KYN skiptir máli

Höf: Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

Áramót eru oft og gjarnan tímamót í mörgu tilliti. Þá er við hæfi að horfa til baka, fara yfir árið, vega og meta og ekki síst nota reynslu ársins til markmiða á því næsta.

Ég er svo heppin að vera í besta starfi í heimi. Ég er kennslukona. Að miðla, hvetja, aga, hlusta, spyrja og svara alla daga er skemmtilegt, gefandi, krefjandi og annasamt. Kennarastarfið er oft vanmetið – en þessi grein á ekki að snúast um kjaramál, eins mikilvæg og þörf og sú umræða er.

Í kennarastarfið fer enginn til þess að verða ríkur í veraldlegum skilningi. Í starfi kennarans gefast endalaus tækifæri til að láta gott af sér leiða, gera gagn, byggja upp og hlúa að nemendum. Kennarinn þarf að vega og meta hvað nemendur þurfa og eiga að nema. Hann þarf líka að ákvarða hvernig þeir nema. Skyldur og ábyrgð kennarans  eru margar og miklar, ná yfir bæði siðferðileg mál, hagnýt atriði, samskipti og fleira. Nám á að vera undirbúningur nemandans fyrir lífið sjálft. Atvinnuþátttöku, frekara nám, og þau fjölbreyttu hlutverk sem nútímasamfélag krefst af okkur öllum. Það þarf að hafa ýmislegt í huga við kennslu, svo sem námskrár, stöðu nemenda, samsetningu hópsins, fagleg gildi, fagvitund og kennari þarf líka að fylgja landslögum og hafa þau að leiðarljósi í starfi sínu.

myndin er fengin af vefnum http://www.uib.no

Frá árinu 1976 hafa verið í gildi jafnréttislög. Þar er kveðið á um eitt og annað er varðar jafnrétti, kynjajafnrétti. Í þessum góðu lögum segir að jafnréttisfræðsla skuli fara fram á öllum skólastigum. Á áratugunum sem jafnréttislögin hafa verið í gildi hefur verið fjallað um þetta ákvæði jafnréttislaganna, jafnréttisfræðsluna, en þó einkum undanfarin fá ár þar sem nokkur vakning hefur verið í menntakerfinu um mikilvægi slíkrar fræðslu. Framkvæmd þessa ákvæðis hefur verið hundsað í gegnum tíðina af menntakerfinu í heild sinni. Þar til fyrir örfáum árum. Á því góða ári sem nú er að líða hefur aðeins dregið til tíðinda á vettvangi jafnréttisfræðslu. Fleiri og fleiri kennarar fá upplýsingar, þjálfun og hvatningu til að sinna þessu ákvæði landslaganna.

En því miður gerir kennaramenntun í landinu ekki ráð fyrir að kennarar fái þjálfun til að uppfylla þessa skyldu sína. Jafnréttisfræðsla er í besta falli jaðarsett og vanrækt í þjálfun og menntun kennara. Það er því á valdi kennarans sjálfs, skóla eða endurmenntunarkerfisins að uppfylla þetta gat eða holrúm ef svo má segja. Jafnréttisfræðsla er ekki eingöngu mikilvæg vegna lagarammans heldur er veruleiki okkar sá að kynjunum er kerfisbundið mismunað í samfélaginu – og allir tapa.

Þetta er meginforsenda laganna. Við sjáum endalaus dæmi um kynjaskekkju með tilheyrandi skaða og hörmungum fyrir bæði kynin. Kennarar, sem starfa í samfélagi við börn og unglinga alla daga, verða varir við afleiðingar sem misréttið hefur og hversu mikil áhrif það hefur á nemendur. Samfélagið og menningin eru gegnsýrð af kvenfyrirlitningu, öfgakarlmennskuhugmyndum og aðgreiningu kynjanna í ótalmörgu samhengi. Og um þetta hefur verið þagað í menntakerfinu. Þögnin er aldrei hlutlaus, við tökum afstöðu með óbreyttum veruleika með því að aðhafast ekkert.

Á þeim fimm árum sem ég hef sinnt jafnréttisfræðslu í Borgarholtsskóla hef ég sannreynt að nemendur þyrstir í fræðslu af þessu tagi. Fræðslu þar sem menningin og samfélagið eru greind og skoðuð með gagnrýni og stöðu kynjanna í samfélaginu að leiðarljósi. Nemendur verða gjarnan fyrir ákveðinni upplifun þegar þau jafnréttisfræðast, þau sjá hvernig þau eru mótuð og hvött til ákveðinnar hegðunar, innrætt skaðleg gildi, alin upp við óæskilegar fyrirmyndir í samfélaginu sem eru hafnar til vegs og virðingar – sjá hvernig kynjunum er mismunað í víðu samhengi.

Jafnréttisfræðsla verður að vera á þann hátt að nemandinn sé virkur þátttakandi í náminu, hann þarf að geta tjáð sig í öruggu umhverfi, hann þarf að fá rými til að ígrunda eigin skoðanir og annarra, hann þarf að fá hvatningu og örvun til að hlusta, hugsa og eiga samræðu. Það þarf að sýna nemendum hvernig veruleikinn er á bak við tjöldin, setja hlutina í samhengi, leita samhengis orsaka og afleiðinga. Þetta þurfa nemendur að gera að miklu leyti með uppgötvunarnámi. Ungmenni eru klár, skapandi, leitandi, margbreytileg og viljug. Kennari þarf alltaf að vera reiðubúinn að gefa af sér, vera einlægur, sýna nærgætni og  draga fram það besta í hverjum og einum nemanda – en það er ekki alltaf auðvelt með rúmlega 30 nemenda hóp. Í jafnréttisfræðslu, þar sem markmiðin eru viðhorfatengd, er sérstaklega mikilvægt að skapa ákveðið andrúmsloft í kennslustofunni. Hópefli, nánd, persónuleg samskipti, virðing, umhyggja, hvatning, öryggi og fjölbreytni ætti allt að fléttast saman í náminu. Á sama tíma og jafnréttisfræðslan á að vera fjölbreytt og skemmtileg, þar sem upplifun og tjáning nemandans er í fyrirrúmi, þá er stundum erfitt og krefjandi að fást við námið. Þegar kynbundið ofbeldi er rætt þarf kennari að hafa sterk bein. Í hverjum nemendahópi eru brotaþolar, nemendur sem hafa upplifað ólýsanlegan hrylling í formi heimilisofbeldis, kynferðislegrar misnotkunar og nauðgunar. Oftar en ekki hafa þau burðast með afleiðingar þessa í gegnum sitt stutta líf án hjálpar og viðurkenningar á því að brotið var á þeim. Kennarinn þarf að vera í stakk búinn að hlúa að þessum einstaklingum og leiðbeina, beina þeim að fagaðilum sem geta aðstoðað. Því þegar kynbundið ofbeldi er rætt á heilbrigðan hátt, þar sem sökin og ábyrgðin er sett á gerandann og gengið er út frá því að brotaþolar segi satt, þá finna  nemendur þörf til að koma fram, segja sögu sína og fá aðstoð sem er þeim lífsnauðsynleg.

Nemendur mínir hafa sýnt mér ítrekað að jafnréttisfræðsla virkar. Áhrifin eru á sjálfsmynd þeirra, skilningur á hvað hefur áhrif á hugsanir þeirra, samskipti, hegðun og væntingar. Jafnréttisfræðsla á að vera þannig að nemandinn öðlist hæfni til að skilja eigin menningu, átta sig á áhrifum hennar, berjast gegn óæskilegum áhrifum, taka þátt í að breyta menningunni – vera gagnrýninn. Jafnréttisfræðsla á að vera þannig að hún hefur langtíma áhrif á nemandann. Þannig stuðlar fræðslan að hamingjusamari einstaklingum og heilbrigðara samfélagi.

Jafnréttisfræðsla þarf að fara fram á öllum skólastigum, allir nemendur eiga rétt á henni og er nauðsynlegt að fá slíka fræðslu. Framsetning fræðslunnar verður að hanna að hverju aldurs- og þroskaskeiði. Kennarar sem sinna fræðslunni þurfa að vera einlægir í viðhorfum sínum til jafnréttismála, hafa þekkingu og styðja eindregið málstað femínista. Vera femínistar. Að gefnu tilefni þá er femínisti sá eða sú sem viðurkennir að jafnrétti kynjanna sé ekki náð og er reiðubúin(n) að gera eitthvað í því.

Án jafnréttisfræðslu mun jafnrétti kynjanna ekki nást, það fullyrði ég hér og nú.

Höfundur er kennari í Borgarholtsskóla.

2 athugasemdir við “KYN skiptir máli

 1. Þú segir:

  „Samfélagið og menningin eru gegnsýrð af kvenfyrirlitningu, öfgakarlmennskuhugmyndum og aðgreiningu kynjanna í ótalmörgu samhengi.“

  Uh var ekki íslenskt samfélag nr 1 þegar kemur að jafnrétti kynjanna í öllum heiminum? er þetta ekki full gróf alhæfing til að lýsa íslenskum veruleika?

  Ertu að kenna unglingum þessa skoðun þína? Þú segjir nefnilega:

  „Það þarf að sýna nemendum hvernig veruleikinn er á bak við tjöldin, setja hlutina í samhengi, leita samhengis orsaka og afleiðinga. “

  Er það ekki rétt skilið hjá mér að þú kennir kynjafræði en ekki jafnréttisfræðslu?

  Það er nefnilega þannig að þó það sé vissulega hægt með vilja, að horfa á samfélagið út frá greiningartækjum kynjafræðinar og fá allann þann karllæga sora sem þau bjóða uppá sem niðurstöðu. Þá þýðir það ekki að þetta sé sá raunvöruleiki sem við búum við í dag.

  Greinigartæki kynjafræðinar eru ósannar kenningar sem stangast á við þann raunvöruleika sem flestir sem ég þekki amk búa í.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.