Hátimbraðar hugmyndir um jafnrétti kynjanna ýta undir trúrækni múslímskra kvenna

Höfundur: Ida Roland Birkvad

Norskur félagsvísindamaður fullyrðir að þegar fjallað er um jafnrétti kynjanna á þann hátt að það tilheyri einungis vestrænum gildum geri það íslamskar innflytjendakonur trúræknari en ella.

Innflytjendakonur í Hollandi og Noregi hafa í æ ríkari mæli samsamað sig gildum sem tilheyra trú þeirra. Hugmyndir um að jafnrétti kynjanna tilheyri vestrænni menningu hafa ýtt undir það. „Til er fjöldi skrifa um það á hvaða hátt ímynd íslamskra kvenna er stöðluð, en fátt hefur verið skrifað um hvernig konur með íslamskan bakgrunn kjósa að koma fram og hverslags mynd þær hafa af sér sem hóp. Mér þótti áhugavert að sjá hvernig þessar tvær ímyndir – kvennanna sjálfra og svo samfélagsins – verkuðu hvor á aðra,“ segir Margaretha van Es. Árið 2015 varði hún doktorsritgerð sína við Háskólann í Ósló um viðfangsefnið íslamskar konur í Noregi og Hollandi og fordóma sem þær mæta í þjóðfélaginu á breiðum grundvelli. Nýlega birti hún bók sem byggð er á ritgerðinni.

Bakslag

Margaretha van Es hefur rannsakað hvernig íslamskar konur í Hollandi og Noregi höguðu háttum sínum, hvort heldur sem var innan samtaka sem byggð eru á trúarlegum grunni eða á grundvelli hugmynda þeirra um að tilheyra hópi innflytjenda.
„Á áttunda áratugnum skipulögðu konur sig aðallega út frá stöðu sinni sem innflytjendur. Núna, aftur á móti, má sjá æ oftar að þær safnast saman af trúarlegum ástæðum,“ segir van Es. „Þær leggja sig fram um að sýna hversu frjálsar þær eru í gegnum Kóraninn og Hadíðurnar, safn sagna um spámanninn Múhameð; hvað hann sagði, gerði eða fyrir hverju hann gaf leyfi sitt, að því er ætla má. Þegar umræðan snýst um að konur séu kúgaðar í íslamstrú, þá sjáum við bakslag. Viðbrögðin eru að konurnar líta enn frekar á sig sem múslima.

Gott að vera múslimi og hollensk

Van Es tók viðtöl við konur með múslímskan bakgrunn í 14 trúarlegum og veraldlegum samtökum í Noregi og Hollandi. Hún kannaði einnig skjalasöfn, blaðagreinar og hvítbækur ríkisstjórna, og segir að hún sjái klárt samhengi milli þess hvernig konurnar líta á sig sjálfar og þess hvert viðhorf þjóðfélagsins er í þeirra garð.

Söguleg þróun á sjálfskilningi íslamskra kvenna og hugmynda innan samfélagsins í þeirra garð hefur samt orðið önnur í Noregi en Hollandi. „Í Hollandi voru árásirnar á Tvíburaturnana vendipunktur; hins vegar urðu áköf skoðanaskipti í Noregi strax á tíunda áratug síðustu aldar um íslamstrú og jafnrétti kynjanna, sérstaklega með tilliti til nauðungarhjónabanda innan pakístanska minnihlutahópsins,“ segir van Es. „Fram til ársins 2001 var sjónum helst beint að félagslegri og efnahagslegri stöðu kvenna í Hollandi; hvernig þeim tókst að komast inn á vinnumarkaðinn, mismunum og aðgengi að menntun. Þótt einnig hafi verið rætt um menninguna á tíunda áratugnum var hún ekki álitin eins mikilvæg,“ segir van Es.

Ýtt undir íslamska ímynd

Hún segir að von og bjartsýni um framtíð innflytjenda hafi ríkt á tíunda áratugnum í Hollandi. „Með því að kanna úrklippur dagblaða og annað safnefni fann ég útbreidda trú á að fjölmenningarpólitík myndi að endingu jafna út félagsleg og efnahagsleg vandamál tengd innflytjendum. Þetta þýddi að ýmsir trúarhópar myndu öðlast einhvers konar sjálfsákvörðunarrétt í menningar- og trúarlegum viðfangsefnum, á sama tíma og ríkið beindi kröftum sínum að því að auðvelda aðlögun að samfélaginu á stærri skala, til dæmis í gegnum aðgerðir á vinnumarkaði og í húsnæðismálum,“ útskýrir hún.
„Í rauninni hvatti ríkið konurnar til að halla sér að sinni múslímsku ímynd. Þeim þótti það nokkurn veginn vandalaust að sameina trúarímynd sína, svo sem eins og að vera múslimi, við hollenska þjóðarímynd. Þó var álitið að vandasamara væri að hafa sterka hollustu gagnvart tyrknesku þjóðerni sínu eða marrókönsku, til viðbótar við hollenskt ríkisfang.“

Jafnrétti kynjanna sem menning

Bjartsýni varðandi innflytjendur í Hollandi dalaði eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 2001. Árin eftir það vöktu stjórnmálamenn og álitsgjafar, svo sem Pim Fortuyn og Ayaan Hirsi Ali, athygli fyrir gagnrýni, ekki aðeins á íslamska trú, heldur líka á fjölmenningarhyggjuna sem samfélagsform. „Umræður fóru að snúast um þemu á borð við nauðungarhjónabönd, limlestingar á kynfærum kvenna og hvernig múslímskar konur ættu að komast út af heimilunum og taka þátt í þjóðfélaginu,“ segir van Es.

„Það skýtur skökku við að gagnrýnendur á íslam báru ekki allir hag kvennanna sem þeir töluðu um fyrir brjósti. Það er dæmigert fyrir lýðskrumara af hægri vængnum að líta á jafnrétti kynjanna sem hollensk menningargildi.“

Hún bendir á, til dæmis, að Geert Wilder, hægrisinnaði popúlistinn og leiðtogi Frelsisflokksins, hefur aldrei reynt að láta sem hann sé áhugasamur um að hjálpa íslömskum konum, en hefur þess í stað sagt það berum orðum að hann vilji vernda það sem hann álíti hollensk gildi. Stine Helena Bang Svendsen, rannsakandi í kynjafræðum og dósent í kennslufræðum við NTNU (Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet), segir að fjölmenningin haldi áfram að vera til umræðu í norskum stjórnmálum og löggjöf.
„Á opinberum vettvangi hefur fjölmenningin verið úrskurðuð dauð í þó nokkrum tilfellum, en hún neitar þó að halda við þau orð. Segja má að fjölmenningin sé afturganga sem eltir opinbera umræðu í Noregi, því hún minnir okkur á þá staðreynd að menningu „hinna“ er ekki hægt að láta hverfa við aðlögun án hörmulegra afleiðinga.“

Áhersla lögð á kvenréttindi frá upphafi

Rannsóknin sem van Es stýrði leiddi í ljós að jafnrétti kynjanna var þá þegar mikilvægt málefni í Noregi þegar fyrstu pakístönsku innflytjendurnir komu til landsins á áttunda áratugnum. Hvítbækur ríkisstjórna frá þessu tímabili sýna áhyggjur yfir því að „gesta-verkamenn“, eins og þeir voru kallaðir þá, höfðu komið með konur sínar með sér og að konur þessar þörfnuðust einnig ýmissar þjónustu.
Hún bendir á að gagnrýni á fjölmenninguna byrjaði í Noregi á tíunda áratugnum. „Á tíunda áratug síðustu aldar urðu börn fyrstu kynslóðar innflytjenda fullorðin, og menningareinkenni svo sem eins og heiðurskúltúr og nauðungarhjónabönd urðu greinilegri. Dagblaðagreinarnar sem ég hef greint sýna að umræðan varð æsingarkennd og að norskir blaðamenn höfðu ekki sama menningarlæsi og þeir hafa nú.“ Hún fullyrðir að umræðan sýni þó að lögð hafi verið áhersla á kvenréttindi og jafnrétti kynjanna frá upphafi.
„Þetta sýnir að í Noregi voru þessi málefni nátengd þjóðlegri ímynd. Séð frá þessu sjónarhorni var umræðan í Noregi fordómafyllri í garð kvenna innan minnihlutahópa. Hollendingar veltu fremur fyrir sér öðrum þjóðareinkennum til viðbótar við kyngervið.

Samasemmerki sett milli menningar og stjórnmála

Stine Helena Bang Svendsen segir það mikilvægt að skoða umræðu um fjölmenningu í Noregi með hliðsjón af hinni þjóðlegu tregðu til að minnast á norska kynþáttahyggju. „Við sjáum að fjölmenningin hefur takmarkað olnbogarými, þótt hún hafi þó eitthvert rými í stjórnmálum þegar um þjóðlega minnihlutahópa er að ræða eða innfædda. Að sama skapi neita margir að horfast í augu við að rasismi í norsku þjóðfélagi komi þar nokkuð við sögu,“ bendir hún á.

„Norskar umræður um limlestingar á kynfærum kvenna og nauðungarhjónabönd eru sígild dæmi um það hvernig íslamskt kynferði er sýnt sem austurlenskt og framandi. Samt sem áður hefur þessi skilningur haft lítil áhrif á opinberum vettvangi í Noregi. Ástæða þess er ekki sú að þekking á rasisma sé lítil í Noregi, heldur sú að tregðan til að viðurkenna að hann sé fyrir hendi er afar mikil.“

Eftir því sem Svendsen segir, gerist það þegar pólitísk stefna er skynjuð sem hluti tiltekinnar menningar, eins og því í tilfelli þegar Noregur og jafnrétti kynjanna eru lögð að jöfnu, þá hefur stefnan náð því að vera svo að segja óumdeild. „Norskur ríkisfemínismi og jafnréttisstjórnmál eru dæmi um stefnu þar sem er eiginleg sátt um helstu málefni. Það þýðir að þessi pólitíska stefna getur verið túlkuð sem einkennandi fyrir norskt þjóðfélag,“ segir hún. „Í augum femínista getur sá skilningur að jafnrétti kynjanna sé hluti menningar verið vandasamur. Hún gefur þá mynd af norsku samfélagi að þar ríki kynjajafnrétti, þótt sú sé alls ekki raunin. Frá sjónarhorni andstæðings rasisma er sá skilningur að jafnrétti kynjanna sé hluti menningar einnig vandasamur því það sýnir gildi sem eru til staðar í mörgum löndum og menningarheildum sem sérkenni á hvítri norskri menningu“.

Fleiri íslamskir femínistar

Í umræðu dagsins er oft gengið út frá því að konur úr hópi innflytjenda muni ná fram jafnrétti og frelsi með því að halla sér að þeim gildum sem fyrir voru í nýja landinu. Van Es á bendir á að sá hængur sé á að slíkt leggi að jöfnu að tilheyra tiltekinni þjóð og að vera frjáls einstaklingur sem njóti réttinda til jafns við karlmenn. „Allt of oft lítum við fram hjá þeirri staðreynd að þessi umræða hefur áhrif á það hvernig íslamskar konur sæki rétt sinn, og það er ekki endilega jákvætt. Með því að teygja rök og orðræðu til hins ýtrasta er erfiðara að ræða um vandamál innan minnihlutahópa vegna ótta við frekari stigmögnun. Þetta er ástæðan fyrir því að ræða þarf jafnrétti kynjanna í samhengi sem laust er við rasisma.“ Í bók sinn hefur van Es bæði einbeitt sér að konum með veraldlega sýn sem og trúarlega. Í Noregi tók hún viðtöl við konur frá samtökum svo sem MiRA (Miðstöð fyrir svarta, innflytjendur og konur á flótta) og Íslamska stúdentafélagið.

Kúgun sem merkimiði

„Ég hef einnig litið á safnefni sem samtök hafa geymt. Bæklingar þeirra og félagsrit voru hjálpleg við að segja til um hvernig konur sjá sig sjálfar; til dæmis hvort þau halda námskeið um kynjajafnrétti og kvenréttindi eða hvort þau einbeita sér þess í stað að námskeiðum í vinnuleit.“ Eftir því sem van Es segir hefur notkunin á orðinu „kúguð“ einnig breyst. „Á áttunda ártugnum var kúgun eitthvað sem var beitt gegn konum. Nú hefur kúgun orðið að eins konar merkimiða sem hægt er að nota til að gera mun á milli þeirra sem eru hæfir sem löggiltir borgarar og hinna sem eru það ekki,“ segir van Es. Samt hefur íslömskum konum sem skilgreina sig sem „femínista“ fjölgað. „Á níunda áratugnum bentu margar múslímskar konur gjarnan á það, sérstaklega þær sem fengið höfðu hollenskt ríkisfang, að þær hefðu áhuga á jafnrétti, en ekki endilega jafnrétti kynjanna. Konur og karlar hefðu sama vægi, en uppfylltu ólík hlutverk í samfélaginu. Nú á seinni tímum hafa hins vegar margar ungar, íslamskar konur byrjað að skilgreina sig sem íslamska femínista og þær nota Kóraninn og Hadíðurnar til að færa rök fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Þetta er til marks um skýran sögulegan mun á því hvernig konurnar líta á samband femínisma og íslamstrúar.“

Greinin er þýdd með leyfi Kilden rannsóknarstöðvar kynjafræði í Noregi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.