Hrútskýringin verður til


Hrútskýring
var valið orð ársins í netkosningu sem Ríkisútvarpið stóð fyrir  og kynnti niðurstöðurnar núna síðdegis. Það er myndað úr orðunum hrútur og útskýring og er þýðing á enska orðinu mansplaining – sem er samsett úr man og explain. Það varð til í kjölfar greinar Rebeccu Solnit, sem kom síðar út í bókinni Men Explaining Things To Me, í apríl 2008 og kom fram í athugasemdakerfi við hana. Í ágætri samantekt RÚV segir m.a.  „Verkið fjallar um stöðu kvenna út frá sjónarhorni Solnit – um reynslu hennar af því að karlmenn útskýri fyrir konum á yfirlætislegan og lítillækkandi hátt og gefi sér að þeir viti betur. Hún segir hugtakið afkvæmi feðraveldisins – vissrar fáfræði þess sem hrútskýrir og jafnvel meira sjálfsöryggis en tilefni er til.“ Í samantekt RÚV er nánar fjallað um tilurð orðsins og merkingu.rebeccasolnit

Rebecca segir sína sögu í eftirfarandi samantekt sem er frábær lesning.

Í niðurlagi greinargerðar RÚV segir síðan: „…árið 2012 stakk rithöfundurinn og nýyrðasmiðurinn Hallgrímur Helgason, upp á orðinu hrútskýringu á Facebook-síðu sinni – og mætti jafnvel segja að það nái betur yfir hugtakið en hið enska mansplaining.“

Þetta er gott og blessað en fyrstu merkin um orðið í skjáskiptum fólks eru frá haustinu 2011. Vefritið Knúz.is var þá nýtekið til starfa og innanbúðarfólki þar var orðið frekar tamt á tungu. Það birtist fyrst í vefritinu í aðventuhugvekju í desember þetta ár þar sem lífslistamaðurinn Herbert Friðrik Stefánsson frá Hnausadal segir frá hrútum bernsku sinnar og tengir þá við nútímahrúta. Eldri dæmi eru frá nóvember þetta ár og því eðlilegt að Herbert gerði ekkert tilkall til orðsins. Þangað til annað kemur á daginn liggur beinast við að eigna knúzverjum þýðinguna. Í samantekt um orð ársins 2011 er það eignað Knúzinu, hugsanlega eftir einhverja „óþekkta“ konu þar innanstokks, sem hefur ekki talið ástæðu til að hreykja sér af því á opinberum vettvangi.

Viðbót eftir ábendingu: Fundinn er uppruni orðsins og ljóst að til eru skjalageymslur og þræðir sem Gúgull nær ekki til. Hallgrímur á þetta skuldlaust. Knúzið vill þó gjarna eiga hlut í að hafa fleytt því inn í femíníska umræðu, sbr. heimildir hér að ofan.

myndsteinunnolina

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.