort viðhorfsbreytingar sé þörf.
Árið 2015 fór af stað með svipuðum hætti og fyrra árið endaði og karlmenn einokuðu íþróttafréttir janúar mánaðar, eins og fram kemur í Kynlegum íþróttafréttum. „Það er jú HM“ var athugasemd sem oft heyrðist þann mánuðinn – því Heimsmeistaramót er jú auðvitað eðlileg ástæða þess að hunsa nær algjörlega umfjöllun um íþróttaafrek kvenna. Eða hvað?
17. febrúar bar það til tíðinda að ekki var minnst á karlmenn í íþróttafréttum Fréttablaðsins. Í tilefni af því fékk ég svohljóðandi athugasemd: „Þeir hafa spottað úttektina hjá þér og nú skal bætt úr!!! 100% kvk annað slagið til að jafna slagsíðuna ;-)“ Það er skemmst frá því að segja að þetta var aldeilis óþörf öfgabjartsýni því þessi staða átti ekki eftir að koma upp aftur á árinu.
Sunnudaginn 15. mars sýndu bestu fimleikakonur landsins stórkostleg tilþrif á Bikarmóti í hópfimleikum, en eins og flestir vita eigum við Íslendingar hópfimleikakonur á heimsmælikvarða. Fréttablaðið sá þó ekki ástæðu til að nefna þann viðburð einu orði, hvorki daginn eftir né næstu daga, því öll vikan var helguð karlmönnum og íþróttafréttamenn fullkomnuðu kynjablindu sína með 100% karlaumfjöllun fimm daga í röð. Til að ná slíkum árangri þarf mjög einbeittan brotavilja. Kynjakvótinn ógurlegi sem allir hræðast er því svo sannarlega við lýði í íþróttafréttunum, eða eins og einn dyggur lesandi kynlegra íþróttafrétta sagði í athugasemd á árinu: „Hvenær ætlar visir.is að afnema karlakvótann?“
Í körfuboltanum raðast leikdagar stundum þannig að konurnar spila einn daginn og karlarnir þann næsta. Að minnsta kosti tvisvar á árinu (22. janúar og 26. mars) fengu óspilaðir karlaleikir meiri umfjöllun en kvennaleikirnir sem fram höfðu farið daginn áður. Íþróttafréttamönnum fannst semsagt fréttnæmara og merkilegra það sem hugsanlega gæti gerst í karlaleikjum kvöldsins heldur en það sem búið var að gerast í kvennaleikjum dagsins sem leið.
Í lok mars sýndi Eygló Ósk Gústafsdóttir svo sannarlega að hún er í hópi bestu sundkvenna heims þegar hún náði ólympíulágmarki í 200 metra baksundi um leið og hún setti Norðurlandamet, sem jafnframt var þriðji besti tíminn í Evrópu og sá fimmti besti í heiminum. Daginn eftir fékk þetta afrek 10% pláss á íþróttasíðum Fréttablaðsins því það þurfti auðvitað að fjalla svolítið um væntanlegan æfingaleik karlalandsliðsins í fótbolta. Gamla klisjan um að konur þurfi bara að byrja á því að sýna árangur til að fá athygli og umfjöllun er því orðin hryllilega þreytt þegar konum dugar ekki Norðurlandamet, ólympíulágmark og fimmti besti árstími heims til að skáka æfingaleik sem ekki hefur verið spilaður.
Dagana til 22. júní til 4. júlí fór Evrópumót kvennalandsliða U17 fram á Íslandi og því hæg heimantökin fyrir íþróttafréttamenn að gera þessum framtíðarstjörnum og fyrirmyndum ungra knattspyrnukvenna góð skil. Sú varð þó svo sannarlega ekki raunin hjá Fréttablaðinu en sem dæmi fékk úrslitaleikurinn ekki nema 7% pláss á íþróttasíðu blaðsins þann 6. júlí og heildarumfjöllun blaðsins um þetta mót var grátlega lítil.
Sömu sögu er að segja um sjálft Heimsmeistaramótið í knattspyrnu kvenna sem fram fór á sama tíma en fékk litla sem enga umfjöllun á síðum Fréttablaðsins. Það er mál manna að úrslitaleikurinn sem spilaður var sunnudaginn 5. júlí hafi verið einn skemmtilegasti fótboltaleikur sem sýndur hefur verið í íslensku sjónvarpi enda fór bandaríska liðið á kostum og skoraði fimm glæsileg mörk á móti tveimur mörkum japanska liðsins. Leikurinn fékk að vonum verðskuldaða athygli í Bandaríkjunum þar sem hann mældist með mesta sjónvarpsáhorf sem nokkur fótboltaleikur hafði fengið, hvort sem litið er til karla eða kvenna. Sennilega gleymdist þó að láta íþróttafréttamenn Fréttablaðsins vita af því að leikurinn væri á dagskrá því þeir létu ekki svo lítið að segja frá úrslitum hans. Ekki eitt einasta orð. „Það er jú HM“ er því athugasemd sem virðist bara eiga við þegar um HM karla er að ræða. Í raun fór það svo að júlí-mánuður var í öðru sæti yfir minnstu kvennaumfjöllun ársins með 14,3% sem er algjörlega lygilegt með tilliti til þess hversu mikið var að gerast hjá íþróttakonum landsins, því fyrir utan þessi tvö knattspyrnumót eignuðust Íslendingar heimsmeistara í Cross-fit (aftur) og bronsverðlaunahafa í 800 mtr hlaupi á Evrópumóti U20. Einn einasta dag í þessum mánuði var umfjöllun um íþróttir kvenna meiri en um íþróttir karla.
Í desember fór síðan fram Heimsmeistaramót kvenna í handbolta þar sem norska landsliðið bætti enn einum titlinum í safnið. Ein mynd með myndatexta birtist 9. desember um sigra danska landsliðsins en þar fyrir utan þótti þetta mót ekki nógu merkilegt til að verðskulda umfjöllun – nema auðvitað Þóris þáttur Hergeirssonar, sem að því er virðist vann gullið fyrir hönd Noregs aleinn og sjálfur, með litlu sem engu framlagi frá leikmönnum liðsins. Hver þarf enda stórkostlegar íþróttakonur í liðið þegar þjálfarinn – karlmaður og íslenskur í þokkabót – er frábær?
Síðustu dagar ársins eru tími uppgjöra ýmiss konar og þann 28. desember skelltu íþróttafréttamenn í heila opnu um þá erlendu íþróttamenn sem að þeirra mati höfðu skarað fram úr á árinu. Ég gladdist óskaplega þegar ég sá yfirskrift umfjöllunarinnar: „Fréttablaðið lítur yfir farinn veg á erlendum vettvangi og tekur til sjö karla og sjö konur sem slógu í gegn og eignuðu sér árið 2015“. Voru þeir virkilega búnir að fatta þetta með mikilvægi jafnra kynjahlutfalla? Ég brosti hringinn um leið og ég af gömlum vana taldi myndirnar. Og aftur. Og einu sinni enn. 7 strákamyndir og 6 stelpumyndir. Kannski er skýringin á kynjahallanum einfaldlega sú að íþróttafréttamenn kunna bara ekki að telja.
Nokkrar góðar fyrirsagnir frá liðnu ári:
Það væri frábært ef þessari grein fylgdi líka tölfræði um fjölda karla vs. kvenna sem stunda íþróttir á því aldursskeiði sem fjallað er um í fjölmiðlum. Það er ekkert samhengi í svona skrifum.
Umfjöllun hlýtur að eiga að fara eftir hlutfalli iðkenda til að gera þeim jafnhátt undir höfði, sama hvers kyns þeir eru. Annað væri ójafnrétti. Skoðum það aðeins.
Á síðu ÍSÍ fann ég í fljótu bragði ekki nýrri úttekt en frá 2011 (http://www.isi.is/library/Skrar/Efnisveita/Tolfraedi/Eldri/idkendur_2011.pdf). Þar kemur fram að 39% af iðkendum íþróttafélaganna árin á undan voru konur og 61% karlkyns . Hinsvegar voru kvenkyns iðkendur 46% af iðkendum 15 ára og yngri en 54% karla. Kvenkyns iðkendum fækkar með aldrinum en karlkyns iðkendum fjölgar og það er sama þróun og var greind fyrir 20 árum í rannsókn sem gerð var 1995.
Einu beinu tölurnar yfir kynjaþáttöku hjá ÍSÍ eru að meðal iðkenda yfir 16 ára aldri eru 21.056 konur og 42.456 karlar eða 33% konur vs. 77% karlar og hlutfallið fer síversnandi með hverju árinu eftir 16. Gera má ráð fyrir að hlutfall kvenna á þeim aldri sem almennt er talin ástæða til að fjalla um, þ.e. ca. 20 ára og eldri, sé komið niður fyrir 30%.
Út frá þessari gróflegu athugun er ljóst að sumt sem þið skrifið um varðandi hlutfall umfjöllunar er etv. alls ekki óeðlilegt. Hvers vegna ætti umfjöllun um hóp sem samanstendur af undir 30% iðkenda að vera meiri en umfjöllunin um hin 70% í einn einasta dag?
Auðvitað er fáránlegt að fjalla suma daga ekki NEITT um þrjátíu prósentin, þ.e. kvenkyns iðkendur, en það þarf að nálgast svona á réttum forsendum. Það virðist út frá tölunum vissulega halla á, en þessi grein er ekki betur hugsuð en umfjöllun fréttamiðlanna. Verri ef eitthvað er því þetta er svo augljóslega viljandi.
Skyldi iðkendahallinn hafa eitthvað með það að gera að annað kynið er mikið til hundsað í umfjöllun???
Hvað ertu að spyrja mig að því? Út frá forsendum greinarinnar get ég líkt þú giskað út í loftið með spurningu: „Skyldi umfjöllunin hafa með það að gera hverjir stunda íþróttirnar??? T.d. er lítið fjallað um karlfimleika á Íslandi. Það eru engar greinar um karlmenn í MAN, Mannlífi ofl. tímaritum? Ég giska því á að svarið sé: „Nei!“ Allt bendir til þess að umfjöllun sé í samræmi við iðkendafjölda og kannski árangur.“
Svona gisk skilar engu, ég hefði alveg eins getað giskað: „Já!“. Knúz skrifar greinina, ekki ég og til að skaffa eða fá svör við svona mælanlegum stærðum, þá er bara heillavænlegra að setja hlutina í tölulegt samhengi.