VARÚÐ – hætta á váhrifum

Höfundur: Guðný Elísa Guðgeirsdóttir

Síðustu vikur hefur umfjöllun um kynferðisbrot verið áberandi í samfélaginu. Fjölmiðlar hafa, þökk sé hugrökkum brotaþolum, afhjúpað níðinga sem árum saman hafa komist upp með að misnota börn og fullorðna í skjóli þagnar. Sífellt fleiri þolendur kynferðisofbeldis stíga nú fram og brotaþolar sem áður var hafnað fá nú uppreisn æru. Fréttir um málsmeðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu og þá dóma sem nýlega hafa fallið eru uppspretta átaka og ákalls um breytingar. Þessi málefni vekja sterkar tilfinningar og stór orð eru látin falla í hita leiksins. Réttlætiskennd fólks er gróflega misboðið og þöggun er ekki lengur í boði. Sem betur fer og þó fyrr hefði verið.

Við sem samfélag erum að skapa umhverfi sem er fúsara til að taka þolendur kynferðisbrota trúanlega og vinnum saman að því að uppræta skaðlegar mýtur sem skella skuldinni á þolandann. Umræðan snýst nú meira um nauðsyn þess að þeir sem stunda kynlíf saman geri það með upplýstu samþykki beggja aðila og af gagnkvæmri virðingu. Við erum komin lengra en að láta okkur nægja að margtyggja slagorðið „nei þýðir nei!“ því við vitum að þögn er ekki sama og samþykki og þess vegna segjum við nú „fáðu já!“ Samþykki er sexý.

Við getum sannarlega verið stolt af því að umræðan þróist og þokist í rétta átt. Það er ekki svo langt síðan nauðgun var einungis bundin við að karlmaður hefði samræði við konu gegn vilja hennar og taldist brotið ekki fullframið „fyrr en getnaðarlimur karlmanns var kominn inn í fæðingarveg konu og samræðishreyfingar hafnar“.  Þetta hljómar fornt en í raun eru ekki nema rúm 20 ár síðan þessi skilgreining var felld úr gildi.* Við erum orðin upplýstari um hversu alvarlegar afleiðingar kynferðisofbeldis geta verið og nýtt orð hefur bæst í orðaforða okkar; áfallastreituröskun.

Áfallastreituröskun (Post-Traumatic Stress Disorder) er orð sem við heyrum oft í fréttum um kynferðisbrotadóma. Það er ekki óalgengt að brotaþolar þjáist af margvíslegum einkennum röskunarinnar. Þau eru meðal annars ofurárvekni, forðun, svefntruflanir, einbeitingarerfiðleikar, óvelkomnar minningar, skapsveiflur, martraðir, kvíðaköst og endurupplifanir (e. flashback). Ótal þættir hafa áhrif á hvernig einstaklingi gengur að ná sér af áfallastreitu. Sjúkdómseinkenni geta líka hjaðnað um tíma en svo tekið sig upp aftur síðar.

Þolendur kynferðisofbeldis sem þjást af áfallastreituröskun eru fjötraðir af fortíðinni. Minningin um liðið ofbeldi situr eftir í sálinni og viðheldur ótta og niðurlægingu þolandans. Eitt af því sem getur haft mjög hamlandi áhrif á lífsgæði þeirra sem haldnir eru áfallastreitu eru áfallaminningakveikjur (e. trauma trigger). Kveikjur eru að mörgu leyti einstaklingsbundnar og geta verið í margs konar formi, t.d. hljóð, lykt, bragð, snerting eða sjónrænt áreiti. Það að „kveikjast“ er ekki það sama og að rifja upp slæma minningu. Öll eigum við vondar minningar og þær geta valdið okkur vanlíðan en þegar áfallaminning kveikist er það allt öðruvísi upplifun. Það gerist snögglega, eins og ýtt hafi verið á rofa, og þegar það hefur gerst er skaðinn skeður. Líkt og að leggja óvart lófann á heita eldavélarhellu; þegar þú finnur sársaukann og kippir hendinni til baka ertu þegar búinn að brenna þig og finnur sviðann lengi á eftir.

Þetta andartak þar sem skilin á milli endurupplifunarinnar og raunheima liggja er mjög sérstakt. Fyrir mig er eins og það dimmi snögglega yfir. Ég finn drungatilfinningu og skynja að eitthvað hræðilegt sé í vændum. Mér líður eins og ég sogist inn í svarthol og verð skelfingu lostin. Mér kólnar allri og ég stirðna upp. Hjartað hamast og ég finn hvernig fingurnir dofna og mér sortnar fyrir augum. Þetta gerist allt á einu augnabliki og þá verður ekki aftur snúið. Ég er dottin inn í endurupplifun og það er misjafnt hversu föstum tökum hún nær mér. Þegar ég kem til baka er ég uppgefin og það situr í mér hrollur. Draugur endurupplifunarinnar fylgir mér stundum klukkutímum saman og óvelkomnar minningar skjóta í sífellu upp kollinum. Stundum sé ég þetta líkt og bíómynd þar sem sami ramminn spilast aftur og aftur.

Þetta er ekki notalegt og ég reyni að komast hjá því að kveikjast eftir fremsta megni. Stundum með því að forðast það sem ég veit að er líklegt til að kveikja áfallaminningar og stundum með því að mynda þol fyrir kveikjunni. Það er ekki hægt að komast hjá öllum kveikjum og ef til vill ekki heldur æskilegt. En að vera í sífellu berskjölduð fyrir kveikjandi áreiti er ekki hjálplegt. Ekki frekar en höfuðhögg læknar heilahristing (nema maður sé teiknimyndapersóna).

Aukin umræða um kynferðisofbeldi hefur því bein áhrif á mig og fleiri brotaþola. Nú myndi kannski einhver segja að þeir sem þola ekki hitann ættu að halda sig frá eldhúsinu og að einhverju leyti er það rétt. Ef ég veit að ákveðnar aðstæður eða ákveðin umræða er líkleg til að kveikja hjá mér áfallaminningar þá staldra ég við og spyr sjálfa mig hvort ég telji mig höndla það. Stundum er svarið nei og þá forðast ég viðkomandi áreiti en stundum er nóg fyrir mig að vita fyrirfram að ég geti átt von á kveikjandi áreiti. Þegar ég veit fyrirfram að eitthvað sé líklegt til að vera andlega krefjandi get ég stundum gert ráðstafanir og „brynjað mig“ andlega.

Þegar ég fæ fyrirvara um að ákveðið efni sé líklegt til að vera kveikjandi gerir það mér kleift að gera ráðstafanir í samræmi við það og samt lesa efni og taka þátt í umræðum sem ég myndi annars þurfa að útiloka mig frá sökum þess hve eldfimt málefnið er. Umræða um kynferðisofbeldi er nauðsynleg og það er nauðsynlegt að brotaþolar hafi aðgang að þeirri umræðu. Þolendur hafa reynslu og skilning sem þarf að heyrast þegar þessi mál eru rædd. Það er því mikilvægt að þolendur hafi valmöguleika og geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort og þá að hve miklu leyti þeir vilja taka þátt í umræðum.

Kveikjumerkingar (e. trigger warning) eru leið til að gera opinbera umræðu þolendavænni. Með því að setja fyrirvara á óhugnanlegt efni er ekki verið að ritskoða eða skerða málfrelsi eins né neins, heldur er því einmitt öfugt farið. Það er verið að gefa lesendum/áhorfendum auknar upplýsingar og meira val. Þessar viðvaranir þurfa ekki að vera dramatískar eða teprulegar. Í raun er þetta ekki ósvipað og neytendavörumerkingar. Fólk með mjólkuróþol les á umbúðirnar, kynnir sér hvort vara innihaldi laktósa, en aðrir geta bara umhugsunarlaust hent vörunni í körfuna hjá sér ef þeir vilja. Sama gildir um ofnæmi fyrir hnetum; ef ekki væri fyrir neytendamerkingar myndu þeir sem hafa hnetuofnæmi þurfa að forðast t.d. allt súkkulaði af því að sumt súkkulaði inniheldur hnetur. Að „kveikjast“ er ekki tepruskapur frekar en bráðaofnæmi er merki um aumingjaskap.

Það er ekki skylda að vara við efni sem er líklegt til að kveikja áfallaminningar en með því að gera það gætirðu forðað annarri manneskju frá því að endurupplifa verstu stund lífs síns að óþörfu. Þessi litli fyrirvari gæti hlíft þolanda við því að vera ásóttur af slæmum minningum það sem eftir væri dags. Þér, lesandi góður, er í sjálfsvald sett hvort þú varar við því að efni geti vakið óhug þeirra sem eiga að baki erfiða lífsreynslu. En ég og fleiri í mínum sporum yrðum þér þakklát ef þú eyddir nokkrum sekúndum í að gera ráðstafanir sem gætu sparað okkur óþarfa þjáningar.

 

Frá ritstjórn:

Hugtakið „trigger warning“ hefur enn ekki fengið íslenska þýðingu, enda nýkomið inn í umræðuna og enn mörgum framandi. Greinarhöfundur notar hér orðin „kveikiviðvörun“ og „að kveikjast“ til að lýsa merkingu hugtaksins og það væri gaman ef lesendur vilja velta því orðalagi fyrir sér og jafnvel koma með fleiri tillögur.

Einnig viljum við biðja þá lesendur sem kunna að hafa tillögu að litlu merki, sem hægt væri að nota til auðkenna greinar sem þarfnast slíkrar merkingar, að hafa samband við okkur í gegnum ritstjorn@knuz.is.

—–

*Fram til ársins 1992 var samræði ekki fullframið fyrr en getnaðarlimur karlmanns var kominn inn í fæðingarveg konu og samræðishreyfingar hafnar, sjá athugasemdir við lagafrumvarp frá 1991 og grein Sigrúnar Jóhannsdóttur á innihald.is.

 

8 athugasemdir við “VARÚÐ – hætta á váhrifum

 1. Stuðvörun? Byggt á að texti innihaldi stuðandi efni.
  Takk annars fyrir upplýsandi og fræðandi grein fyrir okkur hin, ég mun reyna að muna að taka þetta til greina.

  • Takk, Guðný, fyrir upplýsandi og vekjandi grein. Það er svo margt sem maður ekki veit, einfaldlega af því að maður hefur aldrei hugsað út í það – en sem betur fer er til fullt af fólki sem er reiðubúið að deila af því sem það veit og kann.

   „Váhrif“ finnst ekki enn í Íslenskri orðabók, amk ekki á Snöru – en í Hugtakasafni Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins – sem er hugtakasafn opið almenningi, sjá hér: /www.hugtakasafn.utn.stjr.is/ – er það notað sem þýðing á „exposure“, t.d. þegar talað er um „hættu á váhrifum af völdum einhvers“, sérstaklega í samhengi við mengunarvarnir, slysavarnir, eitrunaráhrif og annað slíkt. Orðið hefur verið notað í einhvern tíma í stöðluðum hættu- og varnaðarsetningum á öryggisblöðum, t.d. í efnaiðnaði, og er reyndar mikið uppáhaldsorð hjá mér, enda nota ég það mikið í vinnunni, þar sem ég fæst talsvert við að þýða EES-skjöl og annan nytjatexta og rakst fyrst á orðið í slíkri vinnu.

   „Vá“ er líka svo flott orð eitt sér. Og það verður spennandi að sjá hver endanleg niðurstaða verður af nýyrðasmíðinni.

 2. Bakvísun: Opið bréf til Facebook | *knùz*

 3. Bakvísun: Áhorfendur eftir nauðgun | *knúz*

 4. Bakvísun: Þolandi sagði frá | *knúz*

 5. Bakvísun: Varúð vááhrif (trigger warning) **vv**

 6. Bakvísun: Blurred Lines | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.